19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Til umr. er hér nú frv. til l. um ráðstafanir vegna nýs gengis íslenzku krónunnar. Það vekur að vonum þjóðarundrun, að svo sé. Ef við rennum huganum 2 ár aftur í tímann, þá minnumst við kosningabaráttu, sem háð var af hálfu þáv. stjórnarandstöðu með örvæntingarfullum hætti. Hér var um að ræða kosningabaráttu manna, sem höfðu verið utan stjórnar í rúman áratug. Áratuginn 1960–1970 hafði setið að völdum ríkisstj., sem hafði farið styrkum höndum um efnahagsmálin, og þeir aðilar, sem börðust sem stjórnarandstæðingar 1971, töldu sig þurfa að beita öllum þeim ráðum, sem til voru, til þess að komast í stjórnarstólana. Þrátt fyrir þau efnahagsáföll. sem við höfðum orðið fyrir 1967–1968, höfðu skynsamlegar stjórnarathafnir orðið til þess, að það var tryggt á ný blómlegt athafnalíf og lífskjörin voru enn hætt. Stjórnarandstaðan hafði allan þann tíma, þ.e.a.s. áratuginn 1960–1970, verið andvíg þeim ráðstöfunum, sem gerðar höfðu verið, ekki sízt þegar gripið hafði verið til þess neyðarúrræðis að breyta gengisskráningunni. Það var hins vegar þannig ástatt í herbúðum þáv. stjórnarandstæðinga, að það skyldi allt gert til þess að slá ryki í augu kjósenda. Það skyldi allt gert til þess að tortryggja þær till., sem farið hafði verið eftir til hagstjórnar í þjóðarbúskapnum. Því var óhikað haldið fram, að þær efnahagsaðgerðir, sem fyrrv. ríkisstj. og þingmeirihluti gerðu, væru sprottnar af hugsunarhætti manna, sem vildu gera allt til þess, að fólkið í landinu byggi við sem lökust kjör. Þessu var haldið fram þrátt fyrir þær staðreyndir, að tímabil viðreisnarinnar var eitt mesta hagsældartímabil, sem íslenzka þjóðin hefur lifað.

Í þessari mjög svo hörðu kosningabaráttu var því alveg sérstaklega haldið fram af stjórnarandstöðunni þá og þó sér í lagi framsóknarmönnum, að gengislækkun hefði gengið sér til húðar og gengisfellingar væru hagstjórnartæki, sem Framsfl. ætlaði ekki að grípa til. Framsfl. ætlaði ekki að standa að gengislækkunum sem lausn í efnahagsmálum, því að það þýddi, að vandinn væri leystur á kostnað þeirra, sem minnst mega sín. Það stóð ekki á Tímanum, málgagni þeirra framsóknarmanna, að matreiða þessa stefnu Framsfl. í efnahagsmálum og þar með freista þess að villa um fyrir kjósendum. Í stað þess að segja kjósendum, hvernig þeir, þ.e.a.s. framsóknarmenn, vildu stýra efnahagsmálum þjóðarinnar, var lögð megináherzla á að telja þjóðinni trú um, að hvað sem fara gerði, hvernig svo sem efnahagsmálunum reiddi af, skyldi aldrei til gengisfellingar koma.

Frá því að n. efnahagssérfræðinga ríkisstj. skilaði áliti og varð sammála um, að gengisfelling með þar til gerðum hliðarráðstöfunum væri sú skynsamlegasta leið, sem nú væri hægt að fara til þess að freista þess að lagfæra það ástand, sem núv. ríkisstj. hefur komið þjóðarbúskapnum í, höfum við heyrt boðskap hæstv. forsrh. hér á hinu hæstv. Alþ. varðandi gengislækkun og stefnu hans í þeim efnum. Forsrh. hefur verið í orðaleik við sjálfan sig um það, hvernig ætti að skilja stjórnarsáttmálann varðandi það, sem þar er sagt um gengisfellingu sem leið til lausnar á efnahagsvanda. Ég skal ekki hér fara út í þýðingar á stjórnarsáttmálanum, en ég vil vekja athygli á því, að það, sem þar stendur, hvernig svo sem það verður túlkað, er aðeins framhald staðhæfinga, sem gefnar voru fyrir kosningar til þess að blekkja kjósendur, eins og nú er komið fram. Mig langar til þess, til þess að ekkert fari á milli mála, að lesa hér upp úr dagblaðinu Tímanum fyrir kosningar, til þess að það sé ljóst, hverju framsóknarmenn héldu fram fyrir kosningar í sambandi við þessi mál. Í dagblaðinu Tímanum 9. júní 1971 stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ólafur Jóhannesson í sjónvarpinu í gærkvöldi: Það verður að hverfa frá gengisfellingarstefnunni. Þeir verða að bera byrðarnar, sem hafa breiðu bökin.“ Og svo sagði Ólafur m.a. um efnahagsmálin: „Auðvitað kemur til mála að framlengja verðstöðvun, ef hún byggðist á raunhæfum grunni, en hún er haldlaus, nema það sé skipt um grundvallarstefnu. Og þá komum við einmitt að aðalatriði efnahagsmálastefnu ríkisstj., en það eru hinar síendurteknu gengisfellingar. Til endurtekinna gengisfellinga má rekja hina vaxandi dýrtíð, sem ekki hefur ráðizt neitt við. Dýrtíðin hefur vaxið svo miklu meira á þessum síðasta áratug heldur en áratugnum á undan, eða um 250% á þessum áratug á móti 123% á áratugnum á undan. Mergur málsins er að mínu viti sá, að það getur aldrei orðið traust efnahagslíf, traustir framleiðsluatvinnuvegir né skynsamleg fjármálastjórn með síendurteknum gengisfellingum. Það hefur aldrei verið hægt, í neinu landi og verður ekki. Á sama tíma og hér hafa verið gerðar 4 gengisfellingar á einum áratug, þá hefur hvergi í nágrannalöndunum verið gerð nema ein.“ Síðan kemur: „Það þarf að hverfa frá þessari stefnu, gengisfellingarstefnunni.“

Og til þess að leggja nú áherzlu á orð hæstv. forsrh., birti Tíminn ljósmynd af honum, þar sem hann er að tala í sjónvarpið. Fer hér nokkuð á milli mála, hvað hæstv. forsrh. sagði þjóðinni, þegar hann sem formaður Framsfl. í sjónvarpsumr. ræðir við aðra stjórnmálaforingja og talar til þjóðarinnar um stefnu Framsfl. í efnahagsmálum?

Var kannske hæstv. forsrh. sá eini, sem gaf þessar fullyrðingar? Skyldi það hafa verið hann einn, sem ekki virðist hafa fylgzt með né gert sér neina grein fyrir því, hvernig og með hvaða hætti efnahagsvandræði geta stundum verið leyst? Það er nú ekki svo, að hæstv. forsrh. hafi verið sá eini úr röðum framsóknarmanna, sem hélt þessu fram. Í sjónvarpsumr. 2. júní 1971 komu fram 4 af frambjóðendum Framsfl., þ.e.a.s. hæstv. fjmrh., hæstv. utanrrh., hv. 2. þm. Reykn. og hv. 1. þm. Vestf. Hvað segir dagblaðið Tíminn eftir þessar umr? Jú, fyrirsögnin er: Halldór E. Sigurðsson í sjónvarpsumr. í gærkvöldi: Framsfl. hafnar gengislækkun, sem lausn í efnahagsmálum og tekur ekki þátt í að leysa vandann á kostnað þeirra, sem minnst mega sín.“ Síðan birtir Tíminn mynd af þessum 4 ræðumönnum Framsfl. og leggur áherzlu á, að Framsfl. hafni gengisfellingu. Ég var að lesa það upp, hverjir þetta voru, og það var hæstv. utanrrh., hv. 2. þm. Reykn., hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Vestf. Ég geri ráð fyrir, að þm, kannist við alla þessa ágætu menn.

Í þessum umr. kom ljóst fram, hvað það var, sem Framsfl. ætlaði sér ekki að gera. Það er þess vegna, sem öll þjóðin er nú undrandi yfir því, hvaða till. flokkur hæstv. forsrh. leggur fram í sambandi við lausn þess vanda, sem nú er í efnahagsmálum. Það, sem gerist, er að stjórnmálaforingjarnir koma fram fyrir þjóðina í kosningabaráttu, lýsa sig andvíga gengisfellingu, en þegar þeir eru komnir til valda, grípa þeir til þess, sem þeir sjálfir sögðust aldrei mundu grípa til. Það var eitt skipti, að stjórnmálamanni var bent á ósamræmi í orðum hans fyrir kosningar og gerðum hans eftir kosningar. Þá varð honum að orði og sagði: „Það er sitt hvað, hvað skrifað er og skrafað fyrir kosningar eða framkvæmt eftir kosningar.“ Eftir þessari reglu virðast stjórnarflokkarnir allir hafa farið. Það, sem þeir hafa sagt kjósendum fyrir kosningar, skiptir þá engu máli, þegar þeir hafa náð tilætluðum árangri, komizt í ráðherrastólana.

Þegar slíkt sem þetta gerist, eiga menn að hverfa frá þeim störfum, sem þeir hafa tekið að sér. Ríkisstj. á að segja af sér, og það er krafa sjálfstæðismanna í dag. Það er ekki aðeins krafa okkar sjálfstæðismanna hér á þingi, það er krafa mikils meiri hl. þjóðarinnar. Því verður víst ekki að heilsa. Þeir sitja, á meðan sætt er, enda þótt, eins og áður hefur komið fram, samkomulagið sé ekki upp á það bezta. A.m.k. kom það fram í gær, að einn flokkurinn er klofinn og út úr frjálslyndum hafa fallið 20%, eins og hér var gerð grein fyrir.

Sú þróun efnahagsmála, sem leitt hefur til ákvörðunar um gengisfellingu, á sér ekki langan aldur. Fyrri hl. árs 1971 voru uppi till. af hálfu þáv. ríkisstj. og Seðlabankans um nokkra gengishækkun með tilliti til ört batnandi árferðis, –till., sem ekki náðu fram að ganga vegna andstöðu af hálfu samtaka bæði launþega og vinnuveitenda. Sumarið 1971, er núv. ríkisstj. tók við völdum, taldi hún ástand og horfur í efnahagsmálum ekki gefa tilefni til gengisbreytinga. Það sama sumar var raunar einnig talið álitamál, hvort ekki bæri að halda verðgildi íslenzku krónunnar gagnvart gulli, eins og flest nágrannalönd okkar í Evrópu gerðu, en það hefði falið í sér gengishækkun gagnvart bandarískum dollar, sem er mikilvægasti útflutningsgjaldeyrir landsmanna. Enda þótt annað yrði ofan á, gefur þetta ásamt áliti hinnar nýju ríkisstj. glöggt til kynna, hvert ástand var hér sumarið 1971 í þeim þáttum efnahagsmála, sem úrslitum ráða um gengisskráningu. Á því eina og hálfu ári, sem síðan er liðið, hefur að vísu orðið nokkur minnkun á þorskafla, en það hefur verið vegið upp með áframhaldandi hækkun útflutningsverðlags, sem gert er ráð fyrir, að enn muni halda áfram að hækka á komandi ári. Skýringu þess, að nú er talið nauðsynlegt að framkvæma gengislækkun, er því eingöngu að finna í þróun þeirra þátta efnahagslífsins, sem eru á valdi landsmanna sjálfra. Í stuttu máli: skýringin er sú, að öll stjórn efnahagsmála, en þó einkum stjórn opinberra fjármála, verðlags- og launamála, hefur farið gjörsamlega úr böndum á þessum 3 missirum. Á þessu getur aðeins einn aðili borið ábyrgð, sú ríkisstj., sem með völdin fer í landinu.

Enda þótt ekki sé ágreiningur um, að rétt gengisskráning sé meginatriði í heilbrigðri stjórn efnahagsmála, getur það eigi að síður verið mikið álitamál, hvenær beri að grípa til gengisbreytingar og hvernig eigi að framkvæma hana. Vegna þeirra þensluáhrifa, sem gengislækkun óhjákvæmilega hefur í för með sér, verður umfram allt að framkvæma hana af mikilli varúð og leitast við að tryggja sem bezt, að stöðugleiki geti fylgt í kjölfarið. Sé litið á framkvæmd nýlegra gengisbreytinga í nágrannalöndum okkar, er augljóst, hvílík megináherzla hefur verið lögð á þessi atriði. Má í þessu sambandi benda á gengislækkunina í Bretlandi 1967 og í Bandaríkjunum 1971 og þær alhliða og viðtæku ráðstafanir, sem gerðar voru í sambandi við þær í opinberum fjármálum, peningamálum, verðlags- og launamálum. Eins og kunnugt er, voru hliðstæðar ráðstafanir gerðar hér á landi í sambandi við gengisbreytingarnar 1960 og 1968. Án slíkrar samhentrar og einbeittrar heildarstjórnar á efnahagsmálum getur gengislækkun ekki verið annað en bráðabirgðaráðstöfun, er leiðir til aukinnar verðbólgu. Kemur þetta einnig skýrt fram í áliti valkostanefndarinnar, sem ég gat hér um áðan.

Gengisfelling sú, sem hér er framkvæmd, er, eins og áður hefur verið sagt, þáttur í valdatafli, sett fram án þess að nokkur grg. eða útreikningar þróunar á næsta ári liggi til grundvallar. Í áliti efnahagsn. þeirrar, sem ríkisstj. skipaði í sumar, er gerð ítarleg grein fyrir þeim leiðum, sem sú n. bendir á. Þar er gerð ítarleg grein fyrir því, með hvaða hætti verður við að bregðast eftir því, hvaða leiðir verði farnar. Sú leið, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur farið, er enginn þeirra leiða, sem n. lagði til. Það er hins vegar farið inn á eina þeirra, þ.e.a.s. gengislækkunarleiðina, en alls ekki með þeim hætti, sem þar er bent á, og ekki gerðar þær ráðstafanir, sem gerð er grein fyrir í áliti n., að gera þurfi. Það sem meira er, það er ekki hægt að fá þessa útreikninga. Á fjhn: fundi í morgun, sameiginlegum fundi fjh: og viðskn. beggja d., þar sem mættir voru bankastjórar Seðlabankans og forstöðumaður hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkísins, var óskað eftir því, að lögð væri fram grg., sem væru grundvöllur að gengisákvörðuninni, sem tekin var s.l. sunnudag. Þeir höfðu ekki í fórum sínum neinar grg., sem þeir gátu lagt fram, og fundi var frestað þar til eftir hádegi og óskað eftir því við formann, að hann beitti sér fyrir því við ríkisstj., að n. fengi þessar skýrslur. Ég efast ekki um, að formaður n. hafi gert það, sem hann gat, en þegar til fundar kom, lágu ekki fyrir þær skýrslur, sem eðlilegt er, að hefðu legið fyrir, þegar Seðlahankinn ákvað gengisbreytinguna s.l. sunnudag.

Þegar gengisbreytingin er rædd á fjh: og viðskn. fundi í morgun, var seðlabankastjórnin spurð að því, hverjar ráðstafanir hún hefði talið að gera þyrfti, til þess að þessi gengislækkun gæti náð þeim árangri, sem vitaskuld þarf að ná. Þá lýsti einn af bankastjórunum áhyggjum sínum yfir því, að ekki yrðu gerðar ráðstafanir sem skyldi til þess að tryggja það, að sú gengisbreyting, sem gerð var, næði fullkomnum árangri. Og í þeim umr., sem þar fóru fram, kom glöggt fram hjá þessum bankastjóra, að ef þessar ráðstafanir yrðu ekki gerðar, þá dygði þessi gengislækkun skammt. Hún dygði að sjálfsögðu næstu mánuði — eitthvað fram á árið. Þannig er unnið að þessum málum, og fari svo, að áhyggjur seðlabankastjórans séu á rökum reistar, þá sjá menn, hvað hér er raunverulega að gerast. Það er ljóst mál, að með óbreyttu vísitölukerfi munu áður en varir víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags valda því, að útflutningsatvinnuvegirnir munu ekki standa undir rekstrarkostnaði, ef þeir á annað borð geta haldið áfram rekstri sínum. Kunnugir menn hafa tjáð mér, að það sé mjög hæpið, að vertíð geti hafizt, vegna þess að útvegsmenn telji, að hér sé ekki komið til móts við þennan höfuðatvinnuveg þjóðarinnar sem skyldi og þeir sjái ekki möguleika á því að reka fyrirtæki sín hallalaust. Þannig er farið um fjölmarga aðra þætti atvinnulífsins. Ekki verður heldur séð, hvernig núv. ríkisstj. er fær um að hamla á móti þeirri þenslu, sem óhjákvæmilega fylgir slíkum ráðstöfunum sem þessum. Þar nægir að nefna dæmin, því að við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár, annað fjárlagaár þessarar ríkisstj., munu fjárlögin komast í þá tölu, að þau hafa tvöfaldazt á 2 árum. Það hefur verið spurt um þróun vísitölunnar á næsta ári. Það hafa engin svör fengizt. Það hefur verið spurt um, hvort þau vísitölustig, sem frestað var greiðslu á á miðju s.l. ári, komi til greiðslu nú 1. jan., en það hafa ekki fengizt skýr svör, jafnvel því haldið fram, að það muni vera um mismunandi lögskýringu að ræða, hvort þau vísitölustig eigi að greiða eða ekki. Að vísu hefur hæstv. félmrh. lýst því yfir, að það muni allt talið í vísitölunni, sem á að telja. Hann bætir því við, að honum sé treystandi til þess, að svo verði. Ég lít þá svo á, að þessi athugasemd hans sé svar um, að þessi vísitölustig verði greidd frá 1. jan. n.k.

Af því, sem hér hefur verið sagt, má vera ljóst, að sú gengislækkun, sem ríkisstj. hefur ákveðið, felur ekki í sér neina lausn þess efnahagsvanda, sem við er að glíma. Það lýsir hinu mesta ábyrgðarleysi af hálfu ríkisstj., að ráðast í slíkar aðgerðir án þess að hafa markað heildarstefnu í efnahagsmálum og vera fær um að fylgja þeirri stefnu eftir. Án þess getur gengislækkun ekki orðið til annars en að grafa undan frekari tiltrú almennings á verðgildi gjaldmiðilsins. Að nokkrum mánuðum liðnum verður allt komið aftur í sama farið og ekki önnur ráð tiltæk, ef svo fer sem nú horfir, en grípa þá til nýrrar gengislækkunar. Slík þróun hlýtur að hafa hin alvarlegustu áhrif á atvinnulíf landsmanna, á sparnað og fjármunamyndun, á lánstraust landsins erlendis. Jafnframt hlýtur þessara áhrifa að gæta í sívaxandi mæli á atvinnu í landinu og lífskjör þjóðarinnar.

Um einstök atriði þessa frv. er ekki ástæða til að fjölyrða. Ákvæði 1., 2. og 4. gr. eru tæknilegs eðlis og hliðstæð ákvæðum laga, sem sett hafa verið við fyrri gengisbreytingar. Ákvæði 3. gr. eru hins vegar ekki tæknilegs eðlis, heldur fela í sér nýja stefnu í gengismálum, stefnu óróleikans. Enda þótt þessi stefna eigi sér stað í nýjum reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er síður en svo einsætt, að rétt sé, að hún sé tekin upp hér á landi, allra sízt við ríkjandi aðstæður. Það er engin ástæða til þess, að þessi ákvæði séu í frv., nema því aðeins að ríkisstj. ætli sér þegar í upphafi að nota þau til þess að hafa gengisfellinguna meiri en látið er í veðri vaka. En ef ég hef tekið rétt eftir í gær, lýsti hæstv. forsrh. því yfir, að ekki yrði gripið til þessa ákvæðis nú. Ég býst við, að þannig hafi fleiri skilið orð hans, en að sjálfsögðu veit ég, að forsrh. leiðréttir þetta hér á eftir, ef ekki er rétt skilið. Eðlilegra virðist, að það sé borið fram sérstakt frv. um þá breyt. á Seðlabankal., sem hér um ræðir, og þá mundi gefast nægilegt tóm til að athuga það mál. Við þær aðstæður, sem nú ríkja, er hins vegar hætta á, að þessi stefnubreyting valdi tortryggni og grun um frekari gengislækkanir.

Ég hef nú gert grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem eru grundvöllur að því nál., sem fulltrúar Sjálfstfl. hafa lagt fram og útbýtt hefur verið nú. Það liggur ljóst fyrir, að ríkisstj. hefur lagt í gengisfellingu með alla enda efnahagslífsins lausa. Það liggur ljóst fyrir, að ríkisstj. hefur þverbrotið eitt af þeim grundvallaratriðum, sem hún lýsti yfir fyrir kosningar, og hefur sjálfsagt hlotið eitthvert kjörfylgi út á. Ríkisstj. hefur brugðizt því, sem hún sagði kjósendum, og það er þess vegna eðlileg og réttmæt krafa, að sú ríkisstj., sem hefur brugðizt því, sem hún hét í upphafi, hverfi frá völdum og segi af sér.