19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. frsm. fjh: og viðskn. d. minnti á það, að ákvæði eins og eru í því frv., sem við nú erum að ræða um, sem væru í tengslum við ákvarðanir um gengisbreytingu, hefðu áður verið afgreidd á stuttum tíma á Alþ., stundum samdægurs, og það mun rétt vera. En hér stendur nokkuð öðruvísi á. Það var lögð áherzla á það af hæstv. forsrh., að frv. það, sem hér um ræðir, hlyti skjóta afgreiðslu. Fulltrúi Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. og aðrir talsmenn hans hafa gert grein fyrir þeirri afstöðu sjálfstæðismanna, að þeir geta verið samþykkir þeim ákvæðum frv., sem þurfa skjótrar afgreiðslu við, en eru á móti því ákvæði frv., sem enga skjóta afgreiðslu þarf, og skal ég ekki fleiri orðum um það fara. En hæstv. forsrh. hóf hér umr. á breiðum grundvelli um gengislækkanirnar með ræðu, sem tók á annan klukkutíma, og hæstv. viðskrh. með álíka langloku. Og síðan komu forustumenn flokkanna hver á fætur öðrum í sjónvarpi og hljóðvarpi í gær og voru að gefa sínar skýringar á gengislækkuninni. Allt var þetta með slíkum endemum, að það er full ástæða til þess að staldra nokkuð við meginatriðin, sem fram komu í ræðum þessara manna, úr því að þeir gerðu gengisbreytingarnar að umræðuefni.

Það stendur á forsíðu Þjóðviljans við hliðina á mynd af hæstv. viðskrh., að það sé grundvallarmunur á gengislækkun nú og áður. Þetta er alveg rétt. Það er grundvallarmunur á þessari gengislækkun, sem nú er gerð, og þeim, sem áður hafa verið gerðar. En það er bara engan veginn sá grundvallarmismunur, sem þessir ágætu menn vilja láta almenning skilja. Þetta er gengislækkun, sem er alveg í sérflokki. Hún er með þeim eindæmum, sem hér var einnig vikið að áðan og gerð grein fyrir, að hún skapar engan veginn það öryggi og festu varðandi okkar gjaldmiðil, sem höfuðtilgangur gengisfellingar á hverjum tíma hlýtur að vera. Þvert á móti hníga öll rök að því, bæði varðandi forsögu málsins, efni málsins og spádóma sérfræðinga, að hér sé tjaldað til einnar nætur, og þá er vissulega miklu verr af stað farið en heima setið.

Neðar á forsíðu Þjóðviljans er mynd af hæstv. heilbr.- og trmrh., og fyrirsögn að því, sem við hann er rætt eða frá honum kemur, er, að meðan verðbólgan ríkir, er gengi krónunnar ótryggt. Þessi hæstv. ráðh. er að tilkynna þjóðinni, að þetta sé bara bráðabirgðagengislækkun. Þetta er sama sem tilkynning til þjóðarinnar um, að hér er um bráðabirgðagengislækkun að ræða og hún megi vera við því búin að vakna upp við nýja gengislækkun von bráðar, alveg eins og hér var gerð grein fyrir áðan, þegar reiknað var með, að hún mundi kannske endast 6–9 mánuði eða eitthvað því um líkt.

Svona hefur aldrei verið farið að í sambandi við gengislækkanir fyrr, og þegar ráðh. hefja hér umr. um gengisbreytinguna sem ráðstöfun í efnahagsmálum af hálfu ríkisstj., þá vil ég minna á, að það eru margar og veigamiklar fullyrðingar, sem eru algerlega rangar af hálfu hæstv. ráðh., annaðhvort af því að þeir gera sér ekki grein fyrir eðli málsins eða þá misminnir gersamlega um það, hvernig gengislækkun hér hefur verið varið.

Því var haldið fram og þrástagazt á því í ríkisútvarpinu í gærkvöld, að það hefði alltaf áður verið kippt úr sambandi vísitölu á laun, þegar gengi hefur verið breytt. Ég held, að sannara sé að segja, að það hafi einu sinni verið gert áður. Það var við gengisbreytinguna 1960. Og það var í ákveðnum tilgangi gert. Þá var verið að taka upp nýtt kerfi í þjóðfélaginu. Þá var ekki um að ræða ráðstafanir, sem voru sama eðlis og verið hafði fram til þess tíma, og ríkisstj. leit svo á, að ráðstafanir hennar með gengislækkuninni og efnahagsaðgerðum í tengslum við hana ættu að geta verið þess eðlis að bæta hag verkafólksins í landinu, og því var lýst yfir sem stefnu ríkisstj., að ef aðstaða atvinnuveganna batnaði og hagur þeirra vænkaðist, þá teldi ríkisstj. eðlilegt, að launþegarnir í landinu fengju kjarabætur og sinn hlut af þeim bótum, sem þar væri um að ræða, og ríkisstj. mundi beita sér gegn því, að atvinnuvegirnir veltu inn í verðlagið hækkunum, sem stöfuðu af hækkun kaups, sem þeir semdu um á frjálsum markaði við fulltrúa launþega. Þetta var kerfisbreyting, sem var reynd, og þarna var ekki farið neitt aftan að þjóðinni. En ráðstafanir voru miðaðar að öðru leyti við það að gera vissar aðgerðir, sem fyrst og fremst áttu að vera til hags því fólki, sem óvænlegast horfði fyrir vegna gengisbreytingarinnar. Til þeirra ráðstafana má telja eflingu almannatrygginga, sem var samfara þessum ráðstöfunum, hækkun elli- og örorkulífeyris, sem var stóraukinn, og hækkun á slysabótum og einnig ákvarðanir um lækkun tekjuskatts af almennum launatekjum og margt fleira. Nú er ekki fyrir það að synja, að kauphækkanir í frjálsum samningum urðu meiri en menn hefðu vænzt, þannig að svo var komið árið 1964, að þá voru gerðir samningar milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins um að taka vísitöluna aftur í sambandi við launaákvarðanir. En þetta held ég, að sé sú eina gengisbreyting, þar sem hreinlega sé hægt að segja, að vísitalan hafi verið tekin úr tengslum í sambandi við gengisbreytingu. 1968 var vísitala í sambandi, sem samið hafði verið um á milli aðila vinnumarkaðarins, og sú vísitala hélzt óbreytt. 1949–1950, þegar minnihlutastjórn Sjálfstfl. lagði fram till. til gengisfellingar sem einn lið í efnahagsráðstöfunum, þá var ekki vísitala greidd á laun, áður en það frv. var lagt fram. Þá voru tekin upp ákvæði um vísitölureikning á launum með tilteknum hætti eftir gengislækkunina 1950, svo að allt er þetta rangt, sem hæstv. ráðh. sögðu þjóðinni um þetta í gærkvöld í ríkisútvarpinn. Og þeir ættu eiginlega að biðja ríkisútvarpið um að fá að koma aftur fram í kvöld til þess að leiðrétta þessar missagnir, sem þeim hafa orðið á.

Þessir ágætu menn, sem nú framkvæma gengislækkun og með þeim endemum, sem raun ber vitni, hafa hvað eftir annað þrástagazt á því, að á viðreisnartímabilinu hafi verið framkvæmdar fjórar gengisbreytingar. Það var í raun og ve~•u ekki verið að framkvæma neina gengislækkkun 1960, þvert á móti. Það var verið að skrá rétt gengi í þjóðfélaginu. Það var verið að moka flórinn eftir fyrrv. vinstri stjórn. En þá hafði verið farin leiðin, sem hæstv. viðskrh. vildi fara nú og víst forsrh. að einhverju leyti líka, þ.e.a.s. millifærsluleiðin, með þeim hætti, að fjölgengi var hér, og vissu fæstir, hversu mörg gengi voru á íslenzku krónunni. Það rötuðu fæstir um þann frumskóg. En það er dálítið fróðlegt að rifja upp söguna í því sambandi. Þá voru útflutningsuppbætur, sem voru auðvitað í eðli sínu ekkert annað en breyting á gengi krónunnar. Og útflutningsuppbæturnar voru svo margþættar, að þegar gerð var grein fyrir þeim, — og fyrir þeim var gerð nákvæm grein eins og öllu öðru í sambandi við gengisbreytinguna, þegar Alþ. hafði málið til meðferðar — þá má m.a. lesa það, að fyrst var bátafiskur veiddur fyrir 15. maí, svo varð bátafiskur veiddur eftir 15. maí og svo var bátafiskur allt árið, og allt var með mismunandi tegundum af útflutningsbótum. Þetta er aðeins til glöggvunar. Þá er rétt að lesa hér dálítið upp, sem skýrir, hvers konar frumskógur þetta var, að þegar talað er um bátafisk veiddan fyrir 15. maí, þá voru útflutningsbæturnar á freðfiski: þorskur og karfi og því um líkt 88%, ýsa, steinbítur og flatfiskur 119% ; skreið: þorskur 92.3%, ýsa 126.2%; saltfiskur: þorskur, 92.1%, þetta eru útflutningsuppbæturnar; mjöl 85.6%, lýsi 85.6% og hrogn 85.6%. Ef nú þessi góði bátafiskur var veiddur eftir 15. maí, fékk þorskur og karfi og því um líkt 106.8% útflutningsuppbætur, ýsa, steinbítur og flatfiskur 125.3%; skreið: þorskur 112.8%, ýsa 143.1%; saltfiskur: þorskur, 112.4%, ýsa 142.9%; mjöl 87.1%, lýsi 85.6% og niðursoðið 142.2%. Svo kom bátafiskur allt árið flokkaður í sömu tegundir og með sams konar mismunandi tegundum af útflutningsuppbótum. Svo kom togarafiskurinn allt árið, og það þurfti auðvitað að flokka allt einnig: þorsk, karfa og því um líkt; skreið: þorsk og ýsu; saltfisk: saltfisk veiddan fyrir 15. maí og saltfisk veiddan eftir 15. maí, mjöl, lýsi og niðursuðu, og meðaltalið af þessu var 81% útflutningsuppbætur. Svo var það síldin. Hún var álíka. Hún var flokkuð í frysta síld, saltsíld, síldarmjöl, síldarlýsi, soðkjarna. Allt var þetta með mismunandi útflutningsuppbótum. Suðvesturlandssíldin þurfti auðvitað að vera sér í flokki. Það var fryst síld, saltsíld, síldarmjöl, síldarlýsi, allt í mismunandi uppbótum, frá 75% og þar yfir. Svo koma hvalafurðirnar, og þær þurftu að vera með 70% útflutningsuppbótum, og aðrar sjávarafurðir hafa verið taldar með 80% og landbúnaðarafurðir 93.9% og ýmsar vörur 70% og útflutningurinn alls 86.7% í þessum flokki. Svo voru gjöldin á innflutningnum, þegar menn voru að kaupa gjaldeyri. Til þess að borga gjaldeyri, sem þeir báðu um til þess að kaupa innfluttu vöruna, voru lággjaldaflokkur með 30% álagi, almennur flokkur með 55% álagi og innflutningsgjaldaflokkur: vörur með 22% innflutningsgjaldi, það voru 112.8%, og vörur með 40% innflutningsgjaldi og vörur með 62% innflutningsgjaldi.

Það var þetta kerfi, sem var verið að afnema og skrá rétt gengi krónunnar, svo að sú ríkisstj., sem tók við 1959 um haustið, var ekki að framkvæma gengislækkun, heldur að hreinsa til í þessum frum skógi, sem fæstir rötuðu um, og reyndi að skapa hreint andrúmsloft í efnahafslífi þjóðarinnar, sem gæti lagt grundvöll að blómlegra atvinnulífi en þá var um að ræða, þar sem atvinnuvegirnir voru komnir í strand, lánstraustið var þrotið út á við og gjaldeyrissjóðir þjóðarinnar gengnir til þurrðar. Auðvitað er slík gengisskráning allt annars eðlis en hér er um að ræða. Og þessi gengisskráning var með mörgum hliðarráðstöfunum, eins og ég nefndi nokkur dæmi um áðan, en aðalatriðið er, að þjóðin hafi lifað um efni fram, og fyrir því var gerð nákvæmlega grein, og ítarleg grg. fylgdi þessu efnahagsmálafrv. ríkisstj.

Nú heyrum við það frá fulltrúum flokkanna í fjh.- og viðskn., að þegar þeir spyrja sérfræðinga ríkisstj. að því á fundum í morgun, hvaða hliðarráðstafanir ríkisstj. ætli að gera eða hvaða áhrif þessi gengislækkun hafi á afkomu atvinnuveganna eða verðlagsþróun í landinu, þá rekur menn í rogastanz. Langfæstu af þessu er hægt að svara. Og svo eru menn að hæla sér af því, að það hafi aldrei verið gerð eins vel grein fyrir ástandinu í efnahagsmálunum og með nál. svokallaðrar valkostanefndar, sem hæstv. ríkisstj. afhenti stjórnarandstöðunni. En það er bara á það að líta, að ríkisstj. fór ekki eftir till. eða valdi enga sérstaka leið, sem valkostanefndin benti á, heldur gerði visst úrval á sinn hátt úr þessum ýmsu valkostum af þeim sökum, sem hér var gerð grein fyrir áðan, en með þeim afleiðingum, að þegar ríkisstj. ákvað gengislækkunina, vissi hún hvorki hvaða afleiðingar hún hafði, né heldur hafa sérfræðingar ríkisstj. fram til þessa, síðan hún var ákveðin, getað gert sér grein fyrir, hver áhrif hún muni hafa. En öllum ber þó saman um, að hún sé ófullnægjandi, ríkisstj. ætli sér að gera þarna það einstaka þrekvirki að stökkva í tveimur áföngum yfir gjá, eins og einhver góður maður sagði í einhverju blaðanna í morgun, — ég held að það hafi verið í Morgunblaðinu, og það er ekki verra fyrir það.

Ef við rifjum upp gengisbreytinguna, sem gerð var 1959 og ég vék að áðan í sambandi við einmitt kaupgreiðsluvísitöluna, þá fylgdi mjög ítarleg grg. því frv., þegar það var lagt fyrir þingið, og hagfræðileg álitsgerð, sem stendur engan veginn að baki ágætu nál. valkostanefndar nána, og þessi grg. er í prentuðum Alþingistíðindum um 60 bls., svo að hún er ekkert smásmíði að vöxtum, ekkert minni en það nál., sem nú hefur verið lagt fram. En þarna er verið að lýsa sérstaklega og öðru fremur tiltekinni leið, sem síðan var valin. En hún var að sjálfsögðu borin saman einnig við aðrar leiðir.

Hæstv. ráðh. virðast standa í þeirri trú, að þá leið, sem þeir völdu, hafi þeir valið af því að hún tryggi bezt kaupmátt og kjarabætur launþeganna. Það er ánægjulegt, að þeir hafa komizt það langt í skilningi, að gengislækkun er líklegri til þess að tryggja kjarabætur almennings í landinu heldur en aðrar leiðir, sem þeir voru að hugsa um. Hins vegar hafa þeir ekki gáð að því, að þeir hafa ekki gert þær ráðstafanir, sem gera þarf samhliða þessum ráðstöfunum til þess að tryggja kjarabætur almennings. Í því liggur hin stóra yfirsjón þessarar hæstv. ríkisstj. Það er þess vegna öruggt, að það má slá því föstu, að kaupmáttaraukning almennings á komandi ári verður engin. Þær ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar, með þenslu og óvarkárni í fjármálum ríkisins verða þess valdandi, að kjarabætur verða engar hjá öllum almenningi í þessu landi á næstu árum. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að sérfræðingar hæstv. ríkisstj. séu alveg sammála um það og það megi leiða af skoðunum þeirra, sem fram koma í margnefndu valkostanefndaráliti, að með þessum ráðum, sem nú er gripið til, verða engar kjarabætur á ári komanda, nema síður sé. Hitt er svo annað mál, að þegar viðreisnarstjórnin hafði mokað flórinn eftir fyrri vinstri stjórn og gert sínar víðtæku ráðstafanir í efnahagsmálum, sem ekki voru aðeins gengisbreytingin eða rétt gengisskráning, heldur margt samhliða því, þá hófst hér meiri almenn velmegun og meiri kjarabætur almennings í landinu en á nokkrum áratug fyrr eða síðar. Það voru stórkostlegar kjarabætur, kaupmáttaraukning alls almennings í landinu, svo miklar, að kaupmáttur atvinnutekna verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, þegar miðað er við, að hann hafi verið í markinu 100 1959, þá er hann í markinu 172.5 í lok ársins 1966, 72,5% aukning. Þá er farið að halla undan fæti í þjóðarbúskap okkar og 1967 og 1969 verða svo miklar grundvallarbreytingar, að gjaldeyrisöflun okkar Íslendinga eða verðmæti útflutningsframleiðslunnar fellur nálægt því um helming eða nálægt því 50%, 45–50% á tveimur árum. Þetta eru meiri áföll á skemmri tíma heldur en íslenzkt þjóðfélag hefur áður orðið fyrir. Gegn þessum vanda var brugðizt af hálfu þáv. ríkisstj. af einurð og festu og án þess að gera nokkurn tíma minnstu tilraun til þess að dylja almenning í landinu þeirra ráðstafana, sem hún var að gera. Það var vitað mál, að ýmsar af þeim ráðstöfunum voru og hlutu að verða óvinsælar í bili, en þær voru að mati ríkisstj. og stuðningsflokka hennar nauðsynlegur grundvöllur til þess að rétta aftur við eftir áföllin. Og það er á grundvelli þessara stjórnarráðstafana, samfara batnandi árferði hjá okkur Íslendingum, sem á undraskömmum tíma réttir aftur við í okkar þjóðarbúskap og með þeim hætti, að hagur alls almennings í þessu landi hefur e.t.v. ekki verið í annan tíma betri en einmitt á árunum 1970–1971, þegar núv. ríkisstj. tók við völdum.

Það er margbúið að víkja að því hér í umr., að ríkisstj. viðurkenni sjálf þessar staðreyndir í mati sínu á því, að það ætti að vera hægt að bæta verulega kjör almennings á næstu tveimur árum. Hún hafði einnig þá skoðun, að á þessu tímabili væri engin ástæða til gengisfellingar. Staðreyndirnar tala einnig sínu máli: Á árinu 1970, eins og hér var minnt á áðan, töldu bæði Seðlabankinn og ríkisstj. ástæðu til þess að ræða um það við aðila vinnumarkaðarins að hækka gengi krónunnar vegna þess, hve mikill bati var þá orðinn í okkar þjóðarbúskap. Af þessu varð ekki, m.a. vegna þess, að þessar till. hlutu ekki undirtektir hjá aðilum vinnumarkaðarins. Menn eru að tala um einhverja sérstaka kaupmáttaraukningu nú í tíð þessarar stjórnar, en það liggja fyrir í skýrslu, sem ég óskaði eftir og hv. þm. fengu frá Framkvæmdastofnun ríkisins, að frá árinu 1969, þ.e.a.s. á árunum 1970–1971 og á árinu 1971, hafði núv. ríkisstj. engin áhrif á kaupmáttaraukninguna. Það kemur kaupmáttaraukning í lok ársins við kjarasamninga, sem þá voru gerðir á milli aðila vinnumarkaðarins. Menn telja þá að sjálfsögðu líka í þessari tölu, þar sem þeir voru gerðir í des., en á þessu tímabili er kaupmáttaraukning atvinnutekna verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna um 26%, nákvæmlega um 25.9% á tveimur árum. Ríkisstj. hefur hælt sér af því að hafa lofað 20% kaupmáttaraukningu á tveimur árum, en hún er nú búin að sjá fyrir því, að það loforð verði ekki efnt, því að sé kaupmáttaraukningin á lægstu tekjum eitthvað um 13–15% núna, þá er öruggt, að hún verður engin á árinu 1972. Á sama tíma vaxa heildarþjóðartekjurnar á mann um 22%, m.ö.o launþegarnir, verkamenn, sjómenn og iðnaðar menn, fá stærri hlut en aðrir af heildarþjóðar tekjum. Þetta er staðreynd, sem ekki verður hrakin og hana hafa menn fyrir sér í þeim skýrslum, sem Framkvæmdastofnun ríkisins sendi þm. ekki alls fyrir löngu eftir beiðni minni.

Í þessu sambandi hefur Þjóðviljinn reynt að þyrla upp upp moldviðri, sem engu tali tekur og og er ástæðulaust að víkja að, en það er hins vegar lögð áherzla á það í skrifum blaðsins, að kaupmáttur tímakaupstaxta verkafólksins í lægst launuðu flokkunum hafi ekki aukizt jafnmikið og heildarþjóðartekjurnar, og það kemur líka fram í þessum skýrslum. En tímakaupstaxtarnir eru hér viðmiðun sem verður að skoðast út frá því sjónarmiði. Lægstu launaflokkarnir eru allt annars eðlis heldur en þeir voru fyrir nokkrum árum. Það eru miklu færri aðilar, sem eru í þessum flokkum, og hefur átt sér stað stórkostleg tilfærsla úr lægstu flokkunum yfir í hærri flokka einmitt hjá þessum aðilum, sem taka tímakaup sitt samkv. Dagsbrúnartöxtum. Það má einnig minna á, að það var beinlínis stefna hv. formanns Dagsbrúnar og þeirra annarra, sem með honum voru, að blanda öðrum atriðum, tengja önnur atriði við samningana um tímakaupstaxtana á þessum tíma, svo sem úrbætur í húsnæðismálunum, og á ég þar t.d. við Breiðholtsframkvæmdirnar, sem voru umsamið atriði á milli fulltrúa ríkisstj. og fulltrúa launþeganna, Dagsbrúnarmanna alveg sérstaklega, til þess að bæta aðstöðu lægst launaða fólksins í húsnæðismálum. Hér kemur einnig til greina launaskrið og yfirborganir og annað slíkt og þá eftirvinna líka, sem ber að hafa í huga, og ýmiss konar hlunnindi önnur, sem ekki eru metin í tímakaupstöxtunum, ekki í sjálfum töxtunum, eins og t.d. lífeyrissjóðsgreiðslur og annað, sem mjög tíðkuðust og færðust í vöxt og samið var um á þessum tíma. Það er þess vegna óhagganleg staðreynd, og skyrsla Framkvæmdastofnunar ber það með sér, að hvert einasta ár 1959 og fram til ársloka 1971 hækkar kaupmáttur atvinnutekna verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna meira en heildartekjur þjóðarinnar á mann, m.ö.o. þessi hluti launafólksins í landinu fær meiri hlut af þjóðartekjunum heldur en aðrir. Ég skal bæta því við, að á sama tíma vaxa geysilega ýmsar eignir landsmanna, sem allir eiga sameiginlegar, svo sem atvinnuleysistryggingasjóður og annað slíkt, sem auðvitað eru líka mikils virði. Ég sagði áðan, að hlutur launafólks vex meira á öllu þessu tímabili, og ætlaði að bæta því við, sem er það rétta, að á áfallaárunum 1967–1968 verður meiri kaupmáttarminnkun hjá þessum atvinnustéttum heldur en heildarminnkun heildartekna þjóðarinnar á mann. Og það lítur þannig út, það dæmi, að á milli áranna 1966 og 1967 minnkar kaupmátturinn um 8.9% hjá þessu launafólki, en heildartekjur þjóðarinnar á mann um 8.5%, og á milli áranna 1967 og 1968 um 9%, en heildartekjur á mann minnka þá um 8.1%, svo að þarna minnka heildartekjur þessara aðila, kaupmáttur atvinnuteknanna, sem m.a. stafar því miður af því, að atvinnuleysi hélt innreið sína á þessum tíma. En þennan mismun, þetta tap var fólk meira en búið að vinna upp, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Það er meira en búið að vinna það upp með því, hvað, kaupmáttaraukningin vex meira hjá þessum stéttum á árunum frá 1969–1971 heldur en heildarþjóðartekjurnar á mann. En það skal engan furða, þó að atvinnuleysi verði einhvers staðar á Íslandi, þegar útflutningsverðmætin minnka um allt að 50%. Fyrrv. ríkisstj. brást við þeim vanda með þeim hætti að taka upp samninga við aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa Alþýðusambandsins og atvinnurekenda, og gera við þá samning, merkilegan samning, sem átti að stefna að því að ráðast gegn atvinnuleysinu. Og það var í senn með því að setja upp Atvinnumálanefnd ríkisins og atvinnumálan. í öllum kjördæmum og beita sér fyrir sérstakri fjáröflun til þess að grynna á atvinnuleysinu. Þessir samningar voru gerðir með mjög góðu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins og af fullum skilningi af þeirra hálfu, og þeir leiddu m.a. til þess ásamt með öðrum aðgerðum fyrrv. ríkisstj. og í tengslum við batnandi árferði í landinu aftur, að atvinnuleysi var með öllu horfið, þegar núv. stjórnarherrar tóku við.

Gengislækkanir hafa m.ö.o. nema þessi, sem við erum nú að tala um, verið gerðar í tengslum við aðrar ráðstafanir og með það fyrir augum að að bæta kjör almennings í landinu, eins og greinilega kemur fram í áliti sérfræðinganefndar núv. ríkisstj. að gengisfelling sé líklegasta leiðin, ef annarra aðgerða er gætt, til þess að bæta betur kjör og hag almennings en þær tvær höfuðleiðir aðrar, sem nefndar hafa verið þ.e.a.s. niðurfærsluleiðin eða kauplækkunarleið með þá væntanlega verðlagslækkunum í kjölfarið, eða þá millifærsluleiðin með öllum þeim ósköpum og mismunun, sem henni eru samfara, eins og við höfum haft reynsluna af og ég vék nokkuð að áðan.

Ég skal nú ekki tefja tíma þingsins að þessu sinni meira, en taldi nauðsynlegt að víkja að þessum atriðum í sambandi við umr. um þetta frv., af því að almennar umr. um gengislækkanir voru hafnar hér í tengslum við þetta frv.

Að lokum vil ég aðeins segja það, að við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu gera nánari grein fyrir afstöðu okkar til þeirra efnahagsráðstafana og til þeirrar fjármálastjórnar, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið að, bæði í sambandi við væntanlega afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 1973 og fjármálastjórn hennar í sambandi við umr. um þá vantrauststill., sem við höfum lagt fram hér í þinginu og gert er ráð fyrir að verði rædd, þegar þingið kemur saman eftir áramótin.

Ég þarf ekki að bæta neinu við það, sem ég hef sagt um það, að vantrauststill. er byggð á því, að við treystum ekki þessum ráðstöfunum, sem nú hafa verið gerðar. Við treystum ekki þeim mönnum til þess að gera þær hliðarráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, né heldur að halda þannig á fjármálastjórninni, að þessi gengislækkun geti orðið til þess að treysta gjaldmiðilinn, heldur er því miður skoðun okkar sú, að allt þetta brambolt hæstv. ríkisstj. muni veikja gjaldeyrinn. Að öðru leyti höfum við lagt fram till., sem síðar verður rædd, með kröfu um þingrof og nýjar kosningar, og það byggist að sjálfsögðu fyrst og fremst á því, sem hér hefur verið vikið að, að núv. stjórnarflokkar boðuðu það af miklum ákafa fyrir síðustu alþingiskosningar, eins og hv. 3. landsk. vék réttilega að í ræðu sinni hér í gær, að þeir mundu hverfa frá gengislækkunarleiðinni. Þeir hafa þess vegna, eins og þessi hv. Stuðningsmaður ríkisstj. tók réttilega fram, brugðizt kjósendum sínum, brugðizt þeim fyrirheitum, sem þeir gáfu kjósendum sínum, og náð þess vegna þingsætum að meira eða minna leyti á röngum forsendum. Það mál allt verður nánar tíundað, þegar þar að kemur, og skal ég því ekki hafa orð mín fleiri nú.