19.12.1972
Neðri deild: 29. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vona, að ég þurfi ekki með þessum orðum mínum hér að lengja þessar umr. úr hófi fram, en ég vildi aðeins gera fáeinar aths. út af þeim almennu umr. um efnahagsmál, sem frv., sem hér liggur fyrir hv. d., befur gefið tilefni til.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli hv. alþm. á því, að þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera með þessari gengislækkun, eru fimmtu bráðabirgðaráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum, frá því að hún tók við. Í fyrsta lagi framlengdi hún verðstöðvun haustið 1971, hún framlengdi verðstöðvunina aftur að vissu leyti um síðustu áramót, hún gaf út brbl. á s.l. sumri, hún felldi gengið í samræmi við dollar á sínum tíma og nú er fimmta syndafallið, þ.e.a.s. gengisfelling, sem aðeins dugir til skamms tíma, eins og rækilega hefur verið gerð grein fyrir í þessum umr.

Það kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að á næsta ári mundi vísitalan hækka um 12% út af þessum ráðstöfunum og fleiri verðhækkunum, sem ekki væri gert ráð fyrir að greiða niður, a.m.k. ekki að því er virtist á þessu stigi, þannig að hv. þm. hljóta að sjá í hendi sér, að hér er um algera bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Í þessu sambandi, og það var nú aðaltilefnið til þess, að ég kom hingað í ræðustól, vil ég aðeins vekja athygli á því, af hverju svo hefur farið fyrir hæstv. ríkisstj. Ég hef að vísu reynt að gera grein fyrir skoðunum mínum í þeim efnum áður, en það hefur ekki verið á þær hlustað. Vera má, að einhver hlusti núna. En alla vega tel ég það skyldu mína að vekja ennþá einu sinni athygli á því, af hverju hæstv. ríkisstj. hefur þurft fimm sinnum á þremur missirum að gera bráðabirgðaráðstafanir í efnahagsmálum.

Ég vil þá aðeins nefna örfá dæmi. Ríkissjóður var rekinn með greiðsluhalla á s.l. ári um 100 millj. kr., og á yfirstandandi ári er búizt við, að hann verði rekinn með um 400 millj. kr. greiðsluhalla. Staða ríkissjóðs við Seðlabankann í ágústlok var 1700 millj. kr. í yfirdrátt. Á árunum 1970 og 1971 jukust erlendar skuldir um 53%, eða 6000 millj. kr. Öllu þessu fé, sem fengið er með greiðsluhalla í ríkissjóði og lántökum erlendis og innanlands, — öllu þessu fé hefur ríkisstj. dælt út í hagkerfið, ef svo mætti að orði kveða. Þarna er um að ræða gífurlegar verðbólgumyndandi aðgerðir, sem ríkisstj. hefur beint og óbeint staðið fyrir. Og niðurstaðan hefur orðið sú m.a., að halli hefur orðið geysilegur á útflutningsviðskiptum okkar, og ég vil alveg sérstaklega í því sambandi vara hv. alþm. við þeirri skoðun hæstv. viðskrh., sem kom fram í þessum umr. við 1. umr., að meginástæðan fyrir því sé innflutningur á skipum og flugvélum. Viðskiptahallinn var 3985 millj. 1971, 1972 er búizt við, að hann verði 4300 millj., og 1973 er spáð, að hann verði 5820 millj., en þá er auðvitað ekki gert ráð fyrir gengisbreytingunni, sem nú er þegar orðin staðreynd. En skip og flugvélar, það er gert ráð fyrir, að þau verði flutt inn fyrir 2500 millj. kr. á næsta ári, og í áliti sérfræðinganefndarinnar stendur, að þar sé um 66% aukningu að ræða frá árinu 1972, þannig að hér er um að ræða ákaflega villandi og raunar beinlínis rangar staðhæfingar hjá hæstv. viðskrh., þegar hann segir, að viðskiptahallinn við útlönd stafi fyrst og fremst af auknum innflutningi á skipum og flugvélum. Þetta vildi ég sérstaklega undirstrika.

En þá vil ég koma að því, sem ég sagði áðan, að hér væri fyrst og fremst um að ræða enn eina, þ.e.a.s. fimmtu bráðabirgðaráðstöfun hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, því að á næsta ári er hægt að reikna það út með nokkurri nákvæmni, hversu mikið verðbólguhjólið snýr upp á sig og hve mikið útflutningsatvinnuvegirnir þurfa að bera af þeim sökum. Ég vil í þessu sambandi benda hæstv. ráðh. á það, að auðvitað hefur gengislækkunin í för með sér kjaraskerðingu í bili, og það er alveg sama, hvað hæstv. samgrh. segir um það, hún hefur að sjálfsögðu kjaraskerðingu í för með sér í bili. Annars væri ekki um að ræða neina tilflutninga á fjármagni frá almenningi til atvinnuveganna. En þarna er um kjaraskerðingu að ræða, sem er gersamlega unnin fyrir gýg. Hún er verri en unnin fyrir gýg, vegna þess að hún stuðlar ennþá að því, að verðbólguhjólið snúist örar á næsta ári.

Ég vil enn einu sinn vara hæstv. ríkisstj. við í efnahagsmálum. Ég geri þetta af heilum hug, ekki vegna umhyggju fyrir hæstv. ríkisstj., heldur vegna umhyggju fyrir þjóðinni, sem ég tel vera búna að greiða of mikið fyrir þá þekkingu, sem hún hefur fengið. Hún hefur vissulega öðlazt mikla þekkingu og reynslu stjórnmálalega á þeim fáu missirum, sem hæstv, ríkisstj. hefur setið við völd og hefur þegar gert allar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem hún gagnrýndi fyrirrennara sína fyrir sem mest og notaði sem stærst orð um. Þjóðin hefur vissulega lært mikið, en hún hefur þegar fengið að greiða hátt gjald fyrir það, og jafnvel þótt allt nám sé dýrt, þá vil ég enn einu sinni vara við því, að hæstv. ríkisstj. fari þá leið, sem hún áformar nú, að því er virðist, í efnahagsmálum, þannig að þjóðin þurfi ekki að greiða ennþá dýrara námskostnaðargjald fyrir það, að hún sitji við völd í nokkra mánuði enn.