24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

261. mál, málefni geðsjúkra

Fsp. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar, sem fram komu í ræðu hans. Ég verð að lýsa gleði minni yfir þeim orðum, sem hann sagði í upphafi um það, að hann væri hjartanlega sammála þeim almennu sjónarmiðum, sem fram komu í ræðu minni. Um nógu margt greinir okkur á, þó að staðið sé saman um jafnaugljóst nauðsynjamál og hér er um að ræða. Ég saknaði þess nokkuð, að hæstv. ráðherra gerði nægilega grein fyrir, hvernig á því stendur, að hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa verið sammála um að leggja til þessara mála verulegri fjárveitingar í fjárlagafrv., en raun ber vitni. Þetta mál er nú vissulega í höndum Alþingis, og ég efast ekki um velvilja allra hv. alþm. til þess, en við vitum öll af margra ára reynslu, að mesta þýðingu hefur í þessu sem öðrum fjárveitingum, að ríkisstj. skapi einnig þrýsting til þess að sú fjárveiting, sem vantar, fáist. Hæstv. heilbrmrh. hefur ýmsu til leiðar komið gagnvart meðráðherrum sínum, sem e.t.v. er ekki alveg eins einsýnt, að nauðsynlegt sé að gera og þetta. Ég treysti því, að hann af sinni málafylgju beiti sér nú innan ríkisstj. og sannfæri meðráðherra sína um nauðsyn þess að þoka þessu máli áleiðis. Ég efast ekki um, að stuðningur annarra hv. alþm. er auðfenginn. Ég lýsi stuðningi yfir fyrir mína hönd og geri ráð fyrir, að flestir séu þess sinnis einnig, að ekki muni á stuðningi standa við að samþykkja fjárveitingar, sem þarf til þess, að þetta mál verði leyst og framkvæmdir verði hafnar svo fljótt sem verða má, þ.e.a.s. á næsta ári.