19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

132. mál, siglingalög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mikið. En ég leyfi mér að benda á, að ég tel, að frv. það, sem samþ. var um þetta efni snemma á þessu ári, hafi verið mjög afflutt og það mjög einhliða. Þetta er að vísu geysivandmeðfarið mál, ég viðurkenni það, eins og bent var á í grg. frv.

Hér er einnig um geysimikilvægt mál að ræða fyrir sjómannastéttina.

Það er svo, að þetta frv. eða þessi hugmynd var ekki ný af nálinni. Hún var búin að vera hér öðru hverju í þingsölunum í nokkur ár. Síðan var henni hreyft fyrir tveimur árum af nokkrum hv. þm. ásamt mér. Það frv., sem við sömdum og lögðum fram, lá hér einn eða tvo vetur, var svo allt í einu tekið upp úr skúffu, ef svo má segja, rétt fyrir síðustu þinglok og hespað af, án þess að það væri athugað nægilega. Það var skýrt tekið fram í grg., að það þyrfti að fara fram á því vandleg athugun tryggingafræðinga og annarra sérfræðinga, því að það er ekki von, að menn átti sig á svona margþættu og erfiðu máli nema eftir mjög nákvæma athugun og aðstoð sérfræðinga. En ég viðurkenni fullkomlega hlutdeild mína í þessum málflutningi og þessari lagasetningu og tel ekki nema sjálfsagt að leggja hönd á plóginn og reyna að koma þessum málum í betra horf, í gott og rétt horf, því að ég er sannfærður um, að það er full þörf á því að koma þessum hlutum í lag, og að því þurfum við að vinna.