24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

261. mál, málefni geðsjúkra

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af þeirri athugasemd bv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, hvers vegna tiltekin fjárveiting til þessa máls sé ekki á fjárlögum þessa árs. Það var ekki af því, að ríkisstj. hafi á neinn hátt fallið frá þeirri stefnu, sem hún markaði í málefnasamningi sínum. Það er alger samstaða innan ríkisstj. um það, að þetta verk skuli framkvæmt. Hins vegar komu fram nokkrar efasemdir um það, hvort þær áætlanir stæðust, sem ég gerði grein fyrir áðan, að hægt yrði að ráðast í framkvæmdir í september næsta ár. Þess vegna óskuðu menn eftir því, að það yrði skoðað nokkru nánar í samráði við Alþingi. Ég er sannfærður um, að þessar áætlanir geti vel staðizt, og ég hygg, að fjárveitinganefnd muni komast að sömu niðurstöðu, þegar hún fer að athuga þetta mál. Hins vegar þurfum við öll að taka höndum saman um að reyna að tryggja, að þetta mál leysist innan þess ramma, sem fjárlagafrv. verður að hafa. Ég hlustaði á það í gær hjá hv. aðalmálsvara Sjálfstfl., að hann teldi, að núv. ríkisstj. væri sízt þess sinnis að draga úr framkvæmdum og þar væri frekar ofgert en vangert. Vafalaust höfum við allir ýmsar áhyggjur af þessu tagi. Hins vegar vona ég, að slíkar áhyggjur verði ekki til þess, að þessi fjárveiting verði ekki á fjárl. fyrir næsta ár. Það felst ekki í því nein breyting á afstöðu ríkisstj., að þetta er ekki í frv. eins og það var lagt fram í upphafi. Það verður fjallað um þetta mál í meðförum þingsins, og ég vænti þess, að um það takist sem bezt samstaða.