19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

95. mál, almannatryggingar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á þskj. 157 flyt ég brtt. við þetta frv. ásamt þrem öðrum hv. alþm. Er hún á þá leið, að 2. gr. frv. falli niður. Við 1. umr. málsins gerði ég nokkra grein fyrir afstöðu minni og þarf því ekki að hafa mörg orð um það nú. Það er rétt, að frv. þetta hefur tekið miklum breytingum í n. og er orðið allt annað en það áður var. Það skal fúslega viðurkennt. Þó er enn þá sú meginbreyting frá lögunum, sem gilt hafa, að ákveðið er, að utan Reykjavíkur hafi sérstakar umboðskrifstofur þessi mál með höndum og fari um staðarval, fyrirkomulag og rekstur eftir ákvörðun tryggingaráðs. Það er ekki óeðlilegt, að tryggingaráð hafi mikið um þessi málefni að segja, og hefur því aldrei verið andmælt, en hins vegar hefur verið bent á það, að þessi umboð utan Reykjavíkur hafi verið á vegum sýslumanna og bæjarfógeta, svo lengi sem almannatryggingar hafa tíðkazt hér á landi, fyrstu 20 árin, frá 1936 til 1956, með frjálsu samkomulagi, en frá árinu 1956 hefur þetta skipulag verið lögbundið samkv. 8. gr. tryggingalaga. Það er rétt að taka það fram, sem raunar liggur í augum uppi, að sem umboðsmenn trygginganna eru sýslumenn og bæjarfógetar háðir eftirliti ríkisendurskoðunar og endurskoðunardeildar Tryggingastofnunar ríkísins, og má að sjálfsögðu auka það eftirlit og herða, ef störfum þeirra þykir í einhverju áfátt. Einnig vil ég benda á, að ef talið hefði verið nauðsynlegt að auka og herða eftirlit tryggingaráðs og áhrif, þá var hægt að gera það á mjög einfaldan máta, með því aðeins að bæta inn í 8. gr. l., sem staðið hefur óbreytt frá 1956, eins og ég áðan sagði: „Utan Reykjavíkur skulu sýslumenn og bæjarfógetar annast umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina hver í sínu umdæmi, nema tryggingaráð ákveði annað.“

Þá vil ég fara örfáum orðum um 3. mgr. 1. brtt. í nál. á þskj. 205. Þar er gert ráð fyrir, að sveitarstjórn sé heimilt í samráði við tryggingaráð að tilnefna sérstakan trúnaðarmann Tryggingastofnunarinnar, sem annast upplýsingastörf og tengsl íbúa sveitarfélags við umboðsskrifstofu. M.ö.o.: hér er gert ráð fyrir því, að sveitarstjórn sé heimilt að taka upp trúnaðarmannakerfi í öllum hreppum landsins. Þeir munu nú vera eitthvað á þriðja hundrað, líklega 220 eða svo, og það er Tryggingastofnunin, sem á að ákveða og greiða þessa þóknun. Þó að þessi þóknun verði lág, hlýtur að verða hér um nokkurra milljóna útgjöld að ræða. Ég vek athygli á því, að hingað til hafa hreppstjórar annazt þessi störf í hverjum hreppi í umboði og nánu samstarfi við sýslumann, sem aðalumboðsmann. Hreppstjórar eru þar af leiðandi vanir þessum störfum. Þeir eru launaðir af ríkinu, gamlir ríkisstarfsmenn, og þó að laun þeirra séu ekki há, ekki mikil fjárhæð! sem kemur í hlut hvers hreppstjóra, þá er þó þess að geta, að störf þeirra hafa minnkað til mikilla muna, eftir því sem íbúum hefur fækkað í sveitum landsins. Það má því segja, að störf þeirra að tryggingum í samstarfi við almannatryggingaumboðið séu orðin næstum því þeirra aðalstarf, eins og nú er. Þetta starf er ég viss um, að þeir munu vinna hér eftir sem hingað til fyrir þau laun, sem þeim hafa verið ákvörðuð fyrir langalöngu af hálfu ríkisvaldsins. Ég sé því ekki annað en þetta leiði til beinna útgjalda fyrir hið opinbera, ef svo má komast að orði.

Að þessu athuguðu sé ég ekki ástæðu til að draga þessa brtt. mína til baka, þó að ég vilji alls ekki verða til að tefja þetta mál eða halda hér uppi neinu málþófi, því að ég er að öðru leyti samþykkur frv.