19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

95. mál, almannatryggingar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. — Ég held, að vinur minn, hv. 10. þm. Reykv., hafi misskilið mig herfilega hér áðan, ef hann hefur skilið orð mín á þann veg, að ég væri að firra mig einhverri ábyrgð í því máli, sem hér um ræðir, eða á þeim lögum, sem sett voru á s.l. vori. Það er nú eitthvað annað. Það er fjarri því. Hitt veit ég, að óþægindi út af því máli hafa lent meira á honum en mér. En ég býst þó við, að við verðum hér eftir sem hingað til taldir „solidarisk“ -ábyrgir í málinu, enda þykir sennilega fara vel á því að hæfa sýslumann og sjómann í einu skoti. En það eru ýmsir fleiri, sem koma þarna við sögu, og ég vek sérstaka athygli á því, að brtt. sú, sem sett var fram, rétt áður en frv. var samþ., af hæstv. sjútvrh, breytti frv. efnislega mjög mikið að mínum dómi. Hún gerði það að verkum, að það þurfti að athuga það og skoða miklu nánar en áður var, og var því alls ekki rétt að afgreiða það eins hratt og gert var. En hitt vil ég svo líka taka fram, að meginmál frv. var samið og orðað af manni miklu færari mér í þessum fræðum.

Ég sá ýmsar umsagnir, bæði frá tryggingafélögum, sjómönnum og útgerðarmönnum, um þetta mál, og vissulega voru þær mjög ósamhljóða. Það kom mér ekkert á óvart, því að ég veit og vissi, að hér er um mjög viðkvæmt hagsmunamál að ræða. En ég þóttist þó geta lesið út úr þessum umsögnum, að það væri leið til samkomulags, aðeins ef tími væri tekinn til þess að skoða þetta mál allt betur og ræða það nánar í samráði við þessa aðila. Það vona ég, að gert verði, áður en gengið verður frá málinu endanlega núna.