19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason [frh.]:

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni í dag, þegar umr. var frestað, að ég hafði nokkuð rakið þær umr., sem urðu hér á hv. Alþ. á s.l. vetri í sambandi við friðun fiskimiða. Ég hafði einnig bent á, að það væri mjög mikil mótsögn í því, sem fram kæmi hjá fiskifræðingum Hafrannsóknastofnunarinnar, og því, sem hæstv. sjútvrh. hefði haldið fram, að náið samstarf hefði verið haft við þá stofnun, þegar friðunarsvæðin, sem tilgreind eru í reglugerð frá 14. júlí s.l., voru ákveðin. Ég tel það mjög miður, að enn þá einu sinni skuli þurfa að vekja athygli á því úr þessum ræðustól, að sá ráðh., sem mál. sem verið er að ræða, heyrir undir, skuli ekki vera viðstaddur. Þetta er að mínum dómi farið að verða allt of algengt og sýnir litla virðingu frá hendi ráðh. fyrir þingi og störfum þingsins. En við verðum að sætta okkur við þetta, þó að ég telji það mjög miður farið. (Forseti: Það hefur verið gerð ráðstöfun, ráðh. er væntanlegur.) Hæstv. forseti tilkynnir mér, að ráðh. sé væntanlegur, og tel ég það vel farið út af fyrir sig, þó að vissulega hefði verið betra, að hann hefði verið kominn í d., þegar umr. hófust.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fara nánar út í ræðu hæstv. sjútvrh. um efni reglugerðar hans frá 14, júlí, geymi mér það heldur, þar til hann kemur, en vil fara nokkrum orðum um þá till., sem við hv. 10. þm. Reykv. höfum flutt og er að finna á þskj. 185. Varðandi svæðið fyrir Norðausturlandi telja flm., að það svæði sé rétt valið sem fyrsta friðunarsvæði á uppeldisstöðvum ungfisks, enda er vitað, að Norðaustur-Atlantshafsnefndin svokallaða hefur einmitt rætt um þetta svæði, sem fyrst bæri að friða, þegar til friðunar kæmi á uppeldisstöðvum ungfisks hér við land. Við höfum engum svæðamörkum breytt í till. okkar, miðað við það, sem er í gildi samkv. umræddri reglugerð frá 14. júlí. Till. okkar hljóðar aðeins um það, að tíminn, sem friðun á að gilda, verði lengdur úr tveimur mánuðum á ári í samfellda friðun í 2 ár, þ.e. fyrir árin 1973 og 1974. Það getur að sjálfsögðu verið álitamál, hvað lengi friðun hvers svæðis á að standa, hvort samfelld friðun á að vera í eitt eða tvö ár eða lengur. Við teljum, að ekki geti neins sjáanlegs árangurs af friðun verið að vænta, nema hún standi a.m.k. 2 ár. Við leggjum því til í till. okkar, að svæðið verði aðeins friðað fyrir veiðum með botnvörpu, flotvörpu og dragnót, en það er engin breyting frá því, sem er í reglugerðinni. Hér hefðum við þó helzt kosið að leggja til, að svæðið yrði alfriðað fyrir öllum veiðarfærum, en við teljum að líta verði á atvinnuhagsmuni þess fólks, sem í þessum landshluta býr, en aðalatvinna þess við sjávarsíðuna er veiðar með línu og á handfæri, sem vart eru þó það miklar, að nokkru tjóni geti valdið. Af þeim ástæðum höfum við ekki lagt til, að svæðið yrði alfriðað, en gerum ráð fyrir, að það verði einnig friðað fyrir bolfiskveiðum í nót, eins og till. fiskveiðilaganefndarinnar hljóða um, en þar er aðeins um reglugerðarákvæði að ræða fyrir hæstv. sjútvrh.

Varðandi svæðið fyrir Suðurlandi eru stærðarmörk þess svæðis einnig þau sömu og er að finna í gildandi reglugerð frá 14. júlí. Hins vegar hljóðar till. okkar um, að svæðið verði alfriðað fyrir öllum veiðarfærum, en ekki aðeins fyrir botnvörpu, flotvörpu og dragnót, eins og reglugerðin gerir ráð fyrir. Er þetta í samræmi við ábendingu fiskifræðinga og reyndar allra annarra, sem eitthvað þekkja til veiða á þessu svæði. Ég vil undirstrika, að þegar Vestmannaeyingar hafa á undanförnum árum verið að fara fram á, að tiltekin svæði vestan við Eyjar yrðu friðuð yfir hrygningartímann, hafa þeir alltaf lagt til, að svæðin yrðu alfriðuð fyrir öllum veiðarfærum og alveg sérstaklega fyrir veiðum með þorskanet. Við leggjum til í till. okkar, að tíminn, sem friðunin á að gilda, verði lengdur um 20 daga og verði frá 10. marz til aprílloka, í stað þess að reglugerðin gerir ráð fyrir, að friðunin gildi aðeins á tímabilinu frá 20. marz til 20. apríl. Við teljum þau tímamörk, sem við höfum lagt til, algert lágmark, en þau eru sett í samræmi við óskir, sem fram hafa komið, bæði frá útgerðarmönnum og sjómönnum, sem veiðar stunda á þessu svæði. Þá leggjum við til í till. okkar, að friðun þessa svæðis verði ákveðin fyrir næstu tvö ár, og gildir það sama um þetta svæði og það, sem ég sagði um friðun svæðis fyrir Norðausturlandi, að við teljum ekki, að nokkurs sjáanlegs árangurs geti verið að vænta, nema friðunin standi a.m.k. í 2 ár. Ég vil mjög undirstrika þetta atriði og hygg, að það sé mjög almenn skoðun hjá þeim aðilum, sem til þessara mála þekkja og fiskveiðar hafa stundað um langan tíma, að ef á að gera tilraun með friðun tiltekinna svæða, þá verði hún að standa í nokkurn tíma, til þess að það sýni sig, hvort hún kemur að því gagni, sem menn höfðu gert sér vonir um. Ég vil benda á það, t.d. varðandi svæðið fyrir Norðausturlandi, sem nú er með umræddri reglugerð aðeins ætlað að friða í tvo mánuði, þ.e. mánuðina apríl-maí, að mér er ómögulegt að skilja, hvernig það á nokkurn tíma að geta komið í ljós, hvort friðun þar kemur að nokkru gagni eða ekki, ef á að leyfa veiðar í 10 mánuði, en friða aðeins í tvo mánuði. Ef svo færi, að tveggja mánaða friðun yrði til þess að auka að einhverju leyti fiskmagn á þessu svæði, þá þýddi það auðvitað, að skip mundu frekar sækja þangað hina 10 mánuði ársins, sem það er opið, og væri þá aldrei hægt að mínum dómi að fá neina niðurstöðu um, hvort hugmyndir bæði fiskifræðinga og annarra um friðun tiltekinna svæða kæmu nokkurn tíma að notum. Eina ráðið að dómi okkar flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir á þskj. 185, er að friða svæðið einhvern tiltekinn tíma og eigi skemur en 1–2 ár, til þess að í ljós komi, hvort friðun kemur að gagni eða ekki.

Ég tel kannske ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta atriði. Frá mínu sjónarmiði er það svo augljóst, að ef við viljum taka okkur sjálf eitthvað alvarlega, þegar við erum að tala um friðun og friðunarráðstafanir, þá verði friðun að gerast með þeim hætti, að ekki sé þar um sýndarmennsku að ræða, eins og fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar hafa bent á, að þeir telji friðunina á svæðinu fyrir Suðurlandi í raun og veru.

Ég hefði vissulega viljað koma að fsp. til hæstv. ráðh., en þar sem mér er kunnugt um, að fleiri eru á mælendaskrá og forseti hefur gefið okkur örlitla von um það, að síðar í kvöld geti orðið von á ráðh., þá ætla ég að þessu sinni að ljúka máli mínu, en halda þá ræðunni áfram síðar, ef mér gefst tækifæri til að beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh., sem ég hef hug á.

Ég skal svo í bili a.m.k. láta máli mínu um þessi atriði lokið, en ég vænti þess, að þm. geri sér fulla grein fyrir því, að ef við teljum í alvöru, að ástand mála í sambandi við fiskveiðar okkar sé orðið þannig, að friðanir tiltekinna svæða séu tímabærar, þá eru þau ákvæði, sem er að finna í 3. gr. reglugerðar frá 14. júli, að mínum dómi hvergi fullnægjandi. Ég vil benda á, að það kom í ljós á síðustu vertíð á veiðisvæðinu milli Reykjaness og Vestmannaeyja, að þar hagaði fiskur göngum sínum á allt annan veg en áður hefur verið. Hann kom mjög lítið inn á þetta svæði, og hrygning virðist ekki hafa átt sér stað þar i neinum mæli. Afleiðing þessa á auðvitað eftir að koma fram síðar, og ef ástæðan fyrir þessari breytingu, sem á þessu svæði er orðin, er ofveiði, þá liggur að mínum dómi alveg ljóst fyrir, að ekki má undir neinum kringumstæðum draga friðunaraðgerðir lengur en orðið er, og þær verða að vera mun róttækari en umrædd reglugerð gerir ráð fyrir.