19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vil taka eindregið undir þau ummæli síðasta ræðumanns, hv. 10. þm. Reykv., hversu stór atburður það var, sem gerðist hjá Sameinuðu þjóðunum, þegar allsherjarþing þeirra samþ. till. Íslands og fleiri þjóða um rétt strandríkja til auðæfa hafbotnsins og auðæfanna á landgrunninu yfir honum. Þetta er stór atburður og skilar okkur langt áleiðis til fullnaðarsigurs í þessu mikla máli. En þessi ályktun hinna Sameinuðu þjóða undirstrikar það enn þá einu sinni, hvílík skammsýni það var af núv. ríkisstj. og stjórnarfl. að hafna till. um að miða útfærsluna á þessu ári við allt landgrunnið, en binda sig aðeins við 50 mílurnar. Þessi ályktun hinna Sameinuðu þjóða byggist einmitt á réttinum til landgrunnsins og auðæfanna yfir því og er því enn ein sönnun fyrir því, að það var rétt, sem við héldum fram, stjórnarandstæðingar, í till. okkar og umr. um það mál, og lítt skiljanleg skammsýni og stífni af hálfu hæstv. sjútvrh., sem réð ferðinni í þessu efni, að hafna þeim till.

Það, sem hér liggur fyrir, er frv. um að framlengja veiðiheimildir togskipa, sem veittar voru 1967, þar sem þær mundu ella falla úr gildi um næstu áramót. En nú hefur sjútvn. þessarar d. lagt til, að bætt verði inn í frv. nokkrum ákvæðum til friðunar og verndar, og er það gert að till. fiskveiðilaganefndar. Þar sem hér er nú komið inn á friðunar- og verndunarmál og till. frá tveim hv. þm., Guðlaugi Gíslasyni og Pétri Sigurðssyni, til frekari friðunar liggur enn fremur fyrir, tel ég rétt í framhaldi af þeim umr., sem áður hafa verið um það mál hér á Alþ., að mæla hér nokkur orð.

Ég vil segja það fyrst, að þegar sjútvn. leggur fram þessar till. sínar nú á þskj. 184, þá hefði verið æskilegt, að þm. hefðu fengið í hendur einhver gögn þessu máli til rökstuðnings. Þessar till. koma frá svokallaðri fiskveiðilagan., sem á að gera till. um hagnýtingu landgrunnsins og fiskimiðanna. Það hefði verið æskilegt, að frá þeirri n. hefði komið og verið útbýtt til þm. einhverri grg. með nánari upplýsingum um það, sem fram á er farið. Vitað er, að frá Hafrannsóknastofnuninni hafa komið till. og álitsgerðir, bæði frá fiskifræðingunum stjórn stofnunarinnar, og vissulega hefði verið eðlilegt og í rauninni nauðsynlegt, að þm. hefðu fengið þessar álitsgerðir í hendur. Í þriðja lagi hefði ekki verið neitt óeðlilegt, þó að þm. hefði verið látin í té einhver frásögn af þeim mörgu fundum sem fiskveiðilagan. hefur haldið, en hún hefur haldið marga fundi og mjög ítarlegar fundargerðir verið skráðar um það, sem fram hefur komið, að því er hér hefur verið skýrt frá. Það má segja, að sú n. muni kannske ógjarnan vilja skila slíkum upplýsingum, fyrr en hún hefur lokið störfum, en æskilegra hefði þó verið, að þm. hefðu fengið að fylgjast nánar með störfum hennar, og hefði vel mátt gefa þm. einhvern útdrátt úr því, sem þegar hefur gerzt, og þeim óskum, sem fram hafa komið.

Ég vil láta þetta koma fram vegna þess, að það er ákaflega örðugt fyrir þm. að meta þær till., sem hér hafa komið fram frá sjútvn., þar sem engar af þeim upplýsingum, sem ég hef nefnt hér, hafa verið lagðar fram af hálfu hæstv. sjútvrh. eða n. Vil ég sérstaklega benda á, að það er í rauninni ekki frambærilegt að leggja fram slíkar till. fyrir þingheim, án þess að eitthvað af þeim margvíslegu upplýsingum sérfræðinga, sem liggja fyrir, fylgi með.

Nú eru þessar till. frá sjútvn. góðra gjalda verðar og góðar, svo langt sem þær ná. Eins og hefur komið fram hjá þm., sem hér hafa talað, og ég vil undirstrika, þá ganga þessar till. allt of skammt. Í rauninni er nauðsynlegt að rekja í nokkrum dráttum, hvernig að þessu máli hefur verið staðið, síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum, því að það er sannast sagna, að varðandi friðunar- og verndunarmál fiskstofnanna og fiskimiðanna hefur verið linlega að staðið. Í rauninni kom það fram hér í fyrra í umr. um útfærslu landhelginnar, að hæstv. núv. sjútvrh. hefur harla lítinn áhuga á friðunar- og verndunaraðgerðum, og vil ég taka undir flest af því, sem hér hefur verið sagt af tveim síðustu ræðumönnum í því efni.

Í þeirri till., sem við sjálfstæðismenn fluttum haustið 1971 um landhelgismálið, var, auk þess að taka landgrunnið allt, sérstaklega lögð áherzla, á bæði í 2. og 3. lið þeirrar till., á friðunar- og verndunarmál. Þar var lagt til í 2. tölul., að ákveðin skyldu friðunarsvæði á mikilvægum uppeldisstöðvum ungfisks á landgrunninu út af ytri mörkum þess. Þessar ráðstafanir skyldu ganga í gildi 1. marz 1972. Enn fremur skyldu settar reglur um tímabundna friðun ákveðinna hrygningarsvæða innan þágildandi fiskveiðimarka, m.a. hluta af Selvogsbanka og tiltekinna svæða við Vestmannaeyjar. Þessar reglur skyldu einnig taka gildi 1. marz 1972. Það undarlega gerðist, að í umr. um þetta mál snérist hæstv. sjútvrh. ekki aðeins hart á móti þeirri stefnu, sem nú hefur sannazt, að hefði verið sú rétta, þ.e. að miða við landgrunnið, en ekki við 50 mílurnar eingöngu, heldur snérist hann einnig harkalega á móti þessum friðunar- og verndunartill. Þau rök, sem hann færði fram, voru í fyrsta lagi, að Alþ. gæti ekki ákveðið slíkt án þess að leit fyrst álits Hafrannsóknastofnunarinnar og fiskifræðinga, það væri svo samkv. landsgrunnsl. Þetta var fyrirsláttur einn, þegar af þeirri ástæðu, að í sjálfri till. var skýrt tekið fram, að um framkvæmdir þessara friðunar- og verndunaraðgerða skyldi ríkisstj. hafa samráð við Hafrannsóknastofnunina og Fiskifélag Íslands, og vitanlega var ekkert því til fyrirstöðu, að Alþ. markaði heildarstefnuna í þessum málum. Áður en reglugerð til framkvæmda á þessu yrði gefin út, átti að sjálfsögðu að fá till. Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi sjálfa framkvæmdina, nánari mörk svæðanna, hversu lengi friðun skyldi standa á hverjum stað, hvers konar veiðarfæri skyldu leyfð eða bönnuð, hvort miða skyldi einnig við stærð skipa. Önnur ástæða, sem hæstv. ráðh. færði þá fram, var sú, að þetta gætum við ekki gagnvart útlendingum vegna þess, að það þýddi átök við þá, og að því er manni skyldist, þá væri það nægilegt að eiga í átökum við útlendinga um 50 mílna útfærsluna, þó að við færum ekki líka í átök út af sérstökum friðunaraðgerðum. Manni skildist jafnvel, að Íslendingum væri þetta ekki heimilt nema með samþykki útlendinga. Allt vakti þetta nokkra furðu, en í rauninni hefur þetta allt saman skýrzt nánar síðar. Hæstv. sjútvrh. hefur haft og hefur í dag sáralítinn áhuga á friðunar- og verndunaraðgerðum, og kom það glögglega fram, þegar hann gaf út reglugerðina 14. júlí s.l. um útfærsluna í 50 sjómílur. Þá voru að vísu ákveðin tvö verndarsvæði samkv. 3. gr. reglugerðarinnar, fyrir Norðausturlandi og fyrir Suðurlandi, en þannig var ákvarðað varðandi fyrra svæðið, að það skyldi aðeins friðað í 2 mánuði á ári, apríl og maí, og eingöngu verndað fyrir botnvörpu, flotvörpu og dragnót. Varðandi hitt svæðið, fyrir Suðurlandi, þá skyldi það aðeins lokað 1 mánuð á ári hverju og aðeins fyrir þessum sömu veiðarfærum, en öll önnur veiðarfæri, hversu stórvirk sem þau væru, eins og t.d. netin, voru frjáls. Það var því þegar sýnt af þessu, að áhugi hæstv. ráðh. var harla lítill í þessum efnum.

Þegar hæstv. ráðh. leyfir sér nú í umr. hér að halda því fram, að þetta hafi verið gert í samráði við Hafrannsóknastofnunina og með hennar fulla samþykki, þá stangast það heldur illilega á við þær till., sem Hafrannsóknastofnunin hefur gert. Þær eru dagsettar í september, að vísu nokkru eftir þetta, en þar segir m.a., eins og hv. 3. þm. Sunnl. drap hér á, að Hafrannsóknastofnunin lýsi furðu sinni á þeirri ákvörðun að friðlýsa ákveðið hrygningarsvæði suðvestanlands fyrir togveiðum, en ekki öðrum veiðarfærum, svo sem þorskaneti. Friðun svæðisins, segir í grg. og till. Hafrannsóknastofnunarinnar, er ekkert nema sýndarmennska, ef hún nær ekki til allra veiðarfæra, einkum þar sem engar takmarkanir eru settar á stórtækustu veiðarfærin, þorskanetin. Ég verð að segja, að mér gengur illa að koma því heim og saman, hvernig sú stofnun, sem lýsir slíkri gagnrýni og vanþóknun á þessari reglugerð hæstv. ráðh. frá 14. júlí, hafi lagt þetta til við ráðh. og samþ., eins og ráðh. sagði í umr. hér í dag.

Það er auðvitað mála sannast, að eitt hið þýðingarmesta í okkar fiskveiðimálum nú, auk sjálfrar útfærslunnar, er hagnýting fiskimiðanna og réttar friðunar- og verndunaraðgerðir. Fiskveiðilagan., sem svo er kölluð, hóf starf sitt allt of seint. Það er ekki henni að kenna, heldur vegna þess, að ráðh. fól henni ekki fyrr en nú í haust að hefja störf. Í þessu sambandi vil ég einnig minnast á furðulegt ranghermi ráðh. í ræðu hans í dag. Hann leyfir sér að halda því fram, að á síðasta þingi hafi verið alger samstaða um það meðal allra þm. að fresta öllum friðunar- og verndunaraðgerðum allt árið 1972. Þessi missögn er byggð á því, að á síðasta þingi var samþ. að framlengja þessar veiðiheimildir frá 1967 til togskipanna til ársloka 1972. Um þetta var samkomulag. En það er fjarstæða að leyfa sér að túlka þetta samkomulag um framlengingu á veiðiheimildum togskipanna þannig, að allir alþm. hafi verið sammála um, að ekkert skyldi gert í friðunar- og verndunarmálum árið 1972. Ég vil mótmæla þessu fyrir mína hönd, og ég veit, að ég geri það um leið fyrir hönd þorra þm. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að það hafi verið ósk og vilji alls þorra þm., að sem fyrst yrði gengið myndarlega og rösklega að friðunar- og verndunaraðgerðum.

Varðandi ályktanir Alþ. sjálfs vil ég taka það fram, að þó að stjórnarmeirihlutinn féllist ekki á till. okkar sjálfstæðismanna um verndunaraðgerðir þær, er ég lýsti hér áðan, liggur þó fyrir samþykkt Alþ. frá 7. apríl 1971, þar sem Alþingi fól ríkisstj. að undirbúa friðunaraðgerðir fyrir öllum veiðum til verndar ungfiski á landgrunnssvæðinu utan 12 mílna markanna, þar sem viðurkennt er, að um helztu uppeldisstöðvar ungfisks sé að ræða. Í þeirri ályktun, sem gerð var með atkv. allra þm. 15. febr. 1972, er í 4. lið tekið fram, að Alþingi álykti, að settar verði, eftir því sem nauðsynlegt reynist, reglur um friðun fiskistofna og einstakra fiskimiða til að koma í veg fyrir ofveiði. Vilji Alþingis er ótvíræður bæði nú og fyrr í þessu efni, og það er furðulegt, að ráðh. skuli leyfa sér að halda því fram, að allir alþm. hafi verið á einu máli um það, að ekkert skyldi gert í þessum málum allt árið 1972.

Það er vissulega ástæða til að minnast hér á þetta vegna þess, hve það hefur berlega komið í ljós, hver hugur ráðh. hefur verið, þegar hann talaði eindregið á móti friðunar- og verndunartill. okkar fyrir ári. Nú hefur hann sýnt það í verki, að hjá honum er lítill áhugi sem enginn í þessu efni. Þegar hæstv. ráðh. talar nú á móti till. þeirra Guðlaugs Gíslasonar og Péturs Sigurðssonar, sem ég tel mjög tímabæra og lýsi eindregið stuðningi við, till. á þskj. 185, þá eru rök hans m.a. þau, að þessi brtt. þeirra um aukna friðun komi þvert á samninginn við Belgíumenn. Hann vildi ekki fullyrða, að það væri beint brot á samningnum, en það væri samt mjög óeðlilegt, eftir að búið væri að semja við Belgana um þetta. Ég vil aðeins segja það, að ef um það hefur verið samið við Belga, að ekki mætti framkvæma hér nauðsynlegar friðunar- og verndunaraðgerðir fyrir okkar fiskimið og fiskistofna, þá hefur sá samningur verið óheillasamningur fyrir Ísland. Hins vegar held ég fyrir mitt leyti, að þetta geti ekki verið rétt. Eftir því, sem ég hef séð og lesið af samningnum, get ég ekki séð, að neitt sé í honum, sem komi í bága við þær friðunaraðgerðir, sem lagðar eru til á þskj. 185, né aðrar friðunarhugmyndir, sem nefndar hafa verið. Þegar ráðh. í kappi sínu og ákefð reynir að koma í veg fyrir samþykkt um aukna friðun, gripur hann til þess að vitna í samninginn við Belga, sem hann gerði fyrir ekki alls löngu.

Á það hefur verið bent hér rækilega, bæði af hv. 3. þm. Sunnl. og hv. 10. þm. Reykv., hversu friðunar- og verndunarmál fiskistofnanna eru mikilvæg, fyrst og fremst fyrir líf og afkomu íslenzku þjóðarinnar, en ekki síður fyrir allan okkar málflutning út á við. Ég held, að það sé mála sannast, að þegar menn hafa rætt við útlendinga, sem eru okkur velviljaðir í þessum málum, kemur iðulega fyrir, að þeir segja: Eitt örðugasta, þegar við erum að tala ykkar máli, er það, að þið hafið sjálfir ekki sýnt nægan vilja eða sýnt það í framkvæmd, að þið viljið friða og vernda fiskistofnana. Það er notað sérstaklega á alþjóðavettvangi af okkar andstæðingum og bent á síldveiðarnar, og stundum er bent á, að um leið og Íslendingar segjast vilja friða og vernda, séu þeir sjálfir að byggja upp mjög stóran togaraflota. Ég skal ekki taka það mál til umr. hér, því að vitaskuld var endurnýjun togaraflotans nauðsynleg, þótt kannske hefði verið æskilegra að hafa þar önnur vinnubrögð en að fá alla þessa togara svo til samtímis. En fyrst og fremst er það alvarlegt fyrir okkar málstað út á við, hversu mikil tregða hefur verið hjá stjórnarvöldunum til að gera þær verndunar- og friðunaraðgerðir, sem æskilegt hefði verið.

Ég er í engum vafa um það eftir kynnum mínum af þessum málum og þróun þeirra erlendis, að það hefði orðið okkur stórkostlegur styrkur í allri okkar baráttu, ef samþ. hefðu verið till. okkar sjálfstæðismanna í fyrra um að hefjast þegar í stað handa um friðunar- og verndunaraðgerðir utan 12 mílna út að yztu mörkum landgrunnsins og láta slíkar friðunar- og verndunaraðgerðir verða undanfara hinnar miklu útfærslu. Ég er sannfærður um það, að vegna þess, hvað friðunar- og verndunaraðgerðir eiga mikilli samúð og skilningi að mæta meðal allra þjóða, þá hefði slíkum friðunaraðgerðum ekki verið mótmælt, engin þjóð hefði treyst sér til þess. Með þeim aðgerðum hefðum við öðlazt meiri samúð en við höfum náð. Núv. stjórnarflokkar vildu ekki ahyllast þá leið, og tel ég það mjög miður farið.

Það vildi svo til, að sama daginn og útfærslan í 50 mílur kom til framkvæmda, ritaði þáv. forstöðumaður Hafrannsóknastofnunarinnar, Ingvar Hallgrímsson, grein í málgagn sjútvrh., Þjóðviljann, þar sem hann leggur, einmitt á þessum útfærsludegi, sérstaka áherzlu á nauðsyn skynsamlegrar hagnýtingar friðunar og verndunar. Hann segir m.a.: „Það er nú hlutverk okkar að rétta fiskistofnana við. Það verður ekki gert á annan hátt en þann að hafa skynsamlega stjórn á veiðunum, og hér duga engin vettlingatök.“ Það hvarflar að manni, hvort þessi ágæti fiskifræðingur hefur haft í huga, er hann skrifaði þetta, vettlingatök, sem hæstv. sjútvrh. hefði tekið á þessum málum 14. júlí með reglugerðinni þá. Þessi sami fiskifræðingur leggur á það áherzlu, að ef við viljum á annað borð hafa einhver tök á hinni stóru landhelgi, verði að hætta rányrkjunni og stjórnleysinu og veiða á skynsamlegan hátt, en veiða ekki fisk niður í óarðbærar stærðir.

Hagur Íslendinga mun í framtíðinni mjög markast af því, hvaða stefnu íslenzk stjórnarvöld taka í þessu máli. Ég vil segja, að hæstv. sjútvrh. hefði átt að hlusta betur á raddir fiskifræðinganna, m.a. þessa ágæta manns. Ég vænti þess, að hér á Alþ. muni áfram heyrast þær raddir og eitthvað heyrist úr stjórnarherbúðunum líka í þá átt, að Alþ. ætlist til, að betur og vasklegar sé gengið fram í friðunar- og verndunarmálum en verið hefur reyndin að undanförnu.