19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég tek hér til máls, er fyrst og fremst það, að á þskj. 185 hafa 2 þm., hv. 3. þm. Sunnl. og hv. 10. þm. Reykv., flutt um það till., að næstu tvö ár verði Þistilfjörður og svæðið út af honum, friðaður alfarið fyrir botnvörpu, flotvörpu og dragnótaveiðum um tveggja ára skeið. Auk þess er gert ráð fyrir því, skilst mér, í till. fiskveiðilagan. til hæstv. sjútvrh., að öll þorskanótaveiði verði bönnuð bátum yfir 50 tonnum þegar á næsta ári og öllum bátum frá og með áramótum 1973–1974.

Nú er það svo, að þetta svæði, sem þarna er um að ræða, Norðurlandskjördæmi eystra, er, að ég ætla, eina kjördæmi landsins, þar sem fiskveiðilagan. hefur ekki haldið fund með útvegsmönnum og sjómönnum. Af þeirri ástæðu finnast mér hálfóviðkunnanlegt af einum fiskveiðilaganefndarmanninum, að hann skuli taka þetta svæði út úr, áður en hann hefur kynnt sér viðhorf þeirra manna, sem sjó sækja á þessu svæði. Formaður fiskveiðilagan. lét þess getið hér áðan, að það stæði til, að n. færi þangað norður einhvern tíma á næstunni og ræddi við sjómenn og útvegsmenn á þessu svæði, og er ekki seinna vænna. Það er í hæsta máta óskiljanlegt og óafsakanlegt, að fiskveiðilagan. skuli ekki nú þegar hafa átt fund með þessum mönnum, kynnt sér viðhorf þeirra til fiskveiðanna og þeirra sérstöku aðstæðna, sem eru fyrir hendi í þessum landsfjórðungi.

Með þessum orðum mínum er ég á engan hátt að draga úr nauðsyn samræmdra aðgerða í fiskverndunarmálum og tel eins og raunar flestir aðrir þm., sem hér hafa talað í dag og í kvöld, að óskiljanlegur og óafsakanlegur seinagangur hafi verið hjá sjútvrh. í þeim málum. En það breytir þó ekki þeirri staðreynd, að við þær ráðstafanir, sem gerðar verða til verndunar fiskistofnunum, verður að gæta nauðsynlegs samræmis og taka tillit til sérstakra aðstæðna á hverjum stað. Mér er ekki kunnugt um, að í Norðurlandskjördæmi eystra séu menn á móti nauðsynlegum aðgerðum til verndunar fiskistofnunum. Hins vegar eru þeir að sjálfsögðu eins og allir réttsýnir menn á móti því, að það sé hlaupið til með tillöguflutningi á Alþ. með þeim hætti, sem gert er á þskj. 185, án þess að svo mikið sé við haft, að flm., — þar af annar meðlimur í fiskveiðilagan., — kynni sér skoðanir manna á þessu svæði. Í þessu sambandi vil ég einnig minnast á það, að það er mönnum þar nyrðra mikið áhyggjuefni hversu vinnubrögð landhelgisgæzlunnar eru slök í því að halda uppi þeim reglum, sem þegar hafa verið settar um ýmis veiðarfæri þar norðanlands. Svo langt hefur gengið, að beinar kvartanir hafa borizt og krafa um það, að gæzluskip komi norður. Í sjónvarpsviðtali við oddvitann á Þórshöfn var því beinlínis haldið fram, að landhelgisgæzlan reki skipin austur á bóginn frá öðrum miðum, til þess að þau hnappist saman á þessu svæði. Það hefur komið fram í sjóprófum, að þessi ásökun er ekki út í hött, að skip landhelgisgæzlunnar hafi sérstaklega verið að stugga brezku togurunum austur á bóginn og jafnvel austur fyrir land, austur fyrir kjördæmi hæstv. sjútvrh. Þetta hefur komið fram í opinberum sjóprófum.

Í þessu sambandi vil ég einnig láta það koma skýrt fram, að í brtt. sjútvn. á þskj. 184 eru að minni hyggju nægilegar heimildir fyrir ráðh. til þess að gera nauðsynlegar friðunarráðstafanir, eftir því sem þurfa þykir, fyrir Norðausturlandi, a.m.k. fram að þeim tíma er heildareglur verða settar um þessi mál.

Eins og ég sagði áðan, vantar mikið á, að þeim reglum, sem settar hafa verið um takmörkun á stórvirkum veiðarfærum, hafi verið fylgt eftir sem skyldi. Það er staðreynd, að misnotkun á veiðarfærum á sér stað, þó að mér skiljist að vísu, að frá sjómönnum sjálfum hafi á síðustu missirum aukizt innbyrðis aðhald í þessum efnum. Er það vissulega góðra gjalda vert. En það er ekki því að þakka, að af opinberri hálfu hafi eitthvað verið gert til þess að fylgja settum reglum í þessum efnum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að blanda mér að öðru leyti inn í þær umr., sem hér hafa farið fram. Ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var eingöngu sú, að ég vil mótmæla þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð eru á þskj. 185, og legg á það áherzlu, að við friðun Þistilfjarðar og svæðisins út af honum, svo og önnur afmörkuð svæði á landinu, verði litið á málið sem eina heild, en ekki hlaupið í neinar ráðstafanir, áður en fiskveiðílagan. hefur gefið sér tíma til að kynna sér viðhorf manna þar norður frá, þótt mér hafi skilizt það á ræðu hv. 3. þm. Sunnl. hér áðan, að fiskveiðilagan. hafi raunar þegar nokkurn veginn mótað sér skoðanir um það, að þessi aðgerð sé nauðsynleg, eins og fram kemur í þskj. 185.