19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt að ráði, en mér þykir þó hlýða undir lokin að segja hér nokkur orð.

Ég get ekki annað sagt en fiskveiðilaganefndin svonefnda megi að því leyti allvel við una, að ég hygg, að enginn hv. ræðumanna hér í dag eða kvöld hafi andmælt þeim brtt., sem sjútvn. flytur fyrir tilstilli fiskveiðilaganefndar, og margir hafa tekið undir og lýst fylgi við þessar till. Hins vegar hefur það komið greinilega fram hjá ýmsum ræðumönnum, að þeir telja, að ýmislegt vanti í þessar till. Það ber raunar óeðlilega mikið á því, að því er mér virðist, að menn hafi gleymt því, sem var þó veigamikið atriði í sambandi við mat á þessum till., að hér er, eins og marglýst hefur verið, um bráðabirgðalausn á þessu stóra máli að ræða. Sú athugun og tillögugerð, sem að hefur verið unnið, er, eins og marglýst hefur verið, í miðjum klíðum, og er hér eingöngu um það að ræða að gera till., sem síðan falla inn í heildarmyndina eftir nokkra mánuði. Það hefur því miður gætt hjá ýmsum hv. ræðumönnum, sem um þetta mál hafa rætt, óeðlilegar tilhneigingar, vil ég segja, til þess að gera þetta mál að flokkspólitísku bitbeini. Mér þykir það mjög miður farið, ef svo verður. Þessi mál öll eru svo erfið viðfangs og skoðanir manna svo skiptar um fjölmörg atriði af hagsmunaástæðum og ýmsum ástæðum, að það væri vissulega æskilegt, að hv. alþm. neituðu sér sem allra mest um þann munað að gera þetta mál, hvernig við eigum að hagnýta okkar fiskveiðilandhelgi sjálfir, að flokkspólitísku bitbeini. Málið er vissulega alveg nógu erfitt og vandasamt, þótt hv. alþm. neiti sér um þetta.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara langt út í ummæli einstakra hv. þm. í sambandi við það, að æskilegra hefði verið, að heildartill. lægju fyrir nú. Ég get játað, að það hefði að ýmsu leyti verið æskilegt að geta fjallað um heildartill. nú og lokið þessu vandasama verkefni. En það verður, hygg ég, að virða n. til vorkunnar, að þetta er býsna flókið mál. og það er ekki rétt í sambandi við svo margslungið mál og viðkvæmt að flýta sér of mikið. Hv. 5. landsk, þm., sem talaði hér í dag, hafði greinilega mikla tilhneigingu til þess að gera þetta atriði, að heildartill. liggja ekki fyrir, að sérstöku árásarefni á hæstv. ríkisstj. Ég verð að segja það, að þetta mál er að mínum dómi ekki flokkspólitískt mál. Þetta er ekki sérstaklega mál ríkisstj. Þetta hlýtur að vera sameiginlegt vandamál og viðfangsefni allra þm., eins og hefur raunar sýnt sig í því, að allir þingflokkar hafa tekið á sig þá ábyrgð að tilnefna menn í n. til þess að vinna að málinu. Eins og ég rakti í dag, hefur tekizt gott samstarf innan þessarar n., og þar ríkir, held ég, eindreginn vilji á því að leysa þetta vandasama mál svo vel sem nokkur kostur er.

Hv. 10. þm. Reykv., sem hélt hér alllanga ræðu í kvöld, kom víða við, og margt í hans ræðu var skynsamlega athugað og mælt af fullum skilningi á málinu, þó að svo væri annað, sem e.t.v. hefur ekki verið alveg eins djúpt hugsað. En það kom þó mjög glöggt fram í ræðu hans, að hann gerði sér ljóst, að þetta mál er erfitt og vandasamt, og ég vil sízt draga úr því, að svo sé. Ég ætla mér ekki þá dul, að fiskveiðilaganefnd, þó að hún hefði jafnvel enn þá lengri tíma en er til stefnu, eftir að hún hefur sett sér það mark að ljúka störfum á þessum vetri, geti leyst þessi mál og skipað fiskveiðum innan hinnar nýju, útvíkkuðu landhelgi í eitt skipti fyrir öll þannig, að ekkert megi þar betur fara. Ég geri ráð fyrir, þó að hún ljúki störfum og Alþ. fjalli þar um, semji og komi á löggjöf um þessi mál í vor, sem ég vona, að verði að endurskoðun þessara mála haldi áfram og verði jafnvel að einhverju leyti stöðug fyrsta kastið, meðan við erum að fá reynslu af þeim löggjafaratriðum, sem væntanlega verða sett.

Ég vil að lokum aðeins víkja örfáum orðum að brtt. þeirri, sem hv. 3. þm. Sunnl. og hv. 10. þm. Reykv. flytja á þskj. 185. Sérstaklega vil ég víkja að þeim lið till., sem miklu veigameiri er, þ.e.a.s. hinni tiltölulega miklu friðunartill. í sambandi við Norðausturlandið. Ég held, að það hafi komið fram í ræðu minni hér í dag, að fiskveiðilaganefnd hefur ekki tekið efnislega afstöðu til þessarar till. og margra annarra till. í friðunarátt, sem þar hafa verið ræddar. Hins vegar var meiri hl. n. og er þeirrar skoðunar, að ekki sé rétt á þessu stigi máls, þegar um bráðabirgðaráðstafanir er að ræða, að taka út úr einstök atriði, eitt eða tvö atriði, og lögfesta þau, þar sem mörg fleiri atriði, sem hníga í friðunarátt, eru áfram til athugunar í n. Alveg sérstaklega vil ég vara við því að gera þetta, þar sem svo stendur á, að enn hefur n. ekki gefizt tóm til að ræða þessar till. og aðrar við þm. og heimamenn í því kjördæmi, sem hér á alveg sérstakan hlut að máli. Með þetta allt í huga, hefði ég þess vegna talið mjög æskilegt, að hv. flm. hefðu séð sér fært að draga þessa till. til baka og láta hana bíða heildarmeðferðar málsins. En sé þess ekki kostur, og mér skilst, að svo sé ekki, tel ég eftir atvikum ekki rétt að samþykkja hana í sambandi við þessar bráðabirgðabreytingar, sem nú verða gerðar, heldur verði afstaða tekin til hennar síðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til. nema frekara tilefni gefist, að fjölyrða um þetta mál að svo komnu. En ég vil að síðustu láta í ljós þá von, að Alþ. megi í sameiningu takast að leysa þessi vandasömu mál á þann hátt, sem þjóðinni er fyrir beztu.