19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en ég vildi aðeins segja hér örfá orð um það mál. sem hér er til umr.

Það þarf raunar engan að undra, þótt fram komi ýmsar hugmyndir hér á Alþ., þegar rætt er um svo stórvægilegt mál sem hér er til umr. nú. Það þarf raunar engan að undra, þó að fram komi nú eins og áður ýmsar raddir um aukna friðun innan fiskveiðilögsögunnar. Ég get fullvissað hv. alþm. um það, að við, sem í fiskveiðilaganefnd sitjum, erum ekkert síður friðunarmenn en hver og einn, að ég hygg, af öðrum hv, þm., sem hér hafa talað í kvöld. Eftir að hafa kynnzt þessum málum, eins og ég hef gert með því að eiga sæti í þessari n., hygg ég, að þarna sé um að ræða svo stórt verkefni og vandasamt, að það sé vart til þess að ætlast, að þn. geti lokið starfi við að semja og koma saman drögum að frv. um veiðar og hagnýtingu fiskstofna innan íslenzku fiskveiðilögsögunnar á tveimur mánuðum. Ég held, að það sé til of mikils mælzt, þótt ég voni a.m.k., að hv. þm. telji, að af þeim, sem í þessari n. eiga sæti, sé alls góðs að vænta í þeim efnum.

Ég ætlaði ekki að ræða þetta mál hér. Ég held, að við, sem 3 þessari n. sitjum, höfum lagt okkur fram um það, eins og mál standa í dag, að reyna eftir megni að koma málinu hér inn í þingið á þann hátt, sem flestir hv. þm. gætu sætt sig við, þó svo að hver og einn þm. hefði sjálfsagt viljað flytja ekki hara eina, heldur margar till. kannske í átt til aukinnar friðunar innan landhelginnar.

Það, sem kom mér raunar fyrst og fremst til að standa hér upp, voru ummæli hv. þm. Gunnars Thoroddsens, sem hann hafði í ræðu sinni um Hafrannsóknastofnunina. Hann las upp úr till., sem ég hygg, að hafi verið sendar sem vinnuplögg til fiskveiðilaganefndar, og ég hef ekkert við það að athuga. Mér sem leikmanni hefur þótt, að þeir fiskifræðingar væru orðnir miklu meira friðunarlega sinnaðir en þeir hafa áður verið. Mér sýnist þetta sem leikmanni, en ég fullyrði þó ekkert. En varðandi þessar till., sem Hafrannsóknastofnunin sendi, vil ég aðeins láta það koma fram, að við litum svo á í fiskveiðilaganefnd, að þarna væri um að ræða till. stofnunarinnar í heild. Það kom síðar á daginn, að stjórn þessarar stofnunar lét frá sér heyra og kannaðist ekki við að hafa fjallað um þessar till. Hún lýsti sig í meginatriðum andvíga þeim till., sem Hafrannsóknastofnunin sendi til fiskveiðilaganefndar, þannig að þau plögg, sem við höfðum undir höndum frá Hafrannsóknastofnuninni, voru ekki plögg þeirrar stofnunar eða a.m.k. ekki þeirrar stjórnar, sem veitir þeirri stofnun forstöðu. Sú stjórn hefur tjáð sig í meginatriðum andvíga beim till., sem fram hafa komið frá Hafrannsóknastofnuninni, og verður að líta svo á, að þær till. séu frá einstökum starfsmönnum stofnunarinnar, en ekki stofnuninni í heild. Ég taldi rétt, að þetta kæmi hér fram, því að mér fannst, þegar þetta upplýstist, að þarna væri um heldur undarleg vinnubrögð að ræða. Ég hef ekki tekið þetta upp hér að fyrra bragði, en vegna þess að vitnað var í þessi plögg, taldi ég eðlilegt, að hið rétta í þessu máli kæmi fram.

Ég skal svo ekki lengja umr. frekar, en ég vænti þess, að hv. þm. stilli a.m.k. í hóf tillöguflutningi umfram það, sem nú þegar er komið. Eins og ég sagði áðan, — og ég mæli þar fyrir mig persónulega, — hefði ég gjarnan viljað flytja till. í átt til aukinnar friðunar umfram það, sem fiskveiðilaganefndin og nú sjútvn. þessarar d. hefur flutt. Ég hefði gjarnan viljað koma með ýmsar aðrar breytingar. En ég sé ekki, að á þessu stigi máls verði það á neinn hátt þessu máli til framdráttar. Frv. verður að fá afgreiðslu fyrir áramót, og með því gefst þeirri n., sem um málið hefur fjallað, næði til að geta skilað, sennilega seinni hluta febrúar eða í byrjun marz, vonandi í formi heildarfrv., till. um heildarskipun á fiskveiðum og hagnýtingu fiskveiðilögsögunnar innan 50 mílna.