19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal vissulega ekki misnota það, að forseti gaf mér hér tækifæri til þess að gera stutta aths., en ég taldi mig þurfa að leiðrétta það, sem hæstv. sjútvrh. sagði, að till. mín og hv. 10. þm. Reykv. hafi verið sýndartill. Ég hélt, að hæstv, ráðh. vissi betur. Ég held, að ég fari rétt með, að ég sé eini þm., sem nú á sæti hér á Alþ., sem áður hefur flutt till. um verndun hrygningarsvæða á svæðinu milli Vestmannaeyja og Reykjaness. Ég gerði þetta á árinu 1961 eða 1962 í framhaldi af erindi, sem skipstjórnarmenn og útgerðarmenn í Vestmannaeyjum sendu á árinu 1957 til þáv. sjútvrh., sem einmitt var núv. hæstv. sjútvrh., en hann sá sér þá ekki fært að verða við þeim tilmælum. Ég tók þessa till. þeirra Vestmannaeyinga upp, sem miðaði að því að friða veiðisvæði, sem þeir einir stunduðu þá veiðar á. Það var ekki um að ræða, að aðrir bátar stunduðu þar veiðar. Þeir vildu friða svæði í námunda við Vestmannaeyjar. Þessi till. mín frá árinu 1961 eða 1962 náði þá ekki fram að ganga, og var það vegna bréfs, sem þá kom frá atvinnudeild háskólans, fiskideild, eins og hún var kölluð þá, frá þáv. fiskifræðingum, þannig að það verður ekki með neinum rétti sagt um mig, að þetta sé nein sýndartill. Þetta er framhald af þeim till. sem ég hef áður flutt hér á Alþ. varðandi friðun hrygningarsvæða fyrir Suðvesturlandi.

Ég skal ekkert fara að munnhöggvast hér við hæstv. ráðh. um, að það sé einhver óróleiki í okkur sjálfstæðismönnum í sambandi við landhelgismálið. Það er síður en svo. Ég tel að það mál sé, eins og ég sagði áðan, að komast í höfn á bann veg, sem sjálfstæðismenn lögðu til í till. sinni á s.l. hausti. En ég vil skjóta því að hæstv. ráðh. að lokum, að sá glans, sem kann að hafa verið yfir honum fyrst eftir útfærslu landhelginnar, er mjög farinn að dofna og er að mínum dómi mikið að hverfa af hæstv. ráðh. í sambandi við afstöðu hans og framkomu í landhelgismálinu.