12.10.1972
Sameinað þing: 2. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í hádegisútvarpi var birt um það tilkynning frá verðlagsstjóra, að neyzlufiskur hefði hækkað í verði. Þorskur, slægður með haus, hefur hækkað úr 35.50 kr. upp í 40 kr. eða um 12.7%, þorskflök hafa hækkað úr 63 kr. í 70.50 kr. eða um 11.9%, ýsa, ný og slægð, hefur hækkað úr 44 kr. í 47 kr. eða um 6.8%, og ýsuflök hafa hækkað úr 72 kr. í 82.50 kr. eða um 7.1%. Þessi hækkun á ýsu og þorski mun svara til því sem næst 0.1 stigs í kaupgreiðsluvísitölu, en það er augljóst og gefur reyndar auga leið, að annar neyzlufiskur mun hækka í kjölfar þessa, annar en sá, sem nú var nefndur, og sömuleiðis unnar fiskvörur, og mun það valda annarri eins hækkun á kaupgjaldsvísitölu, þannig að sú fiskverðshækkun, sem tilkynnt var í hádeginu í dag, mun hækka kaupgjaldsvísitölu um 0.2 stig eða því sem næst.

Nú þarf ekki að minna hæstv. ríkisstj. og þingheim á það, að í gildi er, að nafninu til a.m.k., verðstöðvun. Slík hækkun á einni algengustu neyzluvöru almennings, sem nú hefur verið auglýst fyrir nokkrum klukkustundum, er auðvitað ekki í samræmi við slíka verðstöðvun. þess vegna leyfi ég mér að beina einföldum fsp. til hæstv. ríkisstj.

Það hlýtur að hafa verið öllum, bæði hæstv. ríkisstj. og öðrum, ljóst, síðan verðlagsráð sjávarútvegsins hækkaði verð á fiski til fiskseljenda nú fyrir nokkrum dögum, að það hlyti að koma til hækkunar á neyzlufiski á markaði fyrir neytendur, ef ekki yrði gripið til sérstakra ráðstafana. Þess vegna var að því vikið í blaðaskrifum í samhandi við fiskverðshækkunina til fiskseljenda, að eitt af þrennu kæmi til mála, þ.e.a.s. að fiskverðshækkunin yrði látin koma til framkvæmda og valda þar með hækkun á framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu. Í öðru lagi, að fiskverðshækkunin yrði greidd niður, þannig að verðstöðvun yrði ekki rofin, eða í þriðja lagi, vegna erfiðleika á niðurgreiðslu á fiski, að aðrar vörutegundir yrðu greiddar niður, þannig að kaupgjaldsvísitalan hækkaði ekki vegna hækkunarinnar á neyzlufiski.

Þessa möguleika hlýtur ríkisstj. að hafa haft til athugunar undanfarna daga, og ég geri ráð fyrir því, að hún hafi tekið afstöðu til þessa máls. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: ætlast hún til þess, að þessi fiskverðshækkun standi, þannig að kaupgjaldsvísitala hækki, án þess að kaupgjald hækki? Eða hefur hún ákveðið að greiða þessa fiskverðshækkun niður? Eða í þriðja lagi: Hefur hún ákveðið að greiða niður aðrar vörur, þannig að fiskverðshækkunin valdi ekki hækkun á kaupgjaldsvísitölunni? Fyrir fjórða möguleikanum vil ég ekki gera ráð, að ríkisstj. hafi enga ákvörðun tekið um málið, áður en verðlagsstjóri tilkynnti þessa hækkun. Henni hlýtur að hafa verið kunnugt um ákvarðanir verðlagsnefndar í þessu máli.