19.12.1972
Efri deild: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, að við höfum fullan hug á því að sýna hæstv. ríkisstj. þann skilning í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að ekki verði óeðlileg töf á afgreiðslu þess. Þó verður að taka fram, að nú er orðið áliðið annars dags, þegar við hefjum umr. hér í hv. Ed. En við skulum vona það bezta, og vilyrði eru fyrir hendi, eins og hæstv. forsrh. tók fram, þótt ekki væri þar um hrein eða hein loforð að ræða, og verður það að ráðast af þeim orðaskiptum, sem hér eiga sér stað í kvöld.

Hæstv. forsrh. hóf mál sitt með því að taka fram, að gengislækkun væri ekkert bannorð af hálfu Framsfl. og framsóknarmanna, þeir hefðu oft staðið að slíkum aðgerðum í efnahagslífi landsmanna. Þetta er alveg rétt. Það er t.d. alveg sérstaklega minnisstæð afstaða þeirra og þátttaka í slíkum aðgerðum í þinginu 1949–1950, þegar þeir fluttu vantraust á ríkisstj. sjálfstæðismanna fyrir að bera fram till. til gengisbreytingar til þess einmitt að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna, en mynduðu síðan stjórn með sjálfstæðismönnum í kjölfarið til þess að tryggja slíkri gengisbreytingu framgang, þannig að ég held því engan veginn fram, að það sé neitt bannorð af hálfu framsóknarmanna, að þeir taki þátt í gengisbreytingu eða gengislækkun. Hins vegar var annað hljóðið í hæstv. forsrh. fyrir síðustu kosningar, fyrir kosningarnar 1971. Þá var það bannorð að hans áliti, að um gengisbreytingu gæti verið að ræða sem tæki til að tryggja rekstrargrundvöll atvinuveganna. Þá fór hann um landið og boðaði, að til slíkra aðgerða mundi aldrei koma, ef kjósendur treystu honum fyrir stjórnvölnum. Það var að vísu svo, að hann eða hans flokkur fékk ekki neina traustsyfirlýsingu í kosningunum vorið 1971, en þrátt fyrir það að þeir töpuðu fylgi, varð það úr, að hæstv. núv. forsrh., Ólafi Jóhannessyni, var falin stjórnarforusta og mynduð var svokölluð núverandi vinstri stjórn. Og þótt oddviti þeirrar núv. vinstri stjórnar segi nú, að gengisbreyting eða gengislækkun hafi ekki verið neitt bannorð í hugum eða munni Framsóknar, var það bannorð í málefnasamningi núv. hæstv. ríkisstj. Í málefnasamningi núv. hæstv. ríkisstj. stendur orðrétt, með leyfi forseta:

Ríkisstj. mun ekki heita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum, en halda áfram verðstöðvun, þar til nýjar ráðstafanir til að hamla gegn óeðlilegri verðlagsþróun verða gerðar.

Og nú er spurningin: Hverjar eru þær aðrar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem ríkisstj. hefur gripið til, aðrar ráðstafanir en hin svokallaða verðstöðvun, aðrar ráðstafanir en þær till. til gengisbreytingar, til gengislækkunar, sem hér er til umr.? Svarið er auðvitað öllum augljóst og liggur opið fyrir. Þetta er í raun og veru fyrsta till. núv. hæstv. ríkisstj. til lausnar á efnahagsvanda. Fyrsta ráðið, sem núv. hæstv. ríkisstj grípur til, er gengislækkun, þvert ofan í það, sem segir í málefnasamningi stjórnarflokkana. Þetta eitt út af fyrir sig er fullkomin ástæða til þess, að núv. hæstv. forsrh. og núv. hæstv. ríkisstj. á að segja af sér, og það á að vera algerlega þarflaust að bera fram vantraust á ríkisstj. og krefjast þingrofs og nýrra kosninga. En úr því að núv. hæstv. forsrh. hefur ekki sómatilfinningu til þess að standa við málefnasamning stjórnar sinnar verður stjórnarandstaðan að bera slíka till. fram.

Það skal rakið hér, að það fyrsta, sem ríkisstj. gerði, var að framlengja þá verðstöðvun, sem fyrrv. ríkisstj. hafði forgöngu um, að samþ. var í nóv. 1970. Verðstöðvunin var framlengd í júlí 1971 til áramóta með ákveðnum breytingum. Um þetta leyti í fyrra sátu menn líka á rökstólum, og þá má segja, að verðstöðvunin hafi í orði kveðnu, a.m.k. í orði kveðnu, — verið framlengd um óákveðinn tíma. A.m.k. var það túlkun stjórnarsinna á þeim aðgerðum, sem þá voru gerðar í skyndingu um nokkrar breytingar með lagafrv., sem þá voru til meðferðar síðustu dagana fyrir jól. Það breytir ekki því, að auðvitað þurfti núv. stjórn að samþykkja ýmsar verðhækkanir eðli málsins samkv. vegna þeirra tilkostnaðarhækkana, sem hún sjálf hafði átt mestan þátt í að stofna til. En það dugði ekki til, heldur var talið nauðsynlegt og rétt í júlí s.l. að bera fram eða gefa út sérstök brbl. um tímabundna verðstöðvun, og þau brbl. hafa verið hér til 1. umr., en eru óútrædd enn sem komið er. Að öðru leyti hefur ríkisstj. ekki ráðizt gegn efnahagsvanda. Þess vegna liggur alveg ljóst fyrir, að ríkisstj. er nú að gera sínar fyrstu ráðstafanir til lausnar efnahagsvanda, og sú lausn er gengislækkun. En í málefnasamningnum stendur: „Ríkisstj. mun ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum.“

Ef hæstv. forsrh. vill halda því fram, að þetta sé ekki að ganga á bak orða sinna, má að vissu leyti til sanns vegar færa, að hann geti afsakað sig með því, að við viðskilnað fyrrv. ríkisstj. hafi ekki verið við neinn efnahagsvanda að glíma, og það er út af fyrir sig alveg rétt. Sá efnahagsvandi var a.m.k. ekki slíkur, að orð væri á gerandi. En hitt stendur óhaggað, að kosningaloforðin af hálfu núv. stjórnarfl. fyrir kosningar 1971 um, að gengislækkunarleið kæmi ekki til greina til lausnar efnahagsvanda, hafa verið svikin. Málefnasamningur núv. stjórnarflokka hefur verið svikinn.

Hæstv. forsrh. gaf þá skýringu í sjónvarpinu í gær, að það hefði verið ákveðinn vandi eða arfur frá fyrrv. ríkisstj., hún hefði verið búin að stofna til útgjalda, en ekki séð fyrir tekjum til að mæta þeim. Þetta er alvarleg ásökun, ábyrgðarleysi, ef satt væri, af hálfu fyrrv. ríkisstj., ef hún hefði stofnað til útgjalda, en ekki séð fyrir tekjum til að mæta þeim. Ef þetta hefði verið rétt, hver hefðu þá verið eðlileg viðbrögð viðtakandi stjórnar? Hver hefðu verið eðlileg viðbrögð þeirrar stjórnar, sem vildi sýna ábyrgðartilfinningu og bæta úr skák? Auðvitað að sjá fyrir tekjum eða skera niður útgjöld. En hæstv. ríkisstj. gerði hvorugt. Eftir að hún tók við völdum, gerði hún þvert á móti það að auka á útgjöldin og flýta greiðslu þeirra útgjalda, sem ákveðin höfðu verið í lögum að hálfu fyrrv. ríkisstj. Og hún gerði ekki nokkra tilraun til að afla tekna til þeirra a.m.k. ekki svo að heitið geti. Við munum öll, að greiðslur tryggingabótanna, sem áttu að taka gildi 1. jan. s.l., var flýtt, um örfáa mánuði að vísu. Við munum enn fremur, að það var talið alveg nauðsynlegt að greiða niður 1.3 vísitölustig úr ríkissjóði vegna þeirrar hækkunar tóhaks og áfengis og almannatryggingagjalda, sem fyrrv. ríkisstj. hafði ákveðið í sambandi við verstöðvunina frá því í nóv. 1970. Þá þótti það árás á launþega að láta það ekki koma fram í kaupgreiðsluvísitölunni, að tóbak og áfengi og almannatryggingagjaldið hækkaði. Voru höfð stór orð um það hér í þinginu. Hvað höfum við heyrt síðan? Að það sé hrein vitleysa, ábyrgðarleysi, að láta hækkun verðs á tóbaki og áfengi hafa áhrif á kaupgjaldsvísitöluna. Við höfum líka heyrt það af hálfu hæstv. núv. forsrh., að það sé algert ábyrgðarleysi, að óbeinir skattar hafi áhrif á kaupgjaldsvísitölu, og við höfum reynt það af núv. hæstv. ríkisstj., að hún breytti almannatryggingagjöldunum, sem höfðu áhrif á kaupgreiðsluvísitölu, í beina skatta til þess að losna við það, að kaupgreiðsluvísitalan hækkaði af þeim sökum. Það getur vel verið, að það sé nokkuð vinnandi til þess, að menn gangi í þann skóla að sitja í ráðherrastólunum, þótt ekki sé nema nokkra mánuði. En það er alldýr skóli fyrir þjóðina að kenna hæstv. núv. ráðh. staðreyndir efnahagslífsins og hvernig haga beri aðgerðum.

Það má og minna á það, — ég hygg, að ég fari með rétt mál, — að núv. hæstv. ríkisstj. hafði í umframtekjur töluvert á annan milljarð kr. á árinu 1971, miðað við það, sem fjárlög gerðu þá ráð fyrir. En það var ekki nægilegt til að standa undir eyðslustefnu hennar, heldur skilaði hún ríkisbúskapnum þannig, að á honum var halli, sem nam um það bil 400 millj. kr., gagnstætt jafnmiklum hagstæðum greiðsluafgangi árið áður í tíð viðreisnarstjórnar. Á þessar staðreyndir er alveg nauðsynlegt að minna, þegar hæstv. núv. forsrh. er að ræða um nauðsyn á neyðarráðstöfunum, því að hann hefur æ ofan í æ sagt, að gengislækkun væri neyðarráðstöfun. Hitt er auðvitað rétt hjá hæstv. forsrh., að miklu máli skiptir, hvernig staða atvinnuveganna er. Hann mat stöðu atvinnuveganna þannig, þegar hann tók við völdum á miðju ári 1971, eftir að þá hafði átt sér stað 20% kaupmáttaraukning í þjóðfélaginu á 18 mánuðum þar á undan, eða frá ársbyrjun 1970, að það væri óhætt að stytta vinnuvikuna, lengja orlof, það væri óhætt að hækka fiskverðið og það væri óhætt að lofa til viðbótar öllu þessu 20% kaupmáttaraukningu á fyrsta tveggja ára valdatímabili núv. hæstv. stjórnar. Það var auðvitað, að kaupgjaldssamningarnir, sem gerðir voru í des. á síðasta ári, voru gerðir á grundvelli þessa mats sjálfs hæstv. forsrh. lýðveldisins Íslands. Menn skyldu halda, að það væri áreiðanleg heimild, sem þar væri um að ræða, um stöðu atvinnuveganna í þjóðfélaginu. Og ég verð að segja það aðilum vinnumarkaðarins til afsökunar, að það væri ekki að furða, þótt þeir kaupgjaldssamningar, sem þá áttu sér stað, hefðu þau úrslit, sem raun ber vitni um. En þeir ásamt með aðgerðum ríkisstj. sjálfrar hafa gert það að verkum, að launakostnaður í hraðfrystiiðnaði landsmanna er 35–40% hærri í nóv. 1972 en í nóv. 1971. Hér er um veigamikla ástæðu að ræða fyrir þeim aðgerðum, sem núv. hæstv. ríkisstj. sér sig tilneydda að gera. Þetta játaði hæstv. forsrh. í orðum sínum áðan. Hann játaði, að hann hefði vanmetið eða mismetið aðstöðu atvinnuveganna og hvað óhætt hefði verið að lofa í málefnasamningnum. Hér er á ferðinni enn ein ástæðan til þess, að núv. ríkisstj. er vantrausts verð.

Það hefur verið sagt, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi tryggt 13% kaupmáttaraukningu til handa launþegum landsins, frá því að hún tók við völdum, og á því má skilja, að það sé stutt í það að efna loforðið um 20% kaupmáttaraukningu á fyrstu tveim valdaárunum. En hvernig er kaupmáttaraukning núv. hæstv. ríkisstj. fengin, og hvernig var 20% kaupmáttaraukning fyrrv. hæstv. ríkisstj. fengin á síðast einu og hálfa valdaári hennar? Fyrrv. ríkisstj. tókst að ná þeim árangri, að 20% kaupmáttaraukning varð, um leið og hagkvæmur viðskiptajöfnuður var á viðskiptunum við útlönd og á sama tíma og greiðsluafgangur var hjá ríkissjóði. Á bak við þá kaupmáttaraukningu stóð verðmætasköpun í þjóðfélaginu, framleiðsluaukning, sem með ýmsum hætti gerði þá kaupmáttaraukningu varanlega.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur náð 13% kaupmáttaraukningu með þeim hætti að stofna til halla á viðskiptunum við útlönd, 4000 millj. kr. halla á síðasta ári og a.m.k. jafnmiklum halla á þessu ári. Hún hefur náð henni með því að eyða af sjóðum, sem til voru á árum viðreisnarstjórnarinnar, og hún hefur náð henni með því að að stofna til halla í ríkisbúskapnum sjálfum, nær 400 millj. kr. halla á síðasta ári og væntanlega jafnmiklum halla í ríkísbúskapnum á yfirstandandi ári. Þessi kaupmáttaraukning er þess vegna fölsk kaupmáttaraukning, sem byggist á því að lifa um efni fram, byggist á því að stofna til skulda erlendis. Hún er lík því, að einstaklingurinn geri sér það dæmi upp eða telji sér trú um, að hann hafi meira úr að spila, af því að hann hefur fengið lán, sem hann þarf auðvitað síðar að greiða.

Ef við lítum á þessar staðreyndir og ef við lítum á þá staðreynd, sem ég dreg ekki í efa, að hæstv. forsrh. fer rétt með, að án aðgerða mundu atvinnuvegir landsmanna stöðvast, þá er auðvitað úr vöndu að ráða, hvað til bragðs skuli taka. Við tókum eftir því, að á miðju þessu ári voru gefin út brbl., sem ég gat um hér áðan. Þessi brbl. hétu „brbl. um tímabundna verðstöðvun,“ og um leið og þau voru sett, var boðað, að nú þyrfti að fara að hugsa fyrir varanlegri úrræðum, og ég endurtek: varanlegri úrræðum í efnahagsmálum. Og það er fróðlegt að kanna, hvað varð að ráði á því stigi málsins, — ekki að ríkisstj. gerði sjálf till. um ráðstafanir, heldur að sérstök valkostanefnd efnahagssérfræðinga settist á rökstólana. Sú n. hefur starfað frá því í júlí og fram til nóvemberloka, að því er ég hygg, og til marks um það, hve vandinn er mikill, má nefna þær leiðir, sem til vals komu.

Það var í fyrsta lagi millifærsluleið, sem fól í sér 7% söluskattshækkun, lækkun kaupgreiðsluvísitölu um 2 stig, lækkun opinberra útgjalda og útlán um 1600–1700 millj. kr. Það var í öðru lagi svokölluð niðurfærsluleið, sem fól í sér lækkun kaupgreiðsluvísitölu um 5 stig, söluskattshækkun um 3%, fjáraukagjald að upphæð 8%, þ.e.a.s. gjald á fjárfestingarvörur og ýmiss konar svokallaðar lúxusvörur, þ.e. heimilistæki, sem öllum er nauðsyn að hafa á heimilum sínum, lækkun opinberra útgjalda og útlána að upphæð 1600–1700 millj. kr. Og það var í þriðja lagi gengislækkun, 12%, lækkun kaupgreiðsluvísitölu um 2 stig, söluskattshækkun um 1%, lækkun opinberra útgjalda og útlána að upphæð 1300–1400 millj kr. En öllum þessum leiðum fylgdu þrjú skilyrði. Þau þrjú skilyrði, sem raunar koma fram í því, sem ég taldi fram, að því er snertir hverja leið fyrir sig, að nokkru leyti, voru fólgin í því, að takmarka þurfti launabreytingar, sem sennilega væri einfaldast að gera í öllum tilvikum með því að setja kaupgreiðsluvísitölunni ákveðin, tímasett mörk, mismunandi eftir því, hvaða leið yrði valin, þ.e.a.s. taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi að meira eða minna leyti. Það var í öðru lagi að lækka opinber útgjaldaáform, bæði til framkvæmda og samneyzlu. Og það var í þriðja lagi að lækka útlánaáform fjárfestingarlánasjóða með því að takmarka fjáröflun til þeirra. Það gengur í gegnum álit þessarar valkostanefndar og sérfræðinganefndar eins og rauður þráður, að engin þessara leiða nái tilgangi sínum, nema þetta fylgi með. Annars sé ekki um varanleg úrræði að ræða.

Ég skal engan dóm á það leggja, hvort þetta er rétt hjá sérfræðinganefndinni eða ekki, á þessu stigi málsins. En ég vil rekja málið enn frekar.

Þegar þessi n. hefur haft málið til meðferðar í nokkra mánuði, — án þess að hafa samráð við hæstv. ríkisstj., að því er hæstv. forsrh. hefur talið þingheimi og landsmönnum trú um, sem sýnir ábyrgðarleysi hæstv. ríkisstj. um framvindu mála, — þá setjast stjórnarflokkarnir niður, ekki ríkisstj. sem ein heild til þess að stjórna málum landsmanna og velja þann valkostinn, sem beztur þætti og eðlilegastur til úrlausnar vandanum, — heldur fer hver í sitt horn, og þá verður útkoman sú, að þrjár leiðir er um að velja, eina leið frá hverjum stjórnarflokkanna.

Það er í fyrsta lagi leið, sem ég hygg vera „Framsóknarleiðina,“ þ.e. hækkun söluskatts um 5%, hækkun áfengisverðs um 30%, hækkun tóbaksverðs um 20%, hækkun benzíngjalds og þungaskatts um 20%, útvíkkun söluskatts til flugfarmiða til útlanda og ýmiss konar þjónustu, sérstök hækkun söluskatts í kaupum við launþega um lækkun tekjuskatts, nokkur lækkun rekstrarútgjalda og framkvæmda ríkisins, útlána fjárfestingarsjóða, en þó mun minni heldur en sérfræðinganefndin gerði ráð fyrir.

Þá er það leið kommúnista. Það er hækkun söluskatts um 1%, áfengis um 30% og tóbaks um 20%, hækkun benzíngjalds og þungaskatts um 20%, útvíkkun söluskatts til flugfarmiða til útlanda og ýmiss konar þjónustu, eins og hjá framsóknarmönnum, og með sama hætti tilfærsla á söluskatti og tekjuskatti og að litlu leyti líka lækkun rekstrarútgjalda ríkisins og niðurskurður framkvæmda ríkisins og útlána fjárfestingarsjóða.

Það er síðast till. SF um 16% gengislækkun í stað hækkunar söluskatts, miðað við hinar leiðirnar, hækkun áfengisverðs, eins og í hinum leiðunum, hækkun tóbaksverðs um 25% í stað 20% hjá hinum flokkunum, hækkun benzíngjalds og þungaskatts eins og hjá hinum flokkunum, söluskatts á flugfarmiða eins og hjá hinum flokkunum og tilfærsla á milli söluskatts og tekjuskatts eins og hjá hinum flokkunum og annað líkt og þar stendur.

Sameiginlegt þessum leiðum öllum er, að niðurgreiðslum skyldi halda í sömu upphæð og tímabundin verðstöðvun gerði ráð fyrir, að fjár væri vant til á ársgrundvelli, en að öðru leyti skyldi kaupgreiðsluvísitalan halda áfram að verka.

Nú skulum við athuga, hver framvindan varð. Jú, hún varð sú, að það varð engin þessara leiða ofan á. Það var tekin enn ein leið. Það var að vísu mjög í anda þeirrar leiðar, sem SF vildu fara, en í stað 16% gengislækkunar var farið í um 11% gengislækkun, og ýmsar þær hliðarráðstafanir, sem þarna er um að ræða hafa a.m.k. enn ekki séð dagsins ljós. Látum það gott heita. Öll viljum við sleppa með sem minnsta gengislækkun út af fyrir sig, ef það er mat hæstv. ríkisstj., að hún sé nægileg fyrir atvinnuvegina, en það kvað hæstv. forsrh. áðan meginviðmiðun þeirra aðgerða, sem nú væru gerðar. Hvað er nú sagt um það, hvaða áhrif 16% gengislækkun hafi á hag sjávarútvegsins? Hagrannsóknadeildin kveður upp þann dóm, að þá vanti sjávarútveginn 100 millj. kr. Ef það má beita hlutfallareikningi eða þríliðureikningi, sem ég veit, að er að vísu vafasamt, en er þó ekki fjarri sanni, þá lítur dæmið þannig út, að sjávarútveginn skorti með 11% gengislækkun líklega milli 450 millj. og 500 millj. kr. til þess að bera sig og vera við þau afkomumörk, sem talin eru þolanleg fyrir þennan höfuðatvinnuveg þjóðarinnar.

Það er von, að hæstv. forsrh. tali varlega um, hve varanlegar þessar ráðstafanir séu. Það er von, að hann geri sér ekki bjartari vonir en svo, að þetta slampist út vetrarvertíðina. En meira er til að taka. Við erum að byggja upp útflutningsiðnað í landinu, og það er enginn vafi á því, að gengisbreytingaleiðin er uppbyggingu slíks útflutningsiðnaðar hagkvæmari leið en millifærsluleið eða niðurgreiðsluleið svokölluð. En það stendur í járnum með 16% gengislækkun samkv. mati hagrannsóknardeildar Framkvæmdastofnunarinnar, að sú gengislækkun dugi. Og hvað þá um tæplega 11% gengislækkun? Til viðbótar kemur svo það, að heimamarkaðsiðnaðurinn er rekinn með stórkostlegum halla og skortir mjög á, að hann beri sig, og hvað þarf þá, til þess að hann beri sig? Það þarf að hækka framleiðsluvörur hans. Þær verða dýrari í útsölu, og það hefur áhrif á framfærsluvísitöluna og kaupgreiðsluvísitöluna, sem aftur á móti gerir það að verkum, að hagur sjávarútvegsins verður verri, þegar til lengdar lætur. Ef á að vera nokkur heil brú í þessum aðgerðum, sem núv. hæstv. ríkisstj. er að gera, felst hún í því, að gengislækkunin eykur tekjur sjávarútvegsins eða útflutningsiðnaðarins strax, en þær bætur, sem launþegum eru ætlaðar og núv. hæstv. stjórnarflokkar státa sig af, að greini þessa gengislækkun frá öðrum gengislækkunum, vegna þess að kaupgreiðsluvísitalan haldi áfram að telja hærra kaup launþegum til handa, sú kaupgreiðsluvísitala kemur í gildi töluvert seinna, og á þessu millibili, frá því að útflutningsatvinnuvegirnir fá sínar tekjur og þangað til launþegar fá sínar bætur, þá flýtur meðan ekki sekkur.

Hér er tjaldað til einnar nætur. Þótt ég sé þeirrar skoðunar, að við verðum að horfast í augu við raunhafa gengisskráningu og að jafnvægi verði að vera á milli framboðs og eftirspurnar gjaldeyris með okkur Íslendingum, til þess að framleiðsluatvinnuvegirnir fáí þróazt og til þess að framleiðsluþáttunum í þjóðfélaginu, vinnu, fjármagni, vélum, sé beint að því, sem hagkvæmast er fyrir þjóðarheildina, þá verður gengisbreyting að eiga sér stað með þeim hætti, að hún veki traust manna, að hún sé varanaleg og skapi styrkan grundvöll, ekki eingöngu fyrir eina vetrarvertíð, sem stendur í 3–4 mánuði, heldur um lengri tíma.

Hér hefur verið sagt af hálfu hæstv. forsrh., að öðru máli sé að gegna um þessa gengisbreytingu en aðrar gengisbreytingar, sem við höfum reynt, íslendingar, og það er hverju orði sannara. Síðustu gengisbreytingar okkar 1967 og 1968 voru gerðar vegna gengisfalls pundsins, vegna verðlækkana okkar sjávarafurða á erlendum markaði og vegna aflabrests. Það voru utanaðkomandi áhrif, sem þar voru eingöngu að verki. Þessi gengisbreyting, sem nú befur verið tilkynnt, gerist þegar við njótum hæsta markaðsverðs sjávarafurða á erlendum vettvangi, sem við höfum nokkurn tíma notið, og þessi gengisbreyting á sér stað, meðan verðlag fer enn hækkandi. Aflamagn í heild sinni hefur ekki heldur minnkað, þótt samsetning aflans sé okkur óhagstæð. En þegar hvort tveggja er tekið í eina heild, aflamagnið og verðmætið, þá er útflutningsverðmætið hækkandi frá því árið áður, jafnvel um 10% eða meira. Undir slíkum kringumstæðum er gengislækkun framkvæmd af núv. hæstv. ríkisstj., sem sagði, að gengislækkun væri leið, sem aldrei kæmi til greina að fara, og lofaði kjósendum sínum því.

Það eru vissulega margar spurningar, sem vakna í sambandi við þessar aðgerðir, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur ráðizt í, og ég vil freista þess að bera þær fram. Ég segi þetta e.t.v. hikandi vegna slæmrar reynslu, sem ég hef haft af því að biðja um upplýsingar í sambandi við þessar aðgerðir.

Það hefur verið upplýst hér í hv. þd., að fjh: og viðskn. beggja þd. hafi starfað saman að meðferð þessa máls. Sú meðferð hefur átt sér stað á fundum nú í morgun. Á þeim fundum var beðið um upplýsingar. Bankastjórn Seðlabankans og forstjóri hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar gáfu þær upplýsingar, sem þeir höfðu tiltækar, á þeim fundi, en þær voru ekki fullnægjandi, a.m.k. ekki að dómi okkar, sem skipum minni hl. fjh: og viðskn. beggja d. við óskuðum þess vegna eftir að fá greinarbetri upplýsingar, og því var lofað, að ráðh. skyldu spurðir, hvort þær yrðu látnar í té. Ég skal játa, að það hefur e.t.v. tekið þann tíma, að hálfur dagur til viðbótar hefði farið í afgreiðslu þessa máls, ég efast um, að meiri tímatöf hefði orðið á því. Það var óskað eftir því, að ráðh. mættu á seinni fundi fjh.- og viðskn., eftir hádegið í dag. Þau skilaboð komu þá, að ráðh. hefðu ekki tíma til að koma og svara fsp. Fsp. skyldu bornar fram í umr. í þd. Með tilvísun til þessa ber ég fram þessar fsp.

Það er þá fyrst: Hver er ætlunin um meðferð þeirra 2.5 kaupgreiðslustiga, sem felld var niður greiðsla á í hinni tímabundnu verðstöðvun frá því í júlí í sumar, samkv. brbl? Samkv.- samkomulagi eða a.m.k. yfirlýsingu, sem launþegasamtökum var gefin, var því lofað, að þau kæmu til útborgunar um áramót, að kaupgreiðsluvísitalan hækkaði allavega um áramót, vegna þess að þá var upp unnið og meira til það hagræði; sem launþegar gátu haft af því, að fjölskyldubætur komu í sumar nokkru fyrr til útborgunar en unnt hefði verið samkv. útreikningi vísitölunnar að öðru leyti.

Ég vil í öðru lagi spyrja: Hvaða þróun er og verður á kaupgreiðsluvísitölunni í kjölfar þessara ráðstafana?

Ég vil í þriðja lagi spyrja: Að hve miklu leyti er þar tekið tillit til verðhækkunarþarfa heimamarkaðsiðnaðarins? Svo að ég nefni dæmi: ýmissa opinberra þjónustufyrirtækja, og vegna þess að mér hefur verið sagt, að inn í þessar umr. hafi í Nd. sérstaklega blandazt hækkunarþarfir fyrirtækja Reykjavíkurborgar, þá vil ég sérstaklega nefna þær þarfir á nafn og greina e.t.v. síðar frá þeim. En meginatriðið er að fá skýr svör, hver þróun kaupgreiðsluvísitölunnar verði á næsta ári.

Þá er spurningin: Hvaða aðrar ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera, ef þær eru nokkrar aðrar en fram hafa komið nú þegar í frv. á Alþ. í sambandi við þessa gengisbreytingu? Eru útreikningar fyrir hendi um afkomu sjávarútvegsins á næsta ári miðað við þessar ráðstafanir, og við hvaða fiskverð er þar miðað? Hvernig hyggst ríkisstj. ráða bót á þeim halla, sem er á tryggingarkerfi fiskiskipa og ekki hafa komið fram till. um, a.m.k. ekki svo að ég hafi fylgzt með?

Ég held, að rétt sé að fá fram svör við þessum spurningum. En ég leyfi mér að halda því fram, meðan aðrar upplýsingar koma ekki í dagsljósið, að þessar ráðstafanir, sem nú hafa séð dagsins ljós, séu engan veginn til þess fallnar að ráða bót á vanda atvinnuveganna. Það er ljóst, að áfram verður óhagstæður viðskiptajöfnuður við útlönd og áframhaldandi skuldasöfnun erlendis, sem þyngir afborgana- og vaxtabyrði okkar í framtíðinni og dregur mátt úr okkur til nýrra framkvæmda hér innanlands. Það er ljóst, að þessi óhagkvæmi viðskiptajöfnuður verður meiri en valkostanefndin taldi hámark þess, sem verða mætti. Og ég er hræddur um, að þótt látið sé í veðri vaka, að kaupgreiðsluvísitalan sé ekki tekin úr sambandi, þá muni þróun mála verða sú, að kaupmáttarbreytingin verði launþegum öllum óhagstæð og ríkisstj. verði fjarri því að ná því marki, sem hún setti sér um aukningu hans.

Það er vitaskuld nauðsynlegt að reyna að halda í skefjum kostnaðarhækkunum innanlands, en það fer þó ekki á milli mála, að það verður að horfast í augu við það vandamál, ef rétt er, sem valkostanefndin hefur bent á, að flutninga fyrirtæki landsmanna, skipafélögin og flugfélögin, séu rekin með hundruð millj. kr. halla. Það verður sömuleiðis að horfast í augu við hækkunarþarfir þjónustufyrirtækja, sem selja þjónustu sína á innlendum markaði og hafa orðið fyrir kostnaðarhækkunum, frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum, af ýmsum þeim ráðstöfunum, sem hún hefur sérstaklega hrósað sér af.

Að því er snertir verðhækkanaþarfir fyrirtækja Reykjavíkurborgar, vil ég aðeins segja það, að þær voru fullkomlega viðurkenndar á síðasta ári, annaðhvort með því að veita hækkunina eða veita leyfi til lántöku fyrir þeim mismun á fjárþörf, sem varð vegna þess, að hækkunin varð ekki slík sem um var beðíð. Sú lántaka var heimiluð erlendis og varð því miður til þess að auka á erlenda skuldasöfnun landsins þar og varð til þess að auka peningamagnið í umferð hér innan lands, auka spennuna í þjóðfélaginu og að því leyti dýrtíðina. Þarna var um nauðsynlega þjónustu að ræða, en það var farin röng leið til þess að leysa hana af höndum. Enn á ný eru áreiðanlega til staðar hækkunarþarfir, bæði hjá þessum fyrirtækjum og öðrum, og það er út af fyrir sig, enginn mannvonzka hjá stjórnendum Reykjavíkurborgar, sem fólgin er í því, að menn vilja fullnægja þeim þörfum, sem slík almenningsþjónustufyrirtæki eiga að inna af höndum. Við sjáum það af fordæmi og reynslu símans, sem er eingöngu ríkisfyrirtæki, hvað skeður, ef það fyrirtæki getur ekki fullnægt þörfum neytenda sinna. Hér í Reykjavík verða þúsundir manna í Breiðholti að bíða eftir síma mánuðum saman og jafnvel meir en ár vegna fjárskorts símans, eins og að honum hefur verið búíð, eftir að honum var gert að greiða söluskatt. Vegna þess að fram hefur komið, að þjónustugjöld fyrirtækja Reykjavíkurborgar hafi sérstaklega aukizt, meira en vísitölur í þjóðfélaginu, eins og vísitala vöru og þjónustu, þá vil ég aðeins láta það koma hér fram að gefnu tilefni ummæla, sem komu fram í Nd., að sá samanburður er er þessi: Miðað við 1959 og vísitölu vöru og þjónustu 100 þá, er vísitala vöru og þjónustu 1972 orðin 460, en vísitala fyrir hita og rafmagn 393. Ef við miðum við tímakaup hafnarverkamanna, þá er það 550.6. Samanburðurinn er þá sá, tímakaup hafnarverkamanna er 550.6, vísitala vöru og, þjónustu 460, vísitala fyrir hita og rafmagn 3 Reykjavík 393. Þetta sýnir betur en allt annað, að þessum þjónustugjöldum hefur verið í hóf stillt. En auðvitað er það svo, að núv. ríkisstj. hefur ekki horfzt í augu við slíkar verðhækkunarþarfir og ekki tekið þær með í reikninginn í sambandi við þróun kaupgreiðsluvísitölu á næsta ári, en hún hefur auðvitað áhrif á afkomuhorfur atvinnuveganna. Það er enn fremur nauðsynlegt að gera samræmdar aðgerðir í sambandi við útlán bankakerfisins og opinberra sjóða. Það er enn fremur nauðsynlegt, að opinber útgjöld og þá sérstaklega ríkisbúskapurinn séu innan þeirra marka, að ekki sé um hallarekstur að ræða.

Hér hafa ekki komið fram upplýsingar enn, í síðustu viku þings fyrir jól, í þeirri viku, sem afgreiða á fjárlög, hvernig á að draga úr útgjöldum á fjárl. hvort heldur er um rekstrargjöld að — ræða eða útgjöld til framkvæmda. Það hefur ekki verið upplýst, hvernig á að draga úr útlánum opinberra sjóða eða hvar þetta á niður að koma.

— Við höfum slæma reynslu í þessum efnum frá yfirstandandi ári. Brbl. um tímabundna verðstöðvun gerðu ráð fyrir því, að ríkisstj. væri heimílt að draga úr útgjöldum að upphæð 250–400 millj. kr. Það hafa ekki verið gefnar neinar upplýsingar um, fyrr en nú á síðustu dögum, í hverju þessi samdráttur er fólginn, og hæst hefur hann komizt upp í 173 millj. kr. og er þó ekki að fullu raunhæfur eða raunverulegur.

Ég vil leggja áherzlu á það að lokum, herra forseti, að gengisbreyting út af fyrir sig getur verið eðlileg hagstjórnartæki. En aðdragandi þessarar gengisbreytingar er heimatilbúinn vandi núv. hæstv. ríkisstj., og þess vegna er ábyrgð á henni lýst á hendur núv. hæstv. ríkisstj. Það getur vel verið, að það hafi ekki verið önnur leið betri eða skárri úr þeim vanda, sem núv. — hæstv. ríkisstj. hefur komið þjóðarbúskapnum og ríkisbúskapnum í heldur en að breyta genginu. Ég get raunar fallizt á það. En aðdragandi gengisbreytingarinnar, þær ráðstafanir, sem gerðar eru samhliða henni eða ekki gerðar samhliða henni, ummæli hæstv. forsrh. og rök fyrir gengisbreytingunni eru þess eðlis, að allir mega sjá, að hér er aðeins tjaldað til einnar nætur. Þess vegna er þetta aðeins upphaf að fleiri gengisfellingum, og það mun almenningur skilja, þótt það sé ekki sagt upphátt.

Skilyrði til þess, að gengisbreyting nái tilgangi sínum, er, að almenningur fái tiltrú á hinni nýju gengisskráningu. Það er víðs fjarri, að unnt sé að skapa slíka tiltrú meðal almennings á Íslandi í dag við þau stjórnvöld, sem við búum við og eins og þau hafa búið í haginn hingað til og eins og þau standa að þeim ráðstöfunum, sem við erum hér að ræða. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn borið fram till. um vantraust á ríkisstj., og við teljum sjálfsagt, að kjósendur fái að kveða upp dóm sinn yfir þeim mönnum, sem fyrir síðustu kosningar sögðu, að þeir mundu ekki beita gengislækkun til lausnar neinum efnahagsvanda.