19.12.1972
Efri deild: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. forsrh, í ræðu sinni hér í kvöld mælti fyrir frv. því, sem hér er til umr., ræddi hann að mestu leyti um gengislækkun þá, sem Seðlabankinn hefur þegar ákveðið í samráði við ríkisstj., en ekki beint efni frv. Það er ekkert óeðlilegt við það, vegna þess að efni frv. þarf ekki mikilla umr. við að mínu viti. Ég mun því víkja nokkuð hér að því, sem hæstv. forsrh. ræddi um gengislækkunina.

Hann vék fyrst að því, að þeir framsóknarmenn hefðu, áður en þessi ríkisstj. var mynduð og kannske líka eftir það, deilt á fyrrv. ríkisstj. fyrir það, sem hann kallaði gengisfellingarstefnuna. Það var eins og hann vildi segja með þessu, að Framsfl. væri alltaf á móti gengisfellingu eða a.m.k á móti gengisfellingarstefnunni. Hvað skyldi það nú vera? Ég hygg, að það hafi verið fleiri en ég, sem komu þessi ummæli hæstv. forsrh. dálítið einkennilega fyrir sjónir, því að það er þannig með mig, að enginn flokkur hér á landi er í minni vitund meira tengdur gengislækkun heldur en einmitt Framsfl. Ég hygg, að þetta sé svo um fleiri. Þetta er kannske nokkuð persónulegt fyrir mig. Í fyrsta sinn, sem ég steig fæti inn í þetta virðulega hús til þess að hlusta á umr., voru það umr. um gengislækkun. Þá var forsrh. framsóknarmaður og fjmrh. framsóknarmaður. Og nú er það í fyrsta sinn, sem ég hef tækifæri til þess í þessu virðulega húsi að taka þátt í umr. um gengislækkun, og þá er það Framsfl., sem hefur forsrh., og Framsfl., sem hefur fjmrh.

Ég held, að við þurfum í raun og veru ekki að fjölyrða mikið um þetta, Ég held, að sagan sanni það, svo að ég stytti mál mitt hvað þessu viðvíkur, að Framsfl. hefur þá stefnu, þegar hann er í ríkisstj., að vera með gengislækkunum, en þegar hann er utan ríkisstj., að vera á móti gengislækkunum. Ég held, að þetta sé það, sem flestir ættu að geta skrifað undir hvað viðkemur Framsfl. og gengisfellingum.

En hæstv. forsrh. sagði með nokkru — mér liggur við að segja stærilæti, að Framsfl.- menn hefðu deilt á gengisfellingarstefnuna. Hann sagði í framhaldi af þessu, að gengisfellingarstefnan væri sú efnahagsstefna, sem æ ofan í æ hefði leitt til gengislækkunar. Og hæstv. forsrh. færði máli sínu til stuðnings gengislækkanir, sem gerðar höfðu verið í tíð fyrrv. stjórnar, viðreisnarstjórnarinnar. Það er nú búið að ræða það mál svo oft, að ég skal ekki vera fjölorður um það. Hvaða efnahagsstefna var það, sem réð gengislækkuninni 1960, þegar fellt var niður uppbóta- og haftakerfið, gerð kerfisbreyting og skráð eitt gengi krónunnar, rétt gengi í staðinn fyrir um 20 gengi, sem áður voru, viðurkenndar staðreyndir, sem voru afleiðing af þeirri efnahagsmálastefnu, sem vinstri stjórnin fyrri hafði og varð þess valdandi, að málum var svo komið? Samkv. ummælum forsrh. segist hann nú vera á móti þessari stefnu, ef orð hans eru tekin bókstaflega. Árið 1967 er krónan felld, vegna þess að gengi sterlingspundsins er fellt. Gegn hvaða efnahagsstefnu var hæstv. forsrh., þegar hann snerist gegn gengisfellingu 1967? Var hann á móti því, sem gerðist í Englandi og réð því, að gengið var fellt? Hæstv. forsrh. segist vera á móti þeirri efnahagsstefnu, sem veldur gengislækkun. Hvaða stefnu var hæstv. forsrh. á mótí, þegar gengið var fellt 1968, vegna þess að útflutningsverðmæti þjóðarinnar lækkuðu um 50%? Hvaða stefna var það, hæstv. forsrh.? Nei, það þýðir ekki hér í þessum umr., sem eiga að vera alvarlegar umr., en ekkert gamanmál, að slá fram slíkum fjarstæðum.

En hæstv. forsrh. kom svo næst að því að segja í ræðu sinni: Það er velsæld hér á landi, en samt vandi. Og hann skýrði fyrir okkur, í hverju hann teldi, að vandinn væri fólginn, og sagðist gera það í nokkuð stuttu máli. Ég skal ekki deila á hann fyrir það að hafa farið nokkuð fljótt yfir sögu, þegar hann fór að rekja það, í hverju vandinn væri fólginn. En hvað sagði hæstv. forsrh.? Hann sagði, að vandinn stafaði af því, að ekki væri fullnægjandi rekstrargrundvöllur fyrir útflutningsatvinnuvegina, einkum sjávarútveginn, og það væri vegna þess, að afli hefði minnkað miðað við sóknareiningu og samsetning aflans hefði breytzt. Já, það má sjálfsagt finna þessu orðalagi hæstv. forsrh. stoð. En það er ekki það, sem skiptir máli í þessu sambandi, hver er samsetning aflans eða hver aflinn er miðað við sóknareiningu, þó að ég segi ekki, að þetta skipti engu máli. En það skiptir ekki máli í sambandi við það, sem við erum að ræða um, vegna þess að þrátt fyrir þetta er það staðreynd, að aflabrögð hafa verið góð og verðlag á útflutningsafurðum landsmanna hærra en nokkru sinni fyrr, og samkv. áætlun opinberra aðila er gert ráð fyrir því, að útflutningsverðmæti sjávarútvegsins hækki stórkostlega á næsta ári og verði aldrei hærra en þá. Nei, hæstv. forsrh., það er ekki hægt að færa fram þessa röksemd.

En hæstv. forsrh. bar fram fleiri röksemdir, og við skulum sjá, hvers virði þær eru. Hann sagði, að ein ástæðan væri gengisbreytingar í öðrum löndum. Þegar talað er um gengisbreytingar í öðrum löndum, kemur okkur fyrst og fyrst og fremst í huga gengisfall dollarans á síðasta ári. Hvaða áhrif hafði það fyrir sjávarútveginn út af fyrir sig, þegar ríkisstj. lét íslenzku krónuna fylgja dollarnum og lækkaði hana þannig gagnvart öðrum gjaldeyri? Ríkisstj. var, ef svo mætti segja, að taka þá forskot á sæluna. Hún var þá byrjuð að gera það, sem hún er að gera nú, að lækka íslenzku krónuna. Svo segir hæstv. forsrh., að þetta sé ástæðan fyrir því, að hún þurfi að lækka íslenzku krónuna. Hver skilur slíkar röksemdir sem þessar?

Þá sagði hæstv. forsrh., að ein ástæðan fyrir lækkun gengisins væri, að samið hefði verið um verulegar kauphækkanir. Ég held, að þetta sé rétt hjá hæstv. forsrh. En hver ber ábyrgðina á því? Ætli það sé ekki hæstv. forsrh. og ríkisstj., sem ber sinn hluta af þeirri ábyrgð?

Þá taldi hæstv. forsrh., að ein ástæðan fyrir því, hvernig komið sé, væri sú, að 40 stunda vinnuvikan kom verr út en ætlað var. Ég hygg, að það hafi alltaf mátt gera ráð fyrir því, að sú ráðstöfun að lögleiða 40 stunda vinnuviku kæmi ekki vel út. En samkv. þessu orðalagi hæstv. forsrh. er svo að sjá, að hann hafi talið á sínum tíma, að þessi ráðstöfun kæmi vel út, en nú sé hann farinn að sjá, að svo hafi ekki verið, þetta hafi verið mistök hjá hæstv. ríkisstj. Það er margt meiri fjarstæða, sem hæstv. forsrh. hefur sagt í þessu máli, en þetta, og auðvitað gerast þau mörg, mistök hæstv. ríkisstj.

Og þá nefndi forsrh. loks eina ástæðu í viðbót, sem hann taldi fram sem orsök fyrir vandanum, sem nú er við að glíma, að 6% grunnkaupshækkun kæmi til framkvæmda 1. marz n.k. Ég held, að það sé rétt hjá forsrh., að þetta skapar vissan vanda. En ég spyr: Hvað ber hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. mikla ábyrgð á þessum vanda? Ábyrgð hæstv. forsrh. og ríkisstj. hans er ekki lítil.

Þetta var það, sem hæstv. forsrh. sagði um orsakir vandans, sem við er að glíma. En hann vék svo nokkrum orðum að úrræðunum, úrræðum ríkisstj., að gengislækkuninni sjálfri, og þar lagði hæstv. forsrh. áherzlu á, að ríkisstj. hefði gert frávik frá uppfærsluleiðinni, sem efnahagsmálanefnd ríkisstj. benti á. Og í hverju, sagði hann, að þetta frávik væri fólgið? Jú, hann gerði grein fyrir því og sagði, að frávikið væri fólgið í því, að áhrif gengislækkunarinnar kæmu inn í kaupgreiðsluvísitöluna. Frávikið var hvorki meira né minna en það, að ríkisstj. ákvað að afmá áhrif gengislækkunarinnar á nokkrum mánuðum með þessum hætti. Það var eðlilegt, að hæstv. forsrh. segði, að það hefði verið um frávik að ræða. En hæstv. forsrh: sagði og hafði það eftir sérfræðingum, að þeir teldu líklegra, að full áhrif næðust af þessari gengislækkun, að því er mér skildist, vegna þessa fráviks. Ég leyfi mér að mótmæla þessari fullyrðingu. Hún brýtur í bága við allar röksemdafærslur efnahagsmálanefndarinnar, og ég hef ekki heyrt eða talað við nokkurn sérfræðing í þessum málum, sem telur, að gengislækkun geti haft áhrif til frambúðar, ef kaupgreiðsluvísitalan er ekki tekin úr sambandi eða áhrif hennar takmörkuð eða vissar ráðstafanir gerðar til þess að vega þar upp á móti. Ég spyr hæstv. forsrh.: Er það efnahagsmálanefndin, sem ríkisstj. skipaði og hefur skilað greinargerðum sínum, sem telur nú, að gengislækkunin geti heppnazt betur með þessum hætti heldur en með þeim hætti, sem n. lagði sjálf til? Eða eru það aðrir sérfræðingar, sem fullyrða slíkt?

Hæstv. forsrh. sagði, að hann mundi hafa framsöguræðu sína í styttra lagi, hann hefði rætt málið ítarlega í hv. Nd., og ég skil mætavel þetta sjónarmið og er ekki út af fyrir sig að deila á hæstv. forsrh. fyrir það. En af þessu leiðir, að það eru ekki í raun og veru fleiri sérstök atriði, sem ég sé ástæðu beint til að svara úr ræðu hæstv. forsrh. Ég get þó ekki látið hjá líða að víkja að því, sem hæstv. forsrh. sagði undir lok ræðu sinnar.

Það var einkennilegur ræðukafli. Stundum hafði maður það á tilfinningunni, að forsrh. væri harla ánægður með það, sem ríkisstj. hefði gert, með gengislækkunina, með frammistöðu ríkisstj. hefði gert, með gengislækkunina, með frammistöðu ríkisstj., en í hinu orðinu virtist hann vera vondaufur fyrir hönd þessara ráðstafana og fyrir hönd sinnar eigin ríkisstj. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði verið skylda ríkisstj. að ráðast með dirfsku og fullum krafti gegn vandamálunum. Ja, hefur nú almenningur, hefur íslenzka þjóðin orðið vör við dirfskuna og kraftinn, sem einkennt hefur hæstv. ríkisstj. nú á síðustu dögum, síðustu vikum? Ég held, að það þurfi nokkuð mikið hugmyndaflug til þess að nefna hvort heldur er dirfsku eða kraft í þessu sambandi. En svo skömmu síðar segir forsrh., og þá er eins og hann sé dottinn niður: Engar fullyrðingar hafi hann uppi um það, hve varanlegar þessar ráðstafanir verði né hve langlíf ríkisstj. verði. Hann spáir því ekki, að ráðstafanirnar, sem hann er að mæla fyrir, verði varanlegar, hafi raunveruleg áhrif. Og hann talar eins og ríkisstj. geti farið frá hvenær sem er. Ég er ekki að deila á hann fyrir þetta. Þarna er hann raunhæfur, en ekki þegar hann var að tala um dirfskuna og kraftinn. En svo sækir hæstv. forsrh. aftur í sig veðrið og segir: Hvað hefði skeð, ef ríkisstj. hefði ekki leyst vandann? Ja, hvað hefði nú skeð? Hvaða stjórn hefði tekið við? Hæstv. forsrh. sá engan möguleika á því, að hægt væri að mynda þingræðistjórn, og hann talaði um þann möguleika, að það yrði mynduð embættismannastjórn. Fyrr má nú vera, að menn hafi álit á mikilvægi sjálfra sín, ef þeir balda, að ef þeir séu ekki sjálfir forsrh., þá sé enginn útvegur samkv. þingræðis- og lýðræðisreglum, það séu öll sund lokuð og verði að grípa til þess að skipa embættismannastjórn. Ég hélt ekki, að hæstv. forsrh. væri þeirrar skoðunar, að honum væri orðið áskapað að vera forsrh. Íslands. En ég held, að slíkt hafi engum öðrum dottið í hug.

Ég skal ekki eyða fleiri orðum að ræðu hæstv. forsrh. Ég vil víkja nokkru nánar að þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, gengislækkuninni, víkja að nokkrum atriðum almennt í sambandi við það mál. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ríkisstj. fyrir álit efnahagsmálanefndarinnar. Ég tel, að það sé vel unnið og það veiti miklar upplýsingar og þau vinnubrögð hæstv. ríkisstj. séu góð. Og mér er þeim mun ljúfara að þakka hæstv. ríkisstj. það, sem vel er gert, vegna þess að það er svo sjaldan, sem tækifæri er til slíks.

Í þessu nál. er rætt um vandamálið á miklu víðari grundvelli en hæstv. forsrh. gerði hér í ræðu sinni. Ég ætla ekki að fara að rifja það upp, en ég tel, að höfuðvandinn sé þrenns konar: 1. Vandi, sem varðar viðskiptajöfnuðinn. 2. Vandi, sem varðar ríkisfjármálin. 3. Vandamál, sem varða rekstrargrundvöll atvinnuveganna.

Það eru allir sammála um, að það þurfi að treysta rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og sérstaklega sjávarútvegsins. Og hvernig verður þessi grundvöllur treystur? Og hvað er það, sem verið er að tala um, að eigi að gera með gengislækkun? Það er tilfærsla á fjármagni. Það er að veita aukið fjármagn til útflutningsatvinnuveganna og sérstaklega sjávarútvegsins. Þetta er verulegt fjármagn, sem þarf að færa til. Það hefur verið talað um 800 millj. á ársgrundvelli, 1000 millj. eða 1200 millj. Ég skal ekki fullyrða hér, hver þessi upphæð er nákvæmlega. Ég hygg raunar, að það sé erfitt að fullyrða um það. En það skiptir ekki máli í því sambandi, sem ég er að tala um þetta. Ef við tölum um að færa fjármagn til sjávarútvegsins, þá verðum við að taka það einhvers staðar annars staðar frá. Þessi tilflutningur getur ekki gerzt öðruvísi en fjármagnið sé einhvers staðar tekið. Það er m.ö.o. ekki hægt að gera gengislækkun þannig, að enginn verði var við nema þeir, sem eiga að taka við fjármagninu, sem á að flytja til. Ef menn meina gengislækkun til þess að leysa einhvern vanda, þá er allt tal um gengislækkun markleysa, nema fjármagnið, sem á að koma einum til góða, sé tekið af öðrum.

Þessu gerir efnahagsmálanefndin sér að sjálfsögðu grein fyrir. Og efnahagsmálanefndin gerir ráð fyrir, að kaupgreiðsluvísitalan sé tekin úr sambandi eða áhrif hennar a.m.k. takmörkuð, til þess að áhrif gengislækkunarinnar gangi ekki inn í kaupgreiðsluvísitöluna. Hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. segja, að þetta eigi ekki að gera nú. Og hæstv. forsrh. lætur liggja að því eða segir beinlínis, að það sé meginkostur þessara aðgerða nú, að þetta skuli ekki vera gert. En hæstv. forsrh. trúir ekki sínum eigin orðum í þessu efni, því að ef hann tryði þeim, segði hann ekki jafnframt, að það ætti að leiðrétta kaupgreiðsluvísitöluna. Forsrh. hefur sagt, að það eigi að leiðrétta kaupgreiðsluvísitöluna. Hvers vegna er hann og stjórnarliðið að tala um leiðréttingu á kaupgreiðsluvísitölunni í þessu sambandi? Það er auðvitað vegna þess, að með því ætla þeir að freista þess að takmarka áhrif gengislækkunarinnar, sem ganga inn í kaupgreiðsluvísitöluna.

Það þykir gott að segja það við almenning í landinu, launþegana, að það eigi ekki að taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi, en fara svo um bakdyrnar í þessu máli á þann veg að freista þess að takmarka þau áhrif, sem kaupgreiðsluvísitalan gæti haft. En það er á marga vegu hægt að fara í kringum launþegana til þess að ná sama marki og með því að taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi. Það er það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera með því að auka niðurgreiðslur úr ríkissjóði eða hækka fjölskyldubætur. En slíkt verður ekki gert nema með skattheimtu, auknum sköttum og byrði á almenning. M.ö.o.: það er reynt að láta líta svo út af hálfu ríkisstj., að það sé hægt að framkvæma þessa gengislækkun án þess, að það komi við neinn, en ríkisstj. veit, að þetta er markleysa, og það er reynt eftir krókaleiðum að ná í vasa almennings í landinu. En til þess, að gengislækkunin geti náð marki sinu, til þess að einhverjar stóraðgerðir, sem varða þjóðina í heild, geti náð árangri, verður að segja þjóðinni sannleikann, því að ef þjóðin fær að heyra sannleikann og málin eru lögð rétt fyrir, er það bezta leiðin til að fá stuðning almennings í landinu. Og það þarf einmitt að skapa hjá almenningi traust á því, að þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera, geti heppnazt, og ef almenningur fær það traust, þá skilur hann, að það þarf að herða mittisólina.

Þetta var um gengislækkunina og útflutningsatvinnuvegina, og ég skal víkja fáeinum orðum að því, hvaða áhrif gengislækkunin þarf að hafa á ríkisfjármálin, ríkisbúskapinn, til þess að gengislækkunin hafi gildi einnig á því sviði.

Það er augljóst, og því getur gengislækkun verið til úrlausnar til að koma jafnvægi á fjármál ríkisins, að bein áhrif gengislækkunar koma fram í hækkuðum tekjum fyrir ríkissjóð, hækkun tolltekna og hækkun söluskattstekna vegna hækkaðs verðlags. En hér þarf enn fremur að gera fleiri ráðstafanir, bæði hækkun skatta og niðurskurð útgjalda. Ég skal ekki fara hér út í þau mál, hvernig ríkisstj. hugsar sér að leysa fjármál ríkisins í einstökum atriðum. Ég vildi í þessu sambandi aðeins benda á það, að ef kaupgreiðsluvísitalan er ekki tekin úr sambandi eða áhrif hennar takmörkuð, þá sækir brátt í sömu átt hvað varðar ríkissjóðinn, þ.e.a.s. hann skortir tekjur til þess að mæta útgj., sem fara hækkandi áfram vegna launahækkana og vísitöluhækkana. Þannig er ekki nóg með, að gengislækkunin sé fánýt til þess að skjóta stoðum undir rekstur útflutningsatvinnuveganna og sjávarútvegsins sérstaklega, heldur einnig fjármál ríkisins, ef ekki er horft refjalaust framan í þá staðreynd, að þegar þarf að flytja til fjármagn í þjóðfélaginu, þá verður það ekki flutt á einn stað, nema það sé tekið af öðrum.

Þetta á líka við varðandi viðskiptajöfnuðinn. Það eru ekki nema stundargrið, hvað varðar áhrifin af gengislækkun til að bæta viðskiptajöfnuðinn, ef, eins og hæstv. forsrh sagði, áhrifin eiga að ganga inn í kaupgreiðsluvísitöluna. Þá minnkar ekki eftirspurnin eftir erlendum vörum, er frá líður. Ég hef vikið að þessu atriði til þess að undirstrika, hve það er misráðið og raunar fráleitt, þegar hæstv. ríkisstj. er að gera því skóna, að þessi gengislækkun geti tekizt og náð tilgangi sínum, ef hún á ekki að koma við neina í þjóðfélaginu.

Það hefur verið vikið að því, hve vandinn væri mikill. Í áliti efnahagsmálan. eða valkostan. er gerð ítarleg grein fyrir þessu. Ég skal ekki hér fara að rekja það mál. En ég vil vekja athygli á því, að það hefur komið fram nokkur ágreiningur um það, hvað vandinn væri mikill, t.d. hefur sú skoðun komið fram hjá hæstv. viðskrh., að vandinn væri mun minni en valkostan. gerir ráð fyrir. Það kann að vera, að svo sé, ég vil þó ekki um það fullyrða. Það skiptir auðvitað miklu máli, hve vandinn er mikill Hitt skiptir þó meira máli, hvaða ráðum er beitt til að leysa vandann. Ég geri ráð fyrir, að þetta atriði hafi komið nokkuð við sögu, þegar stjórnarflokkarnir voru að deila innbyrðis um það, hvaða ráð skyldu höfð til að leysa vandann.

Það var mjög fróðlegt að heyra hæstv. félmrh. segja þá sögu hér í umr. í hv. Nd. í gær. Hann talaði eins og sigurvegarinn, sem segir söguna. Og við vitum það, að sagan oft og tíðum og kannske oftar en við höldum, saga mannkynsins, er fyrst og fremst sögð af sigurvegurunum. Og það hlutverk lék hæstv. félmrh. mætavel hér í gær. Ég skal ekki fara að fjölyrða um ágreininginn, sem upplýst er, að hefur verið á milli stjórnarflokkanna, — rekja það annars vegar, sem Framsfl. lagði til og Alþb. lagði til. og hins vegar það, sem bestir flokkar voru þvingaðir til að gera, þegar SF settu sína úrslitakosti. En það er athyglisvert, sem hæstv. félmrh. sagði varðandi þá leið, sem farin var, vegna þess að það má gera ráð fyrir því, að hann hafi ekki minnst um það að segja, hvernig framkvæmdin verður. Hæstv. félmrh. talaði um ótímabærar gengislækkanir, hann talaði um sjálfsagðar gengislækkanir og hann talaði um tíðar gengislækkanir. Ótímabærar gengislækkanir voru gengislækkanir eins og framkvæmdar voru í stjórnartið viðreisnarstj. og ég hef hér áður vikið að. En sjálfsagðar gengislækkanir voru í hans augum gengislækkanir eins og sú, sem nú hefur verið framkvæmd. Og þær voru sagðar af hæstv, ráðh. svo sjálfsagðar, að það færi bezt á því, að þær væru oft gerðar, það væru tíðar gengislækkanir. hað kann að vera, að hæstv. félmrh. átti sig betur á því en ýmsir aðrir í stjórnarliðinu, hvað þær ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar, eru skammgóður vermir, og þess vegna sé hann að boða þennan fagnaðarboðskap, að tíðar gengislækkanir séu af hinu góða.

Hæstv. forsrh. ræddi, eins og ég hef áður vikið að, um orsakir vandans, sem nú er við að glíma. Ég tel, að hæstv. forsrh. hafi ekki dregið upp rétta mynd af því máli, og ég hef áður greint frá, í hverju það liggur. En hverjar eru þá orsakir vandans, ef það er ekki rétt, sem hæstv. forsrh. sagði? Ég held, að það sé augljóst, í hverju vandinn liggur. Við erum að leitast við að skipta meiru en aflað hefur verið. Það er kannske engin speki, að orða þetta á þennan veg, en það sanna er stundum ákaflega einfalt. En hvers vegna er þetta? Er þetta vegna þess, að þjóðartekjurnar hafa minnkað á þeim tíma, sem þessi vandi hefur skapazt? Það er ekki vegna þess. Það getur enginn haldið því fram. Það liggur ljóst fyrir í öllum opinberum skýrslum, að þjóðartekjurnar hafa ekki minnkað. Hæstv. ríkisstj. heldur því ekki fram. En þegar hæstv. ríkisstj. kemst næst því að komast að kjarna málsins í þessu sambandi, hvað segir hún þá? Þá segir hún, að vandinn sé til kominn vegna þess, að þjóðartekjurnar hafi ekki aukizt eins mikið og ráð var fyrir gert eða eins mikið og þeir óskuðu, þess vegna hafi vandinn skapazt.

Þetta hefur komið fram í umr. um gengislækkunina, kom fram greinilega í hv. Nd., einmitt þetta sjónarmið. Hæstv. viðskrh. sagðist viðurkenna, að efnahagskerfið hefði ekki þolað hinar miklu kauphækkanir til verkamanna, kerfið hefði ekki þolað hana miklu hækkun fiskverðsins og ekki hina miklu hækkun bóta almannatrygginganna. Hann tiltók þetta þrennt. Ég held, að það, sem hæstv, ráðh. sagði, sé rétt, en hæstv. ráðh. sagði: En hver var á móti þessu? Vildi Sjálfstfl. vera á móti þessu? Hver treysti sér að vera á móti þessu?

Þetta eru rökin, ef rök skyldi kalla. Þetta að vera með einhverjum hagsbótum til góðs fyrir fólkið í landinu eða einstakar stéttir eða starfshópa er lýðskrum, ef menn trúa því, að það sé ekki hægt að framkvæma kjarabæturnar, sem um er að ræða. Þá er það lýðskrum. Það er einmitt þetta, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert sig seka um, fallið fyrir þeirri freistni að vera að gera hosur sínar grænar fyrir einstökum hópum í þjóðfélaginu í því trausti, að hún gæti unnið sér vinsældir og fylgi, og haldið, að hún gæti gert það, þótt hún vissi, að það væri ekki um raunhæfar kjarabætur að ræða. Þetta er ásökunarefni á hæstv. ríkisstj. í sjálfu sér, fyrir utan það, að hér er að finna eina meginástæðuna fyrir vandanum, sem við er að glíma í dag. Og þegar málinu er svo háttað, er það kannske ekki furða, þótt það komi ekki alltaf réttar skýringar á því, hverjar orsakir vandans eru, þegar hæstv. forsrh, er að ræða þessi mál eða aðrir ráðh. ríkisstj., þó að það hafi komið fram með þeim hætti, sem ég hef áður greint, í ummælum hæstv. viðskrh.

Það er þessi aðferð, sem ég kalla aðferð lýðskrumaranna. Og ráðh. finna sér engar útgöngudyr, þó að þeir spyrji: Hvað vildi Sjálfstfl. gera? Var hann á móti þessu? Svar sjálfstæðismanna hlýtur að vera það, að þeir vilji sem mestar kjarabætur fyrir launþegana í landinu og einstaka starfshópa. Ég hefði viljað meiri kauphækkun til verkamanna, hærra fiskverð, hærri bætur almannatrygginganna, ef það hefði verið hægt. En það er ríkisstj. á hverjum tíma að meta þessa hluti. Ef hún hefur ekki dug og kraft í sér til þess, þá er hún óhæf til þess að stjórna. Og það er það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert sig seka um.

Það er ekki nóg með það, að ríkisstj. hafi gert sig seka um það að valda þeim vanda, sem við er að glíma. Nú hefur hún ofan á allt gert sig seka um það að koma með úrræði og ætla að framkvæma þau þannig, að það getur skv. eðli málsins ekki orðíð nein varanleg lausn á vandamálinu. Það er aðeins stundarfriður, sem er keyptur því verði að magna verðbólguna um allan helming, þannig að ef ríkisstj. heldur áfram á þessari braut, þá þarf hún fljótt að grípa til annarrar gengislækkunar og meiri gengislækkunar og þannig koll af kolli. En við skulum vona, að gæfa lands og þjóðar verði svo mikil, að ríkisstj. fái ekki tækifæri til að endurtaka þennan skollaleik.