20.12.1972
Efri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Fjh: og viðskn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Við, sem skipum fyrri minni hl. höfum gefið út nál. þar sem við vísum til nál. l, minni hl. fjh.- og viðskn. Nd., þar sem gerð er grein fyrir afstöðu sjálfstæðismanna. Þessu nál., sem við vísum til, hefur verið útbýtt hér meðal allra þm. og rækilega skýrt og rætt í Nd. Ég býst við, að hv. alþm. þessarar deildar sé kunnugt um það.

Meginmál þess nál. er, að sjálfstæðismenn telja, að það sé ekki ágreiningur um, að rétt gengisskráning sé undirstaða heilbrigðri stjórn efnahagsmála. Það getur eigi að síður verið mikið álitamál. hvenær heri að taka til gengisbreytinganna og hvernig eigi að framkvæma þær. Í þessu nál. kom enn fremur fram, að sjálfstæðismenn töldu ekki, að forsendur væru fyrir því, að gengislækkun sú, sem hér er til umr., gæti náð tilætluðum árangri af ástæðum, sem nánar er skýrt frá í fyrrgreindu nál. l. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. telur, að ekki sé forsenda fyrir slíkum aðgerðum til staðar hér á landi, eins og nú standa sakir, ríkisstj. sé sundurþykk og sundurlyndi að auki ríkjandi innan þeirra flokka, sem að henni standa. Ég læt þetta nægja til þess að lýsa þessu nál. okkar.

Ég hafði ekki hugsað mér að tefja eða lengja umr. hér í þessari hv. d. í sambandi við framgang þessa frv. Örlög þess eru þegar ákveðin, og um endalokin mun ekki verða greint. Mig langar aðeins lítillega að minnast á það blóm, sem helzt hefur verið haldið fram sem skærasta blóminu í hnappagati hæstv. ríkisstj. Það er í sambandi við stjórn hennar á efnahagsmálunum, frá því að hún tók við völdum í miðjum júlí 1971, að hún hafi staðið svo dyggilega vel við 20% loforðið á kaupmáttaraukn. almennings í landinu.

Það hefur margsinnis verið upplýst, að hæstv. núv. ríkisstj. tók við mjög blómlegu búi frá fyrrv. ríkisstj. Það var verulegt fé í sjóði, verulegur tekjuafgangur kom fram á reikningnum 1971, og staða þjóðarinnar út á við var ágæt. Með slíkan fjárhagslegan grundvöll að baki var hægt að gera kjarabætur, boða til veizlu. Þetta var hægt að gera um nokkurn tíma. En svo fór að síga á ógæfuhliðina, og nú er svo komið, að staðreyndin blasir við. Kaupmáttaraukningin innanlands, sem byggist á greiðsluhalla utanríkisviðskipta, skuldasöfnun erlendis, hallarekstri ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild, er nákvæmlega eins og innistæðulaus ávísun á reikningi í banka. Kjaraaukning, sem byggist á slíkum forsendum, skapar falska kaupgetu, óðaverðbólgu, sem ávallt bitnar fyrst og fremst á launþegunum í landinu og kemur auðvitað erfiðast niður á þeim, sem minna mega sín, þeim, sem veikast standa í þjóðfélaginu. Þó að hv. stjórnarliðar geti með einhverjum talnaútreikningi reiknað og fundið út einhverja talnaprósentu, sem sýni einhverja kaupmáttaraukningu, er þetta píp eitt, helber hégómi. Þið skuluð spyrja almenning í landinu. Spyrjið húsmæðurnar, spyrjið launþegana, spyrjið gamla fólkið, spyrjið unga fólkið, sem er að stofna heimili, hvort þeim finnist, að það sé verðmætisaukning í krónunum, sem þeim er borgaðar út núna.

Það hefur einmitt verið gert að umtalsefni, að meðal þjóðarinnar hafi hópazt upp fölsk kaupgeta, sem nemi ekki hundruðum milljóna, heldur kannske milljörðum. Það er viðurkenningin á þessari staðreynd, sem gerir það beinlínis nauðsynlegt, og hefur opnað augu hæstv. ríkisstj. fyrir því, að við svo búið er ekki hægt að láta standa lengur. Því er það, með tilliti til þeirrar ísköldu staðreyndar, sem blasir við öllum, að borin er fram þessi úrlausn um gengisfellinguna.

Núv. stjórnarandstæðingar hafa aldrei tjáð sig andvíga því, að gengisfelling út af fyrir sig gæti ekki verið hagstjórnarkerfi. En eins og búið er að núverandi gengislækkun, læknar hún engan vanda. Það er alveg öruggt, að sú gengislækkun, sem nú á að fara fram og býr ekki við þær stuðningsaðgerðir, sem eru taldar algjör forsenda allra þeirra valkosta, sem nefndir voru í áliti svokallaðrar valkostanefndar, sem var viss vísitöluskerðing o.fl. hliðarráðstafanir, getur aldrei skapað stöðugan grundvöll eða stöðugt verðlag á gjaldmiðlinum.

Dæmið, sem blasir við okkur í dag, er, eins og margoft er búið að taka fram í þessum umr., þannig, að það þarf að færa á milli milljarðaupphæðir, og slíkar upphæðir verða ekki færðar til nema taka þær frá einhverju. Það er því alger blekking, eins og kemur fram í aths. við þetta frv., sem hér er borið fram, að hægt sé að framkvæma slíka fjármunatilfærslu án þess að skerða kjör almennings. Það er alveg útilokað. Það er ekkert annað en að brjóta hin lögskráðu hagstjórnarlögmál. Eins og er um hnútana búið, í sambandi við þá gengislækkun, sem hér er fyrirhuguð, held ég, að öllum sé ljóst, að í fyrsta lagi er vafasamt, hvort hún kemur að því gagni, að hægt sé að hefja hér útgerð um áramót. A.m.k. er það talið nokkurn veginn öruggt, að að óbreyttu ástandi, ef ekki kemur einhver happdrættisvinningur fyrir á vertíðinni, er nánast vafasamt, að hún dugi vertíðina út.

Hvaða ástand erum við þá að skapa hjá þjóðinni? Ef við samþykkjum slíkar ráðstafanir í árslok 1972 og þjóðin öll veit, að það er nokkurn veginn öruggt, að þetta er ekki varanleg lækning á ástandinu, eins og það er, sjá allir, hvílíkan grundvöll fyrir spákaupmennsku og alls konar fjárglæfra það býður heim, þegar þannig er frá hnútunum gengið. Enda er þetta ljóst hv. stuðningsmönnum núv. ríkisstj. Máli mínu til stuðnings, langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér nokkur orð úr forustugrein stuðningsblaðs ríkisstj., Þjóðviljans, sem birtist í morgun. Þau voru þessi:

„Gengisfelling er engin lausnarráðstöfun, verðbólguvandinn er ekki minni, heldur meiri, dýrtíðin vex og peningarnir verða verðminni. Núv. ríkisstj. hefur ekki tekizt fremur en fyrri ríkisstj. á Íslandi að ráða niðurlögum verðbólgudraugsins, en núv. ríkisstj. ætti — fremur öðrum ríkisstj. að hafa allar forsendur til þess að taka á vandamálunum af myndarskap. Það dugar nefnilega ekki að sprauta sjúklinginn — efnahagskerfi viðreisnarinnar — sífellt með sama eiturefninu og gert hefur verið undanfarin ár og áratug. Nú dugar ekkert minna en uppskurður á öllu efnahagskerfinu. Það verður að gera ráðstafanir til þess að fjarlægja meinsemdina. Eftir rétt ár — eða fyrr — verður enn að gera ráðstafanir, enn verður að leita lausnar á vanda. Þá dugar ekkert hálfkák, þá duga engar frestunaraðgerðir, þá dugar ekkert minna en breyting, róttæk breyting, sem rýfur vitahringinn.“

Hv. alþm., þetta eru ekki orð ræðumannsins, sem stendur hérna í pontunni. Þetta er nákvæm tilvitnun í forustugrein aðalstuðningsblaðs ríkisstj. Hvernig haldið þið þá, að hið raunverulega ástand sé í þessum málum? Hvað haldið þið, að blasi við þessum mönnum, sem eru að láta samþykkja þessar aðgerðir, þegar svona er talað um þetta í aðalstuðningsblaði ríkisstj.? Þetta hefði þótt ljót lesning, ef hún hefði staðið í Morgunblaðinu.

Einkennilegt er það, að við þessar mörgu og langdregnu umr., sem hér hafa farið fram í sambandi við fyrirhugaða gengislækkun, hef ég engan einasta aðila, a.m.k. af stuðningsmönnum ríkisstj., heyrt minnast á aðstæður gamla fólksins í sambandi við þessa gengislækkun, þátt fólksins, sem hefur safnað saman sparifé. Sú var þó tíðin, að það var sannarlega talað um það hér í þessum sölum hv. Alþingis, hvernig væri verið að leika og meðhöndla það fólk, þegar um var að ræða efnahagsráðstafanir, sem taldar voru nauðsynlegar á rímum viðreisnarstjórnarinnar. En nú virðist þetta fólk, sem ríkisstj. hinna vinnandi stétta, sem svo kallar sig, taldi sig ævinlega sérstakan umboðsmann fyrir, þegar rætt var um slík mál hér á þingi, hafa steingleymzt. Þarna er enn þá verið að vega í sama knérunninn, hegna ráðdeildinni, refsa þeim, sem lagt hafa á sig að leggja fé í banka og sparisjóði og með því að útvega þjóðinni ódýrasta rekstrarféð, sem hún hefur til umráða.

Ég held, að um mál þessi í heild megi segja, að það er keypt dýru verði að halda í stjórnarstólana núna, þegar verið er beinlínis að leika sér með fjöregg þjóðarinnar, sem er gjaldmiðill hennar. En það er vonandi, að einhver þau höpp verði, að ekki sannist nú, sem einhvern tíma var sagt áður, að Íslands óhamingja verði allt að vopni.