20.12.1972
Neðri deild: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

121. mál, launaskattur

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Með lögum frá 19. nóv. 1970 um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis var ákveðið að leggja á sérstakan launaskatt, er næmi 11/2% á tímabilinu 1. des. 1970 til 31. ágúst 1971, eftir 2. gr. þeirra laga. Þessi skattur hefur síðan verið framlengdur til stutts tíma í senn, og síðast var ákveðið, að hann skyldi innheimtur á árinu 1972, og ákvæði um það er að finna í ákvæði til bráðabirgða, 3. lið, í lögum um almannatryggingar. Með þessu frv. er lagt til að færa ákvæði um þetta 11/2% inn í lög um almennan launaskatt, fella það inn í 1. gr., þannig að við það 1%, sem nú er í þeim lögum, bætist þetta 11/2% og verði 21/2%. Frv. gerir ráð fyrir, að skatturinn verði þannig fastur. En meiri hl. n. flytur brtt. um það, að þetta ákvæði gildi aðeins til eins árs, og leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu.