20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Forseti (GilsG):

Í tilefni af brtt. þeirri, sem hv. 3. þm. Sunnl. hefur lagt hér fram, vil ég segja það, að ef haldið er fast við bókstaf þingskapa, þá er næsta hæpið, að hún geti komið til atkvæða, þar sem hún var liður í brtt., sem felld var við 2. umr. En þar sem þannig stendur á, að hún var hinn smærri liður þeirrar till. og annar liður var stórum veigameiri, þá mun ég líta þannig á, að hún geti komið undir atkv., ef hv. þm. verður ekki við þeim tilmælum að draga hana til baka, eins og hæstv. sjútvrh. hefur farið fram á.

Ég lít þá þannig á, að till. geti, þótt á mörkum sé, komið til atkv., og mun, ef hún verður ekki dregin til baka, leita afbrigða, svo að hún megi koma fyrir.