20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

131. mál, vegalög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. lýsti því, að þetta frv. væri flutt til þess að koma í veg fyrir samdrátt í vegaframkvæmdum.

Það var á s.l vori, sem samþykkt var vegáætlun fyrir árin 1972–1975 og vegáætlun fyrir árið 1972 endurskoðuð. Í vegáætluninni var ekki gert ráð fyrir hækkun á benzíni, gúmmíi eða þungaskatti. Í vegáætluninni er gert ráð fyrir, að fjár verði aflað til framkvæmdanna með lántökum og/eða hækkuðum ríkisframlögum. Hæstv. ríkisstj. hefur þess vegna farið alveg ótroðna slóð að koma nú með frv. eins og þetta til fjáröflunar fyrir vegaframkvæmdir nokkrum mánuðum eftir að vegáætlun hefur verið afgreidd. Það hefur ekki skeð áður. Þess vegna er það, að ýmsir spyrja: Hvað hefur skeð síðan á s.l. vori? Þá var vegáætlunin afgreidd, og þá var ekki talað um neina fjárvöntun á vegáætlunina, til þess að það mætti halda áfram þeim framkvæmdum, sem þar eru ákveðnar. Að vísu hefur dýrtíðin aukizt síðan, og það hefur syrt í álinn hjá hæstv. ríkisstj. Það mun vera rétt. En eigi að síður hefur hæstv, ríkisstj. aflað fjár með ýmsum hætti til þess að hafa fjármagn til að mæta dýrtíðinni. Hæstv. ríkisstj. hefur lagt á landsmenn þyngri skatta en dæmi eru til. Og það kemur fram, þegar skattarnir eru innheimtir, að þeir reynast drjúgur tekjustofn og miklu drýgri en gert var ráð fyrir. Þá hefur hæstv. ríkisstj. tekizt að selja tóbak og brennivín og fá tekjur af því langt umfram það, sem áætlað hefur verið. Með því að skattpína þegna landsins, eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert, mætti ætla þrátt fyrir dýrtíðina, að hún hefði ráð á því að halda vegaframkvæmdum áfram án þess að leggja nú nýja og þunga skatta á samgöngutækin ofan á það, sem hæstv. ríkisstj. hefur áður gert.

Það má minna á það, að fyrrv. ríkisstj. létti sköttum af bifreiðum. Það var á árinu 1970, sem 60% innflutningsgjaldi af fólksbifreiðunum var aflétt, það voru lækkaðir skattar á jeppabifreiðum og vörubifreiðum, og það var þá, sem menn almennt sáu sér fært að endurnýja gamlar bifreiðar og minnka varahlutakaup, enda var mikill bifreiðainnflutningur á árunum 1970 og 1971 og einnig fram eftir þessu ári þrátt fyrir ný gjöld, sem lögð voru á bifreiðar á þessu ári, — gjöld, sem munu nema hátt á annað hundrað millj. kr. Gjöldin eru þannig, að venjulegir jeppar, dísilbifreiðar, hækkuðu um 75 þús. kr., litlir Volkswagen-bílar hækkuðu um 45 þús. kr. og fólksbílar 5 manna frá 45 þús. kr. og upp í 100 þús. kr., vörubifreiðar hækkuðu við þessa nýju skatta ríkisstj. frá 150 til 300 þús. kr. Þetta var nýr skattur, sem hæstv. ríkisstj. lagði á bifreiðakaupendur snemma á þessu ári. Enginn hafði búizt við því, að þetta væri undanfari enn frekari skatta. Þessu til viðbótar hækkar nú innkaupsverð bifreiða vegna gengisbreytingarinnar um ca. 12%. Hafa þá jeppabifreiðar hækkað á einu ári um ca. 140 þús. kr. og aðrar bifreiðategundir eftir því. Vörubifreiðar, sem algengast er að nota til flutninga, hafa þá hækkað, þegar þetta hvort tveggja kemur til, allt að millj. kr.

Það er ekki rétt að líta á bifreiðar sem lúxustæki. Þær eru nauðsynleg tæki. Það er líka þjóðhagslega slæmt að gera þessi tæki svo dýr í innkaupi, að þau verði ekki endurnýjuð á eðlilegum tíma. Það er of dýrt fyrir þjóðarbúið að balda gömlum og slitnum bifreiðum við, 10 ára gömlum eða meira. Þá fer of mikill gjaldeyrir í varahlutakaup og of miklir peningar til viðgerðar, þannig að það verður mjög slæmt fyrir allan almenning.

Það er talið, að ríkissjóður hafi haft 1500 millj, í tekjur af umferðinni, eins og það er kallað, á árinu 1971, reiknað á sama hátt og hæstv. fjmrh. reiknaði þetta út á árinu 1971, þegar hann sagði, að ríkissjóður hefði 800 millj. af umferðinni. Þetta var áður en Halldór E. Sigurðsson varð fjmrh. og tók við því ábyrgðarmikla embætti. Það var þegar hann var þm. Vesturl. og í stjórnarandstöðu. Þá taldi hann eðlilegast, að þær tekjur, sem hann taldi fram af umferðinni, færu í vegina, en ekki í ríkissjóð. Það er vitanlega fjarstæða að gera þær kröfur á hendur ríkissjóði, að hann missi af öllum þessum tekjum. En það sýnist vera laglegur skildingur að hafa um 1500 millj. kr. á einu ári af umferðinni, og hefði mátt búast við, að ekki þyrfti að bæta við þetta með nýjum álögum. Það var gert ráð fyrir því, áður en benzínið hækkaði og áður en gengið var lækkað, að innflutningsgjald af benzíni, sem rynni í ríkissjóð á árinu 1973, næmi 630 millj. kr. og önnur gjöld af bifreiðum, tollar, söluskattur af bifreiðum og bifreiðavarahlutum, gúmmíi og fleiru, næmu allt að 900 millj. kr. En eftir gengisbreytinguna og eftir hækkunina á benzíninu og þungaskattinum verður þetta vitanlega miklu meira. Mætti þá gera ráð fyrir, ef innflutningur yrði svipaður og 1971, að þessar tekjur færu yfir 2 milljarða.

Í ársbyrjun 1971 var hækkað benzínverð og þungaskattur, eins og hæstv. samgrh. minnti hér á áðan. En þá var þessari hækkun stillt í hóf. Það var ekki farið upp fyrir það mark, sem talið var vera sæmilegt. Það var miðað nokkuð við lægsta verð í nágrannalöndunum og séð svo um, að ekki væru of miklar álögur lagðar á bifreiðaeigendur. Það var einnig tekið tillit til þess, að þá rétt áður hafði innkaupsverð bifreiða verið lækkað mjög mikið með því að lækka innflutningstolla. Það var alveg öfugt við það, sem nú er. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur hækkað innflutningstolla mjög mikið, eins og ég lýsti áðan, og áður en hún kemur með till. um hækkun á benzíni og rekstrarvörum bifreiða. 1971 var benzínverðið ákveðið 16 kr. lítrinn og þungaskatturinn í samræmi við það. Þetta þótti sanngjarnt, þannig að allir þm. sameinuðust um þetta. Ég man ekki, hvort það sat einn hjá eða var á móti. Mönnum fannst þetta sanngjarnt, sérstaklega með tilliti til þess, að innkaupsverð bifreiðanna hafði verið lækkað mjög mikið rétt áður.

Núv. hæstv. fjmrh. talaði mikið í sambandi við vegáætlunina, sem gengið var frá til bráðabirgða 1971. Það eru margar ræður, sem mætti lesa upp úr merkilega kafla um þessi mál, frá þeim tíma. Hæstv. ráðh. vitnaði í ræðu, sem ég flutti við það tækifæri, þegar vegáætlunin þá var endurskoðuð og frá henni gengið. Þá sagðist hann fagna þeim orðum mínum, að það væri ekki eðlilegt eða rétt að hækka benzín eða þungaskatt meira en gert hefði verið og að tekjur í vegasjóð yrðu að koma úr ríkissjóði. Hv. þáv. þm. Vesturl., eins og hann er reyndar nú, en núv. hæstv. fjmrh., tók undir ræðu mína og sagði, að þetta væri það eina, sem gera ætti. Ég er meira að segja hér með ræðukafla frá þessum tíma, sem mætti vitna orðrétt í, en ég sé ekki ástæðu til að gera það. Ég hygg, að margir hv. þm. muni eftir þessum umr. Það hefur ekkert breytzt þannig frá því í marz og apríl 1971, þegar þessar ræður voru fluttar, að það væri sanngjarnara nú að hækka benzín og þungaskatt heldur en þá, sízt af öllu þegar hæstv. ríkisstj. hefur lagt háa skatta á bifreiðarnar, hærri en jafnvel þá skatta, sem lagðir voru niður af fyrrv. ríkisstj. árið 1970.

Mér finnst satt að segja þetta vera dálítið fálmkennt hjá hæstv. ríkisstj., að koma með þetta tekjufrv. nú fáum mánuðum eftir að vegáætlun hefur verið afgreidd. Nú er gert ráð fyrir því í vegal., að vegáætlun sé ekki heimilt að endurskoða nema á tveggja ára fresti. Þetta brýtur eiginlega í bága við vegal., enda þótt bókstaflega megi kannske segja að þetta sé heimilt, þá gengur það alveg í berhögg við anda laganna. Það var gert ráð fyrir því, að framkvæmdir samkv. vegáætlun væru fjármagnaðar með lántökum í hraðbrautirnar með láni frá Alþjóðabankanum, að svo miklu leyti sem vegasjóður gat ekki staðið undir því af samtímatekjum, og landshlutaáætlanir, Austfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun, einnig með lántökum eða þá framlögum úr ríkissjóði. Gert var ráð fyrir, að landshlutaáætlanir yrðu fjármagnaðar líkt og Vestfjarðaáætlunin var á sínum tíma, og er ekkert óeðlilegt, þótt það sé gert, vegna þess að þetta eru framkvæmdir, sem raunverulega eru utan við venjulegar vegaframkvæmdir, sem vegasjóði hefur verið ætlað að standa undir. Það er athyglisvert, að þegar vegáætlunin var til meðferðar á s.l. vori, minntist enginn á að afla fjár með þessum hætti til framkvæmdanna.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir að fá nýjar tekjur með hækkun á benzíni og þungaskatti og gúmmígjaldi, 230 millj. á næsta ári og nokkru hærra á árunum 1974 og 1975. En þótt benzíngjaldið sé ekki nema 2 kr., mun benzínverðið hækka um allt að 4 kr., þannig að útsöluverð á benzíni verður þá 20 kr. og er þá orðið talsvert hærra en það er í nágrannalöndunum, a.m.k. mörgum þeirra. Þá er orðinn nokkuð dýr sopinn af benzíninu.

Ég hygg, að hv. núv. stjórnarsinnar hefðu alls ekki gengið til samkomulags við mig undir þessum kringumstæðum, þótt þeir hafi gert það fyrr á árum, meðan hóf var á hlutunum og meðan það sjónarmið var ráðandi að lækka innkaupsverð á bifreiðunum. Þá var það vitanlega miklu réttlætanlegra að hækka rekstrarvörurnar heldur en gera hvort tveggja, eins og nú er gert, í jafnríkum mæli og raun ber vitni. Það virðist vera svo, að hæstv. ríkisstj. líti þannig á, að bifreiðarnar séu lúxustæki.

Nú er enginn vafi á því, að þessi mikla hækkun á benzíni og þungaskatti hefur mikil áhrif á dýrtíðina. Ég hygg, að kaupgreiðsluvísitalan hækki nokkuð á annað stig fyrir þessar ráðstafanir. Mér hefur verið sagt, að það gæti orðið alveg fullt K-stig, eins og það er kallað, af benzínverðinu einu. En af þungaskattinum kemur það ekki fram strax. Það verður eftir því, hvort strætisvagnar, vörubifreiða- og leigubilstjórar fá að taka tillit til þessara hækkana í sínum töxtum. En það má reikna með því, að svo verði, a.m.k. að einhverju leyti.

Það er gerð veruleg breyting á einni gr. eða tveimur gr. í þessu frv. hvað snertir þungaskattinn af jeppabifreiðum. Það hefur verið þannig, að þegar bændur hafa getað lagt fram vottorð og sannað hlutaðeigandi skattstjóra eða umboðsmanni hans samkv. nánari ákvæðum í reglugerð, að bifreiðar þeirra hafi verið notaðar til framleiðslustarfa og við jarðyrkjustörf næsta ár á undan, þá hafi þær verið alveg undanþegnar þungaskatti. Þannig hafa bændur í flestum tilvikum fengið undanþeginn þungaskatt af bifreiðum. Nú er þessu ákvæði breytt þannig, að þeim er ætlað að fá aðeins helming eftirgefinn af þungaskattinum. Þetta kemur til viðbótar við bændaskattinn fyrr á þessu ári. Þá hafa jeppabifreiðarnar hækkað í verði nærri um 150 þús. kr., og ofan á það kemur þungaskatturinn, 27 þús. kr. hið minnsta, helmingur af því 13500 kr., sem bændur hafa ekki þurft að greiða áður. Ég ræddi við einn ágætan mann, bónda úr stjórnarliðinu, hér í dag og spurði, hvort það væri ekki hægt með góðu að koma þessu ákvæði út. Hann bjóst ekki við því, enda rann þetta í gegnum Ed. Stjórnarliðið sameinaðist alveg í Ed um þetta mál og ætlar sér að gera það einnig í þessari d. En ég vek athygli á því, að þetta ásamt fleiru í þessu frv. er ranglátt, algerlega ranglátt. Jeppabifreiðarnar hafa verið hentugar í strjálbýlinu úti í sveitum landsins. Og það er alveg áreiðanlegt, að það er litið þannig á í sveitunum í dag, að jeppabifreið sé ómissandi á hverjum bæ, það væri ekki hægt að framleiða búvörur án þess að hafa þetta tæki. En nú er það skattlagt eins og það væri lúxus. Hvað kemur til? Hvernig sem fjárhagur ríkissjóðs er, getur þetta ekki haft svo stór áhrif, að það skipti verulegu máli fyrir hann, hvort innheimtur er þungaskattur af jeppabifreiðum að helmingi eða hvort hann er gefinn eftir að fullu, eins og verið hefur. Endurgreiðslur á þungaskatti samkv. vegáætlun eru 2 millj. kr., og þegar á heildina er litið, er þannig ekki um ýkjamikla fjárhæð að ræða. En bóndann munar um það að borga 13500 kr. umfram það, sem hann hefur áður gert, í þungaskatt af þessu nauðsynlega tæki sínu, til viðbótar því, að kaupverðið er hækkað á einu ári um nærri 150 þús. kr. Ég er alveg sannfærður um, að fjöldi bænda verður í vandræðum með að endurnýja þessi ágætu tæki. Og hætta er á því, að menn muni gera við þau í lengstu lög, þótt þau séu slitin og gömul, þannig að það verði margfaldur kostnaður við útgerð þeirra.

Ég vil nú, þótt frv. hafi farið í gegnum Ed., vinsamlegast fara þess á leit, að þetta ákvæði verði athugað, hvað sem öðru líður, vegna þess að hér er ekki um stórt fjármál að ræða fyrir ríkissjóð. Hér þarf ekkert nema svolítið meiri skilning og svolítið meiri vilja til að fullnægja nauðsynlegu réttlætismáli, sem hefur gilt undanfarin ár.

Það er vitanlega spurt að því, hvers vegna hæstv. ríkisstj. hækki nú þungaskatt og benzín fáum mánuðum eftir að vegáætlun hefur verið samþykkt og afgreidd hér í hv. Alþ. Það er eðlilegt, að það sé spurt að því. Er það vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hafi gefizt upp á því að afla fjár með þeim hætti, sem ákveðið var, þegar vegáætlun var samþykkt? Er það vegna þess, að ríkissjóðsbréf hafa ekki selzt eins og áður? Eða er það vegna þess, að hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til að afla þessa fjár, annaðhvort með lánum eða framlögum úr ríkissjóði, sem hæstv. fjmrh. taldi einu réttu leiðina, á meðan hann var í stjórnarandstöðu? Það er vitanlega mjög slæmt, ef fjárhagur ríkissjóðs er þannig og lánstrausti hans þannig komið, að ekkert annað úrræði sé fyrir hendi til þess að standa við vegáætlunina heldur en þetta úrræði, að leggja nú á umferðina 230 millj. kr. nýjan skatt með benzínhækkun, auk þess sem hækkunin nam á s.l. vori nærri 200 millj. kr. Þetta eru ekki aðeins 230 millj. plús 200 millj., sem innheimtar hafa verið á þessu ári, heldur koma til viðbótar þessum 230 millj., sem renna til vegaframkvæmda, um 170 millj., sem eru söluskattur, hækkuð álagning, hækkuð flutningsgjöld vegna gengisbreytingarinnar, hækkað innkaupsverð vegna gengisbreytingarinnar. Þetta allt leggst einnig á umferðina, þótt vegaframkvæmdirnar njóti þess ekki. Það verða þá um 600 millj. kr. í nýjum sköttum, sem verða lagðar á umferðina á þessu ári, ef þetta frv. verður lögfest eins og það er, — 600 millj.: 200 millj. fyrr á þessu ári, nýju skattarnir, þar með taldir bændaskattarnir, 230 millj. af tekjum þessa frv., sem fara í vegaframkvæmdir, og um 170 millj., sem fara í kostnað og ríkissjóð. Ég vil vekja athygli á þessu. Þetta er skattpíning. Þetta eru álögur á þessi tæki eins og þau væru lúxustæki, 600 millj. kr. nýjar álögur á einu ári.

Ég sé, að hæstv. samgrh. er að skrifa hjá sér. Honum finnst þessi tala eitthvað ótrúleg, 600 millj. En það er hægt að færa rök fyrir því, ef hæstv. ráðh. vantar þau. Þetta er svona. Þess vegna er það ekki rétt, þegar hæstv. ráðh. var að segja hér áðan, að það væri ákveðið með þessu frv. að hækka nokkuð benzínverð og þungaskatt. Þetta er meira en nokkuð. Það er mjög mikil hækkun og mjög tilfinnanleg. Það gæti verið, að þetta verkaði þannig, að tekjurnar kæmu ekki inn. Þetta gæti verkað þannig, að benzínsalan drægist saman. Það gæti verkað þannig, að það yrðu færri km eknir í stórum bifreiðum, sem borgað er gjald af eftir mæli, og þá aukast tekjurnar ekki eins og reiknað er með. Það er ekki öruggt, að það verði með benzínið og þungaskattinn eins og áfengið og tóbakið, því að það virðist vera alveg sama, hvaða verð er sett á það, það rennur alltaf út. En ég hygg, að ýmsir, sem eiga bifreiðar, hafi keypt þær á dýru verði og séu ekki allt of vel stæðir, jafnvel hugsi sig um, hvort þeir geti ekki sparað 100 kr. á dag með því að eyða t.d. 5 lítrum minna af benzíni en þeir áður gerðu. Þá kemur þetta niður á vegasjóði, og þarna yrði þá tekjumissir hjá vegasjóði þrátt fyrir þessa miklu hækkun á benzíni og þungaskatti.

Það verður áreiðanlega ekki af hæstv. ríkisstj. skafið, að hún hefur verið dugleg að hækka skatta og gjöld á landsmönnum. Það hefur hún gert í mörgu formi. Það má segja, að hún hafi verið hugvitsöm að finna upp ýmiss konar hækkanir til þess að ná fjármunum af fólki langt umfram það, sem nokkur önnur ríkisstj. hefur gert eða talið rétt að gera. Það er ekki langt frá því, að það megi segja, að sú mikla dýrtíðaralda, sú verðhækkunaralda, sem nú rennur yfir þjóðina, sé einmitt orsök þess, hvað hæstv. ríkisstj, hefur verið frek til fjárins, farið langt ofan í vasa alls almennings. Vitanlega hefur almenningur reynt að snúast til varnar, eftir því sem föng hafa verið á, þótt þar hallist nú mjög á og lífskjör manna rýrni vegna þessarar margvíslegu skattpíningar. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. samgrh. afsaki sig hér á eftir og endurtaki það, sem hann sagði áðan, að þetta frv. er flutt til þess að koma í veg fyrir samdrátt í vegaframkvæmdum. Þá er það vegna þess, að hæstv. ráðh. hefur verið neitað um eða hann hefur ekki séð möguleika á að ná fé til framkvæmdanna með þeim hætti, sem ætlazt var til og samþykkt var með afgreiðslu vegáætlunarinnar á s.l. ári.

Það hefur verið sagt, að fjárhagur ríkisins væri mjög slæmur, og hann hefur verið það allt þetta ár, mikil skuld í Seðlabankanum, meiri en dæmi eru til. En nú síðustu vikurnar hefur verið sagt, að brennivínssalan hafi jafnvel bjargað talsverðu, og óttinn við vaxandi verðbólgu hefur ýtt á innflutning og aukið tolltekjurnar. Þegar fólk er farið að hugsa svo, að það fái örugglega minna fyrir krónuna á morgun heldur en í dag, þá skapast það, sem stundum hefur verið kallað kaupæði. Það kemur mikill þrýstingur á innflutning varanna og þá ekki síður þeirrar vöru, sem er hátt tolluð. Með þessum hætti hafa tekjur ríkissjóðs aukizt talsvert síðustu vikurnar og síðustu mánuðina, auk þess sem beinar skatttekjur hafa farið langt fram úr áætlun. Ég hygg því, að hæstv. ríkisstj., ef hún hefði viljað miða við það, sem nú hefur gerzt, þá hefði hún getað fjármagnað vegaframkvæmdirnar eins og ætlazt var til og tekið þann bikar, sem hér er á borð borinn, frá þjóðinni og sparað það að hækka álögurnar á ökutækin, eins og hér er um að ræða. En það virðist vera svo, að hæstv. ríkisstj. þrátt fyrir þessar auknu tekjur, sem ég var að lýsa, og hvalreka, sem mætti kalla, — þá virðist vera svo, að hæstv. ríkisstj. reikni ekki með, að þessi hvalreki endist fram á næsta ár, því að nú á það að ske, sem ekki hefur verið gert lengi, að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla. Það má náttúrlega segja, að það sé ekki í samræmi við það, sem ég var að lýsa í sambandi við miklar tekjur af brennivíni og miklum innflutningi. En mér hefur verið tjáð, að fjárl. mundu verða afgreidd með greiðsluhalla að þessu sinni og verklegar framkvæmdir verði skornar niður um mörg hundruð millj. kr. Þá verður hlutfallið ekki hagstætt milli verklegra framkvæmda og rekstrar í ríkisbákninu. Meðan núv. stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, var mikið um það rætt, að verklegar framkvæmdir væru tiltölulega litlar miðað við heildarútgjöld fjárl. En ég ætla ekki að fara að ræða fjárl. í sambandi við þetta frv., — tefja tímann á því. Það gefst tími til þess við annað tækifæri. En það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, hjá hæstv. ráðh., hvort þeir telji útlítið svo svart í fjármálunum, að þeir hafi raunverulega gefizt upp við að útvega fé til vegaframkvæmda með þeim hætti, sem Alþ. samþykkti á s.l. vori. Flutningur þessa frv. er raunverulega viðurkenning á því, að ríkisstj. hafi ekki treyst sér til að afla fjárins með þeim hætti, sem samþykkt var fyrir fáum mánuðum. Hæstv. ríkisstj. verður að gera sér grein fyrir því, að það eru takmörk fyrir því, hversu langt má ganga í skattpíningu og skattaálögum. Almenningur snýst til varnar og gerir kröfur um því hærra kaup sem ríkisvaldið sækir fastara á um að komast í pyngju alls almennings. Dýrtíðarflóðið, sem gengið hefur yfir þjóðina, gerir öllum ljóst, að kaupmátturinn er að rýrna. Húsmæðurnar kvarta yfir því, að vörurnar séu dýrar og dagpeningarnir endist illa. Næstum því hver fjölskylda í landinu á bifreið. Það er ekki lengur talinu lúxus að hafa bifreið, heldur er það nauðsynjatæki, sem allir þurfa að hafa, hvort sem þeir teljast vera efnaðir eða rétt sæmilega sjálfbjarga.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að svo stöddu að fara ítarlegar út í þetta frv. Ég vildi aðeins nota tækifærið og benda á þær augljósu staðreyndir, sem hér er um að ræða. Stefnan, sem fylgir því að leggja þessa nýju skatta á almenning í landinu og umferðina, hlýtur að draga dilk á eftir sér. Mælirinn var raunverulega fullur löngu áður en þetta frv. var á borð borið. Ég tel því sjálfsagt að greiða atkv. á móti þessu frv. Sjálfstæðismenn voru andvígir því í Ed., og ég geri ráð fyrir því, að svo verði einnig í þessari hv. d. En samkv. viðtölum mínum við stjórnarsinna mun ekkert hik vera á ríkisstj. að bera þetta frv. fram og nota þingfylgi sitt til þess. Það má þess vegna segja, að það sé tilgangslitið að því leyti að deila við dómarann. En ég taldi skylt að láta þessar skoðanir mínar koma hér fram.

Ég vil árétta það, sem ég sagði hér áðan í sambandi við þungaskattinn af jeppabifreiðunum, þar sem þar er um lítið fjármagn að ræða fyrir heildina, þótt það sé mikið fyrir þá einstaklinga, sem eiga að bera það. Vil ég mælast til, að það atriði út af fyrir sig verði athugað, því að það getur hæstv. ríkisstj. gert, enda þótt hún sé svartsýn og vonlítil um fjáröflun til vegaframkvæmda, nema þetta stóra skattafrv. verði samþykkt. Og enn vil ég minna hæstv. samgrh. á, að þetta frv. felur ekki í sér aðeins 230 millj, kr. útgjöld. Það felur í sér nærri 400 millj, kr. útgjöld, og skattarnir, sem voru lagðir á fyrr á þessu ári, munu nema hátt á annað hundrað millj., samtals 600 millj. kr. nýir skattar á umferðina á einu ári. Það er met! En hæstv. ríkisstj. hefur sett fleiri met. Hún hefur sett met í skattheimtuálögum og dýrtíð á Íslandi.