20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

95. mál, almannatryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga, þótt mál þetta sé tekið út úr sölum þingsins að þessu sinni. Sú staðreynd blasir við, að þegar mál eru þannig komin, þá eru samt sem áður viðkomandi aðilar, — og þá nú frá áramótum, bæði yfir- og undirmenn, — tryggðir þeirri beztu tryggingu, sem hægt er að hugsa sér, þ.e. tryggingunni, sem þeir hafa samkv. lögunum margumræddu frá því í sumar. Hins vegar hef ég haldið, að það hefði verið vilji fyrir hendi hjá aðilum til að leysa þann vanda, sem talað var um, að væri í sambandi við tryggingamálin í heild hjá þessum mönnum. Ég geri mig samt sem áður ánægðan með það, sem hér hefur komið fram, hafandi í huga, eins og ég tók fram í mínu máli hér í gærkvöld í sambandi við það, að út úr því muni koma, — sem var tilætlan flm. umrædds frv., sem að lögum varð, — að heildartryggingamál sjómanna fái þá endurskoðun, sem vert er, að þau fái, með það fyrst og fremst að fororði, að bætt verði úr þeirri hneisu, sem við höfum látið þessa stétt manna búa við á undanförnum árum.