20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

95. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég ætla að svo stöddu að leiða hjá mér að fara að ræða um rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, enda skildist mér á síðasta hv. ræðumanni fyrir eitthvað 1–2 dögum, að þar væri ekki svo mikill vandi á höndum, að það þyrfti þess vegna að vera að grípa til þeirra aðgerða, sem við vorum að ræða hér í fyrradag og í gær. En ég skal ræða aðeins örlítið það mál, sem bann minntist á og hér er til umr.

Sannleikurinn er sá, að ég verð að segja, að útgerðarmenn vöknuðu helzt til seint upp við það, að afgreitt hefði verið á síðasta þingi frv., sem þeir komust svo að niðurstöðu um eftir dúk og disk, að væri þeim óskaplega hættulegt. Þeir komu því þó á framfæri, að ég hygg á s.l. sumri, að sú ábyrgð, sem hefði verið samþ. í þessu frv., gæti orðið þeim svo þungbær, að þeir fengju ekki risið undir því, tryggingafélög vildu ekki taka að sér tryggingu á þessu o.s.frv. Það var tilefni til þess, að þessi mál voru rædd í ríkisstj., og eins og ég hygg, að hafi komið fram hjá hæstv. trmrh., varð það til þess, að hann rannsakaði, hvort Brunabótafélag Íslands og jafnvel Tryggingastofnunin gætu ekki hugsað sér að taka að sér ábyrgð — að vísu ekki alveg fulla og ótakmarkaða ábyrgð, heldur á ákveðinni upphæð, sæmilega ríflegri fjárhæð. Það tókst að ná þessu fram, og þetta var gert kunnugt. Eftir það gerðist sá ánægjulegi atburður, að önnur tryggingafélög treystu sér þá til að taka þessa tryggingu að sér. Þrátt fyrir þessa lausn, sem mátti teljast sæmileg bráðabirgðalausn a.m.k., var öllum ljóst, að það gat verið um að ræða áhættu — e.t.v. verulega áhættu — fyrir útgerðarmann fram yfir þessa fjárhæð, sem þannig fékkst tryggð. Og það var gert ráð fyrir því, ég vil segja, að við í ríkisstj. höfum gefið vilyrði fyrir því, að þetta ákvæði siglingal. yrði tekið til endurskoðunar. Menn geta talað um fyrirheit eða vilyrði í því sambandi eftir því, hvernig þeir vilja orða það. Síðan varð ég ekki var við þetta mál um sinn, þangað til á minn fund gengu, þegar fundur Landssambands ísl. útgerðarmanna var haldinn hér, allmargir fulltrúar og voru mjög áhyggjufullir og töldu sig hafa upplýsingar um, að það hefði ekkert verið gert í þessu máli, og báru fyrir sig í því sambandi orð starfsmanns í trmrn. Mér þótti þetta með ólíkindum, þar sem þessi mál hafði borið á góma í ríkisstj., og ég sagði þeim, að ég vissi ekki betur en trmrh. hefði verið að vinna eða láta vinna að þessu máli. Ég kom svo á sambandi þannig, að trmrh. kallaði þessa menn ásamt þeim mönnum, sem að þessum málum höfðu unnið, og má vera fulltrúum farmanna og fiskimanna á sinn fund, þar sem mál þessi voru rædd, og hygg ég, að þar væri upplýst, — mér var tilkynnt um það aftur frá einum þeirra manna, sem höfðu gengið á minn fund, að þeir hefðu upplýst, að það hefði verið rétt, sem ég sagði um þetta mál. Málin höfðu verið í athugun og undirbúningi í trmrn., og það var verið að semja frv. eða lagaákvæði, sem tók til þess. Ég veit náttúrlega ekki, hvernig það var eða hvort það var alveg eins og það, sem hér hefur verið lagt fram. Ég get ekki borið vitni um það og skal ekki blanda mér í það.

Ég held fyrir mitt leyti, að það hafi verið gert allt of mikið úr þeirri óskaplegu áhættu, sem lögð hafi verið á útgerðarmenn með þessu ákvæði, sem samþ. var á síðasta þingi inn í siglingal. Sannleikurinn er sá að mínu viti, að dómstólar hafi framkvæmt þessi mál þannig, að þeir í mjög mörgum tilfellum hafi lagt ábyrgð á útgerðarmenn og dæmt bætur í þeim tilfellum, þar sem það var nú beinlínis lögboðið eftir þessum lögum. En það er rétt, að þar er um hlutræna ábyrgð að ræða, og sjálfsagt má frá fræðilegu sjónarmiði sitthvað að því finna.

Hér hefur orðið ágreiningur um þær leiðir, sem lagt hefur verið til að fara í þessu efni. Mér sýnist, að leiðirnar mundu a.m.k. hafa þann kost, — og það raunar hvort sem lægri eða hærri fjárhæð væri tekin, — að tryggingin mundi sjálfsagt kosta útgerðina í heild nokkuð minna en hún gerir nú í framkvæmdinni.. Ég veit ekki um hvað hefur orðið samkomulag á þessum fundum eða á fyrri fundum milli Farmanna- og fiskimannasambands og útgerðarmanna. Um það get ég ekki borið vitni. En ég verð að segja það, að frá mínu leikmannssjónarmiði fannst mér, að í þessari frvgr., eins og hún var fyrst lögð fram, væri fólgin mjög viðunandi réttarbót fyrir sjómenn og ekki heldur um þyngra álag að tefla en sanngjarnt væri að ætla útgerðarmönnum að tryggja sig gegn.

Viðvíkjandi því, hvort þessi trygging skuli tekin hjá einu tryggingafélagi eða hún gefin frjáls, þá er það skoðun mín, að það sé heppilegra, að þetta sé frjálst, að útgerðarmönnum sé gefinn kostur á því að leita trygginga hjá fleiri félögum og reyna með þeim hætti að fá sem hagstæðust kjör. Nú hefur hæstv. trmrh. borið fyrir sig tryggingafræðing um það, að þá sé ekki grundvöllur fyrir því að ná þeim kjörum, sem um hefur verið rætt í þessu sambandi, og ég skal ekkert segja um það. En mér sýnist, að eins og er sé þess ekki kostur að fá þetta ákvæði afgreitt nú fyrir jólin, og afleiðingin af því verður þá sú, að áfram standa ákvæði siglingal., og það gæti þá um sinn verið framkvæmt með þeim sama hætti og verið hefur, að það fengist trygging hjá tryggingafélögunum fyrir þeim hámarksfjárhæðum, sem tryggt hefur verið fyrir, og sú trygging mundi að vísu, að ég hygg, kosta talsvert meira, þegar á heildina er litið, heldur en þetta, sem hér hefur verið talað um. Það gæti staðið um sinn. En þá yrðu útgerðarmenn jafnframt að vera við því búnir að taka á sig nokkra toppáhættu, ef svo mætti segja, ef það kæmi fyrir, að tjón færi fram úr því, sem trygging er keypt fyrir.

Það var á sínum tíma leitað eftir því, hvort ríkissjóður vildi taka ábyrgð á þeim toppi. Við urðum auðvitað að svara því, að til þess hefði ríkissjóður enga heimild. Það var engin heimild í lögum til þess, og svo verður auðvitað að vera áfram um sinn, að útgerðarmennirnir verða að bera þessa umframáhættu, sem ég hygg, að sem betur fer hafi ekkert reynt á það tímabil, sem liðið er, og ég vil vona, að verði fátítt, að reyni á. En auðvitað er ekki hægt að fullyrða neitt um það, hvort til geti komið slíkt tilvik.

En ég vil um leið endurtaka það vilyrði eða fyrirheit, sem af ríkisstj. hálfu hefur verið gefið, að það verði unnið áfram að þessu máli á þá lund að fá setta sérstaka löggjöf. Ég geri ráð fyrir, að að formi til geti þá verið heppilegast, að það sé sérstakt lagafrv. um þessar tryggingar, en hvað sem öllu formi líður, þá verði unnið að því, að það verði svo skjótt sem kostur er, eftir að þing kemur saman að nýju, reynt að leysa þennan hnút.

Ég vona, að ég hafi með þessu svarað þeirri fsp., sem hv. þm. beindi til mín í, þessu sambandi, og ég get ekki gefið við henni rækilegri svör. Það er að sjálfsögðu svo, að þetta atriði heyrir málefnislega undir annan ráðh, en mig, heyrir undir trmrh., en ég hygg, að það, sem ég hef sagt hér, sé í samræmi við það, sem hann og við höfum áður gefið í skyn gagnvart útgerðarmönnum.