20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

95. mál, almannatryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki draga þessar umr. á langinn frekar en ástæða hefur þegar gefizt til. En ég vil þó taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, og reyndar er ég búinn að sjá merki þess, að það séu líkindi á, að þetta mál verði leyst hér í kvöld, og ber þá auðvitað öllum þeim, sem að því hafa staðið, þakkir fyrir. Og í sannleika sagt virðist manni, að það hljóti að vera hægt að ná samkomulagi, þegar hjá tveim aðilum, sem deila um málið, hv. 12. þm. Reykv. og hæstv. trmrh., kemur fram sem meginmál, annars vegar hjá hv. 12. þm. Reykv. óttinn við, að Tryggingastofnun ríkisins muni tapa á þessum tryggingum, en hins vegar sú skoðun hæstv. ráðh., að einstök vátryggingafélög muni græða það mikið, að það sé ekki nokkur leið að láta þau taka þessar tryggingar að sér. Ef þetta eru skoðanirnar, sem málið á að stranda á, þá segi ég eins og hv. síðasti ræðumaður, þá hljótum við að geta leyst þetta mál í kvöld.

En það var ekki það, sem olli því, að ég bað um að fá að segja hér nokkur orð, heldur upphafsorð í ræðu hv. 12. þm. Reykv. Vegna þeirra skoðana, sem komu fram í máli hv. þm., þá má vera, að íslenzkum sjómönnum hafi ekki tekizt til þessa að ná þessum tryggingum sínum frekar fram en raun ber vitni um. Það er auðvitað alveg hárrétt hjá hv. þm., að harmurinn hlýtur að vera sá sami, þegar ekkjan stendur frammi fyrir því að hafa misst sína fyrirvinnu, sinn eiginmann, og að harmurinn sé hinn sami hjá börnunum, sem hafa misst sinn föður, hvar í stétt sem þessir aðilar standa. En það er kannske ekki alveg sama, þegar sitja saman í hóp 30 ekkjur, hvort 29 þeirra séu sjómannsekkjur. Ég veit það t.d., að ef við ættum að ná fram líkindatölu í sambandi við dauðaslys í starfi, þá þyrftu að líða um það bil 1500 ár, þangað til hv. þm. gæti farið að óttast, að hennar eiginmaður, sem er prófessor við háskólann, mundi láta sitt líf í starfi, og er þá miðað við slysalíkindatöflu íslenzkra fiskimanna á móti.

Ég leyfi mér að benda á þetta og hef nokkra reynslu af, því að ég er sonur fiskimanns, sem stundaði þau störf fram á sín efri ár, að ég þekki nokkuð til þess, sem eiginkonum þessara manna er búið. Og ég vil leyfa mér að halda því fram, að íslenzka þjóðfélagið, íslenzka þjóðin hefur hér skyldum að gegna. Ég er ekki að tala um, eins og ég reyndar benti hér á í gærkvöld í sambandi við till., sem þm. Sjálfstfl. fluttu á síðasta þingi, að það sé eingöngu útgerðarmannsins að standa undir þeim bagga. Það er skylda þjóðfélagsins að standa undir því, að þessir menn séu þannig tryggðir, að eiginkonur þeirra og börn geti a.m.k. búið við það efnalega öryggi eða búizt við því efnalega öryggi, að þau fái sérstaka hjálp frá tryggingum um ákveðið árabil, ef fyrirvinnan fellur frá. Stærsta og versta aðstaða sjómannskonunnar í lífinu, miðað við aðrar íslenzkar eiginkonur, er að búa stöðugt við þennan ótta, við þá staðreynd, að í þessari stétt, sem hennar eiginmaður tilheyrir, falli frá árlega sú prósentutala, sem ég gat um hér í gærkvöld og reyndar kom fram í umræddu frv. okkar í fyrra. Það er þessi staðreynd, sem okkur ber að hafa í huga, og það er kannske einmitt með þá staðreynd í huga, sem við ættum að taka saman höndum hér í kvöld að leysa þetta vandamál, sem mér virðist vegna góðra manna aðstoðar, að geti gerzt, og beri öllum heiður og þökk fyrir, og ég vil leyfa mér að segja; ekki sízt hæstv. trmrh. fyrir að hafa tekið málið upp á sínum tíma. Jafnvel þó að málið fari frá hans rn. nú og yfir í annað rn., — það er mér algert aukaatriði. Ef þessi trygging kemst á, þannig að allir geti vel við unað, þá er tilganginum náð. Þá er þeim tilgangi náð, sem var hafður í huga, þegar ég og hv. þm. Friðjón Þórðarson fluttum margumrætt frv.