20.12.1972
Neðri deild: 34. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

131. mál, vegalög

Frsm, meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það hefur ekki verið langur tími, sem samgn. hefur haft til umráða til að athuga þetta frv., því að 1. umr. lauk ekki fyrr en kl. að ganga 8. En þar sem meiri hl. samgn. telur, að það sé mikil nauðsyn á að samþykkja þetta frv. fyrir jólafríið, en hins vegar er n. sammála um að athuga ýmsar þær breytingar, sem í því felast, aftur síðar í vetur, — þar á ég við 3. og 4. gr. frv., — þá leggur meiri hl. til, að frv. verði að þessu sinni samþ. óbreytt.

N. barst bréf frá Landfara, landssamtökum vörubifreiðaeigenda, en það er mikil óánægja meðal þeirra og hefur lengi verið út af þungaskattinum. Mál þessara vörubílstjóra, sem aka vörum út á land, þarf að athuga með einhverjum hætti, og vil ég vekja athygli á því. Þeir kvarta yfir því, að þeir hafi ekki fengið að hækka flutningsgjöld og ef það verði ekki gert, muni þeirra starfsemi verða að hætta. Þetta er mál, sem þarf auðvitað að athuga síðar með einhverjum hætti.