12.10.1972
Sameinað þing: 2. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það gefur auga leið, að þegar ákveðin hefur verið fiskverðshækkun á þann hátt, sem nú hefur verið ákveðið, þá hlaut verð á fiski hér innanland einnig að hækka, og gat engum komið á óvart. Verðlagsnefnd hefur orðið sammála um það og ríkisstj. hefur staðfest samþykkt verðlagsnefndar að heimila verðhækkun á neyzlufiski, sem samsvarar verðhækkun á hráefni því, sem þarna er um að ræða, enda er sú hækkun, sem hér er um að ræða, aðeins útreiknuð af verðlagsstjóra sem sú hækkun, sem leiðir beint af fiskverðshækkuninni. Hér er ekki um neina aðra verðbreytingu að ræða.

Þessi verðhækkun á fiski hefur að sjálfsögðu áhrif á framfærsluvísitöluna og kaupgjaldsvísitöluna. Þessi verðhækkun verður greidd niður, en það hefur ekki enn þá verið tekin ákvörðun um það, í hvaða formi sú niðurgreiðsla verður gerð. En hún verður greidd niður eins og lög og reglur standa til um niðurgreiðslu á vörum, þannig að kaupgjaldsvísitalan haldist í því horfi, sem ætlað var, yfir verðstöðvunartímabilið.