20.12.1972
Efri deild: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur tekið talsverðum breytingum, síðan það var afgreitt héðan úr hv. N.d. Það þótti rétt við afgreiðslu málsins í Nd. að setja inn í þetta frv. ákvæði — í rauninni um nokkuð annað mál en frv. aðallega fjallaði um.

Þannig stendur á, eins og öllum hv. þm, er kunnugt, að það hefur verið unnið að því nú um skeið af sérstakri n., sem er skipuð fulltrúum allra flokka, að gera nýjar till. um skipan fiskveiðimálefna í landhelgi. Fyrri lagaákvæði um það, hvernig þeim málum er skipað, eru þannig, að þau renna út nú um næstu áramót, og þarf óhjákvæmilega að setja ný lagaákvæði varðandi rétt til fiskveiða í landhelginni með botnvörpu og flotvörpu. Fiskveiðilaganefndin, sem hefur unnið að þessum málum að undanförnu, hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki unnt að leggja fyrir Alþ. till. um þetta viðtæka málefni á þann hátt, sem hún óskar eftir að gera, þar sem drög yrðu lögð fyrir Alþ. að nýrri löggjöf varðandi nýtingu fiskveiðilandhelginnar, og telur, að hún þurfi að fá frekari tíma til að vinna að sínu margslungna verkefni. En n. hefur orðið ásátt um að leggja til, að eldri lagaákvæði verði framlengd nú um nokkurn tíma eða fram á næsta vor, en þó verði gerðar nokkrar breytingar á lagaákvæðunum, sem full samstaða er um, að gerðar verði. Þessar breytingar á frv. hafa nú verið samþ. og efni þeirra er í aðalatriðum þetta:

Tekin eru upp skýr ákvæði um það, að ráðh. hafi heimild til þess, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, að veita leyfi til loðnuveiða í landhelginni með flotvörpu. Er alveg tvímælalaust nauðsynlegt, að það liggi skýrt fyrir, að þessi möguleiki sé fyrir hendi.

Þá er auk þessa ákveðið að taka fram, að leyfilegt sé að grípa inn í með sérstökum stjórnarráðstöfunum, þegar svo stendur á, að um mikið smáfiskadráp er að ræða eða seiðadráp, — þá sé hægt með skyndiráðstöfunum að koma í veg fyrir slíkt með útgáfu reglugerðar. Atvik af þessu tagi hafa komið upp áður og hefur leikið nokkur vafi á því, a.m.k. í sumum tilfellum, að þarna væri hægt að grípa inn í. En n, er á því, að það sé nauðsynlegt að taka upp ákvæði um þetta, þannig að það leiki enginn vafi á því, að sjútvrn. geti gripið inn í í þessum tilvikum.

Þá er auk þessa verið að taka af tvímæli um að mínum dómi, að sjútvrn, geti auglýst ný friðunarsvæði og breytt eldri friðunarsvæðum eftir að leitað hefur verið álits Hafrannsóknastofnunarinnar, — þá geti sjútvrn, gert það þrátt fyrir ákvæði í lögum varðandi opnun tiltekinna svæða, sem þessi lög, sem hér er verið að breyta, fjalla sérstaklega um. Það var alltaf ætlunin, að í gildi yrði þessi almenna heimild, sem sjútvrn. hefur samkv. landgrunnsl. frá 1948, en það hefur þótt leika á því nokkur vafi, að þetta væri hægt, vegna vissra ákvæða í þeim lögum, sem hér er verið að breyta.

Þá eru einnig tekin upp ákvæði um það, að sjútvrn. skuli beíta sér fyrir auknu eftirliti með veiðum fiskiskipa innan fiskveiðilögsögunnar, og er lögð sérstök áherzla á að líta eftir veiðarfærabúnaði skipanna. Er ætlunin, að alveg sérstakar ráðstafanir verði gerðar í þessum efnum.

Þetta eru aðalatriðin, sem n. lagði til, að ákveðin yrðu til viðbótar við fyrri lagaákvæði, en að öðru leyti voru till. n. um það að framlengja gildandi veiðiheimildir fyrir botnvörpuskip í landhelginni til 15. maí á næsta vori, og var þá sérstaklega miðað við vertíðarlok. Sú breyting var gerð á þessari till. í Nd., að tímamörkin voru miðuð við 1. júlí, eingöngu út frá því sjónarmiði, að það væri hætt við því, að þau lög sem kynnu að verða sett og stendur til að setja varðandi nýtingu fiskveiðilandhelginnar, yrðu varla fulltilbúin hér frá Alþ. fyrr en t.d. seint í aprílmánuði og jafnvel kannske komið fram í maímánuð. Þá væri um of skamman tíma að ræða, ef fyrri lagaákvæði hefðu aðeins verið framlengd til 15. maí, því að það væri rétt að tilkynna mönnum slíkar víðtækar breytingar á löggjöf eins og þessari með lengri fyrirvara en tveggja vikna eða svo. En ef svo vel tækist til, að Alþ, væri búið að afgreiða ný lög um þetta efni fyrr en ég hef hér áætlað, t.d. í marzmánuði, þá er auðvitað einfalt að setja inn í þau lög, að þau skuli taka gildi fyrr, og breyta þá þessu aftur í 15. maí. En Nd. leit svo á, að rétt væri að miða þessi tímamörk við 1. júlí af þessum ástæðum, sem ég hef greint.

Um þessi atriði var sem sagt sjútvn. Nd. öll sammála, og þetta eru till. fiskveiðilaganefndar, sem hún var öll sammála um, að þyrftu að ná fram að ganga, og þótti rétt að setja þetta inn í þetta frv., sem hafði áður fengið af greiðslu hér í hv. Ed.

Það komu svo fram fleiri brtt. í Nd., og sé ég ekki ástæðu til að fara að greina frá þeim.

Ég vænti þess, að þetta frv. geti fengið greiða afgreiðslu í hv. Ed. Það er brýn nauðsyn á því að framlengja þau lagaákvæði, sem hér um ræðir, og það er verið að vinna að því að undirbúa löggjöf um þessi efni, sem allir eru sammála um, að þarf að setja löggjöf um. Hins vegar er það verkefni býsna viðamikið og erfitt viðureignar, því að það eru uppi mjög skiptar skoðanir á því, hvernig skuli skipa fiskveiðimálunum, og ég er í rauninni ekki hissa á því, þó að fiskveiðilaganefndin þurfi lengri tíma, því að hennar starf lá lengi niðri. Hún byrjaði aftur á sínum störfum á s.l. hausti, en tíminn hefur ekki dugað til þess að ljúka þeim, þar sem hún tók líka það ráð, eins og áður hefur verið gert, að efna til funda víða úti um land með þeim aðilum, sem mest hafa af þessum málum að segja, og það er sem sagt óhjákvæmilegt að taka lengri tíma til þess að reyna að ná sem viðtækustu samkomulagi um málið.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. d. telji nauðsynlegt, að frv. fari til n. og þar verði litið á það, vegna þess, hve breytingarnar eru viðtækar, en um það geri ég engar till. Ég óska aðeins eftir því, að d. sjái sér fært að afgreiða málið sem allra fyrst. — [Fundarhlé].