24.10.1972
Sameinað þing: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

1. mál, fjárlög 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. 1, þm. Reykv., byrjaði ræðu sína á hér í dag, að þessar umr. hafa að verulegu leyti verið málefnalegar, og ræða hans var ekkert frávik frá því, því að í henni voru góðlátlegar vangaveltur um ástandið eins og það lítur út frá hans bæjardyrum séð. Ég hef auðvitað engar aths. við það að gera, þó að hann sjái það í öðru ljósi en ég og aðrir hv. þm. Um það er aldrei að sakast, þótt menn hafi misjafnar skoðanir á málefnum, því að það skiptir mönnum í stjórnmálaflokka.

Ég ætla mér ekki að fara út í margar þær ræður, sem hér hafa verið fluttar í dag, sumu var búið að svara áður, eins og umr. milli okkar hv. 2. þm. Norðurl. e. Þó er ein ræða, sem ég sé ástæðu til að víkja nokkuð að, og vil ég vekja athygli á því, að hún var með öðrum blæ en venja er hér á hv. Alþingi. Þetta var ræða hv. 2. þm. Reykv. Það má vel vera, að það þyki góður siður í borgarstjórn Reykjavíkur að tala um, að það sé gott, þegar menn kunna að skammast sín. Það má líka vel vera, að það þyki gott á þeim bæ að tala um, að einhver hafi komið fram illvirki sínu, eða illvilji manna ráði þar för. Í þau 16 ár, sem ég hef verið á Alþingi, hafa svona orðatiltektir ekki verið notaðar og komu mér því ókunnuglega fyrir eyru. Satt að segja hélt ég, að menn notuðu ekki slíkan ræðuhátt á hv. Alþingi, en vel má vera, að hv. 2. þm. Reykv. þekki það frá sínum heimavígstöðvum, að ég nú ekki tali um þessa alkunnu setningu um aðför að Reykvíkingum eða Reykjavík.

Þau efnisatriði, sem hv. 2. þm. Reykv. vék að, og ég ætla að gera hér að umtalsefni, voru í fyrsta lagi varðandi tilganginn með skattalagabreytingunum. Hann taldi að vísu að út af fyrir sig væri það ekki rangt, að þetta hefði haft einhvern tilgang umfram hið illa, og almannatryggingum hefði mátt breyta. Hins vegar taldi hann ekki ástæðu til að fara að breyta tekjuöflunarkerfinu vegna þess arna. Ég hef áður leitt rök að því, að ég hef litið svo á, — og hv. 2. þm. Reykv. breytti ekki þeirri skoðun minni, — að sú breyting, sem gerð var á tryggingalöggjöfinni í fyrra, hafi verið óframkvæmanleg nema breyta tekjuöflunarlöggjöfinni. Mat mitt á því er, að hvorki einstaklingarnir né sveitarfélögin hefðu þolað þá breytingu, ef tekjuöflunin hefði verið óbreytt. Ég skal ekki heldur fara langt út í umræður um viðhorf mitt á persónusköttum, ég hef litið á það sem eina stórfelldustu félagslegu umbót, sem hér hefur verið gerð á sviði skattamála. Ég held, að síðari tímar muni líta þannig á þetta og almenningur yfirleitt, ef það er skoðað í réttu ljósi. Ég álít, að það hefði verið afar erfitt fyrir unga fólkið í landinu eða foreldra þess, sem höfðu styrkt það, t.d. í sambandi við nám og annað, að greiða þá persónuskatta, sem voru. Á þessu ári hefði þetta verið um 60 þús. fyrir hjón með tvö börn, og á næsta ári einhvers staðar á milli 50 og 60 þús. eftir þeirri tekjuþörf, sem nú er og hefur aukizt hjá tryggingakerfinu. Þetta skal ég ekki fara frekar út í vegna þess, að ég hef áður gert grein fyrir því.

Það var greinilegt í ræðu þessa hv. þm., að það var tvennt sem snart hann þannig, að hann, fór út í þau stóryrði, sem hann notaði í ræðu sinni, og það var í fyrsta lagi þetta, sem ég hafði áður sagt, að ég hefði talið bera brýna nauðsyn til þess að koma í veg fyrir, að skattalög viðreisnarstjórnarinnar kæmust til framkvæmda. Hv. 2. þm. Reykv. vitnaði til þess, að hér hefði nú ekki verið um stóra hluti að ræða, þar sem hlutafjáreigendur, hjón, hefðu aðeins átt að fá 60 þús. kr. skattfrjálsar af tekjum af hlutabréfum. Í upphaflega frv. áttu að vera 15 þús. fyrir hvert barn, en raunverulega var það Vinnuveitendasambandið, sem snerist gegn þessu. Meginmunur á þessu og því, sem nú hefur verið gert, er það, að þarna var ekki verið að tryggja fjármagn fyrirtækjanna, heldur var verið að tryggja fjármagn hlutafjáreigendanna. Fyrirtækið sjálft bjó ekki að eins góðum kjörum og áður, meðan það safnaði í varasjóð, en það var auðveldara fyrir hlutafjáreigendurna að ná sínum arði af hlutafénu á þennan hátt, því að það var náttúrlega ekki lítils virði að fá þessa upphæð skattfrjálsa. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þetta hefði verið sparnaður, sem hefði átt að vernda með þessum hætti og gera það sambærilegt við sparifjármyndunina. Þar er að minni hyggju reginmunur á, því að það hefur verið svo í okkar landi, að einmitt spariféð hefur verið að rýna, en eignir, sem hlutafélögin eiga, sem eru venjulegar fasteignir og fleiri slík tæki, hafa verið að vaxa í verði. Ég vil minna á það, að í sambandi við umr. um þetta skattalagafrv. í hv. Ed. 3. apríl 1971, vék frsm. fjhn., fulltrúi Sjálfstfl. í d., prófessor Ólafur Björnsson, að þessum atriðum og gerði þá m.a. grein fyrir viðhorfum sínum varðandi þetta sparnaðarform og hvort ætti að vernda það öðrum fremur. Sagði þá þessi ræðumaður m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta, — hann var þá búinn að ræða um annað atriði, en það er skattfrelsi arðs af hlutafjáreign að vissu marki, sem mun vera algert nýmæli í okkar skattalöggjöf. Aðspurðir kváðust sérfræðingar þeir, sem ég gat um, að hefðu mætt á fundum okkar, að þeim væri ekki kunnugt um fordæmi fyrir slíku í löggjöf nágrannalandanna. Síðan heldur ræðumaður áfram og tekur þá annað sparnaðarform fyrir og segir svo: „Í sveitum landsins hefur það verið þannig um langt skeið og enn í dag, að bændur spara á þann hátt, að þeir setja á lömbin sín frekar en að slátra þeim, og það er þeirra sparnaðarform.“

Þá mætti alveg eins út frá þessum hugsunarhætti segja, að arður af búfé ætti í raun og veru að vera skattfrjáls, af því að vextir af sparifé er það. Mér er ekki kunnugt um það, þó að bændur geri vissulega sínar kröfur eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins og væru sennilega flosnaðir upp af búum sínum, ef þeir gerðu það ekki, að slík krafa hafi nokkurn tíma komið fram frá bændum. Í þessu sambandi vil ég nefna það, sem oft er sagt, að áhætta fylgi því að eiga hlutabréf. Sama held ég, að gildi um búfé, og fyrir kemur, að lömbin fara ofan í pytt eða fá bráðapest, svo að búfjáreignin hefur líka sína áhættu í för með sér.

Síðar í þessari sömu ræðu sagði þessi þáv. þm., með leyfi hæstv. forseta:

„En ég get að lokum ekki látið hjá líða að benda hér á annað atriði, og vil ég þá — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér upp fáein orð úr erindi því, sem borizt hefur varðandi þetta mál frá atvinnurekendasamtökunum. Í því segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í annan stað er vert að benda á, að eins og löggjöf um hlutafélög er nú háttað, er nánast hægt að stofna hlutafélag um hvaða smáatvinnurekstur sem vera skal. Af þessu leiðir, að smáatvinnurekendur og jafnvel einyrkjar í hvaða atvinnugrein sem er gætu í reynd valið skattalagaform hlutafélaga.“

Síðar í þessari ræðu segir ræðumaður: „En eins og hlutafélagalöggjöfin er, þá er hún auðvitað mjög rúm, og það má ekki loka augum fyrir þeirri hættu, sem í því er, sem atvinnurekendur benda á, að þeir, sem hafa einhvers konar sjálfstæðan atvinnurekstur með höndum, mundu í mjög stórum stíl fara þá leið að stofna hlutafélag með nánustu fjölskyldu sinni, sem þýðir það, að þeir fengju þar jafnvel nokkra tugi þús. kr. skattfrjálsa. Hér er ekki um það að ræða, að þetta sé raunverulega arður af neinu hlutafé, því að aldrei er neitt borgað inn í slík hlutafélög, heldur mundi leiðin verða sú, að það er til málamynda stofnað þarna nýtt fyrirtæki, hlutafélagið Jón Jónsson, ef um málflutningsmann væri að ræða. Síðan reiknaði Jón Jónsson sér tiltölulega lágt kaup sem starfsmaður hjá þessu hlutafélag og fær þannig meiri eða minni hluta af sínum vinnutekjum í formi hlutabréfsarðs. fyrir þessari hættu má ekki loka augunum.“

Finnst nú hv. 2. þm. Reykv. alveg ástæðulaust, þó að núv. ríkisstj, gerði sér grein fyrir þessari hættu og gengi ekki blákalt í vatnið og yrði fyrsta ríkisstj., sem framkvæmdi þessi skattalög? (GH: En greiddi prófessor Ólafur ekki atkv. með þessum lögum?) Prófessor Ólafur varaði sinn eigin flokk einmitt við þessum lögum. (GH: En hvernig greiddi hann atkv.?) Ég hef nú ekki atkvgr. fyrir mér. Það getur vel verið, að flokksböndin hafi látið hann greiða atkv. með þeim, eftir að hann var búinn að vera slíka grein fyrir afstöðu sinni. Hv. 2. þm. Reykv. þekkir betur til á heimili Sjálfstfl. en ég.

Ég verð að benda á, að hér var ekki um neitt smámál að ræða.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði líka um flýtifyrninguna og taldi, að það væri ekki hægt að reka atvinnurekstur í landinu nema hafa hæfilega fyrningu. Ég er honum sammála um það. Í skattal. núna er líka gert ráð fyrir fyrningu. En flýtifyrningin, eins og hún var í þessari löggjöf, var ekki með neinum venjulegum hætti. Ég hef öruggar heimildir fyrir því, að hæsti skattgreiðandi landsins, Olíufélagið h/f, hefði með auðveldu móti getað gert sig skattlaust á þessu herrans ári með flýtifyrningu. Ég veit ósköp vel, að það er ekki hægt að nota flýtifyrninguna ár eftir ár. En það er einmitt hægt að nota hana, þegar útkoman er sérstaklega hagstæð. Þess vegna var þessu breytt nú, flýtifyrningin takmörkuð og afskriftirnar gerðar eðlilegri. Nauðsynlegt er að gera afskriftirnar eðlilegri, en taka þær ekki upp með slíkri flýtifyrningu eins og þarna var gert ráð fyrir.

Þá kem ég þar að, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um eignarskattinn, en þar hafði ég komið mínu illa innræti vel við. Um eignarskattinn hef ég sagt það og skal vitna þar til skýrslu, sem ég hef hér í höndunum frá Framkvæmdastofnun ríkisins, hagrannsóknadeild, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í l. nr. 68 1971 var álagningarreglum um eignarskatt einstaklinga breytt mjög verulega frá því, sem verið hafði, en við tilkomu nýja fasteignamatsins var nauðsynlegt að breyta skattstiga eignarskatts. Samkv. lauslegri áætlun hefðu hinar nýju reglur leitt til þess, að gjaldendum eignarskatts hefði fækkað úr 32 þús. árið 1971 í 2 þús. árið 1972 og álagður eignarskattur hefði sennilega lækkað úr 121 millj. kr. 1971 í 18 millj. kr.“

Finnst nú ekki hv. 2. þm. Reykv., að hér sé fullhraustlega að verið? Finnst ekki þessum hv. þm., að það hafi verið nokkur ástæða til að stinga við fótum, þegar átti að fara að framkvæma svona skattalöggjöf? Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég get ekki talið það illmennsku þó að menn reyni að breyta svona ákvæðum. Ég er miklu meira undrandi á því, að það skuli hafa verið gengið í það að setja skattalög með þessum hætti, og mér finnst það nánast sagt merkilegt, að komið skyldi geta fyrir, að ganga ætti svo langt í breytingu á skattal. sem gert var þarna. Allt talið um flaustrið, slæmu vinnubrögðin og allt það, sem átti að vera á skattal. í fyrrahaust og fyrravetur, er víst ekki hægt að færa undir þetta, því að vafalaust hefur þetta allt verið vel unnið. Það hefur nú samt komið fyrir hér á hv. Alþ., og ég man ekki betur en brtt., sem fylgdu þessu skattalagafrv. frá n. hv. Alþ., væru upp á hér um bil eins margar síður og frv. sjálft, þrátt fyrir það að ekki væru höfð þau vinnubrögð, sem svo mjög hafa verið fordæmd í minni hendi. Nei, ég held, að ég skilji það vel, að þessi hv. þm., sem virðist vera sérstakur talsmaður hlutafjáreigendanna, finni sárt til þessara skattalagabreytinga, og ræða hans leyndi því ekki. Ég held, að þegar betur er að gáð, muni hann einnig sjá, að hér var þörf á breytingum.

Þá kom hv. þm. að samskiptum sveitarfélaganna og tekjustofnalögunum, og las þar upp úr ályktun, sem ég því miður greip nú ekki, en ég vil minna á það, að af þessum fundi, sem fulltrúaráðið og sambandsstjórn sveitarfélaganna hélt í fyrra um skattal. og mun hafa verið í janúar, hafði ég þær fregnir, að hv. 2. þm. Reykv., borgarstjórinn í Reykjavík, hafi beitt sér af miklum dugnaði til þess að hafa áhrif á niðurstöðu fundarins. Við því er ekkert að segja og ekki nema eðlilegt, að menn fylgi fram sínum skoðunum. Hitt var lítið skemmtilegt og vægast sagt smekkleysi í meira lagi, að ríkisskattstjóri var látinn flytja ræðu, áróðursræðu gegn þessum frv., eftir að umr. hafði verið lokið. Það voru afskaplega lítið skemmtileg vinnubrögð. Ég hef ekki haldið því máli á lofti og hef ekki sagt frá því opinberlega fyrr en hér, en þetta er staðreynd. En hverjir skyldu hafa unnið að þessu og hvernig var svo ályktunin, sem þessi fulltrúaráðsfundur gerði? Hún var m.a. svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga telur, að með frv. því til l. um tekjustofna sveitarfélaga, sem nú liggur fyrir Alþ., séu í höfuðatriðum stigin þýðingarmikil spor í rétta átt.“

Er þetta nú ekki nokkur viðurkenning á málinu að stíga í höfuðatriðum þýðingarmikil spor í rétta átt? (Gripið fram í: Fáum við meira að heyra?) Jú, jú, ég get lesið áfram, með leyfi forseta:

„Frv. felur í sér mikilvæga einföldun á samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Skattkerfið í heild er gert einfaldara og virkara. Tekjustofnar sveitarfélaga eru ekki eins háðir hagsveiflum og verið hefur, og ríkið tekur að mestu að sér hina félagslegu þætti skattlagningarinnar.“

Þetta var nú framhaldið. Ég þarf ekki meira. Hv. 2. þm. Reykv. getur svo haldið áfram með sinn lestur síðan. Þetta nægir mér.

En ég vil minna á það, að það var ekki lítill áróðurinn í fyrravetur, og fram á vor um það, hvernig sveitarfélögin færu óskaplega illa út úr þessu. Hvað hefur verið talað um seinni partinn í sumar? Hafa sveitarfélögin farið svo óskaplega illa út úr þessari skattalagabreytingu? ég held t.d., að vinur minn, hv. 2. þm. Vesturl., mundi ekki telja það í sinni heimabyggð. Ég tel það ekki í minni heimabyggð, og vil ég t.d. nefna stað eins og Akureyri. Hún var farin að nota álögur á álagninguna, — ég man nú ekki, hvort það var 1970 eða 1971, sem hún notaði álagninguna, — en 1970 var hún komin með 35.4% af sínum heildartekjum í fjárfestingarframkvæmdir og annað því um líkt, 66% tæp fóru í reksturinn. En 1972 fara 49.l% í fjárfestingu og uppbyggingu þarna í bæjarfélaginu. Er þetta sönnun fyrir því, að það hafi nú verið þrengt að þessu sveitarfélagi? Mér finnst það vera hið gagnstæða. Ég held því, að reynslan hafi sannað það, sem ég sagði, að þetta hafi orðið sveitarfélögunum mjög í hag.

Þá erum við komnir að höfuðborginni, aðförinni að Reykjavík og Reykvíkingum. Hver var aðförin að Reykjavík og Reykvíkingum? Hún var fólgin í því, að ríkissjóður tók að sér að greiða 380 millj. af gjöldum, sem Reykjavík hefði að öðrum kosti þurft að greiða. Hér var um að ræða, að á árinu 1971 þurfti borgarstjórnin í Reykjavík að verja 24.4% af sínum heildartekjum til þessara mála, en 8.4 í ár. Það er meiri aðförin, þetta. Er svona farið að, þegar menn eru að gera aðför að öðrum? Eru þeir þá að gera þeirra hag betri og auðveldari?

Nú kem ég að því, sem borgarstjórinn ræddi hér áðan, því, hvort þeir hefðu þurft að nota álagsheimildirnar. Þá vil ég fyrst geta þess, að á árinu 1971, meðan viðreisnarstjórn sat hér og góðir menn voru í ráðherrastólum, gat Reykjavíkurborg varið 296.9 millj. kr. til eignahreyfinga eða 19.7% af útgjöldum sínum. Svo kom desember 1971, en þá fór Reykjavíkurborg að áætla, hvernig útgjöldunum yrði hagað hjá sér á árinu 1972. Þá höfðu þeir eitthvert veður af því, að breytingar væru í lofti, en samt byggðu þeir upp sína áætlun og reiknuðu með því, að þeir gætu varið 503.5 millj. kr. í eignahreyfingu. Það var 21.8% af heildarútgjöldum þeirra. Hækkunin á þessum lið var 68%. Svo kom vorið og komið fram í marz og farið að lifna yfir öllu. Þá voru skattal. orðin til. og Reykjavík sá nýja veröld í aðförinni. Þá hækkaði Reykjavíkurborg framlagið til eignahreyfinga sinna upp í 587.9 millj. kr. eða þar með 37.8% af heildarútgjöldum sínum miðað við 21.8% frá því árið áður og hafði þá hækkað þetta á þessu eina ári um 98%. Þar er svona hraustlega að verið, eins og menn tala um, að sé hjá mér. Hún er nú af þeirri gerðinni, fyrirhyggjan þar. Þetta var gert, og var þá búið að stinga inn á ýmsa rekstrarliði rúmum 100 millj., 130 millj., til þess að búa í haginn frá því, sem gert hafði verið ráð fyrir um haustið. Svona er aðförin að Reykjavíkurborg. Finnst nú hv. 2. þm. Reykv., að eitthvað vont sé að gerast, þegar þannig er á borgina snúið? Ekki sé ég, að hann sem höfuðstjórnandi þessarar borgar ætti að kvarta undan því að geta lagt nærri því 100% meira í verk til framtíðarinnar en hann gat árið áður. Hinu held ég fram eftir sem áður, að það hefði verið afskaplega auðvelt að komast hjá því að hækka fasteignaskattana og útsvörin um þær rúmlega 200 millj., sem borgarstjórnin í Reykjavík gerði. Það er afskaplega erfitt að fá mig til þess að skilja það, að menn, sem í raun og veru hafa litið á skattheimtuna í landinu sem óþolandi og allt of mikla, hafi farið svona að. Það er líka erfitt að fá mig til þess að trúa því, að þessir hinir sömu menn, sem ganga svona hraustlega fram á sínum eigin heimavigstöðvum, séu hræddir við spennu, eftirspurn eftir vinnuafli og annað því um líkt. Eða er þetta þá leiðin til þess að vinna að því? Ég fæ ekki séð, að svo sé. En þannig mat borgarstjórnin í Reykjavík þetta. Og undan því kvartaði svo hv. 2. þm. Reykv. hér áðan, að ótætis ríkisstj. væri nú svo slæm, að hún hefði ekki einu sinni leyft þeim að gera allar þær hækkanir, sem þeir hefðu þurft og viljað gera í hitaveitu, rafmagnsveitu, strætisvögnum og ég man nú ekki, hvað það var fleira. Var nú ekki nóg komið af þessu ágæta, þótt lengra væri ekki gengið?

Hvort sem við eyðum í það lengri eða skemmri tíma að ræða um okkar ágætu skattamál, er staðreyndin sú, þegar öllu er á botninn hvolft, að ef verkaskiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga hefði ekki átt sér stað og sveitarfélögin hefðu ætlað að halda uppi því, sem þau gerðu, — áætluninni síðan í sumar, — þá hefðu þau í skattheimtu sinni orðið að fara í 55.5% frá árinu áður, þegar ríkissjóði hefði nægt 31.6%. Þetta er staðreynd, ef gamla kerfið hefði verið óbreytt.

Svo kem ég að öðru, sem hv. 2. þm. Reykv. taldi, að ég hefði sannað, að hann hefði farið rétt með þegar hann talaði um, að það væri aðför að Reykjavík, sem verið væri að gera með þessum lögum. Það hefði sannazt, þegar ég sagði, að þessi skattalagabreyting væri stórvægilegur þáttur í því að jafna aðstöðu í landinu. Ég endurtek, að það var stórkostlegur þáttur í að jafna aðstöðu í landinu, þegar ríkið tók að sér að greiða þá þætti úr rekstri sveitarfélaga, sem hvíldu jafnþungt á þeim og tryggingarnar, sjúkrasamlagið og lögreglukostnaðurinn. Það var ekki aðför að neinum nema þá að ríkissjóði, ef menn vilja hafa það svo. En þetta er gjörbreyting fyrir þessi sveitarfélög. Ég vil undirstrika og leggja áherzlu á, að það voru um 18 sveitarfélög, sem leituðu til jöfnunarsjóðs á árinu 1971, og það voru ekki allt smá sveitarfélög. Hvernig var með staði eins og Siglufjörð, Sauðárkrók o.fl.? Þessir staðir urðu að leggja á sína gjaldendur meira en almennt var lagt á í landinu og leita til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að auki. Hver er staða þessara sveitarfélaga núna? Hún er allt önnur. Það er kunnara en frá þurfi að segja, og ég veit, að hv. 2.. þm Reykv. er það vel að sér í sveitarstjórnarmálum, að honum var vel kunnugt um það, að greiðsluvandræði margra sveitarfélaga til sjúkrasamlaga, til trygginganna, vegna hafnanna var orðin svo mikil, að til hreinna vandræða var komið. Ef til viðbótar því hefðu komið þær álögur, sem fylgdu hækkun trygginganna, þó að ekki hefði verið gengið lengra en viðreisnarstjórnin gekk, þá hefðu sveitarfélögin átt meira en í vök að verjast. Þess vegna endurtek ég, að það er einn stórkostlegasti þátturinn í aðstöðujöfnuði hérlendis að létta þessum gjöldum af sveitarfélögunum, því að með því móti fá þau rými til uppbyggingar á heimastöðum. Og það er algerlega vonlaust fyrir bæjar- og sveitarfélögin úti um landsbyggðina að halda fólkinu í sínum byggðarlögum, ef þau geta ekki búið sæmilega að þeim, eins og þau, sem betur eru sett. Til mín komu í dag 3 bæjarstjórnarmenn eða forsvarsmenn austan af fjörðum og voru að ræða um hugsanlegar framkvæmdir sínar í gatnagerð. Þeir sögðu: Við höldum ekki okkar byggðum áfram í uppbyggingu, ef við getum ekki breytt götunum úr for og ryki í olíumöl eða malbik. Þetta er staðreynd, sem við verðum að horfast í augu við, hversu erfitt sem það verður. Það er engin aðför að Reykjavík, þó að hagur þessara sveitarfélaga sé bættur. Slíkan skilning get ég ekki tileinkað mér, og ég vil ekki heldur ætla það, að hv. 2. þm. Reykv. hugsi þannig. Þá hef ég a.m.k. reiknað skakkt um hans hugarheim. Það er því ekki um neina aðför að Reykjavík að ræða, þó að ríkið taki að sér þau útgjöld, sem voru að kaffæra þessi bæjar- og sveitarfélög. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að það var gert stórkostlegt átak til þess að aðstoða byggðirnar úti um landsbyggðina, og það mun sýna sig, að rétt var að stefnt í þeim efnum.

Þetta var nú kjarninn í því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði og ég vildi gera aths. við. Ég skal nú fara að stytta mál mitt, því að þetta er þriðja lota, sem ég tek, og sé ég ekki ástæðu til þess að bæta hér miklu við. Flest annað, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Reykv., svo og ræðu hv. 1. þm. Reykv., var mál. sem búið er að ræða hér um áður, eins og m.a. greiðslujöfnuður okkar við útlönd, sem að verulegu leyti stafar af því, að við erum í stórfelldum framkvæmdum, sem við fjármögnum með erlendum lántökum. Viðskiptalega séð stöndum við betur nú í ágústlok a.m.k. heldur en við stóðum í fyrra, svo að verulegri fjárhæð munar, og ég hygg, að það hafi verið eins í septemberlok, þó að ég hafi ekki tölurnar, ég held, að það hafi heldur batnað. Hins vegar tek ég undir það, að í slíkum viðskiptum sem öðrum verður að hafa gát á. Það skiptir höfuðmáli, hvernig þessi skuldamyndun verður til. hvort það er fyrst og fremst vegna atvinnutækja, sem eiga að skila gjaldeyri, eða atvinnutækja, sem eiga að spara gjaldeyri. Það er höfuðþáttur þess máls. Það hefur verið sagt í þessum umr., og ég skal nú ekki fara langt út í það og heldur ekki fara að vitna í fortíðina neitt í því sambandi, að botninn í málinu væri í Borgarfirði. Ef svo er, þá mun ég treysta því, að afgreiðsla málsins verði með góðum hætti, því að flest er traust og kjarngott, sem þaðan kemur.