20.12.1972
Efri deild: 39. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

121. mál, launaskattur

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á l. nr. 14 frá 15 marz 1965, um launaskatt. Efni þessa frv, var það, er það kom hér fyrst til meðferðar í þinginu, að endurnýja ákvæði um launaskatt og þá fyrst og fremst um 11/2% launaskatt, sem rennur í ríkissjóð, en það ákvæði á að ganga úr gildi nú um áramótin, og var því þörf á því að endurnýja það, ef ætlunin væri, að það stæði áfram. Jafnframt var gerð sú breyt. með frv., að þessir tveir skattstofnar, sem í því eru, þ.e.a.s. 1% í byggingarsjóð ríkisins og 11/2% í ríkissjóð, voru sameinaðir, þannig að það var hreinlega sagt í 1. mgr. 1. gr., að launaskatturinn skyldi vera 21/2%. Það fór svo aftur á móti í Nd., að talið var ástæðulaust að láta þetta ákvæði hafa varanlegt gildi, eins og upphaflega var ráðgert, og Nd. breytti frv. á þann veg, að launaskatturinn gildir aðeins til ársloka 1973. En þá skilja menn, að orðið hefur sú breyting á, að ákvæðið um 1% launaskatt í byggingarsjóð ríkisins er nú einnig orðið tímabundið og gildir aðeins í eitt ár, sem ekki var áður, þannig að þar er hætt við, að ekki sé um mikla bragarbót að ræða, eins og upphaflega var ráðgert. Í n. komu fram ábendingar um, að þetta væri sem sagt hæpin ráðstöfun, en það var samdóma álit nm., að ekki væri samt ástæða til þess, að Ed. færi að gera breytingu í þessa átt, enda skammt orðið eftir til jóla, og þá þyrfti málið að fara aftur til Nd. Það er augljóst mál, að þörf er á því að endurskoða tekjustofna af þessu tagi í heilu lagi og þá gæfist tækifæri til að lagfæra þetta atriði.

N. mælir sem sagt einróma með því, að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og það kom frá Nd., en tveir nm. hafa undirritað nál. með fyrirvara, Geir Hallgrímsson og Jón G. Sólnes.