24.10.1972
Sameinað þing: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

1. mál, fjárlög 1973

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í orðræður milli hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Reykv., en hæstv. fjmrh. vék hér í sambandi við það, þegar hann var að tala um, hvað hann hefði búið vel að sveitarfélögunum með löggjöf um tekjustofna sveitarfélaga, sérstaklega að Akureyri, og taldi, að útkoman hefði verið sérstaklega góð fyrir Akureyri. Það á að heita svo, að ég sé bæjarstjórnarmaður á Akureyri og ætti því að vita eitthvað svolítið um fjármál Akureyrarkaupstaðar. Það má vel vera, að nokkuð sé til í því, sem hæstv. ráðh. sagði, en þá eru til nokkrar ástæður fyrir því. Sú fyrsta er sú, að hið mikla fyrirtæki á Akureyri, Samband ísl. samvinnufélaga, hefur aldrei borgað útsvör til Akureyrarkaupstaðar, en á þar miklar fasteignir. Það er auðvitað hagstæðara fyrir Akureyri að geta lagt fasteignaskatt á þessar eignir heldur en fá ekki útsvör fá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Það er einnig svo um Akureyri, að þar vinna giftar konur mikið úti, meira en annars staðar, að því er talið er, og brúttóútsvar á tekjur þeirra kemur auðvitað þannig út, að farið er dýpra í vasa þeirra heimila, þar sem giftar konur vinna úti, heldur en áður. ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. er sérstaklega hreykinn af þessu. Í síðasta lagi er það að segja um Akureyri og tekjuöflun fyrir Akureyrarkaupstað, að 600 nýir gjaldendur bættust á útsvarsskrá í þeim kaupstað á s.l. ári. Allt er það lágtekjufólk, allt er það fólk, sem ekki hefði verið á útsvarsskrá, ef lagt hefði verið á með öðrum lögum. Ég hef ekki séð ennþá hvernig innheimta þessara útsvara gengur, mig minnir, að það séu um þúsund útsvarsgjaldendur á Akureyri, sem hafa minna útsvar en 15 þús. kr. Það merkir, að þeir hafa tekjur, sem eru nálægt 150200 þús. kr. Mér segir svo hugur um, að innheimta þessara útsvara gangi illa og niðurstöðutölur segi ekki allan sannleikann um þetta mál, enda er það svo, að innheimta bæjargjalda á Akureyri hefur aldrei gengið eins illa og á þessu ári. Um þetta get ég uppýst hæstv. ráðh. út af því, sem hann sagði hér. Það hefur heldur aldrei þurft áður að grípa til þeirra ráða á Akureyri að leggja heimilaðar álögur á alla tekjustofna bæjarfélagsins.

Þær umr., sem hér hafa orðið í Sþ. um fjárlagafrv. ríkisstj., eru nú orðnar nokkuð langar, en ég finn mig þó knúinn til þess að taka til máls við þessa umr. til þess að fá skorið úr um eitt mikilvægt atriði, sem mér er ekki kunnugt um, að enn hafi borið hér á góma við þessa umr. Það er, hvenær leggur ríkisstj. fram fyrir Alþ. heildartill. sínar um lausn vandans í efnahagsmálum? Þetta er ákaflega mikilvæg spurning, ekki sízt þegar það er haft í huga, að Alþýðusambandsþing sezt á rökstóla innan skamms. Ég hygg, að það komi saman síðari hluta nóvembermánaðar. Það er óneitanlega nokkur freisting fyrir hæstv. núv. ríkisstj. að hafa stefnu sína í efnahagsmálum opna í alla enda fram yfir Alþýðusambandsþing, þegar haft er í huga það öngþveiti, sem nú blasir við í efnahagslífinu. Ég er þó ekki með þessu að slá því föstu, að ríkisstj. hyggist gera þetta í blóra við, að hún sé að bíða eftir valkostum þeirrar n., sem á að hvísla í eyra henni, hvert hún eigi að stefna í efnahagsmálum. Ég er hér til þess að fá úrskurð um, hvort nokkur maðkur sé í mysunni og krefjast svars um, hvort heildartill. ríkisstj., — ríkisstj. hinna vinnandi stétta, eins og hún kallar sig sjálf á hátíðarstundum, — verði ekki lagðar fram það tímanlega, að launþegum í landinu verði ljós sá raunverulegi vandi, sem við er að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar og til hvaða ráða ríkisstj. hyggst grípa til þess að finna lausn á honum. Ég tel það skýlausa kröfu þingheims og þjóðarinnar allrar að fá nú þegar í stað yfirlýsingu um, hvort ríkisstj. ætlar að gera þetta eða hvort hún hyggst láta þann huliðshjúp hvíla yfir þessum málum, sem hún hefur reynt að bregða yfir fjárlagafrv. og önnur þau frv., sem varða efnahagsmálin almennt. Ég hef margheyrt þau rök og bið hæstv. fjmrh. að fara ekki að þylja þau hér yfir mér og þingheimi, að bíða þurfi þess, hvernig útlit verður um afla og ástand almennt n.k. áramót. Hér er um hrein falsrök að ræða. Vandinn sýnist því miður orðinn svo mikill í efnahagsmálum þjóðarinnar, að það er nú þegar ljóst, að gera verður miklar ráðstafanir til lausnar honum, jafnvel þótt aflavonir glæddust þann tíma, sem eftir er til áramóta.

Það hefur verið sagt hérna við umr. og haft eftir hæstv. núv. fjmrh., að fjárl. séu spegilmynd af ríkisbúskapnum á hverjum tíma. Þetta er rétt. Í samræmi við þetta er kjarni þessa fjárlagafrv. fólgin í því, að ríkisstj. og sérfræðingar hennar segi: Við miðum þetta frv. við óbreytta vísitölu á næsta ári. Við miðum það við glæfralega tekjuáætlun, sem leiddi til þess, að innflutningur vara og þjónustu þyrfti að vera svo geigvænlegur á tveim árum, að halli yrði á viðskiptajöfnuði við útlönd um 6–8 þús. millj,. kr. Við miðum líka við 1300 millj. kr. tekjuskattshækkun hjá einstaklingum. Allt kemur fyrir ekki. Samt sem áður skortir okkur ótilgreindar þús. millj. til þess að ná endum saman, þannig að sjálfar forsendur frv. standist miðað við 117 vísitölustig allt árið 1973. Þar byrjar huliðhjúpurinn og ósagt er látið, að vísitalan hækki óhjákvæmilega um 4–5 stig um áramót, þótt öllum niðurgreiðslum sé haldið áfram, og gæti hækkað margfalt meira, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti réttilega á í umr. áðan. Hagstofa Íslands hefur tjáð mér, að það kosti um 180–200 millj. kr. að greiða niður hvert vísitölustig á ársgrundvelli. því blasir sú spegilmynd við af ríkisbúskapnum, sem ríkisstj. og sérfræðingar hennar hafa sagt með fjárlagafrv. Glæfralegasta tekjuáætlun sögunnar nægir okkur ekki, ekki heldur áframhaldandi tekjuskattspíningarstefna, til þess að ná saman hallalausum fjárl. Framkvæma verður kjaraskerðingu með einhverjum öðrum hætti einnig. Í viðbót við þetta segir hæstv. ríkisstj.: Við látum hv. þm. hins vegar alls ekki í té upplýsingar að sinni um, hve margar hús. milli. skortir nákvæmlega og skerða þarf kjörin um. Við segjumst í bili bíða eftir ráðum valkostanefndarinnar, hvernig við framkvæmum nauðsynlega kjaraskerðingu. En er það valkostanefndin, sem er beðið eftir?

Sé annað frv., sem ríkisstj. hefur lagt hér fram á hinu háa Alþ., skoðað í samhengi við fjárlagafrv., blasir önnur spegilmynd við. Samkv. frv. um breyt. á l. um verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, þarf að bæta við tekjur útgerðar og fiskvinnslu tæpum 90 millj. kr. á yfirstandandi ári, til þess að endar náist saman. Hér er um að ræða 1/10 hluta ársaflans. Á næsta ári þarf því um 900 millj. í þessu skyni að óbreyttum forsendum. Nú er vitað, að grunnkaup hækkar um 6% á næsta ári og ósennilegt er, að komizt verði hjá verulegum tilkostnaðarhækkunum af öðrum toga hjá sjávarútveginum. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir miklu minni hækkun á útflutningsverði einstakra fisktegunda en á yfirstandandi ári nema á loðnuafurðum. Af þessum sökum er óvarlegt að áætla, að sjávarútveginn skorti mínna en 1200–1500 millj. kr. eða þar um bil, að óbreyttum aflabrögðum á næsta ári, til þess að endar nái þar saman. Þótt ekki hafi enn verið lagt fram frv. eða þskj. hér á hv. Alþ. um afkomuhorfur iðnaðarins, sennilega af þeirri ástæðu, að hæstv. iðnrh. virðist hugsa meira um iðnbyltinguna 1980 en núv. ástand, — þá er vitað mál, að flestar iðngreinar eru að komast í þrot efnahagslega. Sú spegilmynd blasir því við, þegar skoðað er ofan í kjölinn, hvað felst í framangreindum þskj. og almennar staðreyndir um afkomu atvinnuveganna eru hafðar í huga, að ríkisstj. og sérfræðingar hennar meta nú stöðuna þannig í þjóðarbúskapnum, að framkvæma þurfi kjaraskerðingu, sem vægt er áætluð 2.5–3 þús. millj kr. á ársgrundvelli, en e.t.v. er raunsærra að nefna miklu hærri tölu. Það er ómögulegt fyrir hæstv. ríkisstj. að neita þessu. Framangreind frv. eru þess órækur vottur. En ekki má segja núna, hversu mikið á að skerða kjör þjóðarinnar í heild.

Þótt þessu sé leynt við hv. þm. og Alþ. þannig óvirt, er jafnljóst, að sérfræðingar ríkisstj. vita nú nokkuð nákvæmlega, hversu mikið þarf að lækka seglin um sinn, eins og hæstv. forsrh. sagði, en leggst út á mæltu máli, hversu mikil kjaraskerðing er áformuð á næsta ári. Annars hefðu framangreind plögg aldrei verið lögð fram. Ég endurtek og vil leggja þunga áherzlu á, að framangreind ágizkun um kjaraskerðingaráform ríkisstj. er byggð á því, að ennþá verði eytt eins geigvænlega gjaldeyrisforða þjóðarinnar og verið hefur og stefnt er að með framangreindu fjárlagafrv. Ef snúa ætti við á þeirri óheillabraut, — sem aðeins hefur einn enda, — að eyða og spenna gjaldeyri, til þess að ríkissjóður fái nógu hækkaðar tekjur af innflutningi, er vandinn miklu meiri. Þetta er einhver geigvænlegasta staðreyndin um það öngþveiti, sem ríkisstj. hefur komið efnahagslífi þjóðarinnar í á aðeins rúmlega eins árs valdaferli sínum.

Herra forseti. Það endurspeglast í frv. til fjárl. fyrir 1973 og frv. til l. um breyt. á l. um verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, að það er mat ríkisstj., að framkvæma þurfi stórfellda kjaraskerðingu, sem nemur þús. millj. kr. á ársgrundvelli, til þess að unnt verði að afgreiða hallalaus fjárl. fyrir næsta ár og halda atvinulífinu gangandi Spurningin er einfaldlega sú, með hvaða hætti hyggst ríkisstj. gera þetta. Því er ósvarað, og hversu vandinn er mikill. En þar sem hér er um að ræða stórkostlegan vanda, sem varðar hag og heill alls almennings, og Alþýðusambandsþing er á næsta leyti, tel ég réttmæta kröfu allra launþega, hv. alþm. og þeirra aðila, sem þetta mál varðar, að heildartill. ríkisstj. liggi hér fyrir á hinu háa Alþ., áður en umrætt Alþýðusambandsþing kemur saman. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. og vænti afdráttarlausra svara: verður þetta gert? Koma till. ríkisstj. í efnahagsmálum fyrir Alþ. fyrir 15. nóv.? Ef hæstv. fjmrh. vill ekki upplýsa þingheim um þetta, vænti ég liðsinnis hæstv. samgrh., fyrrv. forseta Alþýðusambands Íslands.