20.12.1972
Efri deild: 39. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

95. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það er ástæða til að harma það, hversu seint þetta frv. kemur til kasta hv. Ed. Ástæðan fyrir því er sú, að um þetta mál urðu nokkrar deilur í Nd., þ.e.a.s. um ýmis atriði, sem tengdust þessu frv., en þeim deilum lauk þannig í kvöld, að það koma hingað til hv. Ed. þau atriði þess, sem allir voru sammála um í Nd. Þannig að ég vona, að hér verði ekki um það ágreiningur, heldur aðstoði hv. alþm. við það, að þetta frv. geti orðið að lögum, vegna þess að í því eru ákvæði, sem óhjákvæmilegt er að lögfesta fyrir áramót, ef ekki eiga að hljótast af mjög veruleg vandræði.

Þetta frv. var samið af sérstakri n., sem er starfandi á vegum heilbrn.- og trmrn. og heldur áfram að starfa. Í henni eru fulltrúar fyrir alla þingflokka, þannig að ég hygg, að þau atriði, sem í frv. felast, hafi verið kynnt þingflokkunum. En þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, gegnir fyrst og fremst því hlutverki að afnema endanlega einstaklingsgreiðslur til lífeyris- og sjúkratrygginga og greiðslu sveitarfélaga til lífeyristrygginga. í l. nr. 96 frá 1971 voru þessar greiðslur felldar niður vegna ársins 1972, og er því nauðsynlegt að ákveða með lögum fyrir árslok 1972, hvernig fara skuli með þessar greiðslur framvegis. Þetta er meginefni frv. Eins og allir hv. þm. gera sér vafalaust ljóst, er nauðsynlegt, að um þetta verði sett ný ákvæði, og þau ákvæði eru sem sé samin af n., sem í eiga sæti fulltrúar allra þingflokka, og um þessi atriði varð enginn ágreiningur í Nd.

Minni háttar atriði eru þarna, sem ég hygg, að ekki sé heldur ágreiningur um, til að mynda það, að tryggingaráði sé heimilt að greiða einstæðum feðrum, sem halda heimili fyrir börn sín, sambærileg laun og mæðrum, svo og einstæðu fósturforeldri.

Þá er einnig gert ráð fyrir því, að ákvæði 37. gr. gildandi laga um sjúkrasamlög í sýslum og kaupstöðum komi að fullu til framkvæmda.

Þetta er meginefni frv., eins og það liggur fyrir hér, og ég hygg, að ég þurfi ekki að skýra þetta frv. nánar, enda er naumast tími til þess. En ég vil vinsamlegast fara þess á leit við hv. alþm., að þeir afgreiði þetta frv. sem lög frá Alþ., enda þótt tíminn sé orðinn svo naumur sem raun er á.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv, heilbr.- og trn.