24.10.1972
Sameinað þing: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1973

Björn Pálsson:

Herra forseti. Umr. við 1. umr. fjárl. hafa nú farið hér fram með nokkrum öðrum hætti en undanfarin ár, og tel ég það vera til bóta. Sannleikurinn er sá, að þegar n. eru búnar að fjalla um þetta mál, eins og verið hefur, og aðeins eru útvarpsumr. við 1. umr., þá er ekki til neins að benda á neitt. Menn eru búnir að taka ákvörðun. Það er miklu eðlilegra, ef menn vilja á eitthvað benda, að það sé gert við 1. umr. Hér hafa yfirleitt farið fram málefnalegar umr., eðlilega ekki hlutdrægnislausar, — það er ekki þess að vænta, að stjórnarandstaðan tali algerlega hlutlaust um málið, — en hógværar og sanngjarnar.

Ég hef nú hlustað á ræður stjórnarandstöðunnar, og það hefur hvergi bólað á því, að þeir kæmu með neinar ábendingar um, hvað gera ætti. En þeir hafa málað allt svart, og má vera, að það sé ekki að öllu leyti ástæðulaust. En ég hef vandlega hlustað eftir þessu, og þeir hafa ekki bent á í einu einasta atriði, hvað gera ætti. Eðlilega geta þeir sagt, að það sé ekki í þeirra verkahring, þeim sé ekki skylt að gefa neinar leiðbeiningar.

Það hefur verið talað hér mikið um skattamál og skattbreytingarnar frá því í fyrra, og satt að segja er það mitt álit, að það hafi verið rangt að fara í þessar skattbreytingar í fyrra. Við áttum að láta gamla kerfið alveg halda sér, og vitanlega hefðu skattarnir hækkað á fólkinu, vegna þess að tekjur þess uxu, jafnvel þó að persónufrádrátturinn hefði verið aukinn, en samt hefðu skattarnir mikið hækkað. Og það var miklu hyggilegra pólitískt fyrir fjmrh. að geta sagt: Þetta er allt fyrrv. stjórn að kenna, heldur en láta alltaf vera að skamma sig fyrir þessar hækkanir, sem leiddi eðlilega af sjálfu sér, vegna þess að laun fólksins hækkuðu. Þetta var þess vegna pólitísk yfirsjón. En náttúrlega verða menn að ná tekjunum eftir einhverjum öðrum Íeiðum. En þetta hefði verið miklu klókara, og svo hefðum við getað gert skattbreytingar núna og verið búnir að hugsa málið vel. og þá hefði kannske ekki þurft að gefa út nein brbl. viðvíkjandi gamla fólkinu, þannig að þetta hefði verið miklu betra. Jæja, það er nú komið sem komið er.

Ég skal ekki blanda mér í deilurnar um aðstöðu kauptúnanna, að þau hefðu orðið svo voðalega illa haldin, ef þetta hefði allt verið óbreytt. Ég geri nú ekki mikið úr því, því að ríkið tók tekjustofnana og hirti þá hvað snertir tekjuskatt og eignarskatt, og ég held, að þau hafi einhvern veginn hjarað, þessi kauptún eða bæir úti á landinu, þó að ástandið hefði verið óbreytt í eitt ár. Og ef það hefði verið ákaflega óhagkvæmt fyrir þau, þá hefðu þau orðið enn þakklátari, ef eitthvað hefði verið breytt þeim til bóta á þessu ári.

Ríkisstj. gaf út málefnasamning, og það er byrjað snemma í honum að tala um kjaramál, og stytting vinnutíma var fyrsti liðurinn. Svo kom lenging orlofs. Svo kom, að leiðrétta ætti vísitöluna, og svo enduðu þeir með 20%, sem rauntekjur að þeirra áliti ættu að hækka. Skýlaust var þó loforðið ekki. Ég las þetta vandlega í dag, en það var álit stjórnarinnar, að rauntekjur ættu að hækka um 20%. Það þarf nokkuð mikla kauphækkun til að rauntekjur hækki um 20%. Og ég held nú, ef þessir hv. herrar hefðu verið búnir að reka atvinnufyrirtæki, frystihús eða bát eða eitthvað slíkt eða iðnfyrirtæki, þá hefðu þeir ekki kveðið alveg svona fast að orði. Þeir hefðu tekið varlegar til orða og sakzt vildu vinna að því, að rauntekjurnar hækkuðu. En það er nú svo með unga menn og röska, sem eru t.d. óvanir að fara með hesta, þegar þeir eru settir á hestbak, þá ríða þeir fyrsta sprettinn e. t.v., nokkuð hratt. Svo reka þeir sig á það, að hesturinn þarf að blása og getur ekki endalaust hlaupið. Og þannig er það náttúrlega, að það má ekki dæma það allt of hart, þegar menn komast svona í ráðherrastólana eftir að hafa lengi verið utan við stjórnina, þó að þeir taki dálítið til höndunum og fari nokkuð hratt af stað, það er ekki nema mannlegt. Ég varaði þá við þessu, eftir því sem ég náði til þeirra, að það væri siður mikilla hestamanna að fara rólega af stað, þá endist klárinn betur. þegar kæmi fram á daginn. En eðlilega, þegar menn eru komnir í svona embætti, þá hlusta þeir ekki á svona karla eins og mig. Og ég tók ekkert hart á því. En það er ekki hægt að bera það á hæstv. ríkisstj., að hún hafi svikið þessi loforð.

Svo átti að bæta kjör bænda og yfirleitt að gera allt fyrir alla, og sést á því, að þetta eru ákaflega góðir menn í sér og vilja allt fyrir alla gera, bæta allra kjör, nema kannske manna, sem grafa fé sitt í holur. Ég skal ekki segja um það. Þetta er ríkisstj. allt búin að efna með þessi kjaramál. Það er búið að gera þetta, og rauntekjur fólks, eins og bær standa í dag, hafa sennilega hækkað. Ég veit ekki, hvort þær hafa hækkað um 20%, en á milli 10% og 20%. Það er ekki hægt að bera vanefndir á ríkisstj. fyrir það. En í ákvæðinu um vinnustyttinguna álít ég vera eina mestu vitleysu, sem ríkisstj. hefur gert, vegna þess að það var ekkert jákvætt við málið. Fólki var hreinlega engin þægð í þessu. Og ef ætti að hækka kaupið meira, — atvinnuvegirnir þola það, — þá er miklu betra að hafa 10% kauphækkun, ef ríkisstj. vildi svona vel gera, og það var náttúrlega makalaust með stjórnarandstöðuna, að hún skyldi ýmist annaðhvort vera með þessari vitleysu eða sitja hjá. Ég spurði þá held ég einhvern þeirra að því, hvernig stæði á þessu, og þá sagði hann mér, að hann vildi helzt að ríkisstj. gerði sem mesta vitleysu. Út af fyrir sig er það engin afsökun. Ég var einnig á móti þessari endemis vitleysu og er afar stoltur af því. En nú væri þetta allt í lagi, ef þetta væri fólkinu til góðs. En þetta á ríkan þátt í því að skapa ómenningu í þjóðfélaginu. Af hverju koma föstudagsfylliríin hér nema af laugardagsfríunum?

Þeir eru nú vitrir í ríkisstj., en ég efast um, að þeir séu vitrari en gamli Móses. Hann sagði, að það væri alveg nóg að hafa einn frídag í viku. Og ég er nú ekki einu sinni farinn að hafa það, þegar ég er heima hjá mér, og líður vel fyrir því. Þetta væri hægt að laga, og þá væri hægt að létta um það bil 10% hækkun á atvinnuvegunum. Nú hef ég talað við marga atvinnurekendur, því að ég rak nú einu sinni atvinnu og geri það svolítið enn og þekki þá marga og ræði við þá, og þeim ber nokkurn veginn saman um það, að tilkostnaður hjá fyrirtækjum sínum sé 40%; sumir halda því fram, að hann sé meira. Og svo er þjónustustarfsemin, segja mér mennirnir, sem eiga skipin, að hún hafi alveg tvöfaldazt. Og það er tvennt, sem veldur, og það er það, að úr dreifbýlinu hafa sumir beztu tæknimennirnir flutt í aðra staði og óvanari menn komið í staðinn, og í öðru lagi hefur þessi óhemju eftirspurn eftir vinnu gert það að verkum, að vinnusvik eru orðin meiri en þau voru nokkurn tíma, segja þeir mér, og voru þau þó í allsæmilega lagi sums staðar, þegar mest var eftirspurnin eftir vinnu hér á árum viðreisnarstjórnarinnar sálugu.

Þessi mikla fjárfesting, sem hefur verið í ár, getur ekki gengið lengi. Það er ámóta hættulegt að hafa allt of mikla eftirspurn eftir vinnu eins og að hafa hana of litla. Það þarf allt að vera í hófi. Sighvatur gamli Sturluson var vitur karl þó að honum yrði það á að fylgja sínum heimska syni þarna á Örlygsstöðum. En honum varð það að orði, þegar hann var að ræða um hann, að „fá eru óhóf alllangæ.“ Og annað, sem ég bið dreifbýlismenn að athuga, er, að með þessari óhemju vinnueftirspurn, sem er í þéttbýlinu, skapast straumur frá dreifbýlinu. og úr sveitunum, einkum þeim, sem eru afskekktar, og til staða, þar sem vinnan er ótakmörkuð og lán til að koma sér upp íbúðum, og þetta veldur röskun í þjóðfélaginu, ef það verður varanlegt. Þetta skeði t.d. í Bretlandi, þegar iðnaðurinn var í uppsiglingu og gróði var að reka iðnfyrirtækin, að fólkið flykttist úr sveitunum og í kauptúnin. Og við finnum þetta, sem búum úti í dreifbýlinu, hve miklu erfiðara er með alla þjónustu. Það væri ógerlegt að slátra í kauptúnunum úti á landsbyggðinni, nema sveitafólkið hlypi undir bagga. Húsmæðurnar meira að segja verða að fara af heimilunum. Það verður því að stilla þessari fjárfestingu í hóf. Það er ágætt að gera mikið, en það er ekkert góðverk að ætla sér að gera allt í einu. Vinnan þarf að vera jöfn, og það er ár á eftir þessu ári, og það koma menn, þegar við hverfum, sem nú lifum, Það koma aðrir á eftir, og þeir vilja eitthvað gera. Þetta þarf að vera allt í hófi. Við þurfum að vinna á móti atvinnuleysi, en eftirspurnin eftir vinnunni þarf að vera í hófi. Þess vegna er það, að við skulum ekkert vera að blekkja okkur á því, að fjárfestingin í ár er of mikil. En það er ekki allt á vegum þess opinbera. Það hefur bara verið vaðið áfram.

Ýmsir af ræðumönnum hafa haldið því fram, að halli á viðskiptum ríkisins hafi verið 4 milljarðar s.l. ár. Þetta er út af fyrir sig rétt. En þeir láta þess alls ekki getið, að þetta er alls ekki á vegum þess opinbera allt saman. Álfélagið er t.d. með stórbyggingar. Innstreymi var um einhverja milljarða raunverulega. Og það er vörusöfnun í landi. Það safnast fyrir vörur, bæði ál o.fl., þannig að á vegum þess opinbera hygg ég, að það hafi verið eitthvað á 2. milljarð. En þrátt fyrir þetta, þó að þetta sé ekki algerlega raunverulegt, þá er þetta of mikið. En núv. ríkisstj. verður ekki kennt um þetta að öllu leyti, því að hún tók ekki við fyrr en á miðju ári, og það er ekkert víst, að þetta hefði orðið miklu minna, þótt hinir hefðu setið. Svo er aftur árið 1972, þar er spáin eitthvað svipuð. Það er ómögulegt að fullyrða um þetta núna. Það liggur ekkert endanlega fyrir um, hver hallinn verður mikill. Vafalaust verður hann einhver, sem ekki er óeðlilegt með þessari miklu fjárfestingu, og það getur náttúrlega ekki gengið svona mikil skuldasöfnun ár eftir ár. 1973 liggur heldur ekkert endanlega fyrir. Það er ekki búið að ganga frá neinu enn. Það má vera, að bað verði, en það er ekki hægt að fullyrða neitt um þetta. En þar fyrir er ekki hægt að halda þessu áfram, eins og hefur verið í ár. Það verða að koma breytingar þar á.

Það er búið að leggja fram 20 milljarða fjárlög. Það liggur á borðinu, og það er rétt fram tekið, það eru engar ráðstafanir gerðar fyrir þessari kauphækkun, sem er búið að ákveða í byrjun marz, og það er gert ráð fyrir, að vísitalan hækki. Hve mikið það er, veit ég ekki fyrir víst, en því er haldið fram, að þetta sé jafnvei 5–8%. Satt að segja finnst mér það ótrúlegt, ef ekki verður hækkun á útsöluverði landbúnaðarvara. En vera má, að það sé. Ég skal ekkert fullyrða um það. En þessu þarf að mæta. Og að mínu áliti er ekki hægt að hækka fjárl. Það þarf, þá að hækka skattana. Hvað á að hækka? Á að hækka söluskattinn? Það eykur dýrtíðina í landinu? Það er ekki hægt að hækka beinu skattana. Það er eðlilegt, að það kæmu ýmsir gallar í ljós á skattakerfinu. Þessu var náttúrulega flaustrað af. Og það, sem mér finnst að, — það er, að lagður er á þessi hái skattur, 54% sameiginlega. Það er lagt á tekjur, sem eru það lágar, að þær nægja ekki fyrir nauðþurftum. Maður með þrjú börn fær 300 þús. kr. frádrátt persónulega og 80 þús., áður en hann er kominn upp í þessi 54%, og hann lifir ekki á þeim 380 þús., þannig að þetta kemur á tekjur, sem fólk þarf að nota til að lifa af. Þetta nær til fjöldans af launafólkinu, og það er annað atriði, sem er hættulega við þetta. Það er hreinlega það, að þegar fólk er farið að vinna fyrir það miklum tekjum, að 54% skatturinn kemur á þær, þá hættir það að vilja vinna. Það er ósköp eðlilegt, og við höfum orðið varir við þetta í ár. Það er eðlilegt, að menn leggi ekki á sig eftirvinnu og næturvinnu upp á það, að 54% eru tekin af því í opinber gjöld. Þess vegna verður að breyta skattakerfinu þannig, að af kaupi hins almenna manns, sem vinnur fyrir sér með sínum höndum, séu ekki tekin 54%. Það er allt of hátt. Það má ekki vera meira en svona 30%. Hinu gæti ég gengið að, að það yrði meira en 30% á mönnum, sem hafa margar millj. kr. í tekjur án þess að erfiða neitt sérstaklega mikið. Það mætti gjarnan fara upp í 70%. Og einhvern tíma á dögum Eysteins voru þetta 90% hjá hátekjumönnum. En að skattleggja þannig að taka 54% af tekjum, sem fólkið vinnur fyrir sér með eftirvinnu og næturvinnu, vökum og of miklu erfiði, það er ekkert vit í því.

Nú vil ég ekki halda með langri yfirvinnu, þó ég sé á móti því að færa vinnutíma niður í 37 klst. og 15 mín., af því að það skapar ómenningu og stórkostleg útgjöld. Ég tel hæfilegt svona 40 stundir í viku og að það sé unnið fram að hádegi á laugardögum. Hitt er svo annað mál, að núna á vertíðinni hef ég heyrt sannar sögur af því, að það var alltaf tveggja mánaða tíma í sumum verstöðvunum, að fólkið varð að vinna 16 tíma á sólarhring. Náttúrulega er ekkert vit í þessu. Og svo auk þess arna, fyrir utan alla þessa blessaða vinnustyttingu, þá er hún stórhættuleg upp á áhrifin á fólkið, sem verður að vinna þennan langa vinnutíma. Það kærir sig ekkert um að leggja þetta á sig, því að aðrir vinna ekki nema að meðaltali sem svarar 6 klst. á dag, eða 6 tíma 6 daga í viku, og fólkið leitar til þessara starfa. Nú er eftirsóknin í alls konar þjónustustörf látlaus, straumurinn verður frá fiskimönnum og bændum. Og þetta misræmi í vinnukerfinu í þjóðfélaginu nær náttúrulega engri átt, það er stórhættulegt. Unga fólkið fer úr sveitinni, það vili geta verið í sparifötunum sínum tvo daga í viku og jafnvel þrjá, og vitanlega er leikur einn að vinna þessar 37 klst. á fjórum dögum, og maður, slæpist 3 daga í vikunni og á að vinna í fjóra, hann verður ekki verkhæfur, hann er kominn úr vinnuþjálfun, hann er ekki takandi, búinn að vera í fyllirýi meira og minna kannske, þannig að þetta er ein herfilegasta vitleysa, sem gerð hefur verið. Og fólkinu er ekki ein einasta þægð í þessu. Ég hef fengið þakklæti frá mörgum fyrir að vera á móti þessu og vanþakklæti frá einum einasta manni.

Að mínu áliti er hægt að lækka fjárlögin um 5 milljarða frá því, sem nú er. Ef hæstv. ríkisstj. hefur meira fjármálavit í kollinum en fyrrv. ríkisstjórn, náttúrulega. En satt að segja, þó að þeir færu nú hægar í fyrrv. ríkisstj. að hækka, þá gekk þetta nú allt saman furðanlega, svona nokkurn veginn jafnt og þétt um milljarð á ári. En eðlilega urðu nýju mennirnir að skvetta betur úr klaufunum, það er ekki hægt að neita því. Ekki er nú alveg búið að tvöfalda þessa upphæð, sem þeir tóku við, en ef fjárlögin eru tekin eins og þau eru núna og bætt við því, sem þarf að bæta við, þá getur það orðið u.þ.b. tvöfalt, og er það ekki ólaglega gert á tveimur árum. Satt að segja voru þeir komnir nokkuð vel saman, núverandi fjmrh. og fyrrverandi, þarna seinni árin, sem fyrrv. fjmrh. var með fjármálin, þannig að ég lít á núverandi fjmrh. sem eiginlega hálfgerðan lærisvein hins fyrri, nema hvað hann hefur gert þetta einhvern veginn miklu skarpar en hinn, sem eðlilegt er, því að hann var ekki eins þreyttur.

Svo vil ég með nokkrum orðum segja ykkur frá hugmyndum mínum, hvernig á að fara að lækka um þessa 5 milljarða. Ég er búinn að benda ykkur á það, að með því að afnema þessa vitleysu, þessa vinnutímastyttingu, þá getið þið bætt hag eða lækkað launakostnað frystihúsa og iðnaðarfyrirtækja um 10%, og ef atvinnufyrirtækin geta borgað þetta hærra kaup, þá er sjálfsagt, að þau geri það. Og þá gæti fólkið fengið hækkað kaup fyrir þessa vinnustyttingu sína. En þar verður reynslan náttúrlega að skera úr. í fyrsta lagi á að afnema þessa vitlausu lífeyrissjóði, sem nú eru og þeir sömdu um, Bjarni heitinn Benediktsson og okkar ágæti félmrh., Hannibal Valdimarsson. Þessi tryggingamál eru nefnilega svo flókin, að það er ekki hægt fyrir menn, sem eru að rabba saman einhvers staðar uppi í sveit, að ákveða þau svona alveg á svipstundu. Þetta þarf rækilegrar athugunar við. Þetta sá hæstv. félmrh., og þegar ég var að deila um þessa lífeyrissjóði bænda einu sinni, þá var hann eini maðurinn, sem stóð með mér. Ég ber alltaf mikla virðingu fyrir honum síðan, gáfum hans og ágæti, og tel honum það til tekna, því að það þarf nefnilega stóra menn til að viðurkenna, að þeir hafi gert eitthvað rangt. Þingið og ríkisstjórnin gerðu sér t.d. mikið til sóma, ef þau afnæmu þessa vinnustyttingarvitleysu, sem þeir komu á í fyrra. Þjóðin mundi bera mikla virðingu fyrir stjórninni á eftir. Það á að afnema þessa sjóði. Þetta er að verða um 10% af kaupi allra landsmanna, sem er tekið og lagt í sjóðina. Þetta eru margir sjóðir og svo nokkrir menn í stjórn hjá hverjum sjóði. Þeir hafa laun, og þeir vilja helzt halda í þessa sjóði. Það eru orðin mörg hundruð manns í stjórn þessara lífeyrissjóða. Svo er farið að braska með þessa sjóði. Ríkisstj. ræður engan veginn yfir þeim. Þeir vilja ekki kaupa þessi sparibréf, sem hún er að bjóða út, og þau ganga nú ekki út. Þeir vilja ráða yfir þessum peningum og braska með þá.

Ég vil, að við tökum upp sama tryggingakerfi og Norðmenn hafa. Út af þessari vitleysu með lífeyrissjóðina fór ég að kynna mér tryggingamál í öðrum löndum og komst að þeirri niðurstöðu, að önnur eins hringavitleysa er hvergi til í öllum heiminum eins og hér er. Kerfið er allt tvöfalt, sums staðar þrefalt og jafnvel fjórfalt. Það eru sumir, sem hafa fjórföld eftirlaun, og hafa aldrei haft jafnmikil peningaráð á ævinni heldur en þegar þeir eru hættir að geta gert nokkuð.

Norðmenn hafa tryggingakerfi sitt þannig, að launþeginn borgar 4%, atvinnurekandi 8%. Atvinnurekendur tryggja sig með 7% af nettótekjum, og þá er þeim fátækari hjálpað, þeir efnaðri borga 7%, þeir borga mörgum sinnum meira, ef þeir hafa miklar tekjur. Þeir, sem hafa litlar nettótekjur, sleppa, og launþeginn borgar 4%, og það er ekkert meira en á að borga núna í þessa blessaða lífeyrissjóði. Þetta endist Norðmönnum hér um bil alveg, og í þessar tryggingar leggur ríkis sáralítið. Ég ætlast til, að ríkið sjái um örorkubætur; ég ætlast til, að ríkið borgi hálft sjúkrasamlagsgjaldið, en einstaklingar að hálfu með sveitarfélögum, þau gætu borgað sinn helminginn hvort. Ég vil að þetta sé borgað að einhverju leyti heima og sjúkrasamlögin séu heima í héruðunum. Það verður miklu minna svindlað og miklu minni misnotkun, ef aðilarnir eru heima í héruðunum, sjúkrasamlögin sæmilega stór og eftirlitið heima. Þá væri líka ráð að taka upp, að sjúkrasamlögin borguðu tannviðgerðir að einhverju leyti, vegna þess að það eru engir launamenn í þjóðfélaginu, sem draga jafn mikið undan skatti og tannlæknar. Þeir hafa bezta aðstöðu til þess. Ríkið mundi vinna þetta alveg upp með hærri tekjuskatti. Ég ætlast ekki til, að það sé stórlækkað á mönnum, sem hafa 2–3 milljónir, þeir geta borgað háan tekjuskatt.

Ég ætlazt til þess, að almannatryggingar verði borgaðar svona, og þá yrði þetta eiginlega engin útgjaldaaukning fyrir atvinnuvegina, sem verða þegar að borga 6%. Þeir yrðu að borga 8%, ef við færum inn í norska kerfið, og þá gætum við bætt þeim eitthvað upp með þessi 2%. Það mætti t.d. lækka framlagið, sem þeir verða að borga til atvinnuleysistryggingasjóðs, það er um 360 millj., hygg ég, sem hann fær alls núna á ári, og 160 millj. í vexti. Og það er áætlað, að útgjöldin verði 80 millj. og engar líkur til þess, að þau verði það, því að það er ekkert atvinnuleysi í landinu og engar líkur til þess, að það verði. Það er því alveg nóg að bæta við vöxtunum og vera ekki alltaf að fella gengið og gera sjóðina verðlausa. Það er náttúrlega búið að fara illa með þennan sjóð með endurteknum gengislækkunum, en það er meira virði fyrir þennan sjóð, ef hann á að vaxa, dafna og þrífast, að gengið sé ekki fellt hvað eftir annað, heldur en að atvinnuvegirnir séu skattlagðir, og þá væri hægt að lækka þarna eða bæta atvinnuvegunum þetta upp. Svo væri vegur kannske að lækka launaskattinn. Það eru bara um 9–10 hundruð milljónir, sem eru borgaðar í launaskatt og atvinnuvegirnir hafa alltaf borgað.

Ég ætla nú ekki að fara að halda neinn eldhúsdag hér yfir fyrrv. ríkisstj., en satt að segja voru allar efnahagsráðstafanir þannig, að gengið var fellt og svo voru atvinnuvegirnir skattlagðir í sjóði, til þess að það væri eitthvað til að lána. En ég vil, að atvinnuvegirnir verði ekki skattlagðir svona mikið í sjóði og engið sé tryggt, og þá skapast traust á peningana og fólkið fer að safna peningum. Gert er ráð fyrir, að til almannatrygginga fari milljarðar kr. Sjúkratryggingar yrðu þá borgaðar af einstaklingum og sveitarfélögum að hálfu leyti og ríkinu að hálfu, og ef það kæmi til viðbótar, þá væri hægt að létta þarna á ríkinu á 5. milljarð. Og ef ríkið hætti að leggja í þennan atvinnuleysistryggingasjóð, þá sparaðist þar eitthvað um 200 millj., og þá erum við komin mikið á 5. milljarð. Þetta eykur hér um bil ekkert útgjöld hjá atvinnuvegunum, af því að þeir eiga að borga í þessa lífeyrissjóði hvort sem er.

Svo er náttúrlega ótalmargt á fjárl., sem má spara. En af því að það er nú orðið áliðið, þá ætla ég ekki að fara að telja það upp allt saman. En ég gæti nefnt nokkra liði. Ég er búinn að nefna þessar tryggingar, og þá erum við komnir í svona 4.7 milljarða, hygg ég. Svo er t.d. Alþ. Við höfum verið anzi gróflega flott á að hækka launin okkar og auka ýmsan tilkostnað, láta flokkana fá aðstoðarmann, það er nú ein vitleysan. Og það er gert ráð fyrir, að þessir blessaðir aðstoðarmenn flokkanna kosti á 4. millj. Við getum alveg strikað þetta út. Ég held, að ef við erum þeir aumingjar að geta ekki samið frv. eða aflað okkur upplýsinga, þá séum við ekki færir um að vera þm. og þetta sé bara eins og hver önnur vitleysa. Svo höfum við verið ákaflega flott á að hækka ferðakostnað við okkur. Þetta gæti nú gjarnan lækkað, og ef við gerum kröfur til annarra, þá skulum við byrja á að gera kröfur til sjálfra okkar.

Háskólinn er kominn með 256 millj, kr. launagreiðslu. Ég held, að það sé búið að tvöfalda þessa prófessoratölu á eitthvað 2–3 árum. Og skólakerfið hefur þanizt út með ævintýralegum hraða. Þarna er búið að stofna tvær nýjar deildir, viðskiptadeild og þjóðfélagsfræðikennslu. Þessar deildir kosta 16 millj., bara kennslan. Þarna eru mörg hundruð manns. Þarna eru dömur að bíða eftir því að giftast, og þarna eru ungir sveinar að skipta sér af pólitík og ætla að krefjast þess núna 1. des., að þessar hræður þarna af Reykjanesinu verði reknar burt, og skamma EBE eitthvað og svoleiðis stórvirki ætla þeir að gera núna á hátíðisdeginum. Þeir gætu nú haft í öðru að snúast og kannske þarfara en því, því að það vantar alls staðar fólk, og það er ýmislegt hægt að gera annað. Ég held satt að segja, að þjóð, sem er 200 þús. manns, verði að hafa eitthvert hóf á þessum háskóladeildum. Það borgi sig þá betur, ef við eigum að láta svona 3–4 menn læra einhverja gagnfræðagrein, að styrkja þá bara til þess að læra í öðrum löndum.

Þá er t.d. blessað náttúruverndarráðið með 21 millj. Þeir ætla víst að fljúga yfir öræfin og dreifa áburði og fræi yfir grjótið, sem allt fýkur nú til. Þetta er nú einhver vitlausasta fjárfesting, sem ég gæti hugsað mér, þegar verið er að dreifa áburði uppi á öræfum, ýmist á grjótmela eða flár. Einu sinni voru þeir að dreifa frammi á Auðkúluheiði, og það sá enginn maður, hvar þeir höfðu látið áburðinn. Það var þegar askan féll. Það er ágætt að græða upp landið. Það þarf bara að gera það af einhverri skynsemi. Þessi nýi sandgræðslustjóri skrifaði grein um daginn, og það var töluvert vit í henni, og benti þar á, að þetta væri gert á skynsamlegan og skipulegan hátt. Ég álít, að það mætti spara eitthvað á þeim lið, a.m.k. ætti ekki að ausa þessu uppi á öræfin svona skipulagslaust.

Svo er blessuð sinfóníuhljómsveitin með 20 millj. Ég held, að við gætum komizt af án hennar, því að þetta sífellda garg í útvarpinu er að stórheimska fólkið í landinu.

Svo er Rannsóknastofnun landbúnaðarins með 42 millj. Ég held, að bændurnir hafi fengið litla vizku frá henni. Ýmsar sögur hef ég nú heyrt af vinnubrögðunum og vil ekki vera að hafa það eftir, en ég held, að það væri áreiðanlega skaðlaust, þó að það væri eitthvað fækkað starfsliðinu þar.

Svo er Skógræktin með 28 millj. Það er ákaflega heimskulegt að vera að rækta skóg á Íslandi, það er eitt versta skógræktarland í heimi, fyrir utan pólana, og væri ábyggilega skaðlaust að minnka þetta eitthvað. Það er hægt að láta smákvisti þrífast uppi í dalabotnum.

Einu sinni var frv. hér á ferðinni um ræktun skjólbelta. En það er náttúrulega enginn gróður á Íslandi, sem þarf frekara skjól heldur en skógarnir sjálfir. Ég veit ekki til að ræktuð séu skjólbelti. Það er varið fé í þessi skjólbelti, en það bólar ekkert á því, að þau séu til, og því síður, að þau skýli öðrum gróðri.

Svo er grænfóðurverkunin. Það á að verja töluverðum upphæðum í hana. Þarna eru keyptar dýrar vélar, svo að hægt væri að þurrka með rafmagni eða olíu, og allt rekið með halla. En við erum farnir að vita það fyrir norðan a.m.k., að það er hægt að rækta bygg og annan góðan gróður, setja hann bara í vothey, breiða plast yfir. Þetta er miklu ódýrara fyrir bóndann heldur en vera að bjánast til að kaupa köggla, sem kosta miklu meira en kjarnfóðrið. Þetta tel ég ákaflega vafasama fjárfestingu.

Svo er Hafrannsóknastofnunin með 3 skip og kostar 120 millj. eftir áætlun. Hún vinnur víst mörg stórvirkin, þessi Hafrannsóknastofnun með þessi þrjú skip, en ég veit nú ekki nema það væri óhætt að fækka þarna um eitt og lækka þennan kostnað eitthvað. Þeir mundu ekki veiða miklu minna fyrir það.

Ég hef aðeins bent þarna á nokkur atriði. En það má náttúrlega spara í miklu fleiri atriðum og miklu meira. En þetta verður vitanlega ekki gert, nema það sé einhver vilji fyrir hendi og einhver kjarkur. Það er m.ö.o. ekki nokkur minnsti vandi að leysa þetta, ef notuð er einhver hagsýni og menn hafa kjark til að framkvæma það, sem þarf að framkvæma. Þessi sífelldu vandamál, sem við erum alltaf að tala um á hverju einasta þingi, voðaleg vandamál, það er ekkert nema vesalmennskuheimska, sem veldur þessu. Boðorðið er einfaldlega það að eyða ekki meiru en maður aflar. Þetta er ósköp einfalt. Það þarf enga hagfræðinga til þess, og það þarf enga viðskiptadeild uppi í háskóla.

Annars er n. núna að starfa og á að skila áliti, og stjórnin bíður nú og bíður eftir vizkunni. En það er bara miklu betra fyrir ráðh. að hafa vitið í sínum eigin kolli, heldur en vera að panta það frá einhverri n. Og ég held, að það mætti fækka mikið þessum n., þjóðinni alveg að skaðlausu, og ráðh. jafnvel líka. Það er alltaf verið að semja frv., og þau eru meira og minna vitlaus, og fer mikið af tímanum í að koma í veg fyrir, að þau verði samþ. Og svo eiga ráðh. að hafa vit á hlutunum, en ekki þurfa að fá allt vit að láni. Menn, sem hafa fjármálavit, þurfa ekki að læra neina hagfræði. Þetta eru kenningar og kjaftæði, sem þeir læra þarna, og ég álit, að það yrði mikið til bóta að setja hreinlega grein í stjórnarskrána um það, að hagfræðingar kæmu ekki nálægt fjármálum, því að ef menn hafa þessa gáfu, sem er alger sérgáfa líkt og lyktnæmi hjá tófunni, há þurfa þeir alls ekki að læra hagfræði, hvorki hjá Ólafi Björnssyni né öðrum. Þessir hagfræðingar hafa alltaf verið að reikna, — ef verða gengisfellingar, — verið að reikna, hvað vísitalan mundi hækka, og svona nokkuð, og hefur aldrei brugðizt, að þetta væri tóm hringavitleysa, sem er reiknuð. Og ég held, að menn ættu að vera búnir að fá alveg nóg af þessu. Ég hef nú verið hér í þinginu í eitthvað 13 ár, og ef komið er með einhverja sparnaðartill., sem eitthvert vit er i, einhverja ráðdeild, þá er það allt saman rifið niður og ég hef ekkert verið að basla í því. En ef einhver kemur með eyðslutill., þá er því vanalega vel tekið og manninum hælt fyrir víðsýni, félagshyggju og þroska og eitthvað. svoleiðis. Ja, þvílíkt! Það er ekki á góðu von.

En þetta er nú komið svona. Við erum komnir í 20 milljarða og vantar sennilega töluvert til að nægi, ef engu er breytt, og þá er ekki nema um tvennt að tala, að láta allt rúlla áfram og fella svo gengið. Það var alltaf ráð fyrrv. ríkisstj. að fella gengið. Það er búið að skamma núv. fjmrh. óskaplega fyrir að hafa þetta ekki allt á borðinu, þessar blessaðar ráðstafanir frá þessari virðulegu n. En ég man nú eftir fyrrv. stjórn 1967, hvað hún var ráðleysisleg á svipinn, þegar ómögulegt var að ná neinu í ríkissjóðinn nema fjölga krónunum, og hvað hún varð glöð, þegar Bretar voru búnir að fella pundið, því að þá felldu þeir bara enn meir og þá fjölgaði krónunum. En þetta var engin smákjaraskerðing, sem gengislækkanirnar 1967 og 1968 ollu hjá launþegum. Krónan var, miðað við erlendan gjaldeyri, lækkuð um rúmlega 100% og kaup hér var hliðstætt og í Noregi fyrir gengislækkanirnar, en eftir þær var það nærri helmingi lægra. Og svo var haldið í að hækka launin sem minnst. En skriðan sem kom núna, voru eftirstöðvar af þessu, af kjaraskerðingunni 1967 og 1968.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um hér áðan, hvað iðnaðurinn hefði tekið mikinn fjörkipp eftir gengislækkunina 1968. Vitanlega, þegar búið er að lækka launin um helming, er ekki óeðlilegt, að það sé hagnaðarvon að framleiða einhverjar iðnaðarvörur. Það kom af sjálfu sér. Þetta hefur vitanlega bitnað á launþegunum. Og svo komu kröfurnar á eftir, og þá ganga þeir gjarnan lengra en ef þessu hefði aldrei verið hreyft, þannig að þessi þensla er ekki öll núv. ríkisstj. að kenna, því fer fjarri.

Ég ætla nú ekkert að tala um illan arf eða mikinn arf. Ég ætla ekkert að gera það, en það er rétt að viðurkenna það, sem rétt er, að kröfurnar um launahækkanir náðu alla leið, og það er að vissu leyti afleiðing af gengislækkunum 1967 og 1968. Það var furðulegt, hvað launþegar tóku því með mikilli þolinmæði þá og sýndu mikinn sparnað á árinu 1969. Við getum gert þetta enn þá. Ég er sannfærður um það, að ef nauðsynlegt reynist og þing og stjórn geri núna það, sem hægt er til þess að reka ríkisbúskapinn á sem hagkvæmastan hátt, og það sýni sig, að atvinnuvegunum er ofþyngt, þeir bera sig ekki, þá er ég sannfærðurr um það, ef ríkisstj. snýr sér til fólksins, að það sættir sig við það, þó að vísitalan sé á einhvern hátt skert. Og því má ekki endurskoða vísitöluna? Hvaða vit er í því að hafa tóbak og brennivín inni í henni? Og ef nauðsynlegt reynist, á að taka einhverja fleiri liði út úr. En ég er ekki á því, að við megum taka nauðþurftir fólks. Það verður að hæta það, ef verð hækkar á þeim, þannig að kaup hækki. En það mætti athuga um ýmsa liði aðra, sem ekki eru eins nauðsynlegir og nú eru inni í vísitölunni. Og því má ekki setja löggjöf um það, á hvern hátt eigi að reikna vísitöluna út? Ég sé ekki, að það sé neitt við það að athuga. Það er náttúrulega alveg ljóst, að til lengdar er ekki hægt að reka atvinnuvegina með halla. Það þýðir ekkert annað en að verðgildi peninga minnkar, og það endar með beinni eða óbeinni gengisskerðingu. Þetta hlýtur fólkið að vera farið að gera sér ljóst eftir öll þessi ár og endurteknar gengishækkanir. Þess vegna er ég alveg viss um það, að fólkið sýnir skilning, ef ríkisstj. bara rekur búskapinn á skynsamlegan hátt. Ég hef bent henni þarna á leiðir, sem geta numið 20%. Það er þetta, sem verið er að sanka í lífeyrissjóðina og vinnutímastyttingin, sem er ekkert nema tóm vitleysa. Það munar um 20%, og þá er alveg hægt að komast yfir þessa erfiðleika. Vísitalan sé svo löguð, ef nauðsynlegt er og eftir því sem skynsamlegt þykir. Ef þetta dugir ekki til. þá verður fólkið bara að sætta sig við að neita sér um eitthvað. Ef hægt er að lækka skattana, þá lækka líka útgjöld fólksins.

Nú á kaupið að hækka um 6% 1. marz. Ef hægt er að lækka tekjuskattinn við hinn almenna launþega, það er ósköp auðvelt, þá á bara að segja við þá: Við skulum lækka tekjuskattinn, en þið gerið ekki kröfu til að fá þessa kauphækkun. — Til hvers er að fá kaup, ef 40% af því kannske eru tekin aftur. Það er ekki nema til ills fyrir launþegann. Hann er ekki eins aðgætinn með, hverju hann eyðir, þannig að ég held, að við verðum að stilla fjárfestingunni í hóf. Það er ekkert vit í öðru, og það verður að vera hófleg eftirspurn eftir vinnuaflinu, og við eigum að strika út þessa liði, sem óþarfir eru. Það á enginn vandi að vera að komast frá þessum erfiðleikum, sem alltaf er verið að röfla um. Við megum ekki eyða meiru en við öflum. Það er skilyrði til þess, að allt sé í lagi. Þá þarf aldrei að fella gengið.