21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

1. mál, fjárlög 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki við þessa umr. fara út í pólitískar umr. eða deilur í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv. að þessu sinni. Það stendur hér síðar til að ræða um vantraust á ríkisstj., og fleiri tækifæri munu gefast til almennra umr. um fjárlagaafgreiðslu, fjárlög og annað, sem því kemur við. Það, sem ég mun því segja hér, eru aðeins örfáar skýringar, sem ég vil koma að við afgreiðslu málsins.

Í fyrsta lagi vil ég leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir störfin, sem hún hefur unnið hér á milli umr., sem hafa verið mörg og margvísleg. Nm. hafa allir lagt sig fram við þá vinnu, og met ég það að verðleikum.

Í sambandi við niðurgreiðslur og það, sem þeim fylgir, vil ég segja það, að þar er sá varnagli í fyrsta lagi að heimild er til niðurskurðar um allt að 15% á fjárl., og hefur sú heimild oft verið í fjárl. á undanfarandi árum, og síðast man ég eftir henni í fjárl. 1965. Þá var hún svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Að fresta til ársins 1966 verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til á fjárl. fyrir árið 1965. Sama gildir um greiðslu framlaga til annarra aðila, sem ákveðin eru í fjárl. 1965“

Hér var þá um ótakmarkaða heimild að ræða, en þessi heimild, sem hér er um að ræða, er aftur bundin við 15%. Um framkvæmd á meðferð þess máls vil ég segja það, að ef notuð verður heimildin til niðurskurðar í sambandi við rekstur, þá mun það verða gert í samráði við viðkomandi rn., en verði farið út úr því formi í sambandi við niðurskurð á verklegum framkvæmdum, þá mun það verða gert í samráði við undirnefnd fjvn., og mun hún þá kvödd til, áður en ákvarðanir verða teknar þar um. Þetta var þannig í sumar, þegar þessi ákvörðun var tekin. Þá var þegar búið að ákveða það mikið af verksamningum, og svo mun einnig vera nú, að ekki var hægt þar um að breyta. Hins vegar var haft samráð við n., þegar endanlega var frá þessum málum gengið, og breytt nokkru í meðferð undirnefndarinnar og í samstarfi við rn. og fyrst og fremst reynt að gæta þess, að þetta hefði ekki áhrif á framkvæmdahraða þeirra stofnana eða framkvæmda, sem það náði til. En ég vil undirstrika það, að verði farið út úr þessum ramma, sem hér er um að ræða, og niðurskurðarheimildin notuð, þá mun það verða gert á þennan hátt. Aftur hvað rekstri viðvíkur, þá verður eingöngu um rn. og ríkisstofnanir að ræða. Ég geri ráð fyrir, að stefnt verði að því að halda þeim niðurgreiðslum, sem nú eru, út næsta ár, þó að það sé ekki að fullu ákveðið. Það verður tíminn að leiða í ljós. Einnig er til þriðja leiðin til að afla nýrra tekna, og fyrir því eru mörg fordæmi, að það hafi verið gert, eftir að fjárlagaafgreiðsla hefur farið fram. En á þessu stigi er að sjálfsögðu engin ákvörðun um neitt af þessu endanlega tekin. Þetta vildi ég segja um það mál án þess að fara frekar út í það.

Ég vil segja það einnig við þessa umr., að það voru tvö mál. sem var leitað til hæstv. ríkisstj. um, að tekin yrðu hér til meðferðar í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna.

Í fyrra lagi var þar um að ræða, að sett yrði inn á heimildagrein heimild vegna kaupa á skipi til Vestmannaeyja. Það hafa komið fram hugmyndir hjá þeim Vestmanneyingum um það og verið mjög til umr. að kaupa nýtt skip til þess að leysa Herjólf af, og hafa þeir hugsað sér, að sú framkvæmd gæti verið með þeim hætti, að ríkissjóður ætti skipið, en þeir önnuðust reksturinn. Um þetta hafa ekki farið fram neinar formlegar viðræður. Þetta mál var rætt á fundi ríkisstj. nú fyrir stuttu. Það var álit ríkisstj., að það væri ekki hægt að afgreiða þetta mál með ábyrgð í fjárlagaheimild, vegna þess að slíkar ábyrgðir eru einfaldar ábyrgðir, sem kallaðar eru, og það þýðir, að það er ekki hægt að ganga að ríkissjóði, nema búið sé að ganga að viðkomandi fyrirtæki fyrst. Slík ábyrgð mundi því ekki gilda í sambandi við erlendar lántökur, enda er hv. þm. kunnugt um, að það hefur orðið að hafa sérstök lög í sambandi við ábyrgðir vegna togarakaupanna, sem stafar af þessu, að þar hefur alls staðar orðið að vera um sjálfskuldarábyrgð að ræða. Ég skal lýsa því hér yfir að ríkisstj. — eða fjmrh. og samgrh. hafa komið sér saman um það að taka upp viðræður við þm. Sunnl. um þetta mál á framhaldsþinginu, og ef um semst, þá yrði að gera samning millí kaupstaðarins annars vegar og ríkisins hins vegar, ef þessir tveir aðilar ættu að vera sameiginlegir aðilar að framkvæmdinni, t.d. að ríkissjóður sæi um bygginguna, en Vestmannaeyjakaupstaður aftur um reksturinn. Þessi mál munu því verða til meðferðar hjá ríkisstj. og þm. Sunnl. og fleiri Vestmanneyingum vafalaust síðar meir eða a.m.k. reynt að ná samkomulagi um málið. Þá mundi bæjarstjórnin verða að koma þar inn í, og þá mundi þetta síðar á þessu þingi verða flutt sem sérstakt þingmál. Ég vildi taka þetta fram, svo að það væri enginn misskilningur um það, að afstaða væri mörkuð í sambandi við þessa fjárveitingu, en málið er allt á því stigi, að það hefur ekki verið skoðað, en ríkisstj, er fús til viðræðna um það.

Í öðru lagi hefur svo einnig verið leitað til ríkisstj. um ríkisábyrgð vegna stækkunar á Bændahöllinni. Það sama er að segja um það mál og það fyrra, að það getur ekki orðið afgreitt með einfaldri ábyrgð hér á hv. Alþ., heldur verður það að vera sjálfskuldarábyrgð, og verður einnig athugað síðar, hvort við því verður orðið eða ekki. Um það liggur ekki fyrir nein ákvörðun á þessi stigi, en málið verður til framhaldsathugunar síðar meir, enda ýmsir þættir þess máls á því frumstigi í undirbúningi, að erfitt er um ákvörðunartöku, enda yrði það einnig að vera sérstakt þingmál vegna formsins á ríkisábyrgðum.

Þá vil ég segja, að ég tek undir það, sem kom fram hjá frsm. hv. meiri hl. fjvn. um meðferð á málum eins og hafnamálurum. Ef sú heimild yrði notuð að útvega 40 millj. kr. til hafnasjóðanna til þess að létta skuldum af þeim, sem þeir standa nú undir, þá mundi það mál verða unnið af samgrn. og fjmrn. í samstarfi við fjvn. Alþ. yrði að setja um það sérstakar reglur, ef til þeirra framkvæmda kæmi, sem þar er heimild fyrir. Eins og kom fram hér við 2. umr., er nú reynt að leggja kapp á að gera hafnirnar sem mest skuldlausar við lok þessa árs, og var mjög eftir því sótt, að þessi þáttur yrði einnig tekinn með í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, og hefur nú verið orðið við því.

Það hefur komið hér fram í umr., hver áhrif gengisbreytingin hefur á fjárlagaafgreiðsluna, og annað, sem að því lýtur, og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um bað. Ég skal svo enda þessi orð mín með því að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég þakka hv. fjvn. allri fyrir störf hennar við að koma þessu máli áfram hér á hv. Alþ.