21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

1. mál, fjárlög 1973

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Áður en ég sný mér að því að ræða almennt um fjármálin og fjárhag ríkisins, vil ég minnast hér á tvær brtt., sem hv. fjvn. flytur á þskj. 217.

Hin fyrri er 15. till. um framlag til íslenzkra rithöfunda og höfunda fræðirita, enda verði settar sérstakar reglur um úthlutun fjárins, 12 millj. kr. Þessi till. er flutt í framhaldi af þeirri þál., sem samþ. var hér á s.l. vori um að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing till. um, að fjárhæð, er nemi sem næst andvirði söluskatts af bókum, renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun eftir reglum, sem samdar verði í samráði við Rithöfundasamband Íslands og félög rithöfunda.

Nú er mér ekki kunnugt um það, og það kom ekki fram í framsöguræðu hv. frsm, n., hvernig þessi fjárhæð er fundin. En þegar mál þetta var hér til umr. á s.l. þingi, kom fram sú áætlun, að þessi fjárhæð mundi nema þá milli 18 og 20 millj. kr. Það væri fróðlegt að vita, á hverju þessi till. um 12 millj. er byggð. Í annan stað er gert ráð fyrir því, að settar verði sérstakar reglur um úthlutun fjárins. Ég vildi nú beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh., hvort þær reglur, sem Alþ. ákvað að láta semja í maímánuði 1972, hafi ekki enn verið samdar, og hvað líði því samráði við félögin og Rithöfundasambandið, sem þar er ákveðið. Ég vil taka það sérstaklega fram, að ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. menntmrh. ætli sér sjálfur úthlutunarrétt að fullu á þessum 12 millj. kr., heldur verði það gert eftir föstum reglum, sem samdar verði. Ég vil beina því til hæstv. ráðh. sem ákveðnum tilmælum, að þegar hann hefur tilbúnar þær till., sem honum var falið að undirbúa í samráði við félögin og Rithöfundasambandið, verði þær reglur lagðar fyrir Alþ„ annaðhvort sem till. til þál. eða a.m.k. fyrir þær n., sem málið snertir, bæði fjvn. og menntmn. beggja deilda.

Hin till. er á sama þskj. Það er till. 39, 18. liður, að festa kaup á Nesstofu ásamt hæfilegri lóð. Svo er mál með vexti, að um margra ára skeið hefur það verið áhugamál ýmissa manna, — og hefur þar verið fremstur í flokki Bjarni læknir Bjarnason, — að ríkið eignaðist Nesstofu, sem var setur hins fyrsta landlæknis, Bjarna Pálssonar, og gerði hana að minjasafni. Þetta er sögulega og byggingarsögulega séð einhver hin merkasta bygging, sem við eigum, og þarna yrði gert minjasafn um lækningar og lyfjafræði. Það var fyrir 8 árum, að sett var inn heimild í fjárl. fyrir 1965, til þess að kaupa Nesstofu. En því miður hefur ekkert orðið úr framkvæmdum enn. Ég vil skýra frá því, að ég hafði ákveðið að flytja till. til þál. sérstaklega um þetta efni, en áður en henni væri skilað, hafði ég spurnir af því, að fjvn. mundi taka þetta upp í sínar till., og taldi ég það þá æskilegri aðferð. En ég vil treysta því og beini því til hæstv. ríkisstj., að hún láti af framkvæmdum verða, festi kaup á Nesstofu og hefji undirbúning og framkvæmdir við að gera þar minjasafn, eins og um hefur verið rætt.

Þegar rætt er um fjárlagafrv, þykir mér rétt að nefna hér nokkur atriði, sem ég tel miklu máli skipta við umr. og afgreiðslu þessa frv. Það þarf auðvitað ekki að undirstrika eða ítreka það, að fjárveitingavaldið er hjá Alþ. og það er einn af hyrningarsteinum í starfsemi Alþ. En það hefur ekki alltaf verið þannig, því að í mörgum löndum er það löng baráttusaga, hvernig löggjafarþingið eða fulltrúasamkoma þjóðarinnar hefur heimt fjárveitingavald úr höndum ríkisstj. og þjóðhöfðingja. Ég skal ekki rekja þá sögu. En það hefur verið einn mikilvægur liður í baráttu fyrir frelsi og lýðræði þjóðanna. Í okkar stjórnarskrá er fastákveðið, að fjárveitingavaldið er bjá Alþ., og er m.a. svo ákveðið í 41. gr. stjórnarskrárinnar til að undirstrika þetta, að ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárl. eða fjáraukal. Það er auðvitað ætlazt til þess, að ríkisstj. fylgi, eftir því sem unnt er, því, sem ákveðið er í fjárl. Trúnaðarmenn Alþ. í fjvn. leggja jafnan í það mikla vinnu að undirbúa fjárl. og athuga og grandskoða hvern einstakan lið í fjárl. Nú hefur það komið fyrir að vísu, að eftir að fjárlög eru afgreidd, hefur þá atburði borið að höndum í efnahagsmálum, að nauðsyn hefur þótt að breyta þar til. T.d. var það svo vorið 1968 vegna þeirra einstæðu efnahagsörðugleika, sem þá voru hér á landi, að Alþ. samþykkti lög í marzmánuði, þ.e. lög nr. 5 frá 1968, um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, og þar er í 1. og 2, gr. ákveðið, að ríkisstj. sé heimilt að lækka fjárveitingar á nokkrum fjárlagaliðum árið 1968, og þeir eru sundurliðaðir nákvæmlega í 30 liðum og upphæðin nákvæmlega, sem á við hvern lið. Enn fremur er ríkisstj. heimilað að fella niður framlög í fjárl. í nokkrum liðum og það nákvæmlega tiltekið, um hvaða upphæðir er að ræða. M.ö.o.: eftir afgreiðslu fjárl. hefur það einstaka sinnum komið fyrir, eins og í þessu dæmi, að Alþ. hefur sjálft talið nauðsyn að breyta eða veita heimild til breytinga á fjárlögum.

En tíðindi gerðust í júlímánuði í sumar, sem vart mun eiga sér fordæmi í þessu efni. Nú vil ég skjóta því hér inn í, að í stjórnarskránni er veitt heimild til þess að gefa út brbl., þegar brýna nauðsyn ber til. En það segir einnig í þeirri gr., sem er 28. gr. stjórnarskrárinnar, að bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþ. hefur samþ. fjárlög fyrir fjárhagstímabilið. Þetta er auðvitað miðað við það, að ríkisstj. geti ekki fellt úr gildi fjárlög, sem Alþ. er búið að samþykkja, en í rauninni er eðlilegt að skilja það svo líka, að ekki sé ætlazt til þess, að ríkisstj. breyti fjárl. með brbl. Þetta gerðist samt sem áður hinn 11. júlí, þegar ríkisstj. með atbeina forseta gaf út brbl. um tímabundnar efnahagsráðstafanir. Í 5. gr. brbl segir:

„Þrátt fyrir ákvæði fjárlaga ársins 1972 er ríkisstj. heimilt að lækka fjárveitingar samkv. þeim allt að 400 millj. kr.“

Nú er það svo, að hér er ekki aðeins veitt heimild til þess með brbl. að breyta gildandi fjárl., heldur er ákveðin ein upphæð, 400 millj., án nokkurrar sundurliðunar. Þegar Alþ. sjálft samþykkti lög um breytingar á fjárl. 1968, var nákvæmlega tiltekinn hver einasti liður, sem breyta skyldi eða mætti. En hér veitir ríkisstj. sjálfri sér heimild til þess að breyta fjárl. til lækkunar um 400 millj. Hún hefur alveg frjálsar hendur, það þarf ekki að vera hlutfallsleg lækkun á ýmsum liðum. Það má taka einn eða fáa liði, fella þá niður með öllu og láta þetta ganga þannig yfir, sem geðþótti ráðh. eða ríkisstj. segir til um. Nú vil ég ekki halda því fram, að hæstv. ríkisstj. hafi framið stjórnarskrárhrot með þessum brbl. En ég verð að segja, að þessi aðferð er mjög óviðfelldin og aðfinnsluverð. Það er mjög aðfinnsluvert, að ríkisstj. skuli þannig taka sér slíka heimild með brbl., sérstaklega með hliðsjón af þessu sérstaka ákvæði um bráðabirgðafjárlög í 28. gr. stjórnarskrárinnar, — þá er það ákaflega óviðfelldið og aðfinnsluvert, að þetta skuli hafa verið gert og það með þeim bætti, sem raun her vitni.

Það heyrast oft þau orð, að fjárlög séu spegilmynd af stefnu stjórnarinnar og jafnvel af þjóðmálaviðhorfum yfirleitt, og er mikið til í þessu. Í fjárl. eru jafnan og m.a. nú veittar háar fúlgur og fjárhæðir til menningar-, félags-, mannúðar- og líknarmála. Ég ætla, að ágreiningur sé ekki ýkjamikill milli þingflokka og þm. um viðhorfin til þessara mála. Ég ætla, að allir þm. hafi allmikið og í rauninni meira af „frjálsum manngæðum“ heldur en sveitungar Bólu-Hjálmars að hans áliti, þegar hann orti hið fræga kvæði sitt. Ég held því, að fjárlög nú eða áður skapi ekki nein sérstök skil milli stjórnmálaflokka um viðhorf til skólamála, félags-, mannúðar- eða líknarmála. En fjárl. eru vissulega spegilmynd einnig af öðru. Þau eru spegilmynd af efnahagsástandinu, því, hvort er stöðugleiki í þjóðfélaginu eða óróleiki, og fjárl. eru einnig spegilmynd af skatta- og tollastefnu ríkisstj. og þingmeirihl. Þegar við lítum á það, að útgjöld samkv. fjárl. hafa nú á tveim árum hækkað úr röskum 11 milljörðum upp í röskan 21 milljarð, eins og fjárlagafrv. verður nú, er vissulega ástæða til að staldra við og hugleiða þessi mál í heild nokkru nánar. Og sú hugsun kemur að sjálfsögðu upp: Eru ekki einhver takmörk fyrir því, hversu há fjárl. megi vera eða hversu stóran skammt ríkissjóður megi taka til sinna útgjalda af þjóðartekjum eða þjóðarframleiðslu? Þessi mál hafa oft verið rædd, bæði meðal hagfræðinga og stjórnmálamanna, og ekki hafa menn treyst sér til þess að finna neina ákveðna hlutfallstölu um það, hversu mikinn skammt ríkið mætti til sín taka af þjóðarframleiðslunni. En þegar sá hlutur fer ört vaxandi þrátt fyrir stórfelldar auknar þjóðartekjur og þjóðarframleiðslu, þá er vissulega ástæða til að íhuga þetta mál nokkru nánar.

Í marzmánuði 1971 gaf fjárlaga- og hagsýslustofnunin út fjölritað upplýsingarit, sem var grg. um þróun ríkisfjármála 1958–1971. Og þar er m.a. gerður samanburður á ríkisútgjöldum annars vegar og þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu hins vegar á þessum árum. Það er rétt, eins og tekið er fram í því riti, að ríkisútgjöldin eru þar af fjárlaga- og hagsýslustofnuninni reiknuð með þeim hætti, að það er tekinn ríkisreikningur og svo fjárlög fyrir síðasta árið, og til þess að fá samanburðinn réttan, þá er bætt við niðurgreiðslum og uppbótum, en dregnir frá markaðir skattar svokallaðir nema vegasjóðsgjöld. Fyrir þessu er gerð grein í þessu riti, sem er gert til þess að fá réttan samanhurð. Ég hef athugað nokkuð þær tölur, sem þarna eru, og fengið svo upplýsingar um nánari útreikning á þeim árum, sem síðan eru liðin. Og það er næsta fróðlegt að athuga, hversu ríkisútgjöldin hafa hlutfallslega breytzt miðað við þjóðarframleiðslu á hinum síðustu árum. Það er stundum, að slíkur útreikningur er miðaður við þjóðarframleiðslu, stundum við þjóðartekjur og þá ýmist brúttó eða nettó, þ.e. ýmist vergar eða hreinar þjóðartekjur. Þó að nota megi hvaða samanburð sem er í rauninni, er að sumu leyti einna gleggstur samanburðurinn við þjóðarframleiðsluna og ætti að gefa nokkuð rétta mynd.

Ef við lítum á árin 1960–1966 að báðum meðtöldum, þá er útkoman sú, að ríkisútgjöldin hafa verið frá 16–19% af þjóðarframleiðslunni, þ.e.a.s. brúttó eða vergri þjóðarframleiðslu. Á erfiðleikaárunum 1967–1968 hækkaði þetta hlutfall nokkuð, fyrra árið upp í tæplega 21% og síðara árið upp í tæplega 22%. En á árunum 1969 og 1970 lækkar þetta hlutfall aftur niður í 19% fyrir hvort ár. M.ö.o.: þegar frá eru talin árin 1967 or 1968, hafa ríkisútgjöldin á árunum 1960–1970 að báðum meðtöldum verið þetta frá 16 upp í 19% af þjóðarframleiðslunni. Á árinu 1971 breytist þetta, einnig á árinu 1972 og eftir öllum horfum enn meir á árinu 1973. Nú er það athugandi, að þjóðarframleiðslan eykst hröðum skrefum á þessum árum, þannig að t.d. 1971 er þjóðarframleiðslan komin úr 33 milljörðum upp í rúma 42 milljarða, næsta árið upp í 521/2 milljarð, 1972 upp í 63 milljarða, og eftir síðasta útreikningi eða áætlun er gert ráð fyrir, að þjóðarframleiðslan fari upp í 74–75 milljarða á næsta ári, 1973. En þrátt fyrir þessa gífurlegu aukningu á þjóðarframleiðslunni, hefur hlutfallstalan samt sem áður hækkað stórlega, þannig að í stað 16–19%, sem algengast var, gerist það 1971, að ríkið tekur til sín 22.4% af þjóðarframleiðslunni það ár, og nú í ár, 1972, er gert ráð fyrir, að þessi tala verði um 25%. Á árinu 1973 er gert ráð fyrir, að hún hækki enn meir. Eftir því fjárlagafrv. og brtt. fjvn., sem liggja fyrir nú, og áætlun um þjóðarframleiðsluna er gert ráð fyrir, að ríkið taki nær 27% af þjóðarframleiðslunni. Nú vil ég taka það fram út af þessum tveimur síðustu árum, 1972 og 1973, að ríkissjóður hefur tekið frá sveitarfél. kostnað við löggæzlu og að verulegu leyti við tryggingar, þannig að til að fá réttan samanburð við fyrri ár mundu þessar hlutfallstölur lækka nokkuð, þannig að árið 1972 yrðu það tæp 24% samt sem áður í staðinn fyrir 25% og á næsta ári væntanlega um 25% í staðinn fyrir 27%. En þrátt fyrir slíka lagfæringu er þróunin augljós.

Ég er þeirrar skoðunar alveg hiklaust, að hér stefni í óefni og þjóðin megi ekki halda áfram á þessari braut. Ég tel, að sá hluti, sem ríkið tekur til sín til ríkisútgjalda árin 1971, 1972 og væntanlega 1973, sé kominn upp fyrir það hámark, sem eðlilegt er, og til þess liggja margar ástæður. Menn spyrja: Hvers vegna má ríkið ekki taka þetta stóran og vaxandi hluta eða skammt? Fyrsta ástæðan er sú, að þetta kemur auðvitað fyrst og fremst fram í allt of þungum álögum á landslýðinn, álögum bæði á atvinnuvegina, sem draga úr vexti þeirra og viðgangi og lama þá, og allt of háum álögum á einstaklingana og launþegana. Í annan stað er ljóst, að þessi háu ríkisútgjöld hafa mjög skaðleg áhrif á þjóðarbúið í þeirri verðbólgu, sem við eigum nú við að búa.

Varðandi skattamálin skal ég fara fljótt yfir sögu. Það gefast önnur tækifæri til að ræða þau mál. En það er alger nauðsyn að spyrna hér við fótum og lækka stórlega hina beinu skatta, sem ríkið tekur til sín. Sumpart verður það auðvitað að gerast með verulegri lækkun ríkisútgjaldanna og sumpart með því að taka þarfir ríkissjóðs meira með óbeinum sköttum en beinum. Um rökstuðninginn fyrir því þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum. Það er ljóst og er, held ég, reynsla flestra þjóða, að háir beinir skattar draga úr vinnulöngun manna. Þeir minnka þjóðartekjurnar, því að þegar skattborgari hefur náð hámarksskattstiga og önnur hver króna eða jafnvel 2 af hverjum 3, sem hann vinnur sér inn til viðbótar, fara í skatt, þá finnst mönnum sem þeim sé refsað fyrir framtak og sjálfsbjargarviðleitni. Og háir beinir skattar vinna gegn sparifjársöfnun, valda stóraukinni hættu á undandrætti og skattsvikum, auk þess sem beinir skattar eru dýrari í álagningu og innheimtu en óheinir skattar.

Má segja, að hinar þungu skattaálögur séu fyrsta ástæðan til þess, að nauðsynlegt sé að spyrna fótum og lækka ríkisútgjöldin frá því, sem nú hefur stefnt um hríð og stefnir enn. En það er margt fleira. Í íslenzku þjóðfélagi er verðbólga að verki og eru í rauninni auðsæ flest hin venjulegustu verðbólgueinkenni, eins og t.d. hinn mikli viðskiptahalli við útlönd. Þessi viðskiptahalli eða vöruskiptahalli var á árinu 1971 um 4000 millj. kr. Á árinu 1972 verður hann einnig yfir 4000 millj. kr. eða 4 milljarða. Og þó að gengisbreytingin dragi e.t.v. eitthvað úr, stefnir samt sem áður að verulegum viðskiptahalla á næsta ári. Og þessi mikli halli skýrist ekki nema að nokkru leyti af hinum mikla innflutningi skipa og flugvéla. Þó að það sé dregið frá, er samt sem áður ár eftir ár um verulegan viðskiptahalla að ræða.

Það er vissulega alvarlegt mál, að fjárlagafrv., sem við erum hér að fjalla um, byggist á stórfelldum viðskiptahalla áfram. Þrátt fyrir það að innflutningur hafi aukizt á milli áranna 1971 og 1972, væntanlega um 15–16%, er reiknað með stórfelldri hækkun einnig á næsta ári, og eftir upplýsingum hv. formanns og frsm. fjvn. hér áðan er tekjuáætlunin byggð á um 22% hækkun á innflutningsvöruverði á árinu 1973 frá árinu 1972. Hér kemur eitt verðbólgueinkennið, og einmitt í þessu efni ætti ríkisvaldið, m.a. með fjárl., að vinna gegn þessum áhrifum, en virðist þvert á móti vinna að því að viðhalda þeim og byggja fjármál ríkisins að verulegu leyti á áframhaldandi halla.

Nú er oft í stjórnmálaumræðum hina síðustu mánuði talað um hinn stóraukna kaupmátt launa og hversu launþegar hafi fengið stórfelldar kjarabætur. Það er rétt að nafninu til, að hér hefur orðið töluvert mikil kaupmáttaraukning. En er þessi kaupmáttaraukning raunveruleiki, er hún raunsæ, eða er hún sjálfsblekking? Sú spurning hlýtur að koma upp í hug manns, meðan þjóðarbúið er rekið með stórfelldum halla og hinn aukni kaupmáttur byggist á fengnum lánum, er fenginn að láni að töluverðu leyti, hvort þá sé ekki í rauninni um falska kaupgetu að ræða? Erum við ekki að blekkja okkur með því, að fólkið hafi mikinn kaupmátt nú og meiri en áður, þar sem þetta byggist að töluverðu leyti á erlendum lántökum, á því, að þjóðarbúið er rekið með halla og við lifum um efni fram?

Eitt einkenni verðbólgunnar er hinn mikli skortur á vinnuafli og þær yfirborganir, sem farnar em að tíðkast í ýmsum greinum. Þetta bendir m.a. til þess, að nú eins og alltaf, þegar skortur er á vinnuafli og góðæri í landi, þá á hið opinbera, þá á ríkisvaldið fremur að reyna að fresta framkvæmdum sínum til þess að etja ekki kapp við aðrar framkvæmdir og þar með spenna upp kaupgjald og byggingarkostnað fyrst og fremst og þar með verða valdandi að aukinni verðbólgu. Í góðæri á auðvitað ríkissjóður að hafa greiðsluafgang, og ég vil segja, í þeim góðærum, sem hafa verið bæði 1971, eru í ár og við vonum, að verði á næsta ári, er þjóðarnauðsyn, að ríkissjóður verði með greiðsluafgang og hann verulegan. En hver er útkoman? Á árinu 1970 var greiðsluafgangur talinn um 460 millj. kr., en á árinu 1971 snerist þetta við, og greiðsluhallinn varð um 340 millj. kr. Það er ómögulegt að fullyrða neitt um útkomuna í ár, og hæstv. fjmrh. vildi engu ákveðnu spá um það í fjárlagaræðu sinni. Það má vera, og við skulum vona, að tekjur og gjöld standist á á þessu ári, en jafnvel þótt svo til tækist, sem er með öllu óvíst, — hér er um það að ræða, að ríkissjóður hefði þurft að hafa verulegan greiðsluafgang á þessu ári. Hvernig lítur svo dæmið út á næsta ári? Frv., sem hér liggur fyrir og fjallar um útgjöld milli 21 og 22 milljarða, áætlar greiðsluafgang um 26 millj. kr., sem sagt það losar 1% af ríkisútgjöldum og tekjum, sem greiðsluafgangurinn á að verða. Hitt er annað mál, að eins og hv. frsm. 1. minni hl. fjvn, benti á, má vel vera, að í rauninni sé dulinn greiðsluhalli í þessu frv.

Þó að þetta yfirlit, sem ég hér hef gert, sé að sjálfsögðu ádeiluefni á hæstv. ríkisstj., sem nú situr, er þó fyrst og fremst vandamál Alþ. alls og allrar þjóðarinnar að gera sér grein fyrir þessari þróun og gera ráðstafanir til þess, eftir því sem unnt er, að snúa við. En þá spyrja menn: Hvaða leiðir eru til þess að lækka ríkisútgjöldin, og hvernig á að því að fara? Hingað til hefur lengstum verið svo að farið við samningu fjárl., að það er metið, hver kostnaður kunni að vera eða muni verða líklegur við hverja starfsgrein ríkisins á næsta ári, og það eru metnar umsóknir, beiðnir og málaleitanir um ýmis útgjöld, sem yfirleitt eru allt meira og minna nauðsynlegt og æskilegt. Síðan, þegar þetta er allt lagt saman, koma oft fjárhæðir, sem eru hærri en ábyrgir menn hefðu viljað óska. En þegar nú er spurt um það, hvernig eigi að vinna að þessum málum til þess að lækka ríkisútgjöldin, held ég, að æskilegt væri að reyna þar nýja leið, og hún er sú, að Alþ. og ríkisstj. ákveði, áður en fjárlög eru samin, hámark, þak á ríkisútgjöldin, fyrir fram ákveðið hámark. Við skulum taka sem dæmi, að í stað 21–22 milljarða nú væri ákveðið fyrir fram, að ríkisútgjöldin mættu ekki fara yfir 18 milljarða kr. á næsta ári. Ég tel að vísu, að þessi fjárhæð sé fullhá og þyrfti að lækka meira, en við skulum taka þessa tölu. Ég held, að það væri ákaflega æskilegt, ef Alþ. og ríkisstj. gætu tekið upp þá vinnureglu eða þau vinnubrögð að ákveða fyrir fram, hve mikið er talið fært að leggja á þjóðina í álögum, hversu stóran skammt er mögulegt að taka af þjóðarframleiðslunni í ríkisins þarfir, — ákveða þetta hámark, þetta þak, og síðan er það verkefni fjmrn. og fjvn. að fylla út í þennan ramma, en ekki fara út fyrir hann. Þessi aðferð, þessi vinnubrögð, þetta verklag hefur verið reynt sums staðar erlendis, og ég ætla, að það hafi gefizt vel.

Herra forseti. Ég vildi láta þessar aths. koma fram hér, áður en fjárlagafrv. er afgreitt frá Alþ., og þessi aðvörunarorð um þá þróun, sem nú er í okkar ríkisfjármálum. Ég held, að sé brýn nauðsyn fyrir Alþ. í heild að staldra við og þá hljóti menn að sjá, að á þessari braut er ekki unnt þjóðarinnar vegna að halda áfram.