21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

1. mál, fjárlög 1973

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Afgreiðsla fjárl. er alltaf eitt af aðalverkefnum hvers þings, svo er auðvitað nú að venju. En það stendur auk þess sérstaklega á við afgreiðslu þessara fjárl. Það er það ástand, sem skapazt hefur í landinu eftir þriggja missira stjórn núv. hæstv. ríkisstj. Ríkisstj. hefur stefnt þjóðarbúskapnum í þann vanda, að það hefur verið talin vá fyrir dyrum, ef ekki yrði að gert. Okkur er þetta allt svo kunnugt, að ég ætla ekki að fara að rekja það.

Vandinn er margháttaður og margslunginn, og það hefur verið sett hin svokallaða valkostanefnd til þess að athuga, hvaða úrræði væru möguleg, skoða vandann og gera till. Vandinn hefur verið í meginatriðum þríþættur. Hann hefur verið í sambandi við viðskiptajöfnuðinn við útlönd, rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna, einkum sjávarútvegsins, og viðvíkjandi ríkisfjármálunum. Valkostanefndin hefur bent á ýmsar leiðir til að ráða bót á þessum vanda. Ég skal ekki ræða þær hér, ég hef gert það ítarlega í ræðu í hv. Ed. við umr, um gengismálin. En það verður ekki hjá því komizt að víkja að þessu hér, vegna þess að eitt grundvallarvandamálið varðaði einmitt ríkisfjármálin.

Nú hefur ríkisstj. tekið sínar ákvarðanir, markað þá stefnu að fella gengi íslenzku krónunnar. Það var ein leiðin, sem valkostanefndin benti á, og meira að segja gerði hún ráð fyrir í þessari leið, uppfærsluleiðinni, að gengið yrði lækkað um 12%, en ríkisstj. hefur látið lækka krónuna um 10.7% og þar að auki ákveðið að 2.25% skuli geta verið breytileg, m.ö.o. að gengislækkunin, sem ákveðin hefur verið, er álíka eins og valkostanefndin gerði till. um, að því er varðar upphæð gengislækkunarinnar.

En valkostanefndin taldi, að það þyrfti að gera ýmsar hliðarráðstafanir, til þess að gengislækkunin næði tilætluðum árangri. Það átti við um alla þætti þessara vandamála, sem ég hef nefnt, það átti líka sérstaklega við ríkisfjármálin. Það var gert ráð fyrir í till. valkostanefndarinnar, að það þyrfti að hækka áfengi og tóbak. Það hefur verið gert, meira að segja ríflega á við það, sem valkostanefndin gerði ráð fyrir. En það var ýmislegt fleira, sem valkostanefndin benti á. Valkostanefndin var með þá hugmynd, að það þyrfti að hækka benzíngjald, dísilþungaskatt, gúmmígjald, án þess að tekjur af þessari skattahækkun væru markaðar vegasjóði, þ.e.a.s. þær gengju í ríkissjóð. Síðan þessi hugmynd kom fram hjá valkostanefndinni, hefur það skeð á hv. Alþ., að þessir skattar hafa verið hækkaðir og markaðir vegasjóði. Væri fróðlegt að vita, hvort ríkisstj. hyggst ganga lengra á þessari braut, svo fáránlegt sem það hlýtur að vera og næsta óþarft að orða þá hugsun. En það er svo margt furðulegt og fáránlegt, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, að það er ástæða jafnvel til þess að spyrja um þetta. Valkostanefndin reiknaði einnig með hækkun á söluskatti, sérstöku fjáraukagjaldi og að skattvísitalan yrði bundin við 119 st. Það var enn fremur reiknað með niðurskurði á rekstrarútgj. ríkisins og opinberum framkvæmdum. En ég ætla ekki að fara að ræða þessi atriði hér, aðeins víkja að og leggja áherzlu á eitt atriði, sem ég hef ekki talið hér upp, en valkostanefndin taldi ófrávíkjanlegt. Það var, að áhrif gengislækkunarinnar gengju ekki inn í kaupgreiðsluvísitöluna. Að áliti valkostanefndarinnar var það algert skilyrði fyrir því, að gengislækkun hefði sín áhrif almennt, og líka fyrir fjármál ríkisins, að þessa væri gætt. En nú hefur það skeð, að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið og talið það sinni gengislækkunarleið til ágætis, að áhrifin gangi inn í kaupgreiðsluvísitöluna, þ.e.a.s. að áhrifin verði afmáð. Ef á að leggja til grundvallar slíka ráðstöfun, sem þessi gengislækkun er, fyrir afgreiðslu fjárlaga, þá er það hið minnsta, sem hægt er að ætlast til, að hæstv. ríkisstj. gefi Alþ. upplýsingar um, það, hvort hún hefur borið ráðstafanir sínar, gengislækkunarráðstafanirnar, gengislækkunina, eins og hún er hugsuð og þeir ætla að framkvæma hana, undir valkostanefndina og fengið álit þessarar n. um þetta mikilvæga mál. Ég tel, að það sé algerlega ábyrgðarlaust að hafa ekki gert þetta, ef ríkisstj. hefur meint nokkuð með skipun þessarar n. eða gerir nokkuð með þær upplýsingar, sem fram koma í hinum ítarlegu skýrslum n. Spurning mín til hæstv. fjmrh. er þessi: Var leið gengislækkunarinnar, eins og ríkisstj. hugsar sér að framkvæma hana, borin undir valkostanefndina og leitað álits hennar? Ef svo hefur verið, þá er spurt: Hver var skoðun valkostanefndarinnar?

Ég læt þetta nægja í sambandi við almennar hugleiðingar og umr. um fjárlagafrv., en mun nú koma að nokkrum brtt., sem fram hafa komið við fjárlagafrv. Ég sagði nokkrum till., en ég mun verja mestum hluta míns máls til þess að ræða mál Ríkisútvarpsins. Ég held, að einhver stuðningsmaður hæstv. menntmrh. gerði vel í því að benda honum á að vera viðstaddur umr.

Ég vík þá fyrst að brtt. á þskj. 190. Þar er brtt. frá Bjarna Guðnasyni og Ragnari Arnalds um, hvaða listamenn skuli hljóta heiðurslaun listamanna samkv. ákvörðun Alþ. Í fjárl. þessa árs, 1972, er tekið fram skv. till. frá hæstv. menntmrh. við afgreiðslu síðustu fjárl., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Heiðurslaun má veita allt að 12 listamönnum, og skulu menntmn. beggja d. Alþ. gera í sameiningu till. um, hverjir í þann flokk bætist hverju sinni.“

Samkv. þessu komu menntmn. beggja d. saman tvívegis á fund. Það var samkomulag um það, hvaða aðferð skyldi viðhafa til þess að komast að niðurstöðu um till. n., og það var komizt að ákveðinni niðurstöðu, sem báðar n. stóðu einróma að. Ég átti því von á því, að samkv. því sem gert er ráð fyrir, kæmi brtt. frá samvinnunefnd menntmn. um þetta mál, og raunar hygg ég, að hæstv. forseti hafi búizt við því, því að ég tók ekki betur eftir en hann sagði, þegar hann minntist á þessa till. í forsetastóli fyrr í dag, að um till. væri að ræða frá samvinnunefnd menntmn. Ég vek athygli á þessu vegna þess, að þetta eru óeðlileg og óheppileg vinnubrögð, að þessir tveir hv. þm. Bjarni Guðnason og Ragnar Arnalds, skuli gera till. menntmn. að sínum till. Það kann að vera, að það gefi ranga mynd af því, sem raunverulega hefur gerzt og er rétt í þessu máli. Ég vil að þetta komi skýrt fram, og það breytir að sjálfsögðu engu í þessu efni, þó að hér eigi í hlut tveir fyrirferðarmiklir flokksforingjar.

Þá vil ég víkja að till., sem fram kemur í nál. á þskj. 201 frá samvn. samgm. Er þar að finna sundurgreiningu á því fjármagni, sem samvn. samgm. leggur til, að samþ. verði til stuðnings samgöngumálum dreifbýlisins. Einn liður varðar Stykkishólmsbátinn Baldur. Hv. frsm. n. vék að þessum lið og sagði, að það væru nokkrir erfiðleikar varðandi þessa útgerð, vegna þess að

báturinn hefði of líti verkefni, og það þyrfti að finna bátnum ný og aukin verkefni. Hann gaf einnig upplýsingar um það, að þessi bátur hefði fengið í rekstrarstyrk á þessu ári 5 millj. kr. og í byggingarstyrk 2 millj. Þetta kom fram í ræðu hv. frsm. En ég vil af þessu tilefni, og raunar hefði verið ástæða til þess, þó að þessi ummæli lægju ekki fyrir, að víkja nánar að þessu máli.

Það er þannig ástatt, að þegar ákveðin var sú fjárveiting, sem þessari útgerð var gerð á síðasta ári, voru bátnum veitt aukin verkefni og veittur aukinn styrkur til að sinna þessum auknu verkefnum. Þessi verkefni voru fólgin í því, að báturinn skyldi fara reglulegar áætlunarferðir í tvær byggðar eyjar á Breiðafirði á leið sinni frá Stykkishólmi að Brjánslæk. Þessar eyjar eru Hvallátur og Svefneyjar. Þetta var nauðsynleg samgönguhót, og var þessi ákvörðun tekin fyrir ári, vegna þess að hætt hafði verið að reka þann bát, sem hafði gengt þessu verkefni um nokkurra ára skeið, og það átti að bæta úr ástandinu með þessum hætti. En þetta hefur ekki skeð. Það alvarlega í þessu máli er, að það hefur verið veittur aukinn styrkur frá ríkinu til þess að sinna ákveðnum verkefnum, en það hefur ekki verið gert. Það hefur aðeins verið gert svo til málamynda, að það er réttmætt að segja, að það hafi ekki verið gert. Þetta getur ekki gengið svo lengur, og ef mönnum er einhver alvara um að aðstoða hinar dreifðu byggðir og gera fólkinu, sem þar býr, mögulegt að lifa þar, þá verður að vera meiri alvara en hefur fylgt í þessu máli.

Ég hef margoft rætt þetta við hæstv. félmrh. Ég vil ekki væna hæstv. félmrh. um, að hann hafi ekki áhuga á því að bæta úr þessu. En því miður verður að segja hverja sögu eins og er, hann hefur ekki gert þetta. Það hefur verið tekið allt of fínum tökum á þessu máli. Nú vil ég bera fram þá fsp. til hæstv. félmrh., hvort hann treysti sér ekki til þess að gefa yfirlýsingu um það nú hér fyrir hv. Alþ., að staðið verði við þau loforð, sem gefin hafa verið, og að þeim fjárveitingum, sem Alþ. ákveður, sé ráðstafað á réttan hátt. Ég treysti hæstv. félmrh. til að svara þessu, og ég á naumast von á öðru en hann svari þessu játandi. En ég vil bæta því við, að það er ekki hægt að una því lengur, að þessu sé ekki kippt í lag, þegar það er haft í huga, að sjálfur ríkissjóður á a.m.k. helminginn í útgerð þessa skips, svo að það eru hæg heimatökin.

Ég vík þá að því máli, sem ég sagði áðan, að mundi vera aðalmál mitt í bessum umr. Þar á ég við brtt., sem ég hef sjálfur borið fram á þskj. 238 og varðar fjárhag Ríkisútvarpsins. Brtt. mín er fólgin í því, að tekjur hljóðvarpsins verði hækkaðar um 25 millj. 120 þús. kr. og tekjur sjónvarpsins verði hækkaðar um 30 millj. 225 þús. kr. Samtals nemi þessi hækkun á tekjuliðum Ríkisútvarpsins 55 millj. 345 þús. kr. Þetta e r brtt. við 5. gr. fjárl. og varðar því ekki bein útgjöld úr ríkisjóði.

En hverjar eru ástæðurnar fyrir þessari till.? Fjárlagafrv. var lagt fram hér á hv. Alþ. þannig, að fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins sýndi rekstrarhalla, sem nemur þeim upphæðum, er ég nefndi áðan. Þetta er furðulegt og að ég ætla einsdæmi, að þannig sé búið að og gerðar till. um eina af þýðingarmestu menningarstofnunum þjóðarinnar, í fyrsta lagi, að frv. skuli vera lagt fram á þennan hátt, og í öðru lagi, að það hefur ekki bólað á neinum tilburðum af hálfu hæstv. ríkisstj. til að bæta hér úr. Ef fjárlagafrv. verður samþ. óhreytt, jafngildir það fyrirmælum frá Alþ. um, að Ríkisútvarpið verði rekið með 55 millj. kr. tapi á næsta ári. Og ég hygg, að það sé ekki ofmælt, þó að lögð sé áherzla á, að þetta er algert ábyrgðarleysi og raunar furðulegt, að þetta geti komið fyrir. Brtt. mín á þskj. 238 er borin fram til þess að bjarga hag Ríkisútvarpsins og forða Alþ. frá þeirri hneisu að afgreiða fjárhagsáætlun útvarpsins óbreytta fá því, sem hún stendur nú í fjárlagafrv.

Árið 1971 voru sett ný útvarpslög eftir vandlega og ítarlega endurskoðun á þessari löggjöf. Þar var tekið fram, að útvarpsstjóri skuli gera fjárhagsáætlun fyrir Ríkisútvarpið, bera undir útvarpsráð, senda menntmrh., en Alþ. gangi endanlega frá fjárhagsáætluninni. Það var nýmæli í þessum lögum, að það er beint tekið fram, að Alþ. skuli endanlega ganga frá fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins. Við undirbúning fjárhagsáætlunar Ríkisútvarpsins að þessu sinni var farið eins að og lög gera ráð fyrir. Útvarpsstjóri gekk frá fjárhagsáætlun í samráði við útvarpsráð, og áætlunin var send menntmrh. með bréfi 26. júní s.l. Eftir að menntmrh. hafði látið fara fram athugun á fjárhagsáætluninni, sendi hann hana rétta leið, þannig að hún komst með eðlilegum hætti í fjárlagafrv. Og ég bið menn að taka eftir, að menntmrh. gerði enga aths. við einstaka útgjaldaliði áætlunarinnar eða útgjöldin í heild hvað varðar hljóðvarpið og þá einu aths. hvað varðar sjónvarpið, að afskriftir af dreifikerfi sjónvarps voru lækkaðar um 36 millj. kr. En menntmrh. lækkaði tekjuhlið áætlunarinnar þannig, að nam samtals 91 millj. kr. eða að því er varðaði hljóðvarpið um 25 millj. kr., en sjónvarpið um 66 millj. kr. En vegna þess að fellt var niður af afskriftum á dreifikerfi sjónvarps, nemur rekstrarhallinn á fjárlagafrv. þó ekki meiru en 55 millj. kr.

Ég spyr: Hvers vegna þessi vinnubrögð hjá hæstv. ráðh.? Því er vandsvarað, skyldu menn halda. En það vill svo til, að ýmislegt hefur komið í ljós við umr. um þessi mál. Þar verður að leita skýringa á því, hvers vegna menntmrh. leyfir sér að leggja ekki til auknar tekjur til þess að mæta auknum útgjöldum, sem hann sjálfur hefur samþ. En afleiðingin af þessu er sú, að með þessum heimatilbúna vanda er Ríkisútvarpið gert að eins konar vandræðastofnun eða vandræðabarni í þjóðfélaginu.

Ég sagði áðan, að brtt. mín þýddi ekki aukin fjárútlát úr ríkissjóði. En hún þýðir hins vegar hækkun á afnotagjöldum hljóðvarps og sjónvarps. Afnotagjöldin eru nú á þessu ári fyrir hljóðvarp 1300 kr., fyrir sjónvarp 3100 kr. Þau voru á síðasta ári fyrir hljóðvarp 1180 kr., fyrir sjónvarp 2800 kr. Þessi hækkun, sem hefur orðið frá því 1971 á afnotagjöldum, nemur hvað varðar hljóðvarp 10.2%, sjónvarp 10.7%. Og það er að sjá sem menntmrh. telji, að þetta sé nægileg hækkun, ekki einungis fyrir þetta ár, heldur og fyrir næsta ár, 10% hækkun á tekjum Ríkísútvarpsins, á sama tíma sem hæstv. ríkisstj. telur, að hún þurfi allt að 100% hækkun á tekjum ríkissjóðs. Hvers konar samræmi er í þessum hlutum? Fyrr má rota en dauðrota. Ef það er ekki stefna ríkisstj. að leggja Ríkisútvarpið að velli, skerða stórkostlega starfsemi þess, þá er þetta tóm fjarstæða. Þetta sjá allir.

En hvers vegna er þetta? Alþm. eiga rétt á skýringum á því, hvers vegna ríkisstj. hagar sér eins og það sé nægilegt fyrir Ríkisútvarpið að fá 1 kr. til að mæta auknum útgjöldum á móti hverjum 100 kr., sem hún telur sig sjálfa þurfa í ríkissjóð til að mæta sambærilegum útgjöldum. Og það má bera þetta saman, hvort tveggja lýtur nákvæmlega sömu lögmálum. Það eru jafnt opinberir embættismenn, sem starfa fyrir Ríkisútvarpið eins og á öðrum sviðum ríkisins. Það þarf hliðstætt að hækka laun þar eins og á öðrum sviðum. Það hækkar jafnt það, sem þarf að kaupa til rekstrarins þar, eins og á öðrum sviðum.

En það vill svo til, að þó að það hafi ekki fengizt bein svör við því, hvað ríkisstj. meinar með þessu framferði, þá hefur það komið óbeint fram í sambandi við fsp., sem ég gerði til hæstv. menntmrh. fyrr á þessu þingi varðandi afskipti ríkisstj. af fjármálum Ríkisútvarpsins á þessu ári. Fyrirspurnin var gerð vegna þess að ríkisstj. hafði ekki farið að vilja Alþ., eins og Alþ. gekk við afgreiðslu síðustu fjárl. endanlega frá fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins, hafði ekki farið að þeim vilja og hækkað afnotagjöldin eins og þar var gert ráð fyrir. Það kom fram, að þetta hefði ekki verið gert, vegna þess að það var ekki verið að hugsa um fjárhag Ríkisútvarpsins, heldur áhrif hækkunar afnotagjaldanna á vísitöluna, kaupgreiðsluvísitöluna. Það liggja fyrir margbrotnir útreikningar á þessum hugleiðingum gerðir af Framkvæmdastofnuninni, þar sem menn leika sér að tölum, ekki til þess að gæta hags þessarar menningarstofnunar þjóðarinnar, heldur til þess að fórna hagsmunum hennar á altari vísitölunnar. Þetta er ekki fögur saga. Og svo þykjast menn ætla að skjóta sér undan í þessu sambandi, að þeir séu að hlífa útvarpshlustendum við nokkurri hækkun afnotagjalda, um leið og þeir eru að stunda þá iðju að snuða hinn almenna launþega í landinu um kauphækkanir, sem hann ætti að fá samkv. kaupgreiðsluvísitölunni. Slík iðja er ekki í þjónustu útvarpshlustenda.

En þetta getur ekki gengið, eins og ég gat um áðan, og till. mín er til að ráða bót á þessu. Ég vil undirstrika, að það er hlutverk Alþ, að ráða bót á þessu, og að óbreyttum lögum getur enginn annar aðili í þjóðfélaginu gert þetta. Menntmrh. hefur ekki heimild til þess að hækka afnotagjöldin umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun eins og Alþ. gengur endanlega frá henni, og það er ekki reiknað með hækkun, eins og frv. er lagt fram. Ég er ekki að leggja til, að það verði mætt öllum kröfum Ríkisútvarpsins sjálfs, heldur að það sé einungis gert mögulegt, sem hæstv. menntmrh. hefur sjálfur samþykkt, — það sé gert mögulegt að standa við þá útgjaldaliði, sem hann hefur samþ. með því að leggja fjárhagsáætlunina þannig fram, það sé gert mögulegt með því að auka tekjurnar.

En nú kemur meira til. Þetta er um það, sem liðið er. Nú hefur verið ákveðið og búið að ákveða gengislækkun, og sú ákvörðun hlýtur að hafa áhrif á rekstur Ríkisútvarpsins eins og á aðrar stofnanir og fyrirtæki í landinu. Fjármáladeild Ríkisútvarpsins hefur gert lauslega áætlun nú þegar um það, hvað gengislækkunin þýðir fyrir Ríkisútvarpið. Samkv. því er gert ráð fyrir, að hún þýði 15 millj. kr. aukningu á rekstrarútgjöldum hljóðvarpsins og 20 millj. kr. aukningu á rekstrarútgjöldum sjónvarpsins. Og þetta kemur til viðbótar þeim tekjuhalla, sem er á frv., 55 millj., og það kemur til viðbótar fyrirsjáanlegum tekjuhalla á þessu ári, sem er áætlaður 15–20 millj. Ef menn hafa þetta í huga, hygg ég, að allir ættu að sjá, hve mjög er í hóf stillt þeirri till., sem ég hef borið fram á þskj. 238, enda er þar ekki um að ræða annað en það, að mögulegt sé gert það, sem hæstv. menntmrh. virðist gera ráð fyrir.

Ég hef sagt, að hér væri um að ræða aðför að einni höfuðmenningarstofnun þjóðarinnar. Og það er ömurlegt, að það skuli vera gert. En ég vil ekki trúa því, fyrr en ég reyni, að það séu ekki nógu margir alþm., bæði í stjórnarliði og stjórnarandstöðu, til þess að grípa hér í taumana. Maður hefur heyrt það, að þm. margir hverjir hafi oft haft sig sérstaklega í frammi um það að ganga fram fyrir skjöldu, þegar sérstök menningarmál ættu í hlut. Ég hygg, að þetta eigi ekki síður við ýmsa þm. í stjórnarliðinu heldur en í stjórnarandstöðunni. Og það yrði — mér liggur við að segja háðung fyrir alla þá, sem telja sig skilja og virða menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, ef þeir bregðast ekki rétt við þeim vanda, sem hér er um að ræða. Það er ömurlegt, að það skuli vera svo komið fyrir Ríkisútvarpinu, að það skuli vera orðið sérstök vandræðastofnun vegna fjárhagsástæðna. Það er ekki ofsagt, þó að ég segi, að nú stefnir að þessu. Ég vil til áréttingar þessu leyfa mér að vísa til ályktunar, sem samþ. var fyrir nokkru í útvarpsráði af öllum meðlimum útvarpsráðs. Þessi ályktun var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Útvarpsráð skorar á Alþ. að afgreiða fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins í fjárl. fyrir 1973 þannig, að heimiluð verði sú hækkun á afnotagjöldum, sem nauðsynleg er til þess að mæta kostnaðarhlið áætlunarinnar, eins og hún var lögð fyrir Alþ. í fjárlagafrv.“

Þannig hljóðar ályktun útvarpsráðs. Hún fjallar um að skora á Alþ. að samþykkja það, sem lagt er til með brtt. minni. Og þessi áskorun hefur verið send Alþ. En ég vil til enn frekari áherzlu leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta að lesa kafla úr bréfi, sem útvarpið hefur ritað menntmrn, um þetta mál. Bréfið er dags. 5. des. Þar segir:

„Athygli hins háa rn. skal hér með vakin á eftirfarandi atriðum í frv. til fjárl. fyrir árið 1973, sem nú liggur fyrir Alþingi:

Í frv. eru áætluð gjöld hljóðvarpsdeildar Ríkisútvarpsins 25 millj. 120 þús. kr. hærri en áætlaðar tekjur og áætluð gjöld sjónvarsdeildar 30 millj. 225 þús. kr. hærri en áætlaðar tekjur, og hafa þó afskriftir af dreifikerfi sjónvarps verið lækkaðar um 36 millj. kr. frá því, sem fjárlagatill. Ríkisútvarpsins gerðu ráð fyrir samkv. viðtekinni reglu. Sá rekstrarhalli samkv. frv., sem hér er lýst, byggist á því, að gjöld eru uppfærð í samræmi við till. stofnunarinnar, að undanskildum afskriftum í sjónvarpsdeild, sem áður getur. En í tekjuhlið er gert ráð fyrir óbreyttri upphæð afnotagjalda. Samkv. 3. mgr. 13. gr. útvarpslaga, sem sett voru á s.l. ári, er það Alþ., sem endanlega staðfestir fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins í fjárl. Hið ótvíræða ákvæði útvarpsl. veldur því að sjálfsögðu, að verði fjárlagafrv. að fjárlögum óbreytt að því er Ríkisútvarpið varðar, jafngildir það fyrirmælum til framkvæmdavaldsins um, að annaðhvort skuli Ríkisútvarpið rekið með 55 millj. kr. halla á næsta ári eða grundvallarbreytingar verði gerðar á rekstri þess, sem fælust þá í stórfelldum samdrætti.

Ríkisútvarpið leyfir sér því að bera fram við hið háa rn. eindregin tilmæli um, að endurskoðuð verið hið allra bráðasta ákvæði fjárlagafrv. að því er stofnunina varðar. Því verður eigi trúað að óreyndu, að það sé með vitund og vilja rn., að frv. gerir ráð fyrir óbreyttum afnotagjöldum á næsta ári. Sýnist einsætt, að tímabært sé, að hið háa rn. taki afstöðu til till. stofnunarinnar þar um, eins og þeim var lýst í fjárlagatill. hennar. Fallist rn. á till. Ríkisútvarpsins í þessu efni, þarf að gera ráðstafanir til þess gagnvart Alþ., að gerðar verði viðeigandi breytingar á fjárlagafrv., áður en það kemur til endanlegrar afgreiðslu.“

Ég bið menn að veita því athygli, að enn fremur segir svo í bréfinu:

„Geti hið háa rn. hins vegar ekki fallizt á till. Ríkisútvarpsins um upphæðir afnotagjaldanna á næsta ári, verður að líta á það sem óbein fyrirmæli til Ríkisútvarpsins um að ákveða samdrátt í starfseminni, til þess að komizt verði hjá rekstrarhalla. Ef til þess verður ætlazt, er lífsspursmál fyrir stofnunina að fá vitneskju um það hið fyrsta, því að augljóst er, að óbreyttum gæðum og samsetningu dagskrár verður ekki haldið uppi nema í hæsta lagi eitthvað fram yfir áramótin, ef ekki á að koma til algers greiðsluþrots.“

Ég skal ekki fara hér með lengra mál úr bréfi Ríkisútvarpsins. Ég hygg, að það sé óþarfi að gera það og raunar óþarfi að fjölyrða meira um þetta mál. Það liggur svo skýrt fyrir, hvað hér er um að ræða. Og ég endurtek: það er ömurlegt, að svo skuli vera komið sem raun ber vitni, vegna þess að frá fyrstu tíð hefur það verið talið nauðsynlegt, að Ríkisútvarpið hefði sem mest fjárhagslegt sjálfstæði. Og það er í samræði við þær reglur, sem gilda hvarvetna, þar sem ég þekki til í nálægum löndum, sem sambærileg eru við aðstæður þær, sem við hér búum við. Og þetta er ekki tilviljun. Það er vegna þess, að það er grundvallaratriði að varðveita sem bezt sjálfstæði þessarar þýðingarmiklu fjölmiðla þjóðarinnar, til þess að þeir geti sem bezt staðið á verði fyrir því, að gætt sé fyllsta hlutleysis og óhlutdrægni gagnvart öllum stefnum, flokkum og málefnum í þjóðfélaginu. Það er mjög hættulegt og alvarlegt mál, að hæstv. ríkisstj. skuli vera búin að koma, ef hún lætur sér ekki segjast nú á elleftu stundu, Ríkisútvarpinu í þá aðstöðu, að hún þurfi kannske sjálf að vasast í fjármálum þess til þess að afstýra því, að það sé ekki mikið dregið úr dagskrá útvarpsins, eða til þess með fjármálaaðgerðum að leitast við að hafa áhrif á það, með hverjum hætti ætti að draga saman starfsemi Ríkisútvarpsins. Hér er vegið að því fjöreggi, sem þjóðin á í þessum fjölmiðlum, hljóðvarpi og sjónvarpi, ef þess er gætt, að þessar stofnanir gæti í starfsemi sinni þess að vera sem sjálfstæðastar gagnvart ríkisvaldinu og ríkisstj., hver svo hún er og á hvaða tíma sem er.