25.10.1972
Efri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

24. mál, tímabundnar efnahagsráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 11. júlí s.l. um tímabundnar efnahagsráðstafanir. Þó að í formála fyrir þessum brbl. sé glögg, en að vísu stutt grg. fyrir þeim og af hvaða tilefni þau eru út gefin, þá þykir mér ástæða til þess að fylgja þeim úr hlaði með nokkrum orðum.

Eftir þá kjarasamninga, sem áttu sér stað í des. s.l., og aðra þá kjarasamninga, sem fylgdu í kjölfar þeirra, mátti öllum vera ljóst, að af þeim leiddi tilkostnaðarhækkun, sem eitthvað mundi gæta í verðlagi. Enn fremur var þess að gæta, að verðstöðvunarlögin, sem svo voru kölluð, höfðu verið í gildi frá því í nóv. 1970, en þau féllu úr gildi að formi til um s.l. áramót, þó að verðhækkanir væru þá eftir sem áður háðar samþykki verðlagsnefndar. En vegna þess, hve verðlag hafði lengi verið lokað inni eða fryst, ef svo mætti segja, þá var það auðsætt, að það mundi verða mikill þrýstingur á verðhækkanir, eftir að verðstöðvunarlögin höfðu þannig að formi til verið numin úr gildi. Og sú varð líka raunin á. Það komu fram ákaflega margar hækkunarbeiðnir um verðlag á vörum, sem margar hverjar voru rökstuddar. Og í því efni voru opinberar stofnanir ekki neinir eftirbátar, að því er varðaði þeirra þjónustu, né heldur sveitarfélög varðandi ýmiss konar þjónustu, sem þau láta í té. En það er alveg fyllilega óhætt að segja, að það hafi verið staðið gegn þeim verðhækkunarbeiðnum, sem fram komu á þessu tímabili, eins og frekast var kostur. En hitt var auðvitað, að það var engin leið að komast hjá því að sinna sumum þeirra beiðna, sem fyrir lágu, að einhverju leyti. En ég held, að það sé ekki ofmælt, að í langsamlega flestum tilfellum hafi ekki verið leyft nema brot af þeim hækkunarbeiðnum, sem fyrir lágu og farið var fram á. Hér í hv. d. eru áreiðanlega menn, sem geta borið vitni um það.

Það þurfti því í sjálfu sér engum að koma á óvart, þó að verðlagsþróun gengi nokkuð í hækkunarátt á þessu ári. Það var vitað og út frá því gengið, að svo mundi verða. Og um það leyti, sem kjarasamningarnir voru gerðir, eða fyrir s.l. áramót, voru gerðar spár af hafrannsóknadeild Efnahagsstofnunarinnar um það, hvernig verðlagsþróunin mundi verða, og þó alveg sérstaklega um það, hverjum breytingum kaupgjaldsvísitalan mundi taka. Auðvitað voru þessar áætlanir og spár byggðar á ákveðnum forsendum, og að sjálfsögðu er öllum ljóst, að slíkar spár má ekki taka of bókstaflega, þær eru alltaf háðar mörgum óvissum og ófyrirsjáanlegum atriðum. En það má segja, að framan af árinu og raunar fram undir mitt þetta ár hafi þessar spár staðizt. Þannig var það t.d., að spáin um vísitöluna í des. 1971 var 108.37 stig, — það er varla hægt að segja, að það hafi verið spá, af því að það lá þá fyrir og reyndist auðvitað 108.37. Spáin sagði, að kaupgjaldsvísitalan mundi 1. marz 1972 verða komin upp í 112.26 stig. Reyndin varð hins vegar sú, að 1. marz 1972 var kaupgreiðsluvísitalan aðeins komin upp í 109.29 stig, hafði þannig hækkað verulega miklu minna en gert hafði verið ráð fyrir. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að ástæðan til þess, að þróunin þarna á fyrsta stigi gekk hægar en gert hafði verið ráð fyrir af þeim efnahagssérfræðingum, sem um þetta höfðu fjallað, var sú, að það var staðið mjög fast, eins og ég sagði áðan, gegn því að taka verðhækkunarbeiðnir til greina, og gætti í því efni mikillar tregðu og auðvitað að því er sumum, sem hlut áttu að máli, fannst allt of mikillar tregðu.

1. júní 1972 hafði verið spáð, að kaupgreiðsluvísitalan mundi verða 116.57 stig, en hún varð í reyndinni 117 stig eða stóðst í raun og veru nokkurn veginn spána. En þegar komið var fram á mitt ár, höfðu hins vegar horfurnar breytzt allmjög frá því, sem reiknað hafði verið með, því að útlitið var þannig í júní, eftir þetta mjög umtalsverða stökk að vísu, sem vísitalan hafði tekið frá síðasta tímabili, hafði hækkað um 8 stig, því var spáð í júní af verðlagssérfræðingum, að ef ekkert væri að gert, yrði kaupgreiðsluvísitalan í næsta stökki eða 1. sept. 1972 komin upp í það eða því sem næst það, sem spáin hafði gert ráð fyrir, að hún yrði komin upp í 1. sept. 1973. Það var sem sagt gert ráð fyrir því, að 1. sept. mundi vísitalan fara upp í 122 stig til 123 stig. Og sú spá, sem þá var gerð um áframhaldandi þróun, var allt, allt önnur og miklu alvarlegri heldur en sú spá, sem hafði verið gerð í des.

Þessar spár eru í sjálfu sér ekkert leyndarmál, og ég get vel leyft mönnum að heyra þær. En menn mega náttúrlega ekki fara að henda þeim á milli sín eins og einhverjum staðreyndum. Eins og ég undirstrikaði áðan, eru þetta allt spár og áætlanir. En spáin, sem gerð var í des., gerði sem sagt ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að 1. júní 1972 væri vísitalan í 116.57, en varð 117, hún gerði ráð fyrir því, að vísitalan 1. sept. yrði 118.92, hún gerði ráð fyrir því, að vísitalan 1. des. 1972 yrði 120.33, hún gerði ráð fyrir því, að vísitalan 1. marz 1973 yrði 120.85, 1. júní 1973 yrði hún 122.25 stig og 1. sept. 1973 yrði hún 122.75 stig, eða eins og ég tók fram áðan sem næst því sem í júní s.l. voru taldar horfur á, að hún mundi verða komin upp í 1. sept. þetta ár. Og það er ekki til að hrella menn, heldur bara til þess að fara með þessar tölur mönnum til fróðleiks, að spáin, sem gerð var svo aftur í júní, leit mjög út á aðra lund. Hún spáði því sem sagt, að ef ekkert yrði að gert, þá yrði þróun kaupgjaldsvísitölunnar þessi: 1. sept. 1972 yrði hún komin upp í 122.40 stig, 1. des. þetta ár yrði hún komin upp í 126.20 stig, 1. marz 1973 yrði hún komin upp í 128.10 stig, 1. júní 1973 yrði hún komin upp í 130.30 stig og 1. sept. næsta ár yrði hún komin upp í 132.70 stig.

Það má segja, að verðhækkanirnar hafi þannig í fyrstu á þessu ári gengið nokkru hægar en ætlað var, en svo aftur, þegar tók að líða á annan fjórðung ársins, nokkru örar, og þar komu til bæði skattbreytingar og einnig og alveg sérstaklega erlendar verðhækkanir umfram fyrri spár vegna gengisbreytinga, sem áttu sér stað í okkar viðskiptalöndum. Og eins og þær tölur sýna, sem ég hef lesið, þá horfði dæmið þannig við okkur í júní, að þá var spáð miklu frekari hækkun á síðari hluta ársins og í byrjun næsta árs heldur en gert hafði verið ráð fyrir.

Við þessar aðstæður var ekki um annað að ræða en grípa í taumana og stöðva þessa þróun og gera ráðstafanir, sem til þess dyggðu a.m.k. ákveðið tímabil, og gæti þá gefizt ráðrúm til að skoða þessi mál betur.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að það voru sett þessi brbl. 11. júlí s.l., sem hér eru lögð fram til staðfestingar. Þau voru sem sagt sett fram til þess að freista þess að stöðva þá þróun víxlhækkana verðlags og kaupgjalds, sem þá virtist blasa við, ef ekkert væri að gert. En eins og ég hef áður rakið, þá hækkaði kaupgreiðsluvísitalan og þar með verðlagsuppbót á laun um nær 8 stig hinn 5. júní s.l. frá því 1. marz. Og samkv. líka þessu yfirliti, sem ég lauslega fór yfir áðan, þá var það svo samkv. áætlunum Hagstofu Íslands, að búast mátti við því, að kaupgreiðsluvísitalan mundi að öllu óbreyttu hækka um 5.5–6 stig hinn 1. sept. n.k. Þær kostnaðarbreytingar, sem þessu fylgdu, hefðu orðið útflutningsatvinnuvegunum þungar í skauti, enda bentu áætlanir þá til þess, að afkoma sjávarútvegsins stæði í járnum þegar við þáverandi kostnaðarlag eða kaupgjaldsvísitölu 117 stig, án þess þó að tillit væri tekið til þeirrar aflaminnkunar frá fyrra ári, sem þá virtist líklegust. Því má svo skjóta inn hér — innan sviga, að eins og allir vita nú, þá varð þróunin í því efni mun verri en menn höfðu gert sér grein fyrir eða búizt við í júli s.l., og skal ég ekki rekja það út af fyrir sig frekar í þessu sambandi, hvernig aflinn hefur minnkað og þó sérstaklega hvernig samsetning aflans hefur orðið óhagstæð fyrir sjávarútveginn og fiskiðnaðinn sérstaklega. Það var gefið mál, að ef ekkert hefði verið að gert, þá mundu slíkar breytingar launa kalla fram frekari verðhækkunarkröfur hjá þeim atvinnugreinum, sem framleiða eða eiga sér einhvern markað innanlands, og þar með héldi áfram sá varhugaverði víxlgangur verðbólgunnar, sem fyrr eða síðar hlyti að grafa undan afkomu atvinnuveganna með vaxandi halla í viðskiptum þjóðarinnar út á við og tefla atvinnuöryggi og þar með frambúðarhagsmunum alveg í tvísýnu.

Ríkisstj. tók því á þessu stigi upp viðræður við aðila vinnumarkaðarins um leiðir til lausnar á þessum reyndar gamalkunna og margslungna vanda, enda er ljóst, að án samráðs og samvinnu við þá var og er vart hægt að búast við árangri á þessu sviði. Er vöxtur tekna og eftirspurnar hafði einkennt þróun efnahagsmála að undanförnu og má reyndar segja undanfarin missiri, og á síðustu mánuðum fyrir setningu brbl. gætti mikils þrýstings á allt verlag og framleiðslukostnað. Hér sem sagt fléttaðist margt saman: Ört vaxandi eftirspurn heima fyrir í kjölfar mikilla grunnkaupshækkana í árslok 1971, gengishækkanir í helztu viðskiptalöndum okkar í Evrópu, skattbreytingar o.fl. Öll þessi atriði hnigu til verðhækkunar, sem svo mundi magnast við núgildandi kerfi vísitölubindingar kaupgjalds. Hér er um flókið samhengi að ræða og reyndar mikil þörf á því að kanna allar aðstæður svo rækilega sem kostur er, ef leita hefði átt varanlegri úrræða en til þessa hafa fundizt. Af þeim sökum og til þess að fá svigrúm til þess, þótti ríkisstj. eftir atvikum rétt að gera þær ráðstafanir, sem gerðar voru, tímabundnar. Hugmyndirnar um þær bráðabirgðaráðstafanir, sem endanlega fengu form í brbl., höfðu verið kynntar samtökum launþega, bænda og vinnuveitenda. Þannig voru þær upphaflega kynntar fulltrúum Alþýðusambands Íslands á fundi þeirra með ríkisstj. 4. júlí. Eftir þann fund afhenti forsrh. forseta Alþýðusambands Íslands orðsendingu frá ríkisstj., þar sem rakin voru helztu atriði þeirra hugmynda, sem uppi voru og ríkisstj. hafði um bráðabirgðaráðstafanir. Þessar till. voru svo kynntar á sérstakri ráðstefnu, sem Alþýðusamband Íslands boðaði til. Og enn fremur voru þau kynnt Vinnuveitendasambandinu og Stéttasambandi bænda, áður en lögin voru sett eða gefin út.

Aðalefni þessara brbl. er tiltölulega ljóst, og má segja það fram í fáum orðum. Það er í fyrsta lagi verðstöðvun til áramóta. Það er algerari verðstöðvun en áður hefur þekkzt, vegna þess að leyfisveitingar til verðhækkana eru bundnar öðrum og frekari skilyrðum en áður var. Til verðhækkana nægði áður samþykkt meiri hl. verðlagsnefndar, en eftir þessum brbl. var það sett að skilyrði fyrir því, að nokkur verðhækkun væri leyfð, að allir verðlagsnefndarmenn greiddu atkv. með verðhækkun. Ég tel þess vegna, að í þessum brbl. felist sú algerasta verðstöðvun, sem hægt sé að framkvæma. Í öðru lagi var það binding vísitölu við 117 stig með niðurgreiðslum. Í þriðja lagi er efni laganna það, að fjár til þess að standa undir þessum niðurgreiðslum var ekki aflað með nýjum álögum, heldur dregið úr áður samþykktum útgjöldum ríkissjóðs sem nam fjárhæð, sem fullvíst þótti, að nægja mundi til þess að standa undir þessum niðurgreiðslum. Í fjórða lagi er það efni þessara brbl. eða ráðstafana, sem í þeim felast, að útreikningi á nýjum verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara var frestað til áramóta. Í fimmta lagi var það og er efni laganna, að launþegar falla að formi til frá 21/2 kaupgjaldsvísitölustigi gegn því að fá jafnvirði þeirra með því að njóta niðurgreiðslna og fjölskyldubóta strax eða svo að segja strax frá þeim tíma, sem lögin voru sett, og með því að hækkun á launalið bónda, sem samkv. gildandi vísitölufyrirkomulagi á ekki að koma fram í útreikningi á kaupgjaldsvísitölu, yrði ekki látin koma fram í verðlagi, heldur yrði henni mætt með niðurgreiðslum.

Þetta er aðalefni þessara brbl., og það má segja, að markmið ráðstafananna hafi verið og sé í þrengri skilningi að halda kaupgreiðsluvísitölunni í um 117 stigum til næstu áramóta. Til þess að ná því marki og tryggja jafnframt hag launþega voru til viðbótar sett þessi ákvæði, sem ég aðeins nefndi stuttlega. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til þess að rekja það miklu ýtarlegar eða fara yfir efni laganna umfram það, sem ég hef sagt.

Í 1. gr. l. felst ákvæði, sem ég nefndi fyrst, að það er ákveðið þar, að það verði ekki leyfðar í tímabilinu til n.k. áramóta neinar verðhækkanir á vöru eða þjónustu, sem háð er verðlagsákvæðum, nema þær séu samþykktar af öllum verðlagsnefndarmönnum. Það var gengið út frá því, að í þessu fælist það, að á þessu tímabili fengjust ekki yfirleitt viðurkenndar verðhækkanir af tilefni þeirra launahækkana, sem urðu 1. júní s.l., umfram það, sem kynni þá, þegar brbl. voru sett, að hafa verið samþ.

Annað atriðið, sem ég nefndi, er í 3. gr. Þar er sem sagt ákveðið, að ríkisstj. skuli auka niðurgreiðslu vöruverðs sem svarar 11/2 stigi kaupgreiðsluvísitölu frá og með gildistöku þessara laga, þ.e.a.s. frá 11. júlí 1972.

Í 2. gr. er ákveðið, að ríkissjóður leggi fram fé til hækkunar fjölskyldubóta úr 8000 kr. á hvert barn á ári upp í 10900 á hvert barn á ári. Þessi breyting var ákveðið að skyldi taka gildi frá 1. júlí. Þessi hækkun fjölskyldubóta var talið að mundi valda lækkun kaupgreiðsluvísitölu um 1.5 stig.

Í 4. gr. felst það, að ríkisstj. komi í veg fyrir, að útsöluverð landhúnaðarafurða hækki við endurskoðun verðlagsgrundvallar landbúnaðarafurða 1. sept. s.l., en samkvæmt áætlunum Hagstofu Íslands mátti búast við, að verðlagsgrundvöllurinn mundi að óbreyttum reglum hækka eingöngu vegna áorðinna verðbreytinga sem svaraði 1.2 kaupgjaldsvísitölustigi þann dag. Langstærstur hluti þess, eða um það bil eitt kaupgjaldsvísitölustig, var hækkun á kaupgjaldslið bóndans, og hefði sú hækkun samkvæmt gildandi reglum ekki komið fram í kaupgjaldsvísitölu.

Í 5. gr. er svo ákveðið, að til þess að standa straum af útgjöldum vegna þessara liða, sem ég hef nú rakið, afli ríkisstj. sér heimilda til þess að lækka útgjöld ríkisins, eins og þar segir, um allt að 400 millj. kr., og að sú heimild taki einnig til fjárveitingaliða, sem jafnframt séu bundnir í öðrum lögum en fjárlögum.

Það er rétt að taka það fram, að sú vísitöluskerðing að formi til, ef við megum kalla það svo, sem felst í þessu af hálfu launþega, kom því aðeins til, að reiknuð kaupgreiðsluvísitala 1. sept. og 1. des. færi ekki fram úr 119.5 stigum, en ef hún færi fram úr því, hækkaði verðlagsuppbót á laun um þann stigafjölda, sem kaupgjaldsvísitalan yrði hærri en 119.5 kaupgjaldsstig. En vegna þeirra ráðstafana, sem ég minntist á áðan, er það svo, að launþegar hafa með auðveldu móti getað fallizt á það, að verðlagsuppbætur væru reiknaðar með þessum hætti, af því að skerðing vísitölunnar er samkv. þessu aðeins að formi til, en ekki raunveruleg, því að í ráðstöfunum brbl. felast einmitt hagsbætur, eins og ég hef áður sagt, sem á þessu tímabili ætti að mega meta til jafns við þá skerðingu, sem þarna er um að tefla.

Það má auðvitað segja, að fyrsti og helzti ávinningur launþega af þessum ráðstöfunum hafi að sjálfsögðu verið sá, ef það mætti takast að nýta það svigrúm, sem þar er skapað, til þess að finna varanlegri lausnir á efnahagsvandamálum okkar og tryggja þar með atvinnu og rauntekjur launþega til frambúðar. En það er framtíðarmálið. En til skamms tíma og ef maður gerir dæmið upp fram til áramóta alveg reikningslega eða fyrir það tímabil, sem brbl. er ætlað að gilda, þá hljóta hagsmunir launþega einnig að teljast vel tryggðir, þótt þeir falli þannig að formi til frá 2.5 kaupgjaldvísitölustigum, vegna þess að launþegar njóta samkvæmt þessum brbl. niðurfærsluráðstafana, sem svara 3 kaupgjaldsstigum í 71/2 viku á þeim tíma, sem þeir hefðu einskis notið samkvæmt þágildandi reglum. Þetta atriði má meta að dómi sérfræðinga, sem 1.3–1.5 kaupgjaldsvísitölustig á fjögurra mánaða tímabili, frá 1. sept. til áramóta. Með því að koma í veg fyrir hækkun landbúnaðarafurða frá 1. sept. og til áramóta er það líka að dómi sérfróðra manna ígildi rúmlega eins kaupgjaldsvísitölustigs fyrir launþega, sem þeir hefðu ekki fengið bætt skv. þágildandi reglum um greiðslu verðlagsuppbóta á laun. Af þessu tel ég augljóst, að þessar ráðstafanir séu sízt af öllu launþegum í óhag, jafnvel þótt bara sé út af fyrir sig lítið á þetta kaupreikningslega og þetta dæmi gert upp með þeim hætti, sem ég hef hér gert.

Eins og ég hef sagt áður, voru hugmyndirnar að þessum brbl. lagðar fyrir ráðstefnu Alþýðusambands Íslands, sem mun hafa verið haldin 9. júní s.l., og ráðstefna sú gerði ýtarlega ályktun um þetta mál. Þá ályktun ætla ég ekki að fara að lesa hér upp. Hún lýsir þar að sjálfsögðu áhyggjum sínum m.a. af þessari verðlagsþróun, eins og eðlilegt er. En ég ætla aðeins að lesa hér upp niðurlag þessarar ályktunar, sem ráðstefna Alþýðusambandsins gerði. Það er 6. liður þessarar ályktunar. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framansögðu ályktar ráðstefnan, að þeir aðilar, sem að henni standa, láti umræddar aðgerðir óátaldar af sinni hálfu, en leggja hins vegar áherzlu á, að í þeirri aðstöðu felst ekkert afsal neinna þeirra réttinda eða kjarabóta, sem í gildandi kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins felast.“

Ályktun þessi, þar sem því er lýst yfir sem sagt, að þessar ráðstafanir verði látnar óátaldar af hálfu Alþýðusambands Íslands, var samþykkt með öllum atkv. á ráðstefnunni.

Fulltrúum vinnuveitenda voru kynntar þessar hugmyndir á sérstökum fundi mánudaginn 10. júlí, og lýstu þeir ekki andstöðu við þær. Aðalfundur Stéttarsambands bænda fjallaði um uppkast að brbl. á fundi sínum sama dag og samþykkti shlj. að láta þau óátalin. Þannig verður að telja, að það hafi víðtæk samstaða náðst um þessar aðgerðir og að brbl. hafi þannig verið sett í fyllsta samráði við helztu aðila vinnumarkaðarins.

Ég leyfi mér þess vegna að vænta þess, að það þurfi ekki að verða miklar deilur um þessi brbl. út af fyrir sig. Ég leyfi mér að vænta þess, að stjórnarandstæðingar engu síður en stjórnarsinnar fallist á og viðurkenni að ráðstafanir þær, sem í þessum brbl. felast, hafi verið réttmætar og nauðsynlegar, eins og á stóð. Það hefði með öllu verið óverjandi að láta reka á reiðanum og láta fyrirsjáanlega verðlagsþróun halda áfram óhefta, og ég verð að segja það, að ég tel þannig frá þessum brbl. gengið, að það sé ekki hægt að segja með neinum rökum, að það sé sérstaklega hallað á nokkurn sérstaklega í þeim. Ég vil sem sagt vona, að þrátt fyrir það að ég geri mér ljóst, að hv. stjórnarandstæðingar hafi eitthvað að segir um efnahagsástandið, þá fallist þeir á, að það hafi ekki verið um annað að ræða, eins og á stóð, en að gera þessar ráðstafanir og gera þær einmitt strax á þeim ríma, sem þær voru gerðar. Ef þeir fallast ekki á það, verð ég að segja, að þeir verða að svara ýmsum spurningum, þá yrðu þeir að svara því, hvort þeir hefðu ekkert viljað láta gera. Ég á ekki von á því, að þeir geri það, m.a. þvert ofan í samþykktir þeirra hagsmunahópa, sem málin voru undir borin og hér höfðu mestra hagsmuna að gæta, og þá mundu þeir líka verða að svara því, hvort þeir hefðu ekki viljað taka upp verðstöðvun, eins og á stóð, eða hvort þeir hefðu viljað hafa þá verðstöðvun, sem upp var tekin, með öðrum hætti en ákveðið var í þessum lögum. Þá yrðu þeir líka að svara því, hvort þeir hefðu ekki viljað binda vísitöluna, eins og gert er í þessum lögum, eða hvort þeir hefðu viljað hafa vísitölubindinguna með einhverjum öðrum hætti og vildu ekki jafna vísitöluskerðinguna með þeim hætti, sem gert er með þessum brbl. Ég skal ekki fara nánar út í að ræða það og skal ekki heldur vera að gera því skóna að óreyndu, að hv. stjórnarandstæðingar lýsi andstöðu við þessar ráðstafanir.

En það verð ég að segja, að með tilliti til þess, hvernig brugðizt var við þessum vanda, sem fyrir lá í sumar, þegar þessar ráðstafanir voru gerðar, þá tek ég nú ekki glamuryrði um stjórnleysi í efnahagsmálum allt of alvarlega og lít frekar á þau sem marklaust hjal, sem borið sé fram af einhverri ímyndaðri skyldutilfinningu hjá stjórnarandstöðunni. Með brbl. tók einmitt ríkisstj. í taumana og var tekin stjórn á efnahagsmálum og þar með skapað svigrúm til þess að skoða þessi mál betur. En hitt er svo auðvitað öllum ljóst, að í þessum brbl. felst engin framtíðarlausn, þar er aðeins um bráðabirgðalausn að ræða, lausn til áramóta. En einmitt með þessum brbl. skapaðist, eins og ég sagði, svigrúm til að kanna málin nánar og leita varanlegri úrræða, og það er öllum ljóst, að um áramót eða fyrir áramót verður að gera ráðstafanir, sem koma í stað þeirra ráðstafana, sem eru í þessum brbl.

Ég á ekki von á því, að það gerist neinn hv. alþm. til þess að halda því fram, að við eigum að sleppa allri verðlagsþróun eða verðbólgu ef menn vilja kalla það svo, lausri um n.k. áramót. En auðvitað hafa efnahagsmálin í víðtækri merkingu margar hliðar, og brbl. eru að segja má mestu einskorðuð við ákveðnar hliðar efnahagsmálanna, og ég mun a.m.k. að svo stöddu einskorða mig við þá hlið, en ekki fara að ræða hér efnahagsmál almennt. En hitt er öllum hv. alþm. kunnugt, að einmitt eftir að þessi brbl. voru sett, var sett n. sérfræðinga og kunnáttumanna um efnahagsmál, sérstök n., sem falið var það verkefni að kanna efnahagsvandann og benda á leiðir og valkosti, sem gætu leitt til lausnar á þessum vanda, og í þessari valkostanefnd, eins og hún hefur verið kölluð, eiga margir ágætir og þekktir menn sæti, sérlega kunnugir efnahagsmálum. Þessi n. hefur unnið og hún mun væntanlega skila áliti sínu upp úr næstu mánaðamótum, eða ég geri mér vonir um það, að álit hennar og till. geti legið fyrir byrjun næsta mánaðar. Hennar hlutverk er aðeins að benda á leiðir og þá valkosti, sem hugsanlegir séu, en hitt verður svo hlutverk hins pólitíska valds að taka ákvörðun um, hver af þeim leiðum, sem þeir benda á, verður valin.

Það er að sjálfsögðu svo, að það mætti hafa um þetta mál fleiri orð, en eins og ég sagði áðan, þá ætla ég ekki að ræða efnahagsmál almennt. En að sjálfsögðu spyrja margir: Hvað á að taka við um áramót? Ég skal ekki fara langt út í það, en ég skal þó segja um það mína persónulega skoðun, aðeins að því er varðar þau atriði, sem í þessu frv. er að finna, í þessum brbl. er um að ræða.

Ég álít, að það verði að halda verðstöðvun áfram. Ég álít, að það verði að halda verðstöðvun áfram í því formi, sem hún er í þessum brbl., að það eigi ekki að slaka á því. Mér er ljóst, að það er ekkert til, sem heitir alger verðstöðvun. Það er ómögulegt og óframkvæmanlegt að skrúfa með öllu fyrir það, að verðlag hækki, vegna þess að þar koma til svo mörg atriði, sem við getum ekki ráðið við og heilbrigð skynsemi segir að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til, en ég álít, að verðstöðvunin sé eins alger og unnt er að framkvæma hana í reynd, ef það er áskilið, að til verðhækkana þurfi samþykki allra þeirra fulltrúa, sem tilnefndir eru af mismunandi hagsmunaaðilum í verðlagsnefnd. Ef þeir leyfa hækkun, verð ég fyrir mitt leyti að álíta, að sú hækkun sé rökstudd fullum gögnum, ef þeir verða allir sammála um það. Ég fyrir mitt leyti álít líka, að það þyrfti að gera þá breytingu á í sambandi við þessi verðlagsmál. að það þyrfti að taka upp það skipulag að leyfa verðlagshækkanir aðeins tvisvar sinnum á ári, tímabilsbinda það, að þær verði leyfðar og teknar til meðferðar aðeins á 6 mánaða fresti. Það mundi að mínum dómi skapa meiri festu í þessum efnum. Ég vil enn fremur segja, að það er mín persónulega skoðun, að það fyrirkomulag, sem nú gildir um vísitöluútreikning, sé gallað og það þurfi að taka til endurskoðunar. Það er út af fyrir sig, að sá grundvöllur, sem vísitalan er byggð á, er orðinn æðigamall eða frá 1965, og það segir sig held ég nokkurn veginn sjálft, að neyzluvenjur manna hljóta að hafa breytzt á tímabili sem þessu og því sé ekki óeðlilegt, að það sé athugað, hvort samsetning neyzlunnar, eins og hún er tekin hjá þeirri vísitölufjölskyldu, sem við er miðað, eigi að vera sú sama í dag, og hún var metin 1965, hvert svo sem það út af fyrir sig leiðir. Ég held enn fremur, að við þurfum mjög að hyggja að því að gera breytingar á vísitölufyrirkomulaginu að því leyti, að við þurfum að taka nágranna okkar okkur til fyrirmyndar í því efni, og það séu vissir þættir, sem þeir hafa talið rétt að sleppa úr vísitöluútreikningi, sem við ættum líka að taka til athugunar, hvort ekki sé rétt og heppilegt að leggja til hliðar.

Þetta eru mínar persónulegu skoðanir á þessu. Og áreiðanlega má segja, að það vísitölufyrirkomulag, sem nú gildir, sé engin heilög smíð, því að hér hafa gilt mismunandi reglur um vísitölu, eins og ég þarf ekki að minna hv. alþm. á. Stundum hefur vísitalan verið heimiluð, stundum hefur vísitalan verið bönnuð með lögum. Stundum hefur hún verið lögboðin beinlínis í lögum. En eins og nú er á vísitalan og útreikningur hennar algerlega að vera háð samningum stéttarfélaganna. Þess vegna er það, að það liggur í augum uppi, að það er erfitt að gera nokkrar breytingar á því vísitölufyrirkomulagi, sem nú er, nema í fullu samráði við launþegasamtökin, stéttasamtökin.

En hvað sem er um þessi atriði, sem ég hef minnzt á varðandi vísitöluna, þá held ég, að eins og ég tel nauðsynlegt að halda áfram verðstöðvun á næsta ári, þá sé það óhjákvæmilegt af öðrum ástæðum, sem ég fer ekki inn á í þessu sambandi, af því að það snertir víðtækari efnahagsmál, að binda vísitöluna við 117 stig eða því sem næst, eða í öllu falli þannig, að vísitalan færi á næsta ári ekki fram úr þeim áætlunum, sem um hana voru gerðar í des. 1971, og helzt af öllu held ég, að sé nauðsynlegt að rígbinda sig við 117 stig. Það verður að afla fjár til þess að standa undir þeim niðurgreiðslum, sem þarf til þess, og til þess að halda áfram þeim niðurgreiðslum, sem hafa verið. Miðað við það, sem þarf á þessu tímabili fram að áramótum til þess að halda vísitölunni niðri, mætti sjálfsagt gera ráð fyrir því, að á ársgrundvelli þyrfti 800–1000 millj., og það er mikið fé. Það fé þarf að flytja til í þjóðfélaginu með einhverjum hætti. Ég álít, að það sé út af fyrir sig mjög vel forsvaranlegt að flytja þá fjármuni til í þjóðfélaginu, eins og fjárráð manna eru og atvinna hefur verið og efnahagsástandið yfirleitt. Ég álít hins vegar, að þannig sé komið, að beinir skattar verði ekki hækkaðir og þessa fjár verði ekki aflað með beinum sköttum. Þá er ekki til önnur leið til að afla fjárins en með óbeinum sköttum í einu eða öðru formi. Þá er sá hængur á, að hvers konar óbeinir skattar koma inn í kaupgreiðsluvísitölu, að óbreyttu því fyrirkomulagi, sem nú gildir. Þess vegna yrði það, ef ekkert frekar yrði að gert, aðeins gálgafrestur, því að það yrði komið inn í kaupgreiðsluvísitöluna innan tíðar.

Ég held, að það sé mjög óviðunandi ástand fyrir hið opinbera, fyrir löggjafarvaldið, að hafa ekkert svigrúm til þess að geta stjórnað og haft áhrif á fjármálaþróunina í landinu með óbeinum sköttum, en með því fyrirkomulagi, að þeir eigi jafnóðum að fullu og öllu að koma inn í vísitöluna, þá verður það í raun og veru af þeim tekið — og annað verra þó, að aukning þessara óbeinu skatta verður þá til þess að magna víxlþróunina og ýta einmitt undir það, sem forðast átti. Þetta sjá allir, að hlýtur að verða afleiðingin tiltölulega fljótt á eftir. Það er þess vegna að mínum dómi eitt það nauðsynlegasta, að samkomulag geti tekizt um það við aðila vinnumarkaðarins, að það verði gerð sú breyting á, að óbeinir skattar komi ekki með sama hætti og verið hefur í vísitölu, þannig að það geti skapazt raunverulegt svigrúm fyrir ríkisvaldið til þess að hafa stjórn á þessum málum.

Þetta voru aðeins mínar persónulegar skoðanir um þetta, sem ég vildi hér setja fram. Það er, eins og ég hef sagt hér áður við annað tækifæri, of snemmt að fara að slá föstum nokkrum ákvörðunum eða ráðstöfunum í þessu efni. Það er rétt að bíða þess, að valkostanefndin skili sínu áliti, þannig að myndin og vandinn, sem við er að glíma, liggi ljósar fyrir mönnum en það gerir nú og menn fái að sjá og skoða þær leiðir, sem hún bendir á. En að sjálfsögðu eru ýmsar leiðir til í þessu efni og aðrar leiðir en sú leið, sem ég benti á, — leiðir sumar hverjar, sem hafa verið farnar hér áður, og auðvitað eru til fleiri leiðir, ef samkomulag gæti orðið um þær, en ég skal ekki fara nánar út í það. Ég vil bæta hér aðeins við það, sem ég sagði um verðlagsákvörðunina, að ég teldi eðlilegt að tímabinda hana, þannig að hún færi fram á sex mánaða fresti, að mitt persónulega álit er það sama að því er varðar vísitöluútreikninginn, að ég teldi, að það væri til bóta, að útreikningur vísitölunnar ætti sér aðeins stað á sama tíma og með 6 mánaða millibili, og það væri jafnt við það, sem tíðkast hjá öðrum þjóðum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að slík lengri tímabil á báða bóga mundu í þessum efnum geta skapað meiri festu í þessum málum en hjá okkur hefur verið. Við skulum vona, að okkur takist nú, eftir að við höfum skoðað álit valkostanefndarinnar, að komast að niðurstöðu um það, hvaða leið sé heppilegust, og ákaflega væri það æskilegt, ef menn gætu fundið einhverja varanlega lausn á þessum vanda, eins og mönnum er nú tamt að tala um. Ég fyrir mitt leyti er ákaflega hræddur um, að það verði heldur seint, sem okkur Íslendingum tekst að finna einhverja varanlega lausn í efnahagsmálum. Ég gæti öllu heldur trúað því, að það yrði varanlegt viðfangsefni fyrir hv. Alþingi og ríkisstj. á hverjum tíma að fást við það að leysa efnahagsvandamál.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og til fjh. og viðskn.