25.10.1972
Efri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

24. mál, tímabundnar efnahagsráðstafanir

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Við höfum hlýtt hér á langa og ég vil segja mjög eftirtektarverða og merkilega ræðu. Og ræðan er merkileg af tvennum ástæðum frá mínum bæjardyrum séð, að öðru leytinu vegna þess, að mér fannst annað veifið ég vera kominn 2 ár aftur í tímann og vera að hlýða hér á, að vísu ræður annarra manna, sem voru að tala fyrir gagnsemi svipaðra ráðstafana eins og hér er um fjallað, og hæstv. ráðh. hefur hér ýtarlega lagt áherzlu á að útskýra fyrir okkur, en hins vegar vegna þess, sem fólst í síðasta hluta ræðu hæstv. ráðh., þar sem hann að vísu tjáði okkur, sem við öll vitum, að hefur opinberlega verið tilkynnt, að sérfræðinganefnd ynni að því að finna úrræði til lausnar á efnahagsvandamálunum, sem við blasa nú við næstu áramót, en við höfum ekki fengið neina frekari skýringu á því, hvers væri að vænta í sambandi við þær till. til úrlausnar á þessum vanda. Nú síðast hefur það mjög borið á góma í umr. um fjárlagafrv., sem er miðað við, að verðstöðvunin haldi ekki áfram, eða a.m.k. öllu haldið opnu í sambandi við þær ráðstafanir, sem gera beri, og ekki séð fyrir neinu fé til áframhaldandi verðstöðvunar. En þá hlýtur það að vekja mikla athygli, að hæstv. forsrh. skuli hér hafa gefið þær yfirlýsingar, sem hann hefur gefið í dag um það, sem gera megi ráð fyrir að gerist um áramótin. Hann lagði að vísu hvað eftir annað í ræðu sinni áherzlu á, að þetta væru sínar persónulegar skoðanir, en ég held, að það hljóti hver einasti maður að leggja nokkuð mikið upp úr persónulegum skoðunum sjálfs forsrh. landsins, leiðtoga ríkisstj. á hverjum tíma, þannig að af þessum sökum var þessi hluti ræðu hans mjög eftirtektarverður og lærdómsríkur fyrir okkur á að hlýða varðandi þær hugleiðingar, sem hæstv. ráðh. hafði um möguleika þess að mæta vandanum um næstu áramót og hvernig það yrði gert. Vissulega komu þar fram ýmsar hugmyndir, sem ég mun síðar víkja að og frá mínum bæjardyrum séð, persónulega, því að það hefur ekki verið rætt í mínum flokki, eru mjög eftirtektarverðar, og ég hefði gjarnan viljað, að ýmsar þær kenningar, sem hæstv. forsrh. lagði fram, hefðu átt meiri hljómgrunn áður í sambandi við efnahagsmálin og viðbrögð við þeim vandamálum. En vissulega er það rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það er ákaflega villandi að tala um að finna varanlega lausn á efnahagsmálunum, sem við því miður oft tökum okkur í munn og höfum heyrt gert á liðnum árum og áratugum. Það er engin varanleg lausn á þeim vanda til. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh., að það er stöðugt viðfangsefni. En það er auðvitað hægt að gera það viðfangsefni mismunandi erfitt viðfangs einmitt með hliðsjón af ýmsum lagaákvæðum eða samningum eða fyrirkomulagi í þjóðfélaginu sem veldur því, að það skapast meiri og meiri hnútar, sem mjög torvelt er að leysa, einmitt vegna skipulagsins á þessum málum, svo sem hæstv. ráðh. vék að. En hann vék þar að veigamiklum atriðum, sem eins og ég sagði hingað til hafa ekki átt mikinn hljómgrunn og vissulega eru þess eðlis, að það er vonandi, að þær hugleiðingar hæstv. forsrh. verði teknar til alvarlegrar athugunar, og sumar hverjar eru þess eðlis, að þær eru áreiðanlega jákvæðar til úrlausnar á efnahagsvandamálum yfir höfuð og til þess að gera þann vanda léttari í meðförum.

Ég held, að það sé alveg ástæðulaust fyrir hæstv. forsrh. að hafa nokkrar áhyggjur af því, að a.m.k. af hálfu Sjálfstfl. verði reynt að setja fæturna fyrir þær ráðstafanir, sem felast í þessum brbl., og þá verðstöðvun, sem hér er um að ræða. Þess vegna held ég, að það hafi verið þarflaust að varpa fram þeim spurningum, sem hæstv. ráðherra setti fram í ræðu sinni um, hvað við yrðum að gera af okkar hálfu, ef við vildum ekki horfa á þessi vandamál í þeim anda, sem hann ræddi um í sínu máli og felst í þessu frv. Hann þarf ekkert að óttast, að á þessu máli verði tekið af okkar hálfu á svipaðan hátt og hans flokksmenn og ég held ég megi segja hæstv. núv. forsrh. sjálfur tóku á þeim vanda, sem við var að fást haustið 1970. Og við höfum áreiðanlega jafnmikinn áhuga og hæstv. ríkisstj. á því, að verðbólgan þróist ekki með þeim hætti, eins og vofði yfir að yrði, ef ekkert hefði verið að gert á þessu sumri, og við höfum sama áhuga á því og hæstv. ríkisstj., að skipan þessara mála verði með þeim hætti á næsta ári, að eðlileg efnahagsþróun geti verið í þjóðfélaginu og atvinnuvegirnir reknir með fullum þrótti og afköstum og án þess rekstrarhalla, sem talsmenn atvinnuveganna hver af öðrum hafa að undanförnu lýst yfir að blasti við og er þegar í mörgum greinum skollinn á. En ég get ekki í sambandi við þetta mál annað en horfið örlítið aftur í tímann til þess að draga upp nokkra mynd af því, hvernig þessi mál hafa þróazt, og af viðbrögðum til þess að mæta þeim vandamálum á síðustu árum, sem þetta frv. hér tekur til meðferðar. Og ég skal þá reyna að stytta mál mitt svo sem verða má.

Á erfiðleikaárunum 1967–1969 varð að framkvæma skerðingu á kjörum almennings í landinu og það töluverða skerðingu, og það verður að segja það, að þeim kjaraskerðingum var mætt af ótrúlega miklum skilningi. Þó að menn mótmæltu, þá undu samtökin, hin almennu launasamtök, betur þeim kjaraskerðingum heldur en jafnvel hefði mátt gera ráð fyrir. Því var yfirlýst af þáverandi ríkisstj., að strax og birti í lofti eftir þau geysilegu átök, sem þjóðarbúið þá varð að mæta og naumast eru umdeild, þá væri sjálfsagt, að hafin yrði aftur sókn til þess að vinna upp þessa kjaraskerðingu, og reyndar strax og tök væru á að gera betur. En á það var lögð áherzla á sama hátt og ég veit að hæstv. forsrh. muni nú gera, að kjarabæturnar verði að vera innan þeirra marka, að atvinnuvegirnir á hverjum tíma fái undir þeim risið.

Vorið 1970 varð samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins um stórfellda kauphækkun. Þáv. ríkisstj. varaði við því, að þessi kauphækkun væri meiri þrátt fyrir stórbættan hag útflutningsframleiðslunnar en svo, að öruggt væri, að atvinnuvegirnir gætu undir henni risið, og enda sýnilegt, að sumir atvinnuvegir gætu ekki tekið á sig þennan kostnaðarauka án þess að fá verðbætur. En það er einn ókostur við okkar atvinnuvegi, eins og við öll þekkjum, að þeir eru ákaflega mismunandi færir til að taka á sig kauphækkanir, og sveiflurnar í því efni hafa, eins og raun ber vitni um, verið langmestar, bæði neikvæðar og jákvæðar, í sambandi við sjávarútveginn, en breytingaminni í sambandi við aðrar atvinnugreinar. Þetta er mál, sem öllum er kunnugt og ég þarf ekki að útskýra. En vegna mikilla verðhækkana í sjávarútvegi 1969–1970 á erlendum markaði gat sjávarútvegurinn tekið á sig verulega kauphækkun, og þess vegna taldi þáv. ríkisstj. nauðsynlegt, að kauphækkunin væri með þeim hætti, að það ylli ekki óeðlilegum kostnaðarauka og þar af leiðandi verðhækkunum hjá þeim atvinnugreinum, sem ekki hefðu borið það sama úr býtum og sjávarútvegurinn hafði þá gert og hefðu þess vegna minni greiðslugetu. Það var því vakið máls á þeirri hugmynd vorið 1970 að tengja þær kjarabætur, sem gerðar yrðu, saman á þann hátt að framkvæma annars vegar gengishækkun og hins vegar nokkra beina kauphækkun. Um þetta varð ekki samkomulag, og skal ég ekki fleiri orðum um það fara. Þetta er aðeins til þess að draga fram staðreyndir málsins.

Það varð ljóst þegar um haustið eftir að sú ákvörðun ríkisstj., að hér hefði verið nokkuð djarft teflt, átti við full rök að styðjast, og útreikningar nokkuð hliðstæðir því, sem hæstv. forsrh. hélt uppi til stuðnings verðstöðvunar nauðsyn nú, sýndu að þróun kaupgjaldsvísitölu yrði með þeim hætti næsta árið þar á eftir, að það mundi tefla afkomu atvinnuvega þjóðarinnar í stórfellda hættu, jafnvel þegar vorið 1971. Til þess að mæta þessum vanda var gripið til verðstöðvunar haustið 1970. Og sú verðstöðvun var að formi til og efni raunar með mjög svipuðum hætti og það frv., sem hér liggur fyrir. Það var gert ráð fyrir því að skipta þeim byrðum, ef byrðar skyldi kalla, sem af þessu leiddi, vegna þess að það var þegar sannað, eins og hæstv. forsrh. hefur þegar sannað í sambandi við verðstöðvunina nú, að með því að framkvæma þessa verðstöðvun væru í rauninni allir aðilar að, þó að þeir fórnuðu nokkru um skeið, að vinna sér til hags, þegar til lengri tíma væri litið, og ekki sízt launþegar, þar sem með þessum hætti einum væri hægt að tryggja nægilegar raunhæfar kjarabætur. Þessum ráðstöfunum var þá tekið mjög neikvætt af hálfu þáverandi stjórnarandstöðu, sem taldi, að væri verið að safna saman vandamálum, það væri verið að gera árás á gerða kjarasamninga, og raunverulega því haldið fram og reynt að fá því framgengt af ýmsum, að verkalýðssamtökin mættu með allsherjarverkföllum eða a.m.k. hatrömmum andmælum, þeim tveimur stigum, sem þá var gert ráð fyrir að gætu fallið í þeirra skaut, til viðbótar 1.3 stigum, sem leiddi af því, að verðhækkun áfengis annars vegar og hækkun á bótum iðgjalda vegna almannatrygginga hins vegar var ekki tekið inn í kaupgjaldsvísitöluna. Þetta var þá talin mikil óhæfa. En af hálfu okkar, sem vorum í þáverandi ríkisstjórn, og þáv. stjórnarflokka var á það bent með skýrum rökum, að raunverulega væri hér engu verið að fórna, heldur aðeins að tryggja kaupmátt þeirra kjarabóta, sem um hafði samizt vorið 1970, og þessar verðstöðvunarráðstafanir gerðu auk þess mögulegt að fá svigrúm til þess að vinna að könnun vandans á næsta hausti, þegar nýir kjarasamningar yrðu gerðir. Það mætti gera ráð fyrir því, eins og alltaf hefði reyndin orðið, ekki sízt vegna þeirrar þróunar, sem hefði orðið 1970, að atvinnuvegirnir, ekki sízt sjávarútvegurinn, gætu e.t.v. staðið að verulegu leyti undir þessum hækkunum, þannig að framleiðni atvinnuveganna gæti gert mögulegt haustið 1971 að taka við nokkrum hækkunum, þó að það hefði ekki verið mögulegt haustíð 1970.

Af hálfu núverandi stjórnarflokka var því hins vegar haldið fram, að væri verið að safna saman vandræðum. Það var mjög flaggað með því, að einn fulltrúi stjórnarfl. þá hér í þessari hv. d. talaði um, að það blasti við hrollvekja haustið 1971, ef eitthvað sérstakt gerðist ekki. Það hefur auðvitað verið farið rangt með hans orð að því leyti til, að hann átti við, að hrollvekjan kynni að blasa við, ef þróunin yrði ekki með nógu hagstæðum hætti, en þessar ráðstafanir gerðu mögulegt að tryggja kaupmátt ráðstöfunarteknanna. Það liggur nú þegar fyrir skýrslulega sannað, að kaupmáttur ráðstöfunartekna árið 1970 óx um 14.4% frá því að hafa rýrnað 1969 um 7.3%, þannig að — hér er að sjálfsögðu um geysilegt stökk að ræða. Og verðstöðvunin lagði einnig grundvöll að því, að á árinu 1971 óx kaupmátturinn enn um 15.8%, þannig að á tveimur árum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxið um 30% rúm, sem má telja einstakt að auðið sé að framkvæma á 2 árum. Og þó að litið sé til miklu þróaðri þjóðfélaga og hinna háþróuðu iðnaðarþjóða, þá hygg ég, að þetta sé með öllu einstakt. Þessar staðreyndir liggja nú fyrir í opinberum skýrslum frá Framkvæmdastofnun ríkisins, þannig að um það verður ekki deilt, að þessum árangri hefur hvað launþega snertir verið náð á þessum tveimur árum og það ekki hvað sízt vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar voru haustið 1970, með verðstöðvuninni þá, til þess að tryggja, að ekki færi af stað ný verðbólguskriða vegna kauphækkana vorið 1970.

Þetta held ég, að sé nauðsynlegt að við íhugum nú einmitt í sambandi við þetta mál, eins og það liggur fyrir hér. Það þjónar auðvitað engu að vera með neinar ávítur til hv. núv. stjórnarflokka um afstöðu þeirra til þessa máls. Þeir rangmátu það, að svo miklu leyti sem þeir freistuðust ekki til að nota það að vissu leyti á þennan hátt vegna þeirra kosninga, sem framundan voru. Það var mannlegt, og við skulum láta það liggja milli hluta. En þetta eru staðreyndirnar, sem við blasa, og við sjáum það á borðinu fyrir framan okkur núna í þessu frv., sem hér er, að verðstöðvun á þann hátt, sem þar er talað um, er sannanlega ekki neitt forkastanlegt fyrirbæri undir vissum kringumstæðum og jafnvel þótt talað sé um lengri tíma en var gert ráð fyrir í þeim verðstöðvunarlögum, sem sett voru af fyrrv. ríkisstj., og var þó talið líklegt, að þau söfnuðu ærnum vanda á því tímabili, sem þau áttu að gilda.

Spurningin, sem næst þarf að íhuga, er þá þessi: Hvernig var þessum vanda mætt haustið 1971. Var hér raunverulega við hrollvekju að fást, eða hafði það verið rangmetið, og hvernig var á vandanum tekið? Því var haldið fram af hálfu talsmanna fyrrv. ríkisstj., að haustið 1971 yrði að miða kjarasamninga við það, að ekki hæfist ný verðbólgualda, og þess vegna yrði að skoða vanda verðstöðvunarinnar út frá þessu grundvallarsjónarmiði. Og því var einnig haldið fram fyrir kosningar, sem að vísu var þá lítið gert úr af þáv. stjórnarandstæðingum, að vel mætti hugsa sér framlengingu verðstöðvunarinnar til áramóta, ef á þeim tíma þyrfti að halda til þess að kanna þessi vandamál nánar.

Hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum á miðju ári 1971. Ég held, að það sé ekki óhæfilegur dómur, þótt sagt sé, að hún hafi setzt í stóla sína með nokkru yfirlæti, a.m.k. á þann veg, að hún gerði viðameiri málefnasamning um stórkostlegri framkvæmdir og umbætur á öllum sviðum en ég held að áður sé þekkt, a.m.k. hérlendis og jafnvel erlendis. Um þetta er ekkert nema gott að segja, ef menn hafa gert sér grein fyrir því, að þeir geti staðið við það, sem þeir hafa lofað. Okkur var ráðlagt og þjóðinni almennt af hæstv. forsrh. að lesa þennan málefnasamning jafnvel kvölds og morgna, — að vísu hefur það ekki verið ráðlagt núna allra síðustu mánuðina og kannske af skiljanlegum ástæðum, en ég hygg nú jafnvel, að menn hafi farið að lesa hann mun betur núna síðustu mánuðina heldur en þeir gerðu fyrst eftir að hæstv. ríkisstj. tók við völdum og það kannske af vel skiljanlegum ástæðum. Og mér er ekki grunlaust um, að kannske hefði hann ekki verið hafður núna alveg jafn ýtarlegur og raun ber vitni um af þeim, sem að honum standa, en sleppum því. Við skulu aðeins taka málið eins og það efnislega liggur fyrir.

Það verður að gera ráð fyrir því, og ég vil ekki gera ráð fyrir öðru en hæstv. ríkisstj. hafi, áður en hún setti saman þennan samning, — og skal ég hér aðeins halda mig að kjaramálunum, — gert sér grein fyrir því, hvað ófært var og hverjum óhætt var að lofa. Ég trúi ekki öðru. Og sannleikurinn er sá, að þessi málefnasamningur er auðvitað algjör afsönnun fyrri kenninga um það, að verðstöðvunin frá því haustið 1970 og það, sem gert hafði verið þá af hálfu þáv. ríkisstj., mundi leiða til neinnar hrollvekju haustið 1971, því að ef svo hefði verið, þá hefði hæstv. núv. ríkisstj. sannarlega ekki lofað verkalýðnum í landinu stórfelldum kjarabótum til viðbótar, svo sem málefnasamningurinn felur í sér. Ég þarf naumast að lesa þetta upp fyrir hæstv. ríkisstj, og raunar ekki fyrir neinum hv. þdm., það vita allir, hvað í þeim samningi fólst, beinlínis yfirlýsing um það, að þegar á haustinu 1971 yrði stefnt að stórauknum kjarabótum í þágu launþega, bæði með styttingu vinnuvikunnar, sem ríkisstj. beinlínis beitti sér fyrir með lagasetningu, með lengingu orlofs, með því að taka aftur upp 1.3 vísitölustig, sem kaup hafði verið skert um, og var náttúrlega nánast sýndarmennska sú ráðstöfun, og láta taka gildi 2 vísitölustig mánuði áður en þau áttu að taka gildi. Allt þetta sýndi auðvitað og sannaði, að það var mat ríkisstj., að hér væri engin hætta á ferðum, heldur væri hagur þjóðarbúsins svo góður, að verðstöðvunin 1970 hefði skilað fullkomlega sínum árangri, hún hefði tryggt kjarabæturnar, sem stefnt var að því að tryggja, og atvinnuvegirnir væru nú færir um að taka á sig mun meiri kvaðir heldur en þeir höfðu verið færir um haustið 1970 og þá lá sannanlega á borðinu, að blasti við að yrði á árinu 1971, ef ekkert væri að gert. Fram hjá þessari staðreynd getum við ekki komizt. Og það er ekki til nema tvennt í þessu málí: Annaðhvort mat fyrrv. ríkisstj. málið alveg rétt með verðstöðvunaraðgerðum sínum 1970, sem tryggðu launþegum 14.4% kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna og 15.8% á árinu 1971, — annaðhvort höfðu þessar ráðstafanir verið rétt mat hjá fyrrverandi ríkisstjórn eða þá að hæstvirt núverandi ríkisstjórn hefur hagað sér af gersamlegu ábyrgðarleysi. Ég er ekkert að fullyrða um þetta, en það er ekki nema um tvennt að ræða.

Því var lýst yfir af hæstv. forsrh., þegar hann kom hér fyrir Alþingi í fyrsta skipti, eftir að hann settist hér í forsætisráðherrastól, og gerði grein fyrri stefnunni, að ríkisstj. hefði kannað afkomu atvinnuveganna og hún teldi fullkomlega grundvöll fyrir að lofa því, sem í stjórnarsáttmálanum er gert, sem er ekki lítið loforð, að bæta á tveimur árum kjörin til viðbótar þeim kjarabótum, sem ég hef áður vikið að, um 20% raunhæfar kjarabætur, ekki kauphækkanir, heldur raunhæfar kjarabætur. Þessu lýsti hæstv. ráðherra yfir, að óhætt væri að gera að mati ríkisstj., og að þessu var stefnt þegar af fullum krafti 1971. Og þar var sannarlega ekki þá verið að leggja að launþegasamtökunum að gera ekki kjarakröfur, síður en svo. Það má þá frekar saka fyrrv. ríkisstj. um það, að hún hafi varað við, að of hátt væri stefnt með kröfunum 1970, en það var síður en svo, að aðvörunarorð væri að finna haustið 1971 hjá núv. ríkisstj.

Í skýrslum Framkvæmdastofnunar ríkisins er tekið fram, að með kjarabótum launþega á árinu 1970 og til ársloka 1971, — þar koma að sjálfsögðu að hluta til inn kjarabæturnar, sem urðu á haustdögum 1971, — þá væri meira en búíð að vinna upp rýrnun kaupmáttartekna, sem varð á erfiðleikaárunum 1967–1969, eins og það er orðrétt sagt í skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar, og þetta er vissulega merkilegur og eftirtektarverður árangur. Er vissulega gleðilegt, að því marki skyldi hafa verið náð á svo skömmum tíma, ef hefði verið auðið að halda áfram með sama krafti næstu 1–2 árin, eins og hæstv. núverandi ríkisstj. gerði sér vonir um í málefnasamningi sínum. En hvernig hefur þetta orðið í reynd? Nú stöndum við andspænis nýjum efnahagsráðstöfunum, að vísu bráðabirgðaráðstöfunum, en engu að síður er þar gripíð til aðgerða til þess að draga úr afleiðingum kostnaðarþróunar í þjóðfélaginu, sem varð mjög fljótlega eftir að síðustu kjarasamningar voru gerðir og eftir að hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum og lýsti stefnumiði sínu, svo sem segir í málefnasamningnum og ég hef hér lítillega vikið að, og því stefnumarki sínu að stórbæta kjör launþega, eins og þar er frá sagt.

Hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir því, að þetta hafi farið nokkuð úrskeiðis, þær áætlanir sem gerðar hafa verið um kostnaðarþróunina í þjóðfélaginu, og ég hef að sjálfsögðu ekkert að athuga við þær tölur, sem hann setti fram. Ég geri ráð fyrir því, að þær séu réttar, og vissulega hefur blasað við uggvekjandi ástand nú um mitt ár, eða áður en brbl. um efnahagsráðstafanir voru sett. Með þeim lögum var talið nauðsynlegt að stöðva gildistöku 5.5 vísitölustiga fram til áramóta og raunar meira, því að síðar hafa bætzt við frekari hækkanir, sem niður hafa verið greiddar. Og það var mat ríkisstj., að ef þessi hækkun tæki gildi, þá væri framundan stórfellt vandamál, sem tefldi afkomu atvinnuveganna og fengnum kjarabótum í verulega hættu. Spurningin, sem við stöndum andspænis núna, er sú, hvort líkur eru til þess, að þessar bráðabirgðaráðstafanir nú geti leyst vandann með svipuðum hætti og var vonazt til að gæti orðið með verðstöðvunarráðstöfunum haustið 1970, þ.e. að við gætum vonazt eftir batnandi hag útflutningsframleiðslunnar, eins og reyndin varð á árinu 1971, til þess að þola ekki aðeins þá kauphækkun, sem var frestað með þeim ráðstöfunum heldur einnig jafnvel nýjar kauphækkanir. Nú er ekki um slíkt að ræða, því að hæstv. ríkisstj. hefur náð þeim árangri, sem vissulega er ánægjulegur og hefði verið ánægjulegt, ef hefði verið hægt að ná fyrr, að semja til 2 ára við verkalýðsfélögin, þannig að aðstaða hennar að þessu leyti er óvenjuleg góð. Hins vegar verður að játa það, að mat ríkisstj. um möguleikana til þeirrar kauphækkunar, sem varð á s.l. ári, og annarra kjarabóta, sem ríkisstj. þá beinlínis beitti sér fyrir eða lagði blessun sína yfir, — þetta mat hefur ekki reynzt rétt. Það er auðvitað haldið fram ýmsum skoðunum og verður vafalaust haldið fram ýmsum skoðunum um það, hvernig standi á þessu, og hæstv. forsrh. gat um það hér áðan, að það væri vegna verðhækkunar erlendis, sem ekki hefði verið séð fyrir. Hann gat þess raunar einnig, sem er að sjálfsögðu mál ríkisstj., að það væri að vissu leyti vegna verðbr. hér innanlands, verðhækkana, sem ómögulegt hefði verið lengur að standa gegn, verðhækkana vegna áfuáms nefskatta eða skattbreytinga, sem hann gat um að hefðu verið gerðar, og að sjálfsögðu koma hér einnig til verðhækkanir, sem hann taldi ekki beinar aðgerðir ríkisstj. sjálfrar, svo og verðhækkun á þjónustu pósts og síma, sem stafaði af því, að söluskattur var lagður á þá þjónustu, og þannig mætti lengi telja ýmsa liði. Og ég hygg, að það sé ekki rangt með farið, að þegar Alþýðusambandi Íslands var gerð grein fyrir orsök verðhækkananna, þá hafi meginhluti þeirra verðhækkana, sem þá var gerð grein fyrir, beinlínis stafað af ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. hafði gert. Ég er ekkert að fordæma ríkisstj. fyrir þetta. Það kann að hafa verið nauðsynlegt að gera þær ráðstafanir, eins og að leggja söluskatt á póst og síma og heimila ýmsar hækkanir ríkisstofnana, um það er ég ekki að fella neinn dóm. En þetta er staðr., sem blasti við, að þessar hækkanir höfðu verið vanmetnar og verðhækkanir erlendis vafalaust einnig vanmetnar. En þó var það vitað þegar á árinu 1971 og hefði mátt gera ráð fyrir því, að menn reiknuðu með slíku, að vegna mikilla kauphækkana erlendis var fyrirsjáanlegt, að verðhækkanir mundu verða mjög miklar á þessu ári á innfluttum vörum.

Ég skal ekki hér fara út í að meta hag atvinnuveganna sérstaklega. En það liggur þó fyrir, enda hefur því nú verið yfirlýst af hæstv. forsrh., að útflutningstekjur þeirra út af fyrir sig verða jafnmiklar og varð á s.l. ári, eða jafnvel meiri, og þó að aflabrestur hafi orðið, þá koma tekjurnar fram, eins og hann hefur áður skýrt frá hér á þingi, í því, að birgðaminnkun verður í landinu. Auk þess hefur orðið allmikil hækkun á erlendum markaði. En því miður stöndum við ekki andspænis því eins og á s.l. hausti að hagur aðalframleiðsluatvinnuveganna eða útflutningsatvinnuveganna, þá fyrst og fremst sjávarútvegsins, sé batnandi, heldur er hann versnandi, og þær vonir, sem fyrrv. ríkisstj. batt við batnandi hag sjávarútvegsins á árinu 1971 og reyndust raunhæfar, þær vonir getur hæstv. núv. ríkisstj. ekki borið í brjósti, — ég segi því miður, vegna þess að allt bendir til þess, að hagur sjávarútvegsins muni á þessu ári versna, og það er ekkert, sem bendir til, að hann muni batna, heldur að hann muni jafnvel versna einnig á næsta ári. Það er því ekki líkur til þess, að sjávarútvegurinn geti í náinni framtíð og atvinnuvegirnir yfir höfuð tekið á sig þann vanda, sem geymdur er með verðstöðvunaraðgerðum og mundi að sjálfsögðu aukast verulega, þessi geymdi vandi, ef á að halda verðstöðvunaraðgerðunum áfram allt næsta ár, og að því skal ég lítillega víkja.

Sá vandi, sem nú er geymdur, hygg ég að sé um 5.5 kaupgjaldsvísitölustig, og það liggur jafnframt, að ég hygg, nokkuð ljóst fyrir, þó að sleppt sé erlendum verðhækkunum, sem framundan kunna að vera og enginn veit um, að hér bætast við 4–5 stig í febrúarbyrjun, sem verður viðbótarbaggi, ef um áframhaldandi verðstöðvun í 117 vísitölustigum án frekari kjaraskerðingar á að vera að ræða. Það þarf að mæta ekki aðeins þeim vanda, sem núverandi verðstöðvun hefur í för með sér og geymdur er, heldur kannske álíka miklum vanda um n.k. áramót, sem þarf að mæta með niðurgreiðslum eða einhverjum slíkum ráðstöfunum, ef á að velja þá leið, sem hæstv. forsrh. vék að, að væri sín persónulega skoðun.

Nú veit ég ekki, hver verður skoðun verkalýðssamtakanna á þessu máli. Þau hafa að vísu tekið mjög jákvætt undir það, sem hjá fyrrv. ríkisstj. var á þeirra máli nefnt kjaraskerðing, en virðist nú ekki vera kallað það, þ.e.a.s. þær ráðstafanir um frestun vísitölu eða skerðingu vísitölu, sem gerðar voru í þeim efnahagsráðstöfunum, sem hér liggja fyrir. Um það var gefin jákvæð einróma afstaða frá verkalýðasamtökunum, en þó að vísu þannig, að mér skilst eftir ályktun þeirra, að þau afsali sér engan rétti, heldur standi ríkisstj. nú um áramótin einnig andspænis því að taka upp nýjar viðræður við þau, ef á að halda áfram þeirri skerðingu vísitölunnar gagnvart verkalýðssamtökunum, sem gert er ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir. Hvernig verkalýðssamtökin taka því, skal ég ekkert um segja, það er ekki mitt mál, og eru hér í þessari hv. d. menn, sem eru fróðari um afstöðu þeirra heldur en ég. Ég tel það mjög vel farið, að þau hafa tekið ábyrga afstöðu, eins og þau gerðu nú í sumar, og í ályktun þeirra er að finna mjög eftirtektarverðar yfirlýsingar um viðhorf þeirra til atvinnuveganna, á sama hátt og við áttum erfitt með að skilja þá afstöðu, sem að hluta til var tekin af verkalýðssamtökunum 1970 um þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar. En það er liðin tíð, við skulum sleppa því. Einhver annar andi svífur þá yfir vötnum, og við skulum láta það gott heita. En það ber að fagna því, þegar menn skoða málið raunhæfar, eins og virðist hafa verið gert af þessum samtökum í sumar af einhverjum ástæðum.

En hér blasir við sem sagt allt að 10 stiga vandi um n.k. áramót, sem ríkisstj. verður með einhverjum hætti að mæta, auk þeirra hækkana, sem ljóst er að til falla á næsta ári. Það vitum við, og ég veit, að okkur greinir ekki á um það, okkur hæstv. forsrh., að það muni koma til á því ári ýmsar hækkanir, sem muni annaðhvort valda beinni hækkun vísitölunnar eða þá leiða til nýrra niðurgreiðslna, sem torvelt er nú reyndar að sjá, hvernig á að framkvæma, og miðað við skoðanir hæstv. fjmrh. á því, þá lýsti hann því yfir í sameinuðu þingi við meðferð fjárlaga, að það væri ekki mögulegt með neinu móti að ganga lengra í niðurgreiðslum en gert væri nú. Og ég skal játa það, að ég hef mjög svipaða skoðun og hann um það, að það eru viss takmörk fyrir því varðandi niðurgreiðslur, hvað langt er hægt að ganga í þeim efnum, og ég held, að sú leið sé tæmd. En ef sú skoðun hæstv. forsrh. verður ofan á að rígbinda sig við 117 kaupgjaldsvísitölustig, eins og hann gat um, næsta ár, sem vissulega væri mjög ánægjulegt að hægt væri að gera, þá er ég hræddur um, að hér séu enn þá á allmiklir hnútar, sem þurfi að leysa, og mun ég aðeins lítillega víkja að því, sem hann sagði um það efni.

Hann kvað það rangt og þetta frv. sýndi það að saka ríkisstj. um stefnuleysi í efnahagsmálum. Ja, það er nú svo. Ég held, að þetta frv. sýni það a.m.k., að ríkisstj. hefur rangmetið, við skulum orða það svo, stöðu atvinnuveganna s.l. haust, þegar hún ákvað að beita sér fyrir þeim kjarabótum og setti fram þann loforðslista, sem hún þá setti fram. Við getum orðað þetta með þessum hætti, en þetta held ég að sé staðreynd. (Gripið fram í.) Jæja, ég veit ekki, hvort það er svo mikill eðlismunur á stefnuleysi og stjórnleysi, ég kann nú ekki að skilgreina það. (Gripið fram í.) Ja, það skyldi nú ekki vera, að hvort tveggja væri. En ég held ekki, að það verði sagt, að það séu öfgar, þótt hæstv. ráðh, séu nú orðnir mjög viðkvæmir fyrir, ef nokkuð er sagt, sem ekki er lof og dýrð um þá, eins og sýndi sig í sameinuðu Alþingi í gær, þá held ég, að það geti varla talizt óhæfilegt, að hér hafi sannarlega komið fram, að þetta frv. til l. eða brbl. sanni það, að ríkisstj. hafi rangmetið stöðuna í efnahagsmálum. Það held ég, að séu ekki öfgar. Það hefur að vísu verið sagt af okkar hálfu, að engin stefna væri enn þá mörkuð og ríkisstj. hefði enga stefnu í efnahagsmálum. Ég skal játa, að það er nú í fyrsta skipti, sem hefur verið gerð tilraun af ríkisstj. að marka stefnu í efnahagsmálum á nokkurn raunhæfan eða a.m.k. skynsamlegan hátt, það skal játað, að það eru á því ýmsir vankantar, sem hæstv. ráðh. vék að og ég gerði sjálfur grein fyrir, en það er í fyrsta skipti, sem það heyrast nú hér hjá hæstv. forsrh. ákveðnar hugmyndir, sem að vísu eru hans persónulegu skoðanir, og ég veit ekki, hvað það merkir. Það er ýmislegt, sem erfitt er að átta sig á hjá hæstv. núv. ríkisstj. og hvað ofan á verður þar, en ég verð þó að ætla, að hæstv. forsrh., eins og ég sagði í upphafi máls míns, hafi þau áhrif þar og hans persónulegu skoðanir a.m.k. séu þess eðlis, að það beri að taka þær fullkomlega alvarlega, og það vil ég gera hér, og vil ég reyna að gera grein fyrir því, hversu framkvæmanlegar þær eru og hversu æskilegar þær eru.

Hann hefur bent á það úrræði að halda verðstöðvuninni áfram. Ég spyr þá á móti: Ef það er hugmynd hæstv. ráðh., sem raunar kom fram í ræðu hans, að rígbinda vísitöluna í 117 stigum, á það þá að gerast með niðurgreiðslum, þ.e.a.s. að greiða til viðbótar niður hóflega áætlað 4–5 kaupgjaldvísitölustig til viðbótar þeim niðurgreiðslum, sem nú eru framkvæmdar? Ef ætlunin er að greiða þetta niður, þá vantar til þess ekki aðeins 800 milljónir, sem er alveg rétt hjá hæstvirtum forsætisráðherra, að þar eru nokkuð hundruð millj., sem kostar að halda áfram núverandi verðstöðvunaraðgerðum, en ef á að halda vísitölunni í 117 stigum án kjaraskerðingar, þá er alveg ljóst, að þó að jafnvel finnist nú einhverjar leiðir til niðurgreiðslna, þá muni þær kosta aðrar 800–1000 millj. Hér stöndum við því andspænis vanda, sem er af stærðargráðunni 1600–2000 millj., til viðbótar þeim vanda, sem ég veit að hæstv. forsrh. er ljóst að þarf að mæta, og það er aðstoð við sjávarútveginn og jafnvel fleiri atvinnugreinar, a.m.k. sjávarútveginn, á næsta ári, miðað við þær horfur, sem eru um afkomu þess atvinnuvegar, þó sérstaklega frystiiðnaðarins og reyndar fleiri greina útvegsins, sem nú eru fjármagnaðar í bili með greiðslum úr verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins í algerri andstöðu við vilja manna í því efni, sem auðvitað er algerlega útilokað að halda áfram með þeim hætti. Hér er því sennilega um að ræða fjáröflun, sem getur orðið af stærðargráðunni allt að 2500 millj. kr. eða jafnvel meira, vegna þess að það er augljóst, að fjárl. taka að venju allverulegum hækkunum, — um það skulum við ekki blekkja okkur, og þá vantar þar áætlunartölur, sem er ljóst að verður að taka inn í fjárlagafrv. Vandinn við að halda áfram þessari stefnu, sem hæstv. forsrh. hefur lýst hér sem sinni persónulegu skoðun, að sé æskilegasta leiðin til þess að leysa vandann, kostar því þessa miklu fjármuni.

Mér fannst það mjög ánægjulegt, að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að ekki yrði lengra gengið í álagningu beinna skatta. Þetta held ég, að reynslan hafi nú sýnt hæstv. ríkisstj. í ár, að slíkt væri ekki gerlegt, og þykir mér vænt um, að hún hefur lært af þeirri reynslu og þeirri ólgu, sem varð út af þeim geysilegu skattahækkunum, sem framkvæmdar voru á s.l. ári. Þetta verður því að sjálfsögðu að gerast með óbeinum sköttum, ef á að greiða þetta niður að fullu, annars vegar með óbeinum sköttum og hins vegar kemur auðvitað það til álita, sem hæstv. forsrh. gat um, og það er að endurskoða vísitöluna. Það er út af fyrir sig rétt, að það má gera ráð fyrir, að einhver breyting getur orðið á vísitölunni með nýrri athugun á samsetningi neyzlunnar. En reynslan frá 1965 í því efni gefur ekki miklar vonir um, að græðist mikið fyrir ríkissjóðinn í því sambandi eða hægt verði að brúa þetta bil að nokkru leyti með þeim hætti, enda hef ég ekki mikla trú á því, eins og afstaða verkalýðssamtakanna var þá. að hún sé breytt að því leyti, að þau mundu fallast á, að slík vísitala tæki gildi, ef hún leiddi af sér lækkun kaupgjalds. En síðasta breyting vísitölunnar olli því, eins og menn vita, að ýmislegt, sem áður hafði verið kallað munaður, svo sem bílar, svo sem áfengi og tóbak, sem áður var tekjuleið fyrir ríkissjóðinn, þessar tekjuleiðir báðar, — og það var eitt af því, sem átti orsökina að hækkun vísitölunnar nú í sumar og gerði þessar verðstöðvunaraðgerðir óumflýjanlegar, vegna þess að bifreiðakaupakostnaður og áfengi og tóbak eru orðinn svo stór þáttur í vísitölunni einmitt vegna endurskoðunar á neyzluvenjum almennings, — það gerir lítt mögulegt að framkvæma hækkun á þessum áðurnefndu munaðarvörum, án þess að meginhlutinn af því étist aftur í hækkaðri kaupgjaldsvísitölu. Þá kemur það auðvitað til athugunar, sem var mjög athyglisvert í ræðu hæstv. ráðherra, að breyta vísitölugrundvellinum að því leyti að taka út úr vísitölunni vissa liði, og ég held, að ég hafi ekki skilið hann það skakkt, að hann hefði þá skoðun sjálfur, að rétt væri, að óbeinir skattar væru ekki inni í vísitölunni. Hann minntist á það, sem nágrannaþjóðir gerðu í því efni, og einmitt með hliðsjón af því mun hann ekki hafa átt við þetta, vegna þess að nágrannaþjóðir okkar hafa yfirleitt ekki óbeina skatta í vísitölunni. En í sannleika sagt er málið þannig, miðað við vísitölukerfið, eins og það er í dag, að fjmrh. er á hverjum tíma í algerri gildru um fjáröflun vegna þess, að ef á að afla tekna með óbeinum sköttum eða með hækkun á munaðarvöru, þá verkar það stórlega inn á vísitöluna, þannig að þessi tekjuöflun étur sig upp aftur.

Ég skal fúslega taka undir þá skoðun hæstv. forsrh., að það er óeðlilegt, að liðir, sem eru eingöngu tekjuöflun fyrir ríkissjóð, — og þá kem ég t.d. að áfengi og tóbaki, sem hæstv. núv. ríkisstj. vildi taka aftur inn í vísitöluna, — ég álít, að það eigi ekki að vera inni í vísitölunni hækkun á þeim, nema að svo miklu leyti sem hækkun á verðlagi þeirrar vöru stafar af beinum verðhækkunum erlendis frá, en sé þessi vara hækkuð til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þá eigi það ekki að vera í vísitölu og söluskattur eigi ekki heldur að vera eða óbeinir skattar inni í vísitölunni. Mín skoðun og hæstv. forsrh. fellur því alveg saman að þessu leyti. En ég skal taka það fram, eins og hann sagði, að þetta er mín persónulega skoðun og ég er ekki með þessu að lýsa yfir skoðun míns flokks. Það veit ég ekki um, til þess hefur ekki verið tekin afstaða, en verður sjálfsagt gert efnislega, eftir að þessar till. koma fram.

Þá vék hæstv. forsrh. að því, að það hefði áður verið skert vísitala hér, og mér fannst það vera í þeim tón, að það væri ekki alveg útilokað, að það væri hægt að hugsa sér að skerða vísitöluna. Að vísu segi hann, að það yrði þá að gerast í samráði við stéttarsamtökin. Við þekkjum nú, hvernig hefur tekizt til með þau samráð áður. Vinstri stjórnin sáluga gerði tvær stórfelldar skerðingar á vísitölunni. Hún framkvæmdi eina skerðingu, þegar hún tók við völdum, og það gekk fyrir sig, en ætlaði að framkvæma aðra skerðingu, sem var ekki miklu stærri en þyrfti nú raunverulega að framkvæma hér, ef ætti að fara þá leiðina, og þar stöðvuðu verkalýðssamtökin og fannst sér nóg boðið, eins og hæstv. félmrh., sem þá var þar forustumaður, harla vel man eftir, og skal ég ekki fara neitt út í þá sálma. En mér finnst það nú kannske nokkuð mikil bjartsýni að gera ráð fyrir því, að stéttasamtökin fallist á skerðingu vísitölunnar til að mæta þeim vanda, sem hér er við að fást. Ég tek skýrt fram, að ég er ekki með þessum orðum mínum á neinn hátt að reyna að espa til andstöðu gegn þeirri hugmynd. Ef hún á fylgi að fagna hjá stéttasamtökunum, þá verður áreiðanlega ekki nein tilraun gerð til þess af hálfu Sjálfstfl. að spyrna fótum gegn skynsamlegum aðgerðum á því sviði né öðrum sviðum, ef það að okkar mati er líklegt til þess að leysa þennan vanda.

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja mál mitt mikið úr þessu. Ég hef ekki sérstaklega gert að umtalsefni þetta frv., sem hér liggur fyrir, að öðru leyti en því, sem ég áðan sagði, að hugsunin á bak við það er nákvæmlega sú sama og lá á bak við verðstöðvunaraðgerðir fyrrv. ríkisstj., og ég held því ekki, að hæstv. forsrh. þurfi að óttast, að Sjálfstfl. a.m.k. snúist gegn þessu frv. eða þessum brbl. Það er allt annað mál svo að meta, hvaða till. ríkisstj. hefur til heildarlausnar á þeim vanda, sem við er að fást. En ýmislegt, sem hæstv. ráðh. sagði um brbl., var kannske nokkuð hæpið, m.a. tal hans um, að það væri fullkomnari verðstöðvun heldur en áður hefði þekkzt í þjóðfélaginu. Þetta er auðvitað algerlega út í hött. Verðstöðvunin samkvæmt verðstöðvunarlögunum, sem gilti frá 1970, var alveg jafnfullkomin og þessi, og ríkisstj. hefur haft þetta í hendi sinni síðan og samkvæmt þeim lögum, sem sett voru um síðustu áramót, að áskilja sér sjálfri rétt til þess að stöðva allar verðhækkanir, hvers kyns sem væru. Hér er því ekkert nýtt á þessu sviði, og því miður fer því auðvitað víðs fjarri, að um algera verðstöðvun hafi verið að ræða. Það eru eilífar kvartanir um verðhækkanir, og við vitum, að þær hafa orðið, sumar hafa verið óumflýjanlegar og ekkert um þær að segja, en verðstöðvun hefur auðvitað ekki verið alger.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að fresta endurskoðun á verðlagsgrundvelli landbúnaðarins til áramóta, og ég veit ekki, hvort ætlunin er að fresta þeirri endurskoðun áfram. Hæstv. forsrh. vék ekkert að því máli. Það, sem gerðist nú í september, var það eitt, að það var framreiknaður sá gildandi grundvöllur, en endurskoðun á honum fór ekki fram, eins og gert er ráð fyrir, að geti orðið samkv. lögum um það efni, þannig að það kynni að bætast þar við einhver vandi, ef ekki semdist sérstaklega um það við bændasamtökin. Og það atriði, að ekki sé ætlunin að mæta verðstöðvuninni að neinu leyti með nýjum álögum, það er auðvitað sagt líka alveg út í hött, vegna þess að þeir, sem hlýddu á og tóku þátt í umr. um fjárlagafrv. í Nd., hafa vafalaust heyrt það, að hæstv. fjmrh. gaf engar sennilegar skýringar á því, að sá 400 millj. kr. sparnaður til útgjalda í þessu efni, sem er gert ráð fyrir í brbl., mundi nást. Ég held, að allir þeir, sem hlustuðu á þær umr., hafi í rauninni sannfærzt um það, að sá sparnaður mundi ekki nást.

Herra forseti. Þessi brbl. þau voru rökstudd með þeim hætti, að forseti Íslands gerði kunnugt, að forsrh, hefði tjáð sér, að ef svo fer fram sem nú horfir í verðlags- og kaupgjaldsmálum, séu í vændum verulegar víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds, sem stefnt geti afkomu atvinnuvega og atvinnuöryggi og þar með hag allra landsmanna í hættu. Þetta er mat forsrh. á ástandinu í efnahagsmálum þjóðarinnar einu ári eftir að vinstri stjórnin hefur tekið við völdum með þeim loforðum um kjarabætur — raunhæfar kjarabætur, sem fólust í hennar málefnasamningi, og þessi afdráttalausa yfirlýsing, sem ég hygg að sé alveg hárrétt, sýnir auðvitað betur en nokkuð annað, að ríkisstj. hefur ekki tekizt að fást við þann vanda, sem hún tók að sér að leysa, þegar hún tók við völdum, eins og hver ríkisstj. verður að gera, hún hafði vanmetið ástandið og hún hafði lofað meiru en mögulegt var að standa við. Ég held, að menn geti, hvað sem öllu líður, verið sammála um, að það gangi lítið að framkvæma, hvort sem það eru kauphækkanir eða einhver umbótamál önnur, ef þarf svo innan skamms tíma að taka aftur það, sem búið er að gera. Þá er betra að láta hlutina ógerða. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. læri því af þeirri reynslu, sem hún hefur hér fengið eftir eins árs búskap sinn, og taki sjálf raunhæfa afstöðu til þess mats, sem forsrh. með þessum orðum leggur á afkomuhorfur þjóðarbúsins að lokinni eins árs vinstri stjórnar.