21.12.1972
Efri deild: 43. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

137. mál, kaupgreiðsluvísitala

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. skýrði þetta mál rækilega hér við fyrri umr., eftir því sem tök voru á í mjög stuttu máli. Sjálfsagt þyrfti langt mál til þess að skýra það þannig, að öllum væru öll smáatriði ljós í sambandi við þetta. En ég tel málið standa þannig nú, að þess sé tæpast kostur. N. hefur fjallað um málið, og meiri hl., Ragnar Arnalds, Björn Jónsson, Bjarni Guðbjörnsson og Páll Þorsteinsson, hefur sent frá sér nál., sem hljóðar svo:

Nál. um frv. til l. um ákvörðun kaupgjaldsvísitölu fyrir tímabilið 1. jan. til 28. febr. 1973. Frá fjh.- og viðskn. Nefndin hefur athugað frv., og leggur meiri hl. bennar til. að það verði samþ.

Alþingi, 21. des. 1972.“

Síðan koma undirskriftirnar.

Það kom fram í n., að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna telja sig ekki hafa haft tækifæri til þess að kynna sér málið það rækilega, að þeir vildu taka á því ábyrgð, og munu því kjósa að sitja hjá við atkvgr. um málið, eftir því sem þeir upplýstu í n., en að sjálfsögðu gera þeir grein fyrir því nánar, eftir því sem efni standa til.

Ég ætla ekki að eyða tíma hv. d. í að fara nákvæmlega út í vísitöluútreikninginn og allt það mái. Það mundi taka mjög langan tíma og hindra, að þetta nauðsynjamál næði fram að ganga nú í kvöld eða nótt. Aðalatriði málsins er það, að aðilar vinnumarkaðarins að einhverju leyti og fulltrúar þeirra í kauplagsnefnd telja, að eins og nú standa sakir hafi þeir ekki lagalega stoð til þess að úrskurða kaupgjaldsvísitölu frá og með 1. jan. til 28. febr. í fullu samræmi við það — ég vil segja — óbeina samkomulag, sem gert var í sumar milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. um tímabundnar efnahagsaðgerðir. Það samkomulag var ekki beint samkomulag, heldur var, eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh., látið óátalið, að þessi breyting yrði gerð á framkvæmd vísitölumálanna á ákveðnu tímabili, til ársloka. Hins vegar var alltaf gert ráð fyrir því, að þá tæki eðlileg málsmeðferð í sambandi við þetta við og vísitala yrði úrskurðuð af kauplagsnefnd, eins og gera ber samkv. samningum. Nú stóð svo á 1. des., þegar ákveða átti nýja kaupgreiðsluvísitölu, að n. taldi sig ekki hafa heimild til að ákveða hana í samræmi við samninga fyrir allt tímabilið, heldur aðeins í samræmi við lögin fyrir desembermánuð, en þá kæmi þarna autt tímabil. sem hún taldi sig ekki hafa neina stoð í lögum til þess að úrskurða, hver kaupgjaldsvísitalan yrði. Á þessu þyrfti þess vegna að ráða bót.

Meginefni þessa frv. er í raun og veru ekki annað en að gefa kauplagsnefnd þá lagalegu stoð, sem hún telur sig þurfa til að geta úrskurðað, hverjar kaupgreiðsluvísitölur skuli vera þessa tvo mánuði, jan. og febr., og taka af öll tvímæli þar um, enn fremur að gefa kauplagsnefnd nokkrar forsendur, sem taldar eru nauðsynlegar til efnda á þeim fyrirheitum, sem gefin voru í sambandi við setningu brbl. um tímabundnar efnahagsaðgerðir. Sjálfsagt gefst einhvern tíma tækifæri til þess að ræða um vísitölumálin hér í hv. þd., — ég skal vera viðbúinn því síðar, — en núna vil ég segja það, að ég skil vel, að menn hafi ekki haft nægan tíma til að geta grandskoðað þetta svo, að þeir vilji taka ábyrgð á því í smáatriðum.

Þess er að geta, að miðstjórn Alþýðusambandsins hefur haldið um þetta tvo fundi og athugað málið mjög ítarlega með sérfræðingum, sem hún hefur kallað til, og er einhuga um, að þessi lausn á málinu fullnægi kröfum bennar um efndir á þeim fyrirheitum, sem gefin voru í sambandi við lög um tímabundnar efnahagsaðgerðir í sumar. Síðan kaus miðstjórnin 5 manna n. Í henni áttu sæti ég, varaforseti sambandsins, Snorri Jónsson, ritari þess, Óskar Hallgrímsson, og enn fremur Eðvarð Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar, til þess að fylgja málinu eftir og líta á þá lagasetningu, sem kynni að verða samkomulag um við ríkisstj. Það er álit allra þessara manna, að við getum vel við unað og hagsmunum okkar sé borgið í samræmi við þan lög, sem sett voru í sumar, og framhald af þeim. Ég tel, að þessi afgreiðsla af hálfu miðstjórnarinnar og þessarar n., sem ég hef hér upp talið, hverjir skipuðu, sé nokkur trygging fyrir því, að ekki sé a.m.k. verið að hlunnfara verkalýðssamtökin. Ég bendi enn fremur á það, að í þessu frv. er heldur ekkert, sem leggur atvinnurekendum þyngri byrðar á herðar en þeim ber að bera samkv. gildandi kjarasamningum, þannig að ég hygg, að þar sé ekki heldur um neina andstöðu að ræða, enda hafa þeir bent á, að hér væri tæknilegt vandamál á ferðinni, sem þyrfti að bæta úr.

Ég vil svo sérstaklega þakka stjórnarandstöðunni fyrir að hafa gefið vilyrði eða loforð, — ég skal ekki segja, hvort heldur er, en vona, að vilyrði hennar séu jafngóð og loforð, — fyrir því, að þetta mál fái greiða afgreiðslu í þinginu og geti orðið að lögum, áður en morgunn rennur upp.