21.12.1972
Efri deild: 44. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

132. mál, siglingalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál ber að með dálítið sérkennilegum hætti í því formi, sem það er nú. Það er mikið deilt um, hvernig ætti að leysa viss vandamál varðandi tryggingu sjómanna, og hafði verið borin fram brtt. við tryggingal. af hæstv. heilbr.- og trmrh., sem var hugsuð sem lausn á málinu. Um þá till. fékkst ekki samkomulag, og var þá sú till. og aðrar till., sem fram komu, teknar aftur og lá við, að málið væri þar með strandað. En sérstaklega útgerðarmenn lögðu áherzlu á, að málið fengi lausn, áður en þingi lyki. Var þá gengið í að reyna að ná samkomulagi, og varð sú niðurstaðan, að efnislega fékkst samkomulag. Menn úr öllum flokkum fluttu brtt. við siglingalagafrv. og var þetta mál afgreitt áðan á örstuttum fundi, aðeins með framsögu af hendi 1. flm. brtt., og málið þar með afgreitt á örstuttri stund sem algert samkomulagsmál. Þannig liggur þetta mál nú fyrir hv. d. og mikill vandi leystur, að ég held, á þann hátt, að báðir aðilar, fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna, sætta sig við. Í hv. Nd. varð sem sé algert samkomulag um málið í þessu formi.