25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. ræddi hér vitt og breitt um málefni aldraðra og gaf tilefni til þess, að hv. dm. tækju hér þátt í umr. um þau efni. Mér fannst rétt að gera það í framhaldi af því, sem hæstv. ráðh. sagði.

Ég get tekið undir margt af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér um aldraða í þjóðfélaginu og um fyrirkomulag á fyrirgreiðslu við aldraða fólkið. Þegar hæstv. ráðh. var að tala um athafnaþrá einstaklinga og sjálfsákvörðunarrétt þeirra. þá talaði hann eins og út úr mínu hjarta. Ég tek mjög undir þann kafla í ræðu hæstv. ráðh., þegar hann var að ræða þau málefni.

Ég vil vekja athygli á einu í sambandi við þetta mál, að aðdragandi þess er nokkuð lengri en kom fram í ræðu hæstv. ráðh. Á sínum tíma var sett á laggir n., sem Eggert G. Þorsteinsson skipaði, og hún fjallaði um þetta mál, en í n. var bætt mönnum, sem hæstv. núv. ráðh. setti þar inn, og n. þannig skipuð hefur undirbúið þetta frv., að því er mér er tjáð. Ég vildi aðeins, að þetta kæmi hér fram, þannig að hér kæmi það sanna í ljós, hvernig þetta mál ber að hér í hv. Alþ.

Ég verð á hinn bóginn að lýsa undrun minni yfir því, þegar hæstv. ráðh. lætur hér að því liggja, að það sé til stjórnmálaflokkur hér á Íslandi, sem líti svo á, að það sé nánast ölmusa, þegar aldrað fólk fær bætur úr almannatryggingum. Ég veit ekkert, hvaðan hæstv. ráðh. hefur slíkar hugleiðingar. Ég vænti þess, að hann reyni að færa þeim orðum sínum nánar stað. Hins verð ég að lýsa undrun minni yfir því, að hæstv. ráðh. talar um ósæmilega framkomu embættismanna í sambandi við greiðslur á bótum almannatrygginga til aldraðra og öryrkja. Það er a.m.k. afar undanlegur háttur, að ráðh. ákveðins málefnaflokks talar um, að embættismenn, sem vinna undir hans stjórn, komi ósæmilega fram við fólk. Það finnst mér ákaflega undarleg fullyrðing af hálfu ráðh. Ég er honum sammála um það, að embættismennirnir gætu gengið betur fram í því að kynna fólki, hvaða rétt það hefur. Ég er honum algerlega sammála í þeim efnum. En það þarf þá líka að vera skýrt frá hálfu þeirra, sem stjórna landinu, hvernig embættismennirnir eiga að haga sér og hverju þeir eiga að skýra fólki frá. Í því sambandi vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvort það hafi legið strax fyrir, þegar síðustu lög um almannatryggingar voru samþ. hér á Alþ. og gengu í gildi, hvernig framfylgja skyldi t.d. tekjutryggingarákvæðinu. Mér er ekki grunlaust um það, að embættismenn, a.m.k. víða úti um land, — ég hef af því persónuleg kynni, — vissu alls ekki, hvernig bæri að framfylgja þessu ákvæði, og sögðust ekki hafa um það nægilega skýr fyrirmæli frá Tryggingastofnuninni og rn. hæstv. ráðh.

Annars, eins og ég sagði áðan, get ég tekið undir margt af því, sem hér hefur komið fram í þessu efni, og ég veit, að það er góður vilji, sem er á bak við að flytja þetta frv., enda hefur það verið vel undirbúíð, og ég vænti þess, að því verði vel tekið hér í þingsölum.

En fyrst ég er kominn hér í ræðustól, þá vil ég aðeins minna á eitt atriði, sem mér hefur verið hugleikið, og það er framkvæmd tekjutryggingarákvæðisins. Mér hefur virzt, og hæstv. ráðh.- hefur tekið undir þá skoðun hér í þingsölum, að þetta ákvæði sé nokkuð gallað, m.a. með tilliti til þess, að það skerðir bætur viðkomandi aðila í almannatryggingakerfinu, ef hann leggur fram vinnuframlag sitt til þjóðfélagsins. Þarna er um að ræða galla, sem e.t.v. er erfitt að sníða af, en ég held, að ég megi fullyrða, að við séum sammála um það, hæstv. ráðh. og ég, að hér sé um galla að ræða, og hann viðhafði þau orð einhvern tíma á síðasta þingi, að hann mundi beita sér fyrir því að leita að lausn á þessu vandamáli. Nú vildi ég gjarnan spyrja hann, hvort þetta hefur verið nánar athugað og hvort hægt sé að vænta þess, að till. um þetta liggi fyrir innan skamms.