29.01.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

141. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda í Vestmannaeyjum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil hér í nafni þingflokks Alþb. votta öllum Vestmanneyingum samúð okkar í þeim erfiðleikum, sem þeir standa nú frammi fyrir, og taka undir þau orð, sem aðrir hafa sagt í þá átt.

Eins og fram hefur komið þegar í þessum umr., hefur ríkisstj. fjallað um vandamál þau, sem upp hafa komið í sambandi við gosið í Heimaey, á öllum fundum sínum, síðan þessir atburðir gerðust, og þar af leiðandi á hverjum einasta degi síðan. Það má í rauninni segja, að mestallt starf ríkisstj. hafi verið bundið þessum athurðum, og er það í rauninni að vonum.

Ríkisstj. tók þegar í upphafi ákvörðun um að fela tilteknum aðilum ábyrgð á framkvæmd mjög þýðingarmikilla atriða málsins, þar sem ákveðið var að öll björgunarstarfsemi og allt öryggiseftirlit við eyjarnar skyldi vera undir yfirstjórn almannavarnaráðs og bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum. Þannig hefur síðan verið á þeim málum haldið, að það eru þessir aðilar, sem hafa eftir sinni getu ráðið því, sem þar hefur verið ráðið varðandi björgunarstarfsemi og öll öryggismál. Ríkisstj. hefur svo að sjálfsögðu, eftir því sem í hennar valdi hefur staðið, aðstoðað þessa aðila og gripið inn í til þess að útvega enn frekari aðstoð og hjálp, þegar þannig hefur á staðið.

Jafnframt fól ríkisstj. sérstakri n. manna að annast í samráði við Rauða krossinn, alla fyrirgreiðslu þess fólks, sem flutt var til lands úr eyjunum, og útvega því samastað og aðra fyrirgreiðslu. Þannig var gengið frá þeim málum, að þau hafa komizt í góðra manna hendur. En í sambandi við þennan lið málsins hafa skiljanlega komið upp margvísleg vandamál, þar sem ríkisstj. hefur einnig þurft að gripa inn í og veita aðstoð, en höfuðábyrgðin varðandi þennan þátt málsins hefur að sjálfsögðu hvílt á þessari nefnd.

Auk þess hefur ríkisstj. skipað n., sem á að reyna að gera sér grein fyrir hinu almenna þjóðhagslega tjóni, sem af þessum atburðum muni leiða fyrir þjóðarbúið í heild og fyrir Vestmanneyinga sérstaklega, og hvað þar væri helzt til úrræða.

Enn fremur var hverju ráðuneyti um sig falið að huga sérstaklega að þeim málaflokkum, sem undir það heyrðu og vörðuðu Vestmannaeyjaatburðinn. Að þessu leyti til hef ég mestmegnis gefið mig að því að vinna með ýmsum aðilum að því að kanna, hvaða vandamál kæmu sérstaklega upp varðandi sjávarútveginn, og ég kallaði þegar saman fund með ýmsum forustumönnum í samtökum sjávarútvegsins, eins og formanni L.Í.Ú., fiskimálastjóra, forustumönnum frá samtökum fiskvinnsluverksmiðjueigenda í landinu og frystihúsaeigenda, farmannasambandinu og sjómannasambandinu. Málin voru rædd með þessum aðilum, og þeir tóku að sér allir, hver um sig og sameiginlega, að kanna ýmsa þætti málsins. Síðan var tekið upp beint samstarf við aðila úr Vestmannaeyjum, félagssamtök þeirra og forustumenn þeirra, um það, hvernig við skyldi brugðið. Þannig hefur verið að þessum málum unnið, án þess að ég fari að rekja það hér í einstökum atriðum, hvað áunnizt hefur og við hvaða vanda hér hefur verið að glíma.

Það er öllum mönnum ljóst, að áfallið í sambandi við útgerðarmálin er gífurlega mikið fyrir Vestmanneyinga, misjafnlega mikið fyrir hina einstöku aðila eftir því, hvernig þar stendur á. En hinu skulum við ekki heldur gleyma, að Vestmannaeyjar hafa haft sérstaka og stórfellda þýðingu fyrir sjávarútveg landsmanna almennt. Hafa Vestmannaeyjar verið sannkölluð lífhöfn fyrir stóran hluta okkar flota, sem hefur leitað þangað, skilað þangað afla sinum, notið þar þjónustu og í rauninni að meira eða minna leyti byggt rekstur sinn á aðstöðu í eyjunum mikinn hluta ársins. Lokun þessa þýðingarmikla útgerðarstaðar hefur því mjög almenn áhrif fyrir okkar sjávarútveg í heild. Til þess að reyna að komast yfir þessi vandamál hafa margvíslegar ráðstafanir verði gerðar.

Það gefur auga leið, að huga þurfti að því, hvernig ætti að mæta þeim stórkostlegu fjárhagsvandamálum, sem bæði Vestmanneyingar og fyrirtæki í Vestmannaeyjum yrðu sérstaklega fyrir og þjóðarheildin vegna þessara áfalla. Um þau mál hefur ríkisstj. einnig fjallað og fengið þar til samstarfs við sig ýmsa aðila í þjóðfélaginu.

Eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., hafði ríkisstj. unnið að gerð frv., sem vonir stóðu til, að hægt væri að leggja fyrir Alþingi til afgreiðslu, til þess að takast á við þann mikla vanda, fjárhagshlið málsins. En það kom í ljós, því miður, að það var ekki fullkomin samstaða um þær hugmyndir, sem þar voru helzt uppi. Það er þó engin ástæða til að örvænta í þeim efnum, því að það hefur ekki verið fullreynt enn, hvort flokkarnir hér á Alþ. geti staðið saman um lausn á þeim þætti vandamálsins, svo þýðingarmikill sem hann er. Af því þótti rétt að hverfa að þessu ráði, að Alþ. skipaði n. samkv. þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, og að þannig yrði reynt að ná fullkominni samstöðu allra þingflokka einnig varðandi þennan þýðingarmesta þátt málsins, sem er um stórfellda fjáröflun til þess að takast á við þetta heildarverkefni.

Það hefur komið hér fram í umr., að forustumenn stjórnarandstöðunnar taka undir þá leið, sem hér er valin, og ég fagna því, og ég vona, að framhaldið geti orðið það, að hér geti tekizt almenn samstaða á Alþ. um það, hvernig skuli ráða fram úr langsamlega stærsta og mesta vanda, sem við er að eiga í sambandi við þetta mál. Við vitum auðvitað ekki á þessu stigi málsins, hvað hér verður um mikinn fjárhagsvanda að ræða í sambandi við bætur fyrir eignatjón eða algera rekstrarstöðvun margra aðila. En á því leikur enginn vafi, að hér verður um stórar fjárhæðir að ræða og þá ekki síður þegar til þess kemur, að það þarf að vinna að því að endurreisa byggðina á nýjan hátt í eyjunum.

Ég skal ekki við þessar umr. fjalla frekar um málið, en ég vil að gefnu tilefni undirstrika, að það er algerlega rangt, sem fram hefur komið í nokkrum blöðum, að af hálfu ríkisstj. hafi tilboðum um aðstoð verið tekið kuldalega, eins og sagt hefur verið, eða þau ekki þegin. Það er algerlega rangt, að fram hafi komið hjá ríkisstj. nokkur tregða til þess að þiggja aðstoð hvers sem væri til bæði björgunarstarfa og annars, og það er í rauninni illur málflutningur þeirra, sem reyna að koma slíku af stað, þar sem enginn fótur er fyrir neinu slíku. Hitt er svo höfuðatriði, eins og ríkisstj. hefur lagt áherzlu á, að hér er um stórfellt fjárhagsvandamála að ræða, sem við álítum, að öll þjóðin eigi að takast á við og sýna þann manndóm, að hún sé reiðubúin að fást við að leysa það verkefni. Aðstoð frá ýmsum aðilum verður vissulega þegin, en við skulum ekki láta okkur koma til hugar, að við getum skotið okkur undan því að hera þyngsta baggann sjálfir í slíku tilfelli sem þessu.

Ég fagna því, að það virðist vera samstaða fyrir því að greiða fyrir þessari till. og takast síðan á við málið, því að aðalatriðið er ekki, að málið gangi til n., heldur hitt, að n. skili fljótlega árangri og Alþ. geti fljótlega gengið frá því, svo að það liggi fyrir, hvernig á að afla fjár til að leysa þann vanda, sem við stöndum frammi fyrir. Ég vil fyrir mat leyti leggja áherzlu á, að hægt verði að afgreiða þessa till. í dag, kjósa n. í dag og tapa þannig engum tíma til að reyna að fá þetta mál leyst.