30.01.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

87. mál, eftirlit með skilum söluskatts

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Hinn 30. jan. 1970 voru samþykktar á Alþ. nokkrar breytingar á l. um söluskatt, m.a. var bætt í lögin nýrri gr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra er heimilt að ákveða, að í öllum verzlunum, sölu- eða afgreiðslustöðum, þar sem söluskattur er innheimtur, skuli taka upp peningakassa, sem auðvelt sé að stimpla í öll söluskattskyld viðskipti, þannig að eftirlitsmenn fjmrn. geti gengið úr skugga um, að allur innheimtur söluskattur komi fram. Ráðh. getur sett nánari reglur um framkvæmd á ákvæðum þessarar gr.

Samþykkt þessa heimildarákvæðis sýnir, að hv. Alþ. hefur talið ástæðu til að gera nýjar ráðstafanir til að bæta skil á söluskatti. Í fjárl. fyrir árið 1973 er áætlað, að söluskattur, sem skilað er til ríkissjóðs, nemi á þessu ári 5456 millj. kr. Hversu hár raunverulega innheimtur söluskattur verður, veit að sjálfsögðu enginn. Ég hygg þó, að þeir séu fáir, ef nokkrir, sem láta sér annað til hugar koma en sú tala verði hærri, þ.e. að einhverjum hluta þess söluskatts, sem neytendur greiða, sé aldrei skilað til ríkissjóðs.

Samþykkt Alþ, í ársbyrjun 1970 um heimild til að setja upp sérstaka peningakassa, sem stimpluð væru í öll söluskattskyld viðskipti, bendir vissulega til þess, að Alþ. hafi talið sérstaka ástæðu til að herða eftirlit með skilum söluskatts, þess söluskatts, sem neytendur hafa þegar greitt í verzlunum og sölu- og afgreiðslustöðum. Ég hygg, að flestir landsmenn séu þeirrar skoðunar, að ákvörðun Alþ. um heimild til þessara sérstöku aðgerða til eftirlits með skilum söluskatts hafi ekki verið tekin að ófyrirsynju. Þessi heimild hefur þó enn ekki verið notuð. Því hef ég á þskj. 99 flutt fsp. til hæstv. fjmrh. um þetta mál, í fyrsta lagi, hvort hæstv. ráðh. hafi í hyggju að beita umræddri heimild til þess að setja upp þessa peningakassa. Því var mjög haldið fram við umr. á Alþ., þegar ákvörðun var tekin um þessa heimild, að of kostnaðarsamt væri að setja upp slíka stimpilkassa í allar verzlanir og sölu- og afgreiðslustaði, og má vera, að sú sé helzta ástæðan til þess, að heimildin hefur ekki verið notuð. Því spyr ég í öðru lagi hæstv. fjmrh., hvort hann telji, að til greina komi að beita lagaheimildinni á þann veg að skylda einstakar verzlanir og sölu- og afgreiðslustaði til að nota slíka peningakassa um tiltekinn tíma. Ég er þeirrar skoðunar, að einmitt á þann veg þyrfti eftirlitið að fara fram, þ.e.a.s. að ráðamenn sérhverrar verzlunar, afgreiðslu- og sölustaðar geti hvenær sem er átt von á því að verða skyldaðir til að hafa slíka peningakassa, svo lengi sem eftirlitsmenn fjmrn. telja ástæðu til. Jafnframt þyrfti að setja upp á þessum stöðum áberandi áskoranir til neytenda að taka jafnan kassakvittanir fyrir viðskiptum sínum.

Ég er sannfærður um, að sú fjárfesting, sem fylgdi því að taka allmarga slíka peningakassa í notkun til eftirlits, mundi tiltölulega fljótt borga sig, jafnvel þótt ríkissjóður greiddi þá að öllu leyti. Notkun þeirra mundi ekki aðeins hafa áhrif á skil á greiddum söluskatti, heldur treysta jafnframt grundvöll annarra skattlagningar á þá aðila, sem hér er um að ræða.