25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hér hefur margt skynsamlegt verið sagt um málefni aldraðs fólks. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr. En þannig vill til, að núna fyrir fáeinum mínútum fékk ég boð um það að koma og tala við kunningja minn aldraðan vestan af Snæfellsnesi. Maður þessi er að verða 65 ára gamall, en illa farinn eftir langan vinnudag, heilsufarslega séð, og læknirinn hefur bannað honum að vinna nema 4 tíma á dag. Það gæti hann nú sennilega, ef honum stæði til boða „eðlileg vinna“, eins og hann segir. En það, sem honum stendur til boða, er að vinna við skelina þarna fyrir vestan og þar er um að ræða akkorð, eins og víða er orðið í sambandi við fiskverkun, þar er komið akkorðs- og bónuskerfi. Þetta er eitt af því, sem kemur hart niður á öldruðu fólki og er einn þáttur þjóðlífsins, þar sem ómannúðlegt viðhorf þjóðfélagsins í keppninni um peninga bitnar æðihart á gömlu fólki ekki hvað sízt og einnig því fólki, sem er lasburða. Ég vek aðeins máls á þessu hér, vegna þess að þetta snertir málefni gamla fólksins, og ég álít, að þetta kerfi, þetta keppniskerfi á vinnumarkaðinum, þar sem hinn ungi og fríski hlýtur alltaf að koma út með mestar tekjurnar, en hinn lasni og aldraði ber skarðan hlut frá borði, ef hann þá getur yfirleitt tekið þátt í keppninni, — þetta kerfi verður að takast til athugunar og breytast til mannúðlegra hátta.