30.01.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

87. mál, eftirlit með skilum söluskatts

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 10. landsk. þm. vil ég leyfa mér að lesa hér grg., sem skattrannsóknastjóri hefur samið, en mun svo bæta við nokkru í sambandi við síðari lið fsp. Grg. skattraunsóknastjóra er svo hljóðandi, með leyfi herra forseta:

„Með l. nr. 3 30. jan. 1970, um breyt. á l. nr. 10 1960, um söluskatt, var nýrri gr. bætt aftan við 16. gr. söluskattsl., svo hljóðandi.“ — Hv. fyrirspyrjandi las gr., svo að ég sé ekki ástæðu til að taka það upp hér. — „Í sambandi við hækkun á söluskatti veturinn 1970 úr 7.5 í 11% kom mjög til umr., með hvaða hætti auka mætti öryggi söluskattsinnheimtunnar. Sérstakri n. var falið að semja nýja reglugerð um söluskatt og kanna í því sambandi leiðir til eftirlits. Reglugerðin var gefin út 21. ágúst 1970 og er nr. 169. Það var mat n., að stimpilkassar eða sjóðsvélar í verzlunum, sölueða afgreiðslustöðum væru ekki einhlítt eftirlitstæki og notkun þeirra væri ekki trygging fyrir því, að allur söluskattur kæmi fram. Þetta mun einnig vera skoðun flestra sérfræðinga um eftirlit og endurskoðun. Sjóðvélar eru notaðar bæði hér á landi og meðal nágrannaþjóða okkar í mörgum verzlunum og sölustöðum. Fyrst og fremst er þetta tæki, sem stjórnendur fyrirtækja nota til eftirlits með rekstrinum, sérstaklega í stærri verzlunum, en einnig eru upplýsingar úr þeim notaðar sem skatteftirlit. Gildi sjóðvéla til eftirlits fer fyrst og fremst eftir því, hvort komið verði við ákveðinni lágmarksverkaskiptingu innan fyrirtækjanna, en gildi þeirra til eftirlits minnkar yfirleitt verulega eftir því sem fyrirtækin verða smærri og erfiðara er að koma við verkaskiptingu. Þar koma til aðrar eftirfitsaðferðir, sem eru haldbetri fyrir skattyfirvöld.

IV. kafli áðurnefndrar reglugerðar um söluskatt, nr. 169 1970, hefur að geyma mjög ítarleg ákvæði um þau gögn, sem innfærsla á sölu fyrirtækja í bókhaldi verður að byggjast á. Aðalreglan er sú, að öll sala eða afhending á vörum, verðmætum eða þjónustu skuli skráð í frumbækur eða á reikninga, um leið og sala fer fram. Staðgreiðslusala smásöluverzlana og persónuleg þjónusta, sem veitt er gegn staðgreiðslu, er þó undanþegin skráningarskyldu í frumbækur eða reikninga. Færsla á slíkri sölu í bókhald skal hins vegar annaðhvort byggjast á strimlum úr lokuðum sjóðvélum, þar sem þær eru notaðar, eða með sérstökum staðgreiðslusöluyfirlitum, sem færð skulu daglega í ákveðnu formi. Þessi gögn skulu ætíð liggja fyrir, undirrituð af verzlunarstjóra eða öðrum ábyrgum starfsmanni, þegar eftirlitsmenn kanna bókhald. Þeir aðilar, sem ekki fara nákvæmlega eftir þessum reglum og ekki geta sýnt, að þeir hafi öruggt eftirlit með sölunni, geta átt von á því, að skattyfirvöld verði að áætla þeim söluskatt. Þessar reglur um skráningu á sölu og þau gögn, sem liggja eiga þeirri skráningu til grundvallar, eru í meginatriðum í samræmi við þær reglur, sem í gildi eru á hinum Norðurlöndunum um þetta efni.“

Varðandi síðari lið spurningarinnar vil ég segja það, að þær aðstæður gætu skapazt, að æskilegt væri að beita dreifikönnunum með þeim hætti, sem nefnt er í fsp., en kanna þarf þann lagalegan grundvöll, sem slík könnun á að byggjast á, áður en til hennar kæmi.

Til viðbótar þessu svari vil ég geta þess, að lögin um söluskatt hafa verið til endurskoðunar í fjmrn. og er búið að mestu leyti að semja nýtt frv. að söluskattsl. Þar er þetta ákvæði gert skýrara og gert ráð fyrir því, að heimild verði til að taka upp slíkt kerfi í einstökum verzlunum, þótt það verði ekki tekið upp almennt, og tel ég nauðsynlegt, að slíkt verði gert til reynslu, áður en verður farið út í kerfið almennt. Þá verður og í þessu nýja frv. tekið tillit til þeirra breytinga, sem orðnar eru á innheimtu söluskattsins, sem nú er orðin mánaðarleg, og hefur gefið góða raun.