30.01.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

87. mál, eftirlit með skilum söluskatts

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans við fsp. mínum, og ég fagna því, að á leiðinni skuli vera, eins og hann gat um, frv., þar sem kveðið er nánar á um beitingu þeirra heimildar, sem er í l., á þann veg, að eftirlitskassa skuli nota á einstökum stöðum um tiltekinn tíma. Ég hef meiri trú á því en þeir aðilar, sem standa að svari því, sem hæstv. ráðh. flutti hér, að eftirlitskassar geti haft verulegt gildi í þá átt að bæta skil á söluskatti. En þegar talað er um skil á söluskatti, er auðvitað verulegur munur á því annars vegar, hvort átt er við það, að þeirri upphæð, sem á er lögð af embættismönnum ríkisins, sé skilað til ríkissjóðs, eða þá hins vegar, hvort sá skilningur er lagður í skil á söluskatti, að fram komi öll raunveruleg velta. Ég held, að ýmis dæmi sýni það nú á undanförnum árum, að oft hafi orðið veruleg vanskil hjá einstökum aðilum, svo að skipti jafnvel milljónum króna.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð nú í fsp.-tíma, en ég vil þó að lokum benda á það með örfáum orðum, hve mikið er í húfi fjárhagslega fyrir skattgreiðendur, fyrir ríkissjóð og fyrir sveitarsjóði, sem fá hluta af söluskatti, að öllum innheimtum söluskatti sé skilað. Ef miðað væri t.d. við, að sú fjárhæð, sem áætlað er, að ríkissjóður og sveitarfélög fái af söluskatti á þessu ári, þ.e.a.s. 5456 millj., væri 95% af því, sem raunverulega væri innheimt af neytendum, þá næmi álagður söluskattur á þessu ári ekki 5456 millj., eins og er á fjárl., heldur í raun 5743 millj., þ.e.a.s. um 287 millj. af innheimtum söluskatti kæmu þá ekki til skila, ef miðað væri við það, að 95% kæmu fram. Væri sú upphæð, sem á fjárl. er tilgreind, og til skila kæmu 90% af þeim söluskatti, sem raunverulega væri innheimtur af neytendum, þá næmi söluskatturinn í reynd 6062 millj. kr., Þ.e.a.s. mismunur á innheimtum söluskatti og því, sem til skila kæmi, næmi þá um 606 millj. kr. Og væri skilaprósentan á söluskatti 85% þá næmi mismunurinn 963 millj.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á því, hver skilaprósentan er, en þessi dæmi sýna ljóslega, að fjárhæðirnar, sem gæti munað, verða fljótt æðiháar. Það er því auðsætt, að gera verður allt, sem unnt er, til þess að tryggja, að skil á innheimtum söluskatti séu sem allra öruggust og bezt, og til þess má vissulega nokkru kosta.