30.01.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

284. mál, lækkun á kostnaði ríkis og ríkisstofnana vegna utanferða

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla bara að bæta því við, því að ég gleymdi því áðan, í sambandi við utanferðirnar, að það er föst ákvörðun um dagpeninga, sem þeir fá, sem fara utan á vegum ríkisins. Um það er föst ákvörðun frá fjárhags- og hagsýslustofnuninni. Ég get líka bætt því við, að stefnt er að því að reyna að gera slíka skrá í sambandi við endurskoðun ríkisreiknings fyrir 1971, því að þetta er geysilega mikil vinna og er í raun og veru ekki hægt að vinna hana nema í sambandi við endurskoðunina. Það verður gert, og þá mun Alþingi geta fengið þá skýrslu, því að þessi skýrsla, sem hér var lögð fram, var samin upphaflega fyrir jól, þegar annríki var mikið. Þá var ákveðið að reyna að gera eina heildarmynd yfir þetta, eins og gert hefur verið um nefndarkostnað á vegum ríkisins, svo að það má vænta að fullkomin grg. geti legið fyrir um þetta atriði ríkisreikningsins fyrir árið 1971 og þá framvegis, eins og gert hefur verið um nefndakostnaðinn.