30.01.1973
Efri deild: 49. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

142. mál, dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. þessarar hv. d. hefur tekið til meðferðar frv. það til 1. um bráðabirgðabreytingu á dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum o.fl., sem hér liggur fyrir. Vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum hefur að sjálfsögðu orðið stórkostleg röskun á högum og allri aðstöðu fólksins þar. Því hefur þótt óhjákvæmilegt að kveða á um það með lögum, hver skuli verða bráðabirgðaskipan bæjarfógetaembættisins í Vestmannaeyjum.

Í 1. gr. frv. segir: „Aðsetur embættis bæjarfógetans í Vestmannaeyjum skal fyrst um sinn vera í Reykjavík, og er bæjarfógeta heimilt að framkvæma þar allar embættisathafnir, sem undir embættið heyra.

Nú á aðili varnarþing í Vestmannaeyjum, og má þá sækja hann fyrir dómi á aðsetursstað embættis bæjarfógetans í Vestmannaeyjum í Reykjavík.“

Þetta er að sjálfsögðu höfuðinntak frv. Í öðrum gr. er getið nauðsynlegra ráðstafana, sem eru í samræmi við þá meginbreytingu, sem verður við það, að aðsetursstaður þessa embættis er fluttur úr Vestmannaeyjum og til Reykjavíkur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frv. frekar, enda þarf að hraða því sérstaklega. Allshn. leggur einróma til, að það verði samþykkt. Fjarverandi afgreiðslu þessa máls voru tveir nm., þeir hv. þm. Ásgeir Bjarnason og Magnús Jónsson.