30.01.1973
Neðri deild: 42. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

142. mál, dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að þessu frv., sem hér liggur fyrir um bráðabirgðabreytingar á dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum o.fl. Vegna þeirra atburða, sem átt hafa sér stað í Vestmannaeyjum og öllum er um kunnugt og ekki þarf hér að nefna, hefur orðið þvílík röskun á högum manna og aðstöðu þar, að það er talið óhjákvæmilegt að kveða með lögum á um bráðabirgðaskipan bæjarfógetaembættisins í Vestmannaeyjum og tilhögun dómsmálameðferðar þar. Aðalefni frv. er, að bæjarfógetaembættið skal vera staðsett fyrst um sinn hér í Reykjavík. Allar embættisathafnir, sem hefði átt að fara fram hjá bæjarfógetaembættinu í Vestmannaeyjum, má framkvæma hjá bæjarfógetaembættinu hér í Reykjavik. Þeim mönnum, sem varnarþing hafa átt í Vestmannaeyjum og hefði þurft að stefna fyrir dómþing þar, má stefna fyrir varnarþing hér. Hér geta víxilafsagnir farið fram og yfirleitt þær athafnir, sem nauðsynlegar eru til þess að framkalla viss réttaráhrif.

Það er talið óhjákvæmilegt að fá þetta frv. afgreitt í skyndi til þess að fá lagagrundvöll, sem ekki verður um deilt, undir þá málsmeðferð, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég skal taka fram, að það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að að öllu óbreyttu verði staðsettur í Vestmannaeyjum fulltrúi bæjarfógeta, sem hafi þar á hendi lögreglustjórn og sinni öðrum nauðsynjastörfum þar um sinn.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska eftir því, að þessu frv. verði vísað til 2. umr., og vil formsins vegna leggja það til, að því sé vísað til allshn., en vænti þess, að athugun nefndarinnar þurfi ekki að taka langan tíma.