31.01.1973
Efri deild: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. hefur nú haldið hér alllanga ræðu og að því er virðist viljað leggja talsverðan þunga í flutning málsins. En þeir, sem á hlýddu, munu eðlilega hugsa líkt og Stephan G. Stephansson segir á einum stað: „Umbúðirnar eru vætt, innihaldið lóð.“ Tilefni þessarar ræðu eru fáein orð, sem ég sagði hér í d. í des, s.l. í sambandi við það frv., sem hér er til 2. umr. Svo virðist sem hv. þm. byggi málflutning sinn á því, að þau fáu orð, sem ég sagði við fyrrihluta þessarar umr. málsins, hafi verið mælt af andstöðu við Ísafjarðarkaupstað, en því fer alls fjarri. Ég benti hins vegar á, að um þetta mál gætu komið til greina tvær aðferðir eða reglur. Önnur væri sú að tiltaka ekki staðarval fyrir þær stofnanir, sem setja á á fót samkv. 1. gr. frv., heldur leggja það í vald ráðh. og síðan yrði það staðfest með fjárveitingum í fjárl. til hverrar stofnunnar fyrir sig. Hin aðferðin væri að tiltaka í lagagr. þá staði, sem þessar stofnanir eiga að rísa.

Nú er það svo, að þegar þetta mál var flutt hér á þingi í fyrra, var sú aðferð viðhöfð af hálfu flm. að tiltaka í lagagr. þá staði, þar sem ætti að reisa þessar stofnanir. En mig minnir, að hv. sjútvn. Nd. legði til, að hin aðferðin yrði viðhöfð, að fella staðarvalið burt úr lagagr., en leggja það á vald ráðh. og ákveða það með almennum orðum í lögunum sjálfum. Í samræmi við þetta hafa flm. nú breytt frv. í það form, sem hv. n, lagði til á þingi í fyrra. Þegar flm. málsins hafa tekið til greina þetta sjónarmið, sem fyrst kom fram hjá hv. sjútvn., rís hér upp hv. 5. þm. Vestf. og telur báðar þessar aðferðir ófærar, bæði þá, sem flm. lögðu til í öndverðu, og einnig þá, sem hv. sjútvn. vildi leggja til í fyrra, að valin yrði, heldur vill hann, að það séu tilteknir staðir fyrir þessar stofnanir í sumum landsfjórðungunum, en öðrum ekki. Á þetta get ég ekki fallizt. Það er skoðun mín enn sem fyrr, að það sé eðlilegt og sjálfsagt við afgreiðslu þessa máls að viðhafa aðra hvora þessa aðferð.

Hv. 5. þm. Vestf. reynir að rökstyðja mál sitt með því, að það sé venja og mörg fordæmi fyrir því, að það séu sett lagaákvæði um eina stofnun í senn, án þess að miðað sé við, að unnið sé að samsvarandi verkefnum á mörgum stöðum hverju sinni. Ég verð fyrst að benda hv. 5. þm. Vestf. á að lesa frvgr., því að hún er um það, það er aðalefni málsins, að stefnt skal að því, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins starfræki rannsóknastofur a.m.k. eina í hverjum landsfjórðungi. Þetta er aðalefni frvgr., og í því felst, að það er meginefni þessa máls að líta yfir landið allt í þessu efni.

Ef við lítum svo til samanburðar á ýmsa aðra þætti þjóðmála, þarf áreiðanlega ekki lengi að leita til að sannfærast um, að það er einmitt meginregla að líta yfir landið í heild. Mig minnir, að í löggjöf um iðnfræðslu, sem nú gildir og er ekki mjög gömul, sé beinlínis tekið fram, að það skuli reisa einn iðnskóla í hverju kjördæmi landsins, og það er lagt á vald ráðherra að velja þessum skólum stað. Það var gert af hálfu fyrrv. iðnrh., a.m.k. að því er Austurland snertir. Þannig er þessu háttað um iðnfræðslu. Við skulum líta á húsmæðraskólana. Ég man ekki hefur en að í lögum um húsmæðraskóla í sveitum sé tiltekið, á hvaða stöðum þeir skuli reistir, og þeir voru reistir samkv. því, samkv. heinum lagaákvæðum. Ég minni enn fremur á þriðja málaflokkinn, heilbrigðismál. Hér var lagt fram í fyrra og verður væntanlega lagt fram aftur á þessu þingi stórt frv. um heilbrigðisstofnanir, þar sem gert er ráð fyrir, að reistar séu heilsugæzlustöðvar víðs vegar um land, og það er einmitt stefnt að því í frv., að staðarval þessara stofnana sé ákveðið í löggjöfinni og þá litið yfir landið í heild í löggjöfinni. Þetta er hin almenna regla, þegar litið er á hina ýmsu þætti til samanburðar við þetta. En er til framkvæmdanna kemur, þá er það vitanlega rétt, að það er ekki hægt að gera allt í einu og ætlast enginn til þess. Það verður að vera niðurröðun verkefna, og það mundi verða eins í þessu efni og á öðrum sviðum. En sú niðurröðun er ekki sett inn í hina almennu löggjöf, heldur kemur hún fram í sambandi við afgreiðslu fjárl. hverju sinni. Og það væri ekkert því til fyrirstöðu, að mér sýnist, að fjárveiting kæmi fyrr til slíkrar stofnunar á Ísafirði en í Höfn í Hornafirði, sem ég lagði til að kæmi til greina í þessu sambandi. Þannig mætti í framkvæmd og væri eðlilegt í framkvæmd að raða niður verkefnum á þessu sviði. Þetta frv., þótt samþ. verði eins og það liggur fyrir, lokar alls ekki neinum dyrum í því efni. Þegar þetta er skoðað, fellur um sjálfan sig meginhlutinn af því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði um þetta mál.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, a.m.k. ekki við þessa umr., og ég get stutt það, að málið fari á ný til athugunar í hv. sjútvn.