31.01.1973
Efri deild: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Jón Árnason:

Herra forseti. Það má segja, að hér sé um að ræða lítið frv. um stórt mál. Enda þótt þetta frv. til l. um breyt. á l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna sé aðeins um fáorða breyt. á stórum lagabálki, er hér að mínu áliti um allumfangsmikið og þýðingarmikið mál að ræða. Það er mitt álit, að það hefði þurft og væri nauðsynlegt að gera þessu máli miklu betri skil en er gert í þessu litla frv., sem hér liggur fyrir.

Það hefur komið hér fram, að það eru skiptar skoðanir um, hvort eigi að telja upp ákveðna staði, þar sem eigi að setja þessar rannsóknastofur á stofn, eða fela ráðh. að meta það að fengnum ýmsum till., hvort þær skuli settar á stofn eða ekki. Okkur er kunnugt um, að það er filtölulega ný löggjöf um fiskvinnsluskólana, sem á að setja á stofn einmitt nú í ár og á næstu árum víðs vegar um landið, og ég tel, að það væri lágmark, að slíkar rannsóknastofur sem þessar væru settar á stofn á þeim stöðum, þar sem slíkir skólar verða stofnsettir, því að það er einmitt mjög eðlilegt, að þær væru í tengslum við þessa fiskvinnsluskóla.

Mér er kunnugt um það, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur nú fyrir stuttu sent frá sér yfirlit um tæki, sem nauðsynleg eru fyrir fiskvinnslufyrirtæki, sem fyrir hendi eru og rekin eru víðs vegar á landinu, til þess að koma upp hjá sér slíkum litlum rannsóknastofum eins og kannske er hér um að ræða. En allir sjá, hvað það yrði miklu hagfelldara og hagstæðara, að samvinna yrði um þetta, og það felur þetta frv. í sér. Gert er ráð fyrir, að það sé tekin upp samvinna og samstarf við fiskiðnað og aðra matvælaframleiðendur á hinum ýmsu stöðum til þess að koma slíkum rannsóknastofnunum á fót. Ég tel því, eins og hér hefur reyndar komið fram, að það sé nauðsynlegt, að n. taki þetta mál aftur til rækilegri athugunar og það væri reynt að gera frv. ákveðnara en hér er. Það er aðallega, má segja, um heimild eða viljayfirlýsingu að ræða. Talað er um, að stefnt skuli að þessu. En við vitum, að t.d. lagmetisiðnaðurinn er núna að fara af stað í miklu ríkari mæli en hann hefur verið áður í þessu landi. Það segir sig sjálft, að um leið og nýjar verksmiðjur rísa upp víðs vegar úti á landinu, þurfa þær á þessari þjónustu að halda. Hún er óhjákvæmileg, og það er mjög erfitt og má segja næstum óframkvæmanlegt að eiga að sækja alla slíka þjónustu hingað til Reykjavíkur. Það þarf að hafa daglegt eftirlit með framleiðslunni og gera sér grein fyrir gæðum vörunnar. Eins og nú á sér stað, þarf fjöldinn af þessum framleiðendum að sækja til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins hér í Reykjavík með alla fyrirgreiðslu í þessum efnum, en það álít ég, að sé ekki til frambúðar.

Þó að hér sé talað um landsfjórðungana sem slíka, vitum við, að um ýmsa landsfjórðunga er þannig háttað, að það eru ekki náin sambönd daglega milli staða, og á vissum árstímum, t.d. eins og á Vestfjörðum, verður því ekki við komið fyrir t.d. verksmiðju, sem yrði staðsett á Patreksfirði, að njóta fyrirgreiðslu á Ísafirði eða hér suður í Reykjavík. Á slíkum stöðum verður óhjákvæmilegt að skapa einhverja viðhlítandi aðstöðu, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég tel, að þessi mál standi nú á tímamótum, einmitt með tilkomu stóraukinnar niðurlagningar, og það er fyrst og fremst sú framleiðsla, sem þarf á slíkri þjónustu að halda sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að settar verði á stofn rannsóknastofur viða úti á landi. Ég skal ekki á þessu stigi málsins orðlengja frekar um þetta sérstaklega með tilliti til þess, að gert er ráð fyrir því, að þetta mál fari aftur til n. og það yrði n., sem ég á sæti í. Þegar n. hafði málið til meðferðar fyrir jólin, þá hafði ég því miður ekki aðstöðu til að starfa í n., en geri ráð fyrir því að reyna að láta mín sjónarmið koma fram við afgreiðslu n., þegar hún fær málið á ný til meðferðar.